Á Íslandi hefur verið starfrækt formlegt samstarf milli kristinna safnaða frá því um 1980 þegar Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi var stofnuð að frumkvæði þjóðkirkjunnar. Óformleg samvinna á sér miklu lengri sögu, til dæmis um Alþjóðlegan bænadag kvenna, starf sem forystukonur Hjálpræðishersins leiddu lengst af. Ýmiskonar samkirkjulegt eða þverkirkjulegt starf um afmörkuð verkefni á sér einnig stað utan hins formlega starfs. Þannig hefur þverkirkjulegur bænahópur komið saman vikulega í Reykjavík til að biðja fyrir Íslandi í rúm fimm ár. Það bænastarf hefur nú fundið fótfestu víða um land og hefur m.a. að markmiði að efla von og kjark með þjóðinni, til dæmis með Hátíð vonar.
Að viðurkenna margbreytileikann
Meginsjónarhorn samkirkjulegs starfs er að viðurkenna margbreytileikann, að við erum öll ólík. Eitt okkar er svona, annað hinsegin. Kirkjurnar okkar eru frábrugðnar hvor annarri á marga vegu, t.d. hvað varðar viðkvæm siðferðileg málefni og með hvaða hætti við tilbiðjum Guð. Við gerum ekki kröfu hvert á annað um að vera algjörlega sammála um slík atriði því einsleitni í skoðunum og háttum er ekki markmið samkirkjulegs starfs. Við viðurkennum fjölbreytnina en stefnum að einingu um þann veruleika trúarinnar sem öllu skiptir, að ,,svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf", Jóh 3.16.
Mannréttindi kvenna?
Íslenska þjóðkirkjan, sem er evangelísk-lúthersk kirkja, er aðili að mörgum staðbundnum og alþjóðlegum kirkjusamtökum, meðal annars Lútherska heimssambandinu. Þar skyldum við ætla að einhugur ríki um hin margvíslegu málefni mannlífsins. En svo er ekki. Margar lútherskar kirkjur samþykkja til dæmis ekki prestsvígslu kvenna. Nú eru konur um helmingur mannkyns og Ísland oft talið í forystu í jafnréttismálum. Samt á þjóðkirkja Íslands í nánu samfélagi við systurkirkjur sínar sem ekki virða rétt kvenna til embætta og þjónustu á við karla - að ekki sé minnst á þær fjölmörgu kirkjur í Heimsráði kirkna sem virða þann rétt að vettugi. Við höfum líka gert sérstakt samkomulag við Ensku biskupakirkjuna. Þar njóta konur heldur ekki fullra réttinda, hafa ekki heimild til að þjóna sem biskupar.
Að gefa – og þiggja
Þrátt fyrir þennan veigamikla mun í virðingu fyrir mannréttindum kvenna kýs íslenska þjóðkirkjan að eiga samstarf við þessar kirkjur. Hvers vegna? Jú, vegna fagnaðarerindisins um Jesú Krist, krossfestan og upprisinn. Um þann kjarna snýst kristin trú. Sumt þjóðkirkjufólk virðist líta svo á að ekki beri að eiga samstarf við önnur en þau sem eru sömu skoðunar að öllu leyti þegar kemur að viðkvæmum deiluefnum. Sem formaður Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi fyrir hönd þjóðkirkjunnar er ég ósammála þessu viðhorfi. Okkur ber að eiga samstarf, ræða saman, skipuleggja saman viðburði og umfram allt biðja saman. Aðeins þannig getum við nálgast þann veruleika trúarinnar sem við eigum sameiginlega, gefið af okkur og þegið af hinum, öllum til góðs.