Amen

Amen

Ástin leitar hins heildstæða, bænin leitar hins altæka. Bæn varðar ekki aðeins uppfyllingu einhverrar kröfu eða óskar, heldur að opna lífið fyrir vori lífsins. Bæn er ekki aðeins það að biðja um lausn í einstökum málum og vandkvæðum, heldur að vilja, vona og tjá að lífið sé allt í hendi Guðs.

Snemma í morgun reis sonur minn allt í einu upp í rúmi sínu og sagði við sjálfan sig. “Það er svo dimmt, ætli dagurinn komi ekki?” Svo heyrðum við, foreldrar hans, að hann tautaði. “Ég ætla að biðja Guð um daginn.” Björt og einlæg barnsrödd hljómaði í myrku herberginu: “Góði Guð viltu taka nóttina og senda okkur daginn.” Þar með var bænin flogin, einlægni hjartans tjáði frumþætti, myrkur og birtu. Á milli dags og nætur voru barn og Guð. Traustið hreif mig og örugglega hjarta Guðs líka. Dagurinn kom.

Það var undursamlegt að heyra hve drengurinn talaði einlæglega við Guð himins og jarðar, dags og nætur. Hann mun voandi megna að tjá bænir sínar í lífinu, lifa í bænaranda og segja sín amen.

Lífsins bænadagar I dag er bænadagur á vetri. Við biðjum og það er gæfulegt að hugsa um bæn og bænalíf reglulega. Fólk biður og í margvíslegum aðstæðum. Bæn er stórkostlegur farvegur fyrir lífið, óskir, tilfinningar, reiði, allt litróf tilfinninga, þarfa, tjáningar, já mennskunnar.

Bæn í ákveðnum löngunaraðstæðum er eitt, bæn í neyðartilvikum annað. Aðstæður stýra hvernig bænirnar spretta fram. Rannsóknir sýna að við, Íslendingar, kennum börnum okkar bænir. Við þekkjum bænaversin úr bernsku og kennum síðan afkvæmum okkar. Faðir vorið hljómar í flestum húsum daglega og líka ýmsar kvöld- og morgunbænir. Svo eru ýmsar gerðir og tegundir af bænum.

Opinberar bænir Í messunni eru bænir beðnar fyrir hönd safnaðarins. Þær bænir eru opinberar safnaðarbænir, orð í okkar stað. Slíkar bænir eru í handbókinni. Við messuupphaf förum við öll með meðhjálparabænina. Svo kemur skömmu síðar kollektan, bæn í samræmi við daginn, tímann og kirkjuárið. Fyrir predikun er beðið og eftir prédikun er hin almenna kirkjubæn. Í handbók presta eru bænir til nota í þessu samhengi sem og aðrar við hinar ýmsu kirkjulegu athafnir. En prestur er frjáls að því að semja og flytja aðrar opinberar bænir, í samræmi við aðstæður, þarfir hvers tíma og andagift. Síðan eru allar bænirnar, sem sálmarnir tjá. Við biðjum oft er við syngjum – og því er gott að allir taki þátt í kirkjusöngnum. Gamalt kirkjulegt orðtæki segir: Tvöfalt biður sá er syngur.

Bænir í leyndum Svo eru bænirnar þínar. Sumar þeirra ferðu með upphátt t.d. við rúmstokk barna, en aðrar spretta fram með leynd í djúpi hjartans og fljúga hljóðlaust inn í himininn. Sumar bænir eru bón um lausn úr festum, þ.e. þegar fólk er í aðkrepptum aðstæðum eins og í prófum, þegar veikindi herja á, slys verða, erfið eða tvísýn læknisaðgerð er fyrir höndum o.s.frv. Þegar við biðjum fyrir öðrum í vandkvæðum er talað um fyrirbæn. Síðan eru ýmsar bænagerðir, t.d. játningabænir þegar við komum fram fyrir hinn heilaga Guð og berum fram mistök eða vond verk okkar og biðjumst fyrirgefningar. Á iðrunarsnauðri tíð eru þessar bænir kannski ekki tíðar. Við getum spurt okkur sjálf hvort við séum slíkir hrokagikkir að við getum ekki og viljum biðja með þeim hætti. Viljum við mæta Guði aðeins á jafnréttisgrundvelli? Bænirnar verða í samræmi við hver við erum og hvar við erum stödd í lífi og þroska. Og við þurfum að spyrja okkur bæði um hvað við erum og hvað bænin er.

Hvað er bæn? Við biðjum um þetta og hitt. Bænirnar okkar eru þá erindi til Guðs. En ef bænir spretta aðeins fram þegar fólk er í neyð þá eru þær svipaðar neyðarnúmerum eða sem bjarghringur. Bæn er annað og meira en innkaupa- eða óskaseðill. Bæn er afstaða til Guðs, samband við skapara heimsins, það að vera á ákveðinni bylgjulengd.

Hliðstæðan af ástalífi lýsir bænalífi og eðli bænarinnar. Þegar þú elskar hefur þú lífsfókusinn skýran, hvort sem ástin beinist að maka, barni, málstað eða ástvini. Þannig er það líka með bænina. Bæn er afstaða - og iðkun ákveðinnar afstöðu. Þú talar við þann eða það sem þú elskar. Þú hugsar um og berð hagsmuni hins elskaða fyrir brjósti, þráir návist og tengsl, orð og atferli. Ástin leitar hins heildstæða, bænin leitar hins altæka.

Bæn varðar ekki aðeins uppfyllingu einhverrar kröfu eða óskar, heldur að opna lífið fyrir vori lífsins. Bæn er ekki aðeins það að biðja um lausn í einstökum málum og vandkvæðum, heldur að vilja, vona og tjá að lífið sé allt í hendi Guðs, allir vinir og fólk, málstaður og veröld, matargerð á heimili, stjórnmál í Egyptalandi, samstilling sólkerfa. Að biðja er að opna fyrir Guði.

Mömmubænir Móðir mín var bænakona og hún miðlaði börnum sínum og fjölskyldu bænrækni. Af því að góð samskipti við Guð voru henni eiginleg var það okkur eðlilegt að hún vildi kenna okkur, börnunum, bænir. Á fullorðinsárum kom ég oft að henni þar sem hún sat við borðstofuborðið sitt, laut höfði, var með greipar spenntar og bað bænir sínar. Það var undursamlegt að bíða og nánast finna lyktina úr opnum forgörðum himnaríkis, sem lutu að þessum helgidómi mömmu. Svo þegar hún hafði lokið hinni himnesku samræðu, reisti hún höfuð, opnaði augun og brosti. Mamma kom alltaf glöð úr göngunni með Guði því þar hafði hún góða áheyrn og góðan förunaut. Allt hennar líf staðfesti að bæn er lífsverk, að biðja er gleðiverk, að biðja er sálarhreinsun, að biðja verkar til góðs í lífi ástvina og hins biðjandi sjálfs. Að biðja styður Guð við sköpun heimsins.

Lokaorð lífsins Móðir mín lést fyrir sjö árum. Heili hennar bilaði skömmu fyrir dauða hennar. En það var sérstæð, merkileg og raunar undursamleg reynsla í sorginni að verða vitni að því, að trúin lifði og bænirnar héldu áfram að streyma þrátt fyrir að allt annað samband hefði slitnað – þá voru himintengslin í góðu lagi þó jarðartengslin brengluðust eða brystu. Skömmu fyrir andlátið gat hún ekki lengur talað. Kona mín sat hjá henni og allt í einu sagði mamma hátt og skýrt amen. Hún sagði aldrei í lífinu amen án þess að á undan færi bænagerð. Þetta amen var örugglega lokaorð Guðssamtals.

Meira sagði hún ekki í þessum heimi. Amen var hennar lokaorð í lífinu og einnig samnefnari lífs hennar. Hún kunni að biðja, lifði í góðu talsambandi við Guð. Þegar hún sagði amen við lífslok var himininn opnaður og hún fór. Það er gott að deyja með þeim hætti og með það orð síðast á vörum.

Að biðja gefur lífsgæði, vegna þess að það er rétt líf. Það er líf með þeim, sem er lífið sjálft, samhengið og samfylgd hvers manns. Að biðja er að draga rétt og djúpt lífsandann og vera í samræmi við lífsskikkanina sjálfa. Biðjið um dag og veg, velfarnað í lífinu, velferð ástvina og vina, heimshag, hugarró og lífsfestu. Biðjið og þið munuð lifa með Guði. Betra getur það ekki orðið og meira er ekki hægt að öðlast. Amen.

Neskirkja 30. janúar, 2011