Það hefur verið mín stóra gæfa og frábæra tilbreyting að fá að vera mamma í fullu starfi síðustu mánuðina. Ástæðuna er fyrst og fremst að finna í því að í mars síðastliðnum bættist lítill drengur við fjölskylduna og að ennþá er það álitið bæði skyldugt og mjög hjálpsamlegt að mæður setji umönnun nýfæddra barna framar skyldustörfum utan heimilis. Það er því töluvert ólík tilvera sem blasir við mömmum í fæðingarorlofi, sem hafa áður fylgt strangri dagskipan fundahalda og viðverustunda út um borg og bý frá morgni til kvölds. Kröfur vinnulífsins eru þar að auki oft hrein viðbót við það sem heimilishald og fjölskyldulíf leggur á herðar hins stressaða nútímafólks. Að sigla inn í fæðingarorlofið úr slíku samhengi er ákveðin Paradísarheimt.
Í fæðingarorlofinu verða þarfir litla barnsins það sem stjórnar dagstaktinum. Barnið þarf að nærast og það þarf að hvílast. Barnið þarf að hafa hreint og fínt í kringum sig. Barnið þarf að klæðast hlýjum og þægilegum fötum. Barnið þarf að upplifa sig elskað og öruggt. Barnið verður að vera óhult fyrir áreiti og hættum umhverfisins. Og allt þetta veiti ég því.
Í fyllstu hreinskilni þá er tilfinningin sem fylgir því að uppfylla þessi verkefni öll, ein sú mest fullnægjandi sem ég hef upplifað og slær við öllum þeim skemmtilegheitum sem leiða af því að standa sig vel í prófum eða vinnu. Launin eru fólgin í því að fylgjast með lítilli manneskju vaxa og dafna, mæta þörfum hennar á ólíkum líkamlegum, andlegum og félagslegum sviðum, og verða (að manni finnst óverðskuldað) aðnjótandi ástar og atlota sem eru tjáð í brosi, hjali og undurblíðlegu augnaráði.
Þótt litla barnið leiki afar stórt hlutverk í fæðingarorlofslífinu er það svo stórkostlegt að aðrir heimilismenn fara ekki varhluta af því ástandi sem skapast þegar mamman er heima allan daginn. Bæði stóra systir og stóri bróðir njóta góðs af þeim kyngikröftum kærleikans sem nýfædda barnið ber með sér inn á heimilið þeirra. Og börn á öllum aldri verða vitaskuld vör við þá breytingu sem fylgir þegar allir á heimilinu þurfa ekki stanslaust að keppa við klukkuna og spennast við kröfur sem utanheimilisverkefnin leggja á herðar heimilisfólksins.
Fæðingarorlofið er forréttindatími þar sem ég fæ að helga mig óskipt því sem mér finnst dýrmætast í lífinu. Það er líka tækifæri til að uppgötva og meta upp á nýtt heimilisveggina, sem afmarka okkur frá kaótíkinni fyrir utan og veita skjól og kyrrð. Það eru ekki bara börnin sem verða að njóta skjóls og kyrrðar heldur líka hin fullorðnu. Og heimilið er hið beinharða rými sem veitir okkur það. Við getum hugsað um það sem heilagt rými sem er frátekið fyrir okkur sjálf og þau sem okkur eru falin til að elska.
Hið heilaga heimilisrými er samt ekkert himneskt fyrirbæri heldur afar jarðtengt. Það lýtur eigin lögmálum og krefst sístæðrar þjónustu. Þvottur, pottar, nef sem þarf að snýta, gólf sem þarf að sópa og skór sem þarf að raða, eru viðfangsefni heimilisþjónsins á hverjum degi. Og eins og með trúarlífið sjálft, þá nýtur heimilið mest góðs af því þegar við hvílum í verkunum og leysum þau af hendi um leið og þeirra verður þörf. Sístæð nærvera gerir meira gagn en stormandi innkoma af og til.
Að fá tækifæri til að umgangast heimilið sitt sem lifandi helgidóm, sem er meira en stoppistöð á strætóferðum daglega lífsins, er meiriháttar upplifun. Orðskviðirnir líkja manneskju sem tollir ekki heima við, við fugl sem floginn er burt úr hreiðri sínu (27.8). Fæðingarorlofið hefur hjálpað mér að kunna að meta mitt eigið hreiður og það góða sem verður til einmitt þar.
En eins og gefur að skilja verður Adam (…kannski réttara að segja Eva út frá samhenginu) ekki lengi í þessari Paradís. Áður en langt um líður þarf ég að yfirgefa þessa himnesku tjaldbúð og skella mér í hringiðu vinnunnar og því sem henni fylgir. Mér finnst það skelfileg tilhugsun og líður svolítið eins og Madditt þegar hún byrjaði í skólanum í fyrsta sinn. Skólinn var svo rosalega spennandi að tilhugsunin um að hún þyrfti að taka jólafrí um mitt skólaár gerði hana ómögulega. Reyndar var það svo að þegar að jólin nálguðust og hálft ár var að baki á skólabekk, tók hún fríinu fagnandi. Kannski finn ég slíkan fögnuð þegar fæðingarorlofssabbatinn verður út runninn.