Daglegt brauð og lífsins brauð

Daglegt brauð og lífsins brauð

Tíminn líður fram, á öðru ári nýrrar aldar og árþúsunds, liðið er á föstu og horft mót páskum og vori. Öldin gengna er að komast í fjarska, svo hægt er að öðlast betri heildarmynd af henni en fyrr, líta yfir framfaraspor en líka helsi og hörmungar.

Lexía 5. Mós. 8.2-3. Pistill Róm: 5.1-5. Guðspjall Jóh. 6.1-15

Biðjum: Himneski faðir. Þökk fyrir daglegt brauð og lífsins brauð. Gef að við nærumst af þeim báðum, miðlum þeim og lifum þér og lofum þig í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen. I

Tíminn líður fram, á öðru ári nýrrar aldar og árþúsunds, liðið er á föstu og horft mót páskum og vori. Öldin gengna er að komast í fjarska, svo hægt er að öðlast betri heildarmynd af henni en fyrr, líta yfir framfaraspor en líka helsi og hörmungar. Við aldaskilin ólu margir í brjósti sér vonir um að hægt væri að nýta fyrri reynslu, læra af mistökum og stilla saman strengi til heilla fyrir mannlíf og lífríki. Váleg tíðindi af hermdarverkum, erjum og átökum víðs vegar í veröldinni hafa dregið úr þeim væntingum þótt fagrar hugsjónir og trúarvonir lifi enn í hjörtum og víða sé unnið að því að gera þær að veruleika. En nærtækt er að huga að eigin ranni og gæta að því, hvernig samstaðan er í gleði og raunum og hverju fram vindur í því velferðarsamfélagi, sem við teljum okkur búa við. Þýðingarmikið er að fagnaðarerindi frelsarans fái fléttast inn í hverja stund og aðstæður allar, verið sem fyrr veigur og meginstoð.

Fastan sem undirbúnings og aðfarartími páska minnir á baráttu Jesú við freistingar illskunnar og eyðandi mátt, sem myrkvar Guðs góðu sköpun og leitast við að slökkva Guðsvitund og ljós, takmarka sýn og skyn. Það getur verið dýrmætt að fasta, ekki með því einu að neyta ekki ákveðinnar fæðu tiltekinn tíma, ógni lífsgæðin líðan og heilsu heldur með því að aga sig, temja sér látleysi, dýpka lífsskilning sinn, þroska trúarlíf sitt í samfélagi við Krist, horfa með honum á eigið líf og einnig yfir sögu og samtíð, sjá hann í þurfandi mönnum nær og fjær. “Sú fasta sem mér vel líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok. Það er að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu. Svo mælir Drottinn fyrir munn Jesaja spámanns. Og ómur orðanna berst gegnum aldir og inn í líðandi andrá og stund.

Frásögn guðspjallsins er líka grípandi og kallar okkur líkt og inn í mannfjöldann sem fylgt hefur Jesú, séð hann gera tákn, líkna og lækna í Guðs Anda og krafti. Þetta var rétt fyrir Páska, sem ávallt drógu fram mynd af flóttafólki frá þrældómsoki í Egyptalandi, plágum og voða, og einkum handleiðslu hins lifanda Guðs, sem sá fyrir lýð sínum á eyðimörkurgöngunni, lét manna, hunangssætt rigna af himni sem smákornótta morgundögg, er varð sem brauð daglangt til fæðu.

II

Brauð er táknmynd þess alls sem við þörfnumst til næringar og viðurværis. Það er gert úr korni sem vex af fræi fyrir lífsins undramátt. Trúin greinir þar handarverk Guðs, sem fæðir og nærir lífið allt, ekki aðeins með áþreifanlegri fæðu heldur innra lífi og lífsstraumi, sem flæðir um frumur og vefi, því lifir maðurinn ekki á einu saman brauði. Fólkið fylgdi ekki Jesú út í óbyggðir til að fá brauð og fisk heldur til að nærast af lífsins orði hans, en hann sýnir umhyggju sína fyrir því með því að blessa byggbrauðin fimm og fiskana tvo, svo um hendur hans streymir skapandi og nærandi máttur. Og það undur gerist að fæðan margfaldast og mettar fjöldann allan. Tólf körfur afgangs vísa eins og til allra ættkvísla Ísraels,sem gætu sótt sér nægtir í þakkargjörð og blessun frelsarans.

Það þurfti trúardjörfung til að taka Jesú á orðinu og fylgja fyrirmælum hans, miðla fjöldanum af fáeinum fiskum og litlu brauði. Það mætti útskýra kraftaverkið þannig að frumkvæði hans hafi leitt til þess, að þeir, sem höfðu verið svo forsjálir eins og drengurinn að hafa með sér nesti, deildu því með öðrum. Vissulega hefði mikið gerst með því einu, því tregðan til að miðla og jafna nægtum og skorti og bera hver annars byrðar hefur löngum spillt samfélagi og lífsheillum og hindrað framstreymi Guðs náðarlinda. Flest tákna Jesú er hægt að túlka á ýmsa vegu, finna skýringar á þeim, sem líta fram hjá áhrifum hans og mætti. Og kraftverk í fortíð bætir lítt úr neyð og vanda í samtíð. En tákn Jesú eru trúnni engar staðleysur. Þau eru sem leifturmyndir komanda Guðsríkis inn í tímans hverfula heim. Vegsemd og vandi mennskunnar er jafnan sá að gerast farvegur þess.

Það er mikið til skiptanna á hraðfara tækniöld, af nægtum og gæðum. En skortur fjöldans fátæka og þjáða megnar ekki enn að knýja á um raunhæfar aðgerðir og móta þá hagfræði lífsins sem jafnar kjörin og léttir undir með honum. Þvert á móti heldur arðránið áfram, og fyrirhyggjulaus ánýðsla á lífríkinu, er þjónar siðblindri græðgi og sérhyggju. Jesús hafði hafnað þeirri freistingu sársoltinn í eyðimörk að gera steina að brauðum og slá þannig í gegn. Þegar hann seður þúsundirnar í óbyggð, er sem hann geri þvíumlikt engu að síður, en munur er þó á því að blessa brauð og umbreyta steinum. En fyrst og fremst vill hann næra með lífsins brauði. Jesú var líka freistað með því að bjóða honum öll ríki veraldar í þjónustu við það vald, sem telur sig hafa undirtök og ráð hér í heimi og sýnir sig í hverjum ógnar- og eyðileggingarmætti, er elur á ótta- og öryggisleysi, en hann hafnar því og vill ekki konungstign með slíkum skilyrðum. Vald hans og tign er ekki af þessum heimi. Það er vald Guðsríkis, lífs, gróanda og vaxtar, vald þess kærleika, sem leiðir hann á krossinn og inn í syndir og kvalir lífsins alls, til þess að losa fjötra þess og lýsa því, vekja það til sjálfs sín, helga það sér og sínu ríki í krafti upprisu sinnar og andans helga. Það er þó oft ekki fyrr en að þrengir í kvöl og myrkri að sjálfshyggja og hroki víkja fyrir auðmýkt og þrá eftir ljósi og líkn svo Guðsandi fær unnið sitt verk og gert vart við sig sem annarlegur gestur.

III

Eftirtektarvert leikrit er nú sýnt í Borgarleikhúsinu sem nefnist einmitt Gesturinn. Aðalpersóna þess á að vera Sigmund Freud, sálkönnuðurinn merki, sem lagði sig fram um það í nafni skynsemi og heiðarleika að hafna tilvist Guðs og allri trúarsýn og ætla honum aðeins stað í óttakennd og dulvitund manns. Verkið minnir á freistingarsöguna en með öfugum formerkjum því persónan, sem birtist óvænt á sviðinu, talar í nafni Guðs inn í örvæntingu haturs og Guðleysis. Sögusviðið er Vínarborg, þar sem Gyðingar sæta ofsóknum skömmu fyrir stríð og þrengt er að Freud líka, sem er Gyðingur. Anna dóttir hans er handtekinn af einum foringja Nasista og óvissa ríkir um farnað hennar, sem veldur honum angist og kvöl. Höfundur verksins hagnýtir sér þessar aðstæður til að setja fram glímu afneitarans við dýpstu spurnir lífs, tilgang þess og tilvist Guðs, gildi og takmörk skynseminnar og togstreitu góðs og ills.

Glæsilegur ungur maður kemur skyndilega á skrifstofu Freuds og gefur ljóslega til kynna að hann sé sjálfur Guð, sem hafi tekið á sig þessa mannlegu mynd og líkama, en er eitthvað óvanur því og stirður, því það er svo langt síðan hann prófaði þetta form. En jafnframt eru leitarflokkar Nasista að leita að ungum geðsjúkingi í grendinni, sem bregður sér í margs konar hlutverk. Og Freud er við því búinn að lækna hann í þessum annarlega gesti, þó svo hann hafi eiginlega misst trúna á gildi sálgreiningarinnar eins og heimurinn er orðinn. En gesturinn dregur fram duldar minningar Freuds sjálfs í bernsku og er að því kominn að segja fyrir um dánardægrið, þegar hann vaknar úr dáleiðslunni. Hann finnur einfalt ráð til þess að skelfa nasistaforingjann og telur sig geta fylgst með Önnu í fjarlægð og staðhæfir að henni verði borgið. En Freud afneitar Guði í þessari mynd sem annarri enda sé himininn galtóm hvelfing yfir þjáningum mannanna þótt hann hafi óskað þess að eiga hugrekki trúar til að umbera raunir og milda dauðann. Hann hefur streist á moti því að gefa óttanum slík völd, því Guð sé aðeins örvæntingaróp angistarinnar og lífið að lyktum ekkert annað en banvænn sjúkdómur.

Andspænis illskunni, sem hefur nú fengið sinn stjórnmálaflokk og spígsporar á strætunum í nafni haturs og mannfyrirlitningar kveðst Freud ásaka Guð, ef hann gæti birst sér í raun, fyrir svikin fyrirheit. Dauðinn minni á fyrirheit um varanlegt líf, og þjáningin á óforgengilegan líkama, sem er þó særður og afskræmdur. Og hið illa í breytni manns minni á friðrof, svik við frumöryggi bernskunnar. Lífið væri fagurt, ef það væri ekki svik. En það er sem gesturinn bendi á hvar svikin liggja, með því að líta með Freud, ekki aðeins yfir nærtæka viðburði, heldur til framtíðar, á öld mannsins, afreksverka hans, en einnig skelfingarverka, vegna hroka hans, sem slævir trú og rýfur guðleg tengsl. Hann tekur sér vald og brýtur lög í sjálfsdýrkun sinni, svo jörðin leikur á reiðiskjálfi. Drottunargirnin bitnar á náttúrunni og siðferðið verður afstætt og gildislaust. Ykkar Guð verða peningarnir. Mammoni verða reist hof og turnar og tómhyggjan verður allsráðandi, fyrst Guð er ekki til. Og mikilmenni aldarinnar, eins og Freud, hafa rutt þessa braut með því að líta ekki út fyrir takmarkanir mannsins sjálfs og greina ekki samhengi lífs og skilja ekki þjáninguna sem samlíðun Guðs í heiminum, er líður, þegar atgerfi og frelsi huga og handar, sem er aðall manns, nýtist til afneitunar og illvirkja.- Hverju lýsir leikritið?, draumi?, dulvitund sálgreinisins sem brýst fram í sýnilegri mynd? eða himneskum boðskap? Því er ekki svarað, en verkið er vel leikið og áleitið í mikilfenglegum skáldskap sínum.

Nýleg leiksýning Menntskælinga á Herranótt, vel sviðsett og fjörleg, var líka einkar athyglisverð og fól í sér áleitna siðferðilega skírskotun. “Sú gamla kemur í heimsókn” hét verkið forðum daga, en nú “Miljónamærin snýr aftur.” Það fjallar um íbúa smábæjar, er fá fyrirheit um dálaglega upphæð, gangi þeir frá einum samborgara sínum, sem miljónamærin fer fram á, að sé rutt ur vegi til að gjalda fyrir svik hans við sig og þjáningar fyrrum. Og þótt það virðist fráleitt í fyrstu, fara þeir fljótlega að taka út á reikning væntanlegs auðs, svo ódæðið, sem liggur í loftinu, verður óumflýjanlegt.

List og listtúlkun virðist oft vera sem loftvog á samtímann. Getur verið að leikverk, sem fjalla af alvöru um trú og siðferði séu nú valin leynt og ljóst til flutnings, vegna þess að siferðisbrestir og tilfinningaleysi geri nú mjög vart við sig í samfélaginu? Hvað leiðir af mjög vaxandi misskiptingu og ábyrgðarleysi og spillingu í meðferð fjár? “Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það” segir höfundur Passíusálma og er marktækur sem fyrr.” Samfélag vaxandi ójafnaðar ver sig illa fyrir vágestum, vegna þess að tilfinninga-og samúðarleysi fær þrifist þar. Auðhyggjan verður drifkrafur athafna í vaxandi mæli, og viðleitnin til að komast yfir verðbréf og áþreyfanleg verðmæti skyggir á þrána, eftir fögru lífi og gefandi samneyti. Miljarðamæringarnir fá sankað til sín auknum auði jafnframt því sem einstæðir foreldrar, öryrkjar og einstæðingar megna ekki að framfleyta sér og sínum og leita til hjálparstofnana um úrræði við hver mánaðarlok. Smygl og sala eiturlyfja fá freistað í þessu andrúmi vegna mikils ávinnings, þó heilsu og heill uppvaxandi kynslóðar sé stefnt í voða. Og ofbeldisverk og glæpir verða daglegt brauð, slys og mannskaðar. Það þarf að hrista upp í fólki, til þess að vekja samvisku og heilbrigðar kenndir. Það gerir listakonan vissulega, sem sýnir nú mjög sérstæðar ljósmyndir í listasafni A.S.Í. og nefnir sýningu sína.-Lífvana. Myndirnar eru af henni sjálfri sem líki í margs konar dauðastellingum, í fjöru, limlest á götuhorni og á almenningssalerni eftir sprautugjöf. Það er sem sýningin dragi það fram, að það er vart fyrr en við fáum séð okkur sjálf í sporum fórnarlamba ógæfunnar, sem hugur og hjarta vakna til þess, hvernig þeim hafi liðið.

IV

Yfirfljótandi gjafir Guðs rírna í gráðugum höndum og umsvifamiklum viðskiptum og önnum, sem leiða hann algjörlega hjá sér. Hnattvæðing, sem ryður markaðshyggjunni braut, bætir ekki einhlítt úr skorti og neyð. Markaðurinn frjálsi virðist hannaður fyrir þá, sem eru fjársterkir og valdamikli, og ráðandi heimspólitík er engan vegin rekin í þágu mannúðar, upplýsingar og menntunar, þrátt fyrir tölvunet og fjölmiðla.

Það verður að teljast sanngjarnt, að íþyngjandi skuldir fátækustu þjóða heims verði afnumdar sem fyrst. Þær hafa iðulega orðið til vegna þróunarverkefna, sem miðuðu ekki að hagsmunum og velferð þeirra heldur fremur að hag erlendra fjárfesta.Og þær eru oft tilkomnar vegna stuðnings við einræðisherra og óhæfa stjórnendur, sem hafa greitt götu utanaðkomandi ítaka og gróðafyrirtækja og vanrækt menntunarkosti og félagslegar umbætur. Indverski nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði Amaryta K. Sen hefur verið nefndur, samviska hagfræðinnar, enda er rauði þráðurinn í hagspeki hans dreifing gæða og gildi lestrarkennslu, menntunar og félagslegra umbóta. Hann hefur ljáð hinum fátæku og kúguðu rödd sína og glímt við innri mein mannlegs samfélags, sem stafa oftast af hirðuleysi gagnvart sameiginlegri velferð og heill.

Það er sannarlega þörf á því á öldinni nýju að þroska næmi samviskunnar og kenna til í þjáningu heims. Ólafur Kárason, skáldið fátæka í Heimsljósi Laxness, er sígildur fulltrúi allra þeirra, sem slíkt gera, þegar hann segir: “Það er ekkert einstakt happ, hvorki hækkað kaup né betri veiði, sem geta læknað skáldið af sársaukanum, ekkert nema betri heimur.” Einlæg list og lifandi trú tjá jafnan slíkar hugsjónir inn í raunveruleika lífsins, sem væri fagurt, væri það ekki svo oft svikið um fegurð og fyllingu sína.

V

“Gef oss í dag vort daglegt brauð.” Það er dýrmætt að skilja merkingu þess að biðja þannig saman, og nærast jafnframt af brauði lífsins, sem steig niður af himni. Trúin er enn í boði sem réttlætir og umbreytir.

Fær það kraftaverk gerst okkar á meðal, að fáeinir fiskar og lítið brauð margfaldist og næri mannfjölda og mannkyn? Eða förum við á mis við það undur vegna trúleysis og fylgjandi siðblindu? Það sést, þegar horft er yfir liðna öld framfara og hörmunga, að valið stendur annars vegar á milli þess, nú og í framtíð, að sniðganga samkennd og kærleikkröfu og auka bilið enn milli ríkra og snauðra, svo verðmæti lífrikis og sköpunar þverra. Og þess hins vegar að trúa því að farsæld og friður verði því aðeins til, að gætt verði að þörfum hungraðra og þjáðra og brauði og nægtum skipt rettlátlega, því þá eykst fæða og lífsgæði.

Jesús Kristur kennir hagfræði lífsins og komanda Guðsríkis í orði og verki. En það er sem ferð hans með það erindi sitt um heiminn, að trúin sýni sig í djörfung og frelsandi gjörðum sé enn erfið og ströng og ljóð Hannesar Péturssonar, ”Áttirnar tvær” vísi til þess, og sé orðað í hans nafni:

“Það er skammt þangað sem ég þarf ekki að fara, örskammt enn styttra á morgun, í framandi lönd, út á fjarlægan hjara jarðar og stjarna. Það er langt þangað sem ég þarf að komast, endalaus ganga um annarlega slóð: ferðin heim, inn í hjörtu mannanna. Og þó svo ég talaði tungum engla.”

Komum til móts við hann, þiggum blessun hans og brauð og skiptum og miðlum því.

Prédikun þessi var flutt í Hafnarfjarðarkirkju í úvarpsmessu á fjórða sunnudegi í föstu, 10. mars 2002. Temað í henni er Daglegt brauð og lífsins brauð - “Hvað höfðingjarnir hafast að”