Ávöxtur lífsins

Ávöxtur lífsins

Það er umhugsunarefni okkar um áramót: Höfum við borið Guði ávöxt? Dæmisagan um víngarðseigandann og garðyrkjumanninn sem stóðu við fíkjutréð sem bar ekki ávöxt er áminning um árvekni en ekki síður um miskunn Guðs sem líf okkar byggist á gagnvart ógnunum lífsins.
fullname - andlitsmynd Guðmundur Guðmundsson
31. desember 2008
Flokkar

Náð sér með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.

Bæn í upphafi:

Enn líður ár, hjálpa okkur að horfa ekki um öxl í söknuði og reiði, og fram á við í kvíða og áhyggjum, heldur horfa kringum okkur hér og nú í árvekni, eilífi Guð og faðir. Amen. (Úr Bænabók)

1. Lífsins tré:

Í ágætum sálmi sem við höfum í sálmabókinni en aðeins eitt erindi byrjar annað erindi með þessum orðum: Jesús, þú ert vort jólatré. Kannski hefur líkingin ekki þótt viðeigandi. En konan mín á þá minningu að setja við jólatré með fimmtíu lifandi ljósum þar sem þessi sálmur var sunginn og horfði á logandi ljós í mikilli helgi sem slokknuðu svo hvert á fætur öðru. Sígrænt tréð er tákn um lífsins tré. Og kúlurnar og skrautið minna á ávexti. Og það er umhugsunarefni okkar um áramót: Höfum við borið Guði ávöxt? Dæmisagan um víngarðseigandann og garðyrkjumanninn sem stóðu við fíkjutréð sem bar ekki ávöxt er áminning um árvekni en ekki síður um miskunn Guðs sem líf okkar byggist á gagnvart ógnunum lífsins.

2. Litið til baka um áramót:

Dæmisagan sú leiðir okkur inn í sjálfsskoðun. Samkvæmt gömlu góðu orðalagi kirkjunnar heitir það iðrun og yfirbót. Það er hollt að ganga í sig öðru hvoru, skoða hjarta sitt og huga, vegferð og líf.

Sú krafa hefur verið vægðarlaus við margt samferðafólk okkar að það axli ábyrgð. Og víst er um það að við sem þjóð verðum að ganga í okkur og endurskoða ýmis grunngildi. Þeir sem bera ábyrgð bera ábyrgð. Þótti mér athyglisvert viðtal við Pál Skúlason, heimspeking, á sunnudagskvöldið í sjónvarpinu. Ég gat ekki skilið hann öðru vísi en að við sem þjóð höfðum misst tengsl við stofn og rætur menningar okkar. Verið ofurseld taumlausri frjálshyggju, gróðavon og draumheimum, óraunverulegum. Fyrir það var ýmsum grundvallaratriðum samfélagsins ýtt út af borðinu, ákveðnar grunnstoðir ríkisins og samfélagsins verið veiktar svo, að sú grundvallarskylda kjörinni fulltrúa að gæta að velferð borgaranna var ekki gætt, gáleysið varð okkur að falli. En hann hafði trú á landi og þjóð. Nauðsynlegt væri að endurvekja þau sameiginlegu gildi sem við byggjum á íslenska þjóð, siðferðileg gildi, sem byggja upp gott samfélag.

Það var vekjandi hugleiðing um áramót. Biðjandi kirkja sem við erum kölluð til að vera er vakandi. Eflaust höfum við sofnað á verðinum. En dæmisaga áramótanna kallar okkur til árvekni og að leggja af mörkum til að lífga við það sem er hallt og deyjandi.

Það er merkilegt að sú lútherska kirkjuhefð sem hefur verið hér við lýði um aldir skuli ekki hafi gert menn raunsærri á eðli mannsins en raun ber vitni. "Eftir fall Adams fæðast allir menn ... með synd, en það merkir án guðsótta, án guðstrausts og með girnd", segir í Ágsborgarjátningunni, og kallar syndina "upprunasjúkdóm eða spillingu". En þetta kítlar náttúrulega í eyru og frekar óþægileg hugsun um áramót sem endranær. Er ekki komin tími til að orða hlutina með skýrum og réttum orðum? Sérhagsmunahyggja og auðhyggja hefur leitt okkur í ógöngur. Það eru önnur verðmæti sem byggja upp. Mann á ekki að meta með aurum og verðigilda manna eftir launum.

Sú krafa er gerð til okkar að varðveita lýðræðið, frelsið og þær grunnstoðir sem íslenskt samfélag byggir á. Og það er okkar mál, vegna þess að við erum fullgildir borgarar, en ekki undirsátar eða þrælar annarra. Þá hugsjón elur kristinn trú af sér, mannréttindi, lýðréttindi, ekki síst vegna þess að við erum borgarar í Guðs ríki.

3. Litið til fyrri tíðar:

Grunnstoðir samfélagsins okkar eru varðar í Stjórnarskránni sem er að stofni frá 1873. Hver var staðan þá? Þá voru Íslendingar á flótta til Vesturheims, þegar Saurbæjarkirkjan, þessi helgidómur, var vígður fyrir 150 árum.

Þá var uppi prestur að nafni Gunnar Gunnarsson og í ræðu og riti hvatti hann til stórræða og gerði kröfu um stjórnarbót, stjórnarskrá af hendi konungsins. Hann lagði til að Íslendingar stæðu saman, að þeir ynnu saman að velferðarmálum sínum, hann sá fyrir sér sjálfstætt Ísland meðal þjóðanna, og hvatti til byggingar Alþingishúss, til ritunar sögu þjóðarinnar, og margra annarra velferðarmála. Og ef konungur vildi ekki veita Íslendingum þá stjórnarbót, þá væri ástæða fyrir þjóðina að halda Vestur alla með tölu og skilja landið eftir mannautt.

Þannig vakti hann yfir bjargræði þjóðarinnar. Þessi nánasti vinur þjóðskáldsins, Matthíasar Jochumssonar. Margt af því sem hann lagði til fyrir þjóðfundinn 1873 varð að raunveruleika, þó að hann lifði ekki sjálfur að sjá það. Í þeim anda á kirkjan að vera það samfélag sem hún er í eðli sínu, skapa samstöðu með þjóðinni, vekja von og kraft til góðra verka. Ég tek þetta dæmi til að uppörva okkur og fellur það vel að dæmisögunni um fíkjutréð. Þá fékk þjóðin nýtt tækifæri með stjórnarbót og nú höfum við tækifæri til að endurreisa samfélag sem byggir á gildum sem gefa vöxt og líf, til þess að samfélag okkar beri Guði ávöxt á sínum tíma.

4. Endurvekja gömul gildi:

Hvað með kristið verðmætamat og mannskilning? Þurfum við að snúa við og spyrja um gömlu göturnar? Eru ekki Boðorðin tíu í fullu gildi, þessi ævaforna lífsspeki, allt frá tímum Hammurabis að talið er. Okkur er vísað á ákveðin grunngildi varðandi innra og ytra líf, gaganvar Guði og mönnum, traust, eindrægni, einlægni og ræktarsemi, góð samskipti, trúnaður, sannleikur, heiðarleiki og skilvísi, umhyggja og hjálpsemi. Að girnast ekki!!! Boðorðin fá brýningu í samhengi Guðs orðs. Lúther útleggur boðorðin að þau eru miklu meira en bann, þar sem þau eru Guðs orð eru þau hvatning til góðra verka, hvatning til lífsins á öllum sviðum. Tvöfalda kærleiksboðorðið er í sama anda, gagnvart Guði og mönnum. Það sem við erum krafinn um samkvæmt kenningu Krists er óskaplega einfalt: Verið fullkomin! Það kenndi Jesús í Fjallræðunni sem sumum finnst til of mikils mælst, en siðferðiskrafan er þar og hefur verið þessi. Og ef við lítum á það jákvæðum augum, með hjartanu sem slær upp í Vaðlaheiði, þá er það hvatning til að efla lífið, bera góðan ávöxt en ekki aðeins að halda lífi, það snýst um siðferðilegt líf, sem sumum finnst ofar mannlegri getu, en einmitt það er sú krafa sem aðstæður okkar og umhverfi gera til okkar.

5. Kistur er grundvöllur kirkjunnar og ljós samfélagsins:

Þessi gildi eru almenn og í fullu gildi fyrir alla menn alls staðar. Og ekki eitt augnablik er ég í vafa um að þau eru gæfuleg og stuðla að mestri hamingju fyrir sem flesta, velferð, í orðsins fyllstu merkingu. Þar með gefst leiðarvísir en ekki önnur hjálp. Aftur á móti í dæmisögunni er okkur sagt frá þeirri hjáp sem dugar best, það er fyrirbæn Jesú Krists, sem garðyrkjumannsins í víngarði Drottins. Trúin á Krist, lífið í Jesú nafni, er sú besta og tryggasta hjálp sem gefst til að lifa eftir boðorðunum, kærleikanum. Trúin tengir okkur við lífsins tré þannig að við berum Guði ávöxt. Við erum kölluð til bæna með Kristi, fyrir og með þjóð okkar, sem hann biður fyrir, eitt ár enn, um að hún beri Guði ávöxt, fyrir hans gæskuverk njótum við þess. Guð gefi okkur náð til þess.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun.