Að hverjum leitar þú? Jóh. 20:15b
Kristur er upprisinn!
Einu sinni voru hjón sem áttu tvo litla og óþekka drengi, sex og átta ára. Þessir ágætu strákar voru alltaf að lenda í vandræðum og foreldrarnir gátu alltaf verið vissir um að ef eitthvað fór úrskeiðis í þorpinu þar sem þau bjuggu, væru synir þeirra með einhverjum hætti ábyrgir. Ástandið var orðið þannig að foreldrarnir voru alveg að gefast upp á öllum prakkarastrikunum. Þau fóru því og hittu prestinn sem var sagður hafa lag á börnum. Þegar presturinn hafði heyrt af öllum stráksskap þessara ungu herramanna þá samþykkti hann að koma í heimsókn og tala við þá um að Guði þætti leiðinlegt hvernig þeir höguðu sér. Hann vildi hitta þá sinn í hvoru lagi. Fyrst var sex ára strákurinn leiddur fyrir prestinn í borðstofunni. Presturinn bauð stráknum að setjast niður við borð, settist síðan á móti honum, starði af mikilli alvöru í augun á drengnum og sagði síðan: „Hvar er Drottinn?“ Það heyrðist ekki múkk frá drengnum, svo að klerkur ræskti sig og sagði með aðeins strangara tóni: „Hvar er Drottinn?“ Stráksi deplaði ekki auga og starði fram fyrir sig. Enn bætti presturinn í röddina og nú rak hann fingurinn ógnandi framan í drenginn og sagði: „HVAR ER DROTTINN?“
Við þessi læti rauk drengurinn út, hljóp upp í herbergi og læsti sig inni í skáp. Stóri bróðir hljóp inn í herbergið á eftir honum og sagði: „Hvað gerðist eiginlega þarna inni?“
Rödd litla bróður hljómaði úr skápnum: „Við erum í rosalega vondum málum núna. Drottinn er týndur og þau halda að við höfum tekið hann!“
II. Hvar er Drottinn? Að hverjum leitar þú?
Hina fyrstu kristnu páska voru allir lærisveinarnir að leita að Drottni. Gröfin var tóm þegar að var komið í árdagsbirtu páskadagsins og steininum hafði verið velt frá. Og rétt eins og í sögunni sem ég sagði ykkur hér áðan jafnframt verið að leita að sökudólgum og samsæri, vegna þess að einhver hlaut að hafa stolið líkama hins látna. Ein af þessum vinum Jesú var María Magdalena og Jóhannesarguðspjall segir okkur frá því að hún hafi staðið úti fyrir gröfinni og grátið meðan Pétur og annar lærisveinn leituðu að líki Jesú. Þá kemur til hennar maður sem lesandi og heyrandi guðspjallsins veit að er enginn annar en Jesús upprisinn. María hins vegar veit ekki neitt og sér ekki neitt. Hún þekkir ekki Jesú hinn upprisna, heldur að hann sé garðyrkjumaður og reynir að þröngva honum til að segja sér leyndarmálið um það hver hafi tekið Drottin. „Að hverjum leitar þú?“ segir hinn meinti garðyrkjumaður við Maríu. Merkilegt má telja að fyrstu orðin sem Jesús frá Nasaret segir í guðspjalli Jóhannesar skuli enduróma í fyrstu orðum hans eftir upprisuna. „Hvers leitið þér?“ voru orðin sem hann beindi til fyrstu lærisveinanna sem á vegi hans urðu. Það er eins og þessi leit að týnda Drottni rammi inn allt guðspjallið, marki þrá þeirra sem guðspjallið fjallar um og guðspjallið lesa og heyra, þrá í leit að tilgangi lífsins. Að vera lærisveinn Jesú er að leita Jesú, leita að týndum Drottni.
Þessi misskilningur Maríu þegar hún ruglaðist á garðyrkjumanninum og hinum upprisna, þessi leit að þeim sem er fyrir augunum á henni er hjarta páskaboðskapar Jóhannesar til okkar í dag. María sá Drottin. En hún þekkti hann ekki. Hjarta hennar var fullt af sorg yfir atburðum föstudagsins langa. Hún gat ekki horfst í augu við þá hugmynd að Drottinn væri alls ekki týndur. Hún hljóp allt í kringum hann og leitaði að honum. Hún spurði hann jafnvel sjálfan um það hver hefði tekið Drottin. Og þannig hefur sagan á sér furðulegt og jafnvel kómískt yfirbragð, páskahlátur inn í páskaguðspjallinu sjálfu vegna þess að við vitum góðu fréttirnar sem María veit ekki. Týndi Drottinn er fundinn. Og það voru hvorki krakkarnir í sögunni, Gyðingar né Rómverjar sem tóku hann. Það er ekki fyrr en þessi dularfulli garðyrkjumaður kallar Maríu með nafni sem hún þekkir hann fyrir hinn upprisna Drottin. Jesús hinn upprisni segir Maríu að fara út og finna „bræður sína“. „Bræðurnir“ , eða adelfoí í gríska frumtextanum vísa ekki aðeins til nokkurra karlmanna í kringum Jesú, heldur til hins gjörvalla samfélags fólksins sem hafði safnast saman í kringum Jesú. Það er eitthvað merkilegt við þessa áherslu guðspjallsins. Það kallar okkur til tómrar grafar, til þess eins að snúa okkur burtu aftur frá gröfinni, til samfélagsins sem þarf á hinum týnda Drottni að halda. Það kallar okkur til að leita að hinum týnda Drottni, til þess eins að komast að því að Guð hefur ekki týnst og ætlar okkur verk meðal annars fólks.
III. Hvar er Drottinn? Að hverjum leitar þú? Hvar þekkjum við Drottin og hvaða verk er okkur ætlað að vinna glöðu fólki sem er snúið frá tómri gröf? Hvar er samfélagið sem okkur er ætlað að sinna og ala önn fyrir?
Í síðustu viku upphófust miklar umræður um þróunaraðstoð í íslensku samfélagi í kjölfar þess að Alþingi Íslendinga samþykkti með þingsályktunartillögu að auka smám saman þróunaraðstoð Íslands úr 0,26 hundraðshluta af vergum þjóðartekjum í 0,4 hundraðshluta á næstu þremur árum. Stefnt skuli að því að árið 2019 verði talan komin upp í 0,7, en sú tala er einmitt í samræmi við það sem þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna gerðu ráð fyrir að ætti að vera það sem að iðnvæddar þjóðir greiddu að lágmarki til hjálpar fátækum þróunarlöndum. Alþingi hefur sem sagt ákveðið að uppfylla rúmlega helminginn af þúsaldamarkmiðunum árið 2016. Umræðurnar í samfélaginu snérust um það hvort réttlætanlegt væri að borga svona mikla peninga til útlanda, þegar fólk væri þurfandi hér heima. Þróunaraðstoðin sé þess vegna tapað fé, sem betur væri ráðstafað annars staðar og nær okkur sjálfum.
Og víst er fólk þurfandi hér heima. Það sem hins vegar er skakkt við þessa umræðu er stilla fólki upp við vegg eins og það þurfi að velja á milli þess að hjálpa samlöndum sínum og öðrum þjóðum, að einmitt nákvæmlega þessum hluta þjóðarkökunnar og öðrum ekki skuli beint að svöngum munnum og að okkar sé valið um það hvort skeiðin lendi í íslenskum eða afrískum munni. Fjármununum sem að Ísland ætlar að nota í þróunaraðstoð á næstu árum verður varið til ýmiss konar verkefna. Þeir fara m.a.í menntastofnanir sem að mennta fólk í þróunarlöndum til vaxandi atvinnuþáttöku og í að bæta innviði stjórnkerfa. Þar eru framlög til friðargæslu, til umhverfis og loftslagsmála, til mannúðarmála, jafnréttis og neyðaraðstoðar, til Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Þetta eru framlög sem tengjast ábyrgð okkar sem snerta okkur sem jarðarbúa sem bera ábyrgð á öðrum jarðarbúum, mönnum, dýrum og öðrum lifandi verum. Þessi framlög nýtast á veraldarvísu og þannig öllum manneskjum, en þeim ekki síst sem minnst mega sín í veröldinni, fátækasta og allslausasta fólki jarðar. Það á ekki að vera val fyrir okkur hvort við hjálpum þeim eða ekki. Það er sjálfsögð skylda okkar sem manneskja og mannvina hverrar trúar sem við erum og hvort sem við erum trúuð eða ekki.
Við sem játum kristinn sið hljótum að túlka kröfuna um þróunaraðstoðina á okkar eigin hátt og í ljósi okkar eigin kristnu tákna. Hinn kristni boðskapur leggur okkur skyldur á herðar. Upprisan, eilíft líf , sigur lífs yfir dauða, gleði yfir sorg, fjallar líka um dauða fátæktar og vonleysis. Baráttan við slíkan dauða getur aldrei verið tapað fé. Þessar manneskjur, þetta loftslag, þessar lífverur eru verkefni okkar þegar okkur er snúið frá kaldri gröf fátæktar og örbirgðar og aftur til „bræðranna.“
Kristur er upprisinn! Lífið lifir og það er heilög skylda okkar að greiða því veg á hvern þann hátt sem við getum. Nýlega kom út stór skýrsla á vegum Lútherska heimssambandsins, sambandi allra lútherskra kirkna í heiminum, um kirkjulegt hjálparstarf og kærleiksþjónustu. Þessi merka skýrsla hefur komið út á íslensku og hana má nálgast á heimasíðu Þjóðkirkjunnar. Þar er okkur sagt að kærleiksþjónustan sé ekki aðeins eitt af verkunum sem kirkjan framkvæmir á stórum gátlista. Öllu heldur er kærleiksþjónustan eitt af því mikilvægasta sem skilgreinir okkur sem kristnar manneskjur. Biblían svarar okkur þegar við spyrjum um hinn týnda Drottin og segir að við finnum hann hvar sem við hjálpum hinum þurfandi og reisum þau til þeirrar mennsku og reisnar sem hver sköpun Guðs á skilið.
Konungurinn mun þá svara þeim: „Sannlega segi ég yður, það allt sem þér gjörðuð einum mínum minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér. Matt. 25:40
Hinn týndi Drottinn sem birtist okkur í þurfandi systrum og bræðrum fer ekki í manngreinarálit. Hann sést ekki bara á hvítum, norrænum andlitum. Hann talar ekki bara íslensku. Hann sést á hælisleitendum frá hrjáðum löndum, á ásjónu hungraðs fólks af fjölbreyttum kynþáttum, trúarbrögðum og litarhætti. Fjarri fer því að skýrslan sem ég nefni láti sér nægja að mæla með því að iðnvæddar þjóðir greiði þá þróunaraðstoð sem sæmileg er. Ábyrgð okkar á okkar minnstu bræðrum og systrum hérlendis og erlendis er ekki lokið þegar við höfum greitt skattinn okkar, eins virðingarvert og það nú annars er og sem útheimtir miklar fórnir af hálfu okkur margra. Ábyrgð okkar sem kristnar manneskjur sem fögnum hinum upprisna, týnda Drottni birtir okkur boðskapinn um að kirkjan í heiminum verði að sinna kærleiksþjónustunni á grundvallandi hátt, hætta að líta á hana sem valkvæð góð verk og viðurkenna hana sem órofa þátt í því að vera kristin manneskja. Kærleiksþjónustan, þjónustan við hinn þurfandi mann á einstaklingsvísu, innan hins staðbundna samfélags, á landsvísu og á heimsvísu er þannig ófrávíkjanlegur þáttur í því að leita að hinum týnda Drottni og finna hann, vegna þess að hann er alls ekki týndur.
Kristur er upprisinn! Drottinn lifir og ástin, gjafmildin, auðmýktin, hjartagæðin sem tengd eru nafni hans lifa og ríkja. Við sjáum hins vegar ekki nógu skýrt. Og við skynjum ekki veruleika upprisunnar, gleðinnar og ólgu bjartsýninnar fyrr en við þekkjum Krist í þeim sem á vegi okkar verða og þurfa á okkur að halda.
IV. „Hvar er Drottinn?“ spurði presturinn strákinn forðum og hann hljóp og faldi sig inni í skáp. „Hvar er Drottinn?“ spurði María Magdalena hinn upprisna. Hún sá hann ekki og leitaði þó út um allt. Hún fór til vina Jesú og tilkynnti þeim: „Ég hef séð Drottin.“
Förum nú og sjáum hann líka.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.