Jóh.4.46-53
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen
Ráðgátur lífsins eru margar. Flest könnumst við, við málsháttinn „Orð eru til alls vís eða fyrst.“ Ég hef löngum velt fyrir mér merkingu þessa málsháttar. Raunar ekki komist að haldbærri niðurstöðu. Nema að málshátturinn á uppruna sinn í Biblíunni. Einhverjum kann að þykja það liggja í „augum úti“ eins og meðlimir pönksveitarinnar Purrks Pilnikk öskruðu úr sér um árið á níunda áratug síðustu aldar og málvandafólk þess tíma fóru úr límingu af vandlæti og áhyggjum hvert unga kynslóðin væri eiginlega að fara með íslenska tungu og útúrsnúningi almennt sem væri aldrei viðeigandi nema fyrir vitleysinga.
Sumt er það í heimi hér sem stenst allan útúrsnúning hversu mjög það er pönkast á því og fært í stílinn. Okkur er tamt í dag á tímum samfélagsmiðlunar að fegra tilveruna og færa í stílinn. Sendum frá okkur myndir og textaskilaboð hvað allt sé frábært alltaf í góðra vina hópi því þannig viljum við hafa það og þá mynd viljum við að aðrir hafi af okkur. Blessunarlega er það svo, að yfirleitt er það þannig vonandi hjá okkur flestum að við höfum það ágætt og erum fús að deila því með vinum og vandamönnum og öllum hinum sem við þekkjum ekki, sem guða á glugga lífs okkar. Okkur er annt um hvaða mynd aðrir hafi af okkur, ekki bara fyrirtæki heldur og við sem einstaklingar. Við höfum tæknina yfirleitt í seilingarfjarlægð til að vinna með ímynd okkar útávið. Við erum í stansalausu boði einhvers að skoða og fylgjast með hvar og hvað vinir okkar eða ókunnugir okkur eru að gera - yfirleitt eitthvað skemmtilegt. Í dag er vart hægt að tala um orðspor einhvers heldur miklu fremur myndspor. Hvaða mynd höfum við af hverju öðru og hvaða ramma setjum við utanum þá mynd?
Við fáum í guðspjalli dagsins mynd eða innsýn inn í líf forréttindamanns sem á í miklum háska. Þessi konungsmaður hafði ekki gott orðspor.
Skildi einhvert af fólkinu sem segir frá í guðspjallinu og hlýddu á orðræðu konungsmannsins og Jesú; skildi hafa hlakkað í einhverjum þeirra fyrir það eitt hvernig fyrir valdsmanninum væri komið?
Svarið er - já!
Það er eitthvað varðandi ófarir fólks sem lifir í efri lögum samfélagsins sem bæði kætir og hræðir. Þarna var valdsmaður sem lægði sig í þeirri von að mætti verða til bjargar syni hans.
Það er drjúgur spölur frá Kapernaum og til Kana í Galileu. Konungsmaðurinn eflaust komið á sínum úrvalsreiðskjóta og skreyttum vagni ásamt fylgdarliði og frammi fyrir honum stendur farandpredikarinn Jesús Kristur og mannfjöldinn sem fylgdi honum og námu hvert orð og hvert verk meistarans.
Þögnin og eftirvæntingin hreinlega rís upp úr orðum guðspjallsins. „Drottinn kom þú áður en barnið mitt andast“ voru orð Konungsmannsins sem þangað til hafði stjórnað og stýrt og skipað fyrir eflaust af miskunnarleysi á stundum og það varð, sem hann sagði til um. Nú var það hann sem bað um miskunn og hjálp. Mikið hljóta þeir sem á hlýddu hafa verið spennt að sjá og heyra og hlakkað innra með þeim að sjá að þessi valdsmaður og oflátungur héldi virkilega að hann hefði forgang um þjónustu meistarans og lýðurinn varð ekki fyrir vonbrigðum þegar Jesús segir: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Minnir eilítið á okkur annarsvegar og landsliðsstrákana okkar í í fótbolta hinsvegar. Um daginn, vorum við í sófadýrin búin að afskrifa að hafa andstæðinginn Frakka heimsmeistarana sjálfa undir áður en leikurinn hófst. Frakkarnir sem ekki aðeins koma fyrir sjónir sem hrokafyllri, sterkari og virtari í fótboltaheiminum og við þessi fámenna þjóð 2-0 yfir og trúin á strákana okkar óx eins Dow Jones vísitalan og við aðeins korter í að klára leikinn, að klára leikinn með sláin stöngin inn og við fögnum okkar strákum og höfum fulla trú á þeim. Í miðjum fögnuðinum gerist hið óvænta og það sem átti ekki að gerast - ríkjandi heimsmeistar jafna en samt sigur hjá okkur.
Konungsmaðurinn sem hingað til hafði í krafti sínum og hroka og alls þess sem hugsast gat fengið sínu framgengt lægði sig í vanmætti og angist. „Drottinn kom þú áður en barnið mitt andast“ sagði hann.
Það er blessunarlega vandfundið það foreldri sem er ekki tilbúið að gera það sem þarf að gera og miklu meira en það að hjálpa barni sínu í veikindum eða háska. Við búum líka að góðri heilsugæslu sem tekur á móti. Margt foreldrið finnur síg í þeirri stöðu þessa dagana í vanmætti tilbúið að ganga langan veg til þess að það megi vera til hjálpar barni þess sem hefur týnst á vegi fíknar, geðsjúkdóms, kvíða þess að vera ekki, hlusta á grátur þess og teygða angist hrösunar.
Konungsmaðurinn hefði getað staðið upp fyrir haus í stolti sínu og sársauka en gerði það ekki. Hver kannast ekki við að ætla einhverjum eitthvað og svo þegar á reynir kemur eitthvað allt annað í ljós? Konungsmaðurinn kaus að sleppa taki á stolti sínu og kom fram sem faðir barnsins síns. Frammi fyrir ásjónu mannfjöldans umbreyttist þessi valdsmaður í viðkvæman mann sem elskaði barnið sitt skilyrðislaust. Allt sem hann var í augum mannfjöldans, forréttindagaur, valdsmaður sem vaggaði sér í vegtyllum og upphefð og ekki sé talað um auð átti ekki hug hans þar sem hann stendur frammi fyrir Jesú sem segir: „Far þú sonur þinn lifir.“
Far þú…hvernig förum við að í dag og það sem kannski skiptir meira máli á hvern hátt förum við í dag eða göngum við inn í þennan forna texta? Talar hann til okkar og þá með hvaða röddu? Eða heyrist ekki röddinn í hávaða skarkala nútímans og við göngum í burtu frá honum bara eitthvað í leit af einhverju öðru sem mögulega gæti fyllt út í tómið, sem er ekkert að fara. Frekar skal bæta við sig hlutabréfum tómhyggjunar að tilvist okkar sé án einhvers raunverulegs gildis, markmiðs, sannleika eða tilgangs. Í guðspjalli dagsins er brugðið ljósi á þessa eigind manneskjunnar. Mildu ljósi trúar. Ekki blikkandi neonljósi augnabliksins sem glepur sýn.
Í vel upplýstum veruleika nútímans þar sem rafljós lýsir hvern þann kima sem við kærum okkur um að upplýsa, er ekkert að finna sem við höfum ekki séð fyrr eða heyrt um, kann einhver að hugsa með sér eða segja hverjum sem vill heyra í hroka síns eigin.
Konungsmaðurinn, forréttindamaðurinn vissi að hann gat fengið hvað sem hann vildi í krafti síns sjálfs. En hann hafði ekki lagt á sitt þetta ferðalag til að mæta Jesú til að heyra það sem aðrir voru tilbúnir að segja við hann sem honum var þóknanlegt. Hann leitaði ljóssins í trúnni, ekki síns eigin. Ekki skellibjörtu ljósi heldur mildu ljósi trúar. Mildu og auðmjúku ljósi sem bregður birtu á svo margt það, sem við teljum okkur vita, en höfum í reynd ekki hugmynd um hvert framhaldið er. Það kann að valda okkur kvíða og það kann að valda okkur ótta.
En bíðum aðeins - ljósið sem á að upplýsa þann veg sem við fetum í lífinu beinist í æ ríkari mæli í dag að okkur sjálfum í stað þess að það leiti frá okkur og beinist að því sem máli skiptir - veginum framundan.
Konugsmaðurinn í guðspjallinu vildi heyra og hlýða á eitthvað annað en hann var vanur að heyra. Hann leitaði annars, einhvers æðra og gaf sig því á vald í trú. Afklæddist eigin valdi og horfðist í augu við mennsku sína og brothætta tilveruna sem allur auður hans gat ekki púslað saman.
Þetta er gömul saga og ný.
Þá hlýtur sú spurning vakna meðal einhverra. Hvenær gefum við okkur tíma og horfumst i augu við mennsku okkar? „Hver er Kristur fyrir okkur í dag?“
Það er ekkert auðvelt að halda áttum á tímum þegar auðveldast er að lúta þeim sem hæst í lætur þar sem vart er skjól að finna fyrir „hávaðasama og sjálfsmeðvitaða samtíð“ eins og skáldið Matthías Johannessen orðaði svo ágætlega í viðtali í tilefni af útkomu nýrrar ljóðabókar sinnar „Enn logar jökull.“ samtíðar sem veður yfir allt og alla og eyrir engu eða fáu.
Eitt er það sem margur telur sig vita betur í dag á tímum upplýsingar sem er ávalt í seilingarfjarlægð er það að trúin og trúarbrögð eigi að gera burtræk í mannlegu samfélagi. Það eigi að rífa það upp með hinum „túnfíflunum.“ Manneskjunni muni vegna betur ef trúin væri ekki að þvælast fyrir upplýstri nútímamanneskjunni sem veit betur en bábiljur fortíðar og samtíðar.
Það lætur hátt í þessum röddum sem vaxa upp úr jarðvegi öfga bæði trúar og trúleysis nútímans. Hæðast að henni og því sem liggur til grundvallar spurningunni, því við teljum okkur vita betur. „Orð eru nefnilega til alls vís eða fyrst“ því allt byrjar með því að talað sé um það.
Þessum orðum sögðum er frískandi og ánægulegt að segja frá að danski leikarinn Lars Mikkelsen lét nýverið skírast til kristinnar trúar eða eins og hann sagði sjálfur eftir áralangt innra samtal trúar og efa. Til nánari útskýringar var ríkissjónvarpið með til sýningar fyrir nokkrum misserum danskan þátt sem nefnist „Herrens Veje“ eða „Á Guðs vegum“ á okkar ylhýra.
Þættirnir fjalla í sem styðstu málum um trúna og trúna á Guð og meingallaðan prest í Kaupmannahöfn sem téður leikari Lars Mikkelsen leikur svo eftirminnilega að einhverjir elska að hata og aðrir elska. Skemmtilegt er að segja frá því að vinna hans og glíma við persónuna, sem hann leikur, gaf honum kjark til að segja hverjum sem á vill hlýða „Ég trúi“ frammi fyrir öllum þeim sem kannski hugsa með sér hvað þessi forréttinda leikari sem tilnefndur er til Emmy verðlauna fyrir hlutverk sitt í þáttunum er að blaðra. Hann hafði farið langan veg, kunnulegt stef?
Það er svo auðvelt að geyma trúna uppi í rykföllnu háalofti hugarfylgsna okkar og helst ekki taka þau niður og opinbera sig sem einhvern „vitleysing“ eins og Mikkelsen orðaði svo ágætlega í viðtali. Eða eins og félagarnir í hljómsveitinni Sigur Rós í laginu – „Inní mér syngur vitleysingur“ sem endar á þessum orðum:
Minn besti vinur hverju sem dynur
Illum látum, í faðmi grátum
Ég kyngi tári og anda hári
Þegar að við hittumst
Þegar að við kyssumst
Varirnar brenndu, höldumst í hendur
Ég sé þig vakinn
Ég sé þig nakinn
Inní mér syngur vitleysingur.
Orð eru til alls vís eða fyrst, stundum leiða þau okkur á veg þess sem við ætlum ekki en fetum samt. Það er megin ráðgáta lífsins.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun:
Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.