Guðleg náð og mannleg öfund

Guðleg náð og mannleg öfund

Fyrsti sunnudagur í níuviknaföstu, A textaröð, guðspjall Mt. 20. 1-16. Ég benti á að eftir þessari dæmisögu væri óráðlegt að láta Jesú semja um laun sín vegna þess að hann ruglar alla taxta í mannlegu samfélagi. Það var ekki erindi hans heldur að kenna okkur að lifa í náð.

Fyrsti sunnudagur í níuviknaföstu, A textaröð, guðspjall Mt. 20. 1-16. Ég benti á að eftir þessari dæmisögu væri óráðlegt að láta Jesú semja um laun sín vegna þess að hann ruglar alla taxta í mannlegu samfélagi. Það var ekki erindi hans heldur að kenna okkur að lifa í náð.

1.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Dæmisagan um víngarðinn finnst mörgum óréttlát og það með réttu. Hún samrýmist ekki „vinnumarkaðinum“ eins og við þekkjum hann. Einhver yrði óánægður með það að vinna allan daginn og hafa jafn mikið upp úr því og sá sem vinnur eina vinnustund. Út frá þessari dæmisögu einni sér væri óráðlegt að hafa Jesú í samningaviðræðum um launakör sín. Hann brjálar alla taxta í mannlegu samfélagi.

Allir voru kallaðir til starfa og húsbóndinn greiddi öllum jafnt, full daglaun, einnig þeim sem unnu aðeins eina stund, segir í dæmisögunni. Og þannig hnykkir Jesús á því sem hann vildi segja: Náð Guðs og góðvild er algjörlega óháð okkar framlagi.

Jesús er auðvitað að tala um annað og meira en vinnumarkaðinn. Dæmisagan kennir okkur sérstaka og gæfulega grundvallarafstöðu til vinnunnar og lífsins almennt.

Málverk frá Tailandi eftir Swai Chinnawong. María ber fram mat þegar Jósef og Jesús koma heim með timbur úr skóginum. Málverk frá Tailandi eftir Swai Chinnawong. María ber fram mat þegar Jósef og Jesús koma heim með timbur úr skóginum. Það leiðir okkur inn í vítahring að hugsa sem svo: „Vinnan er peningar“. Allt of oft heyrir maður þessu haldið fram, að vinnan snýst um það eitt að afla peninga fyrir verk handa sinna. Og auðvitað er það réttlætismál að fá eitthvað fyrir erfiði sitt. En dæmisagan leiðir huga okkar að því að vinna okkar hefur með Guð að gera. Í einum fallegasta Davíðssálmi að mínu mati segir: „Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér…“ (Sálm. 128). Af hverju er maðurinn lýstur sæll? Jú, vegna þess að hann óttast Drottin, þ.e. hann vinnur verk sitt fyrir Guð sinn og þiggur uppskeru erfiðis síns úr hendi Guðs.

Málverk frá Ta�landi eftir Swai Chinnawong. Mar�a ber fram mat þegar Jósef og Jesús koma heim með timbur úr skóginum. Málverk frá Tailandi eftir Swai Chinnawong. María ber fram mat þegar Jósef og Jesús koma heim með timbur úr skóginum.

Marteinn Lúther hafði merkilega afstöðu til vinnunnar. Hann hélt því fram að erfiði mannsins skilaði honum engu heldur væri árangur erfiðisins allsendis komið undir Guði. Okkur finnst eflaust flestum það of langt gengið að gefa Guði þann heiður en umhugsunarvert er það. Hann er að útskýra versið í Davíðssálmi: „Ef Guð byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis“:

En það er ekki svo að skilja að Guð banni okkur að vinna. Menn verða að vinna og ber að vinna en ekki eiga þeir að ætla sem svo að vinnan fái þeim uppihald og fylli hús þeirra af gæðum heldur er það aðeins að þakka gæsku Guðs og blessun. Því að ef maðurinn reiknar með að vinnan ávinni honum allt þetta þá sprettur upp um leið ágirnd og áhyggjur, og menn hugsa sem svo, að með mikilli vinnu ávinnst mikið. En því getur verið þveröfugt farið, margir vinna mikið en eiga þó varla til hnífs og skeiðar. Aðrir taka vinnunni með allrahanda rólegheitum, og þeir öðlast engu að síður það sem þeir þurfa. Þetta stafar af því, að Guð vill fá heiðurinn, svo sem sá sem einn unnir okkur því að okkur takist vel til. Því þótt þú myndir plægja í hundrað ár og vinna öll heimsins verk, þá gætir þú samt ekki látið eitt einasta strá spretta upp úr jörðinni. En meðan þú sefur, skapar Guð án þinnar vinnu stráið og axið með korninu úr örlitlu fræi. (M.L. s. 235)

2.

Vinnan hefur gildi í sjálfu sér óháð borgun vegna þess að vinna okkar og starf er guðsþjónusta, þjónusta við Guð. Jesús segir í dæmisögunni: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn“. (v. 1). Og það sem er líkt með Guði og þessum húsbónda er einmitt þetta með borgunina, þessi regla Guðs ríkis, að hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir. Það skiptir ekki mestu hvort þú ert bankastjóri suður í Reykjavík eða fiskverkakona á Ólafsfirði, Guð metur starfann til jafns. Í augum Guðs skiptir meira máli hvernig þú vinnur verk þitt en hvað þú ert ráðin til.

Núna í upphafi níu vikna föstu er okkur hollt og gott að hugleiða þetta að verk handa okkar er þjónusta við Guð. Hugleiddu það að verk þitt er Guði að skapi burt séð frá því hvað þú færð borgað fyrir það. Eða skiptir það þig ekki máli að Guð er góðgjarn? Það er gömul og góð regla að biðja og iðja. Bænin hrærist í því að Guð er gæskuríkur og það breytir vinnunni í þjónustu við Guð.

Nú kann einhver að misskilja mig svo að ég haldi því fram að Jesús láti sér launamisrétti litlu skipta. Þeir ríku eru bara ríkir og fátækir eru bara fátækir, við því er ekkert að gera. Fjarri fer því. Þessi regla Guðs ríkis er eins og Guðs orð eins og tvíeggjað sverð. „Hinir fyrstu munu verða síðastir“, segir þar. Guðs ríki gengur gegn öfundinni og ágirndinni, enda eru þær systur af sömu vondu rót sprottnar. Og það segir dæmisagan svo eftirminnilega. Þegar húsbóndinn sendi verkstjórann að greiða launin átti hann að byrja á þeim sem vann eina stund og borga honum full daglaun en þeir sem höfðu unnið allan daginn, „borið hita og þunga dagsins“, fengu jafn mikið, ekki margföld daglaun. Og þá kviknaði hin mannlega öfund. Okkur til glöggvunar getum við tekið dæmið sem ég nefndi áðan, aðferð Guðs ríkis er, að greiða fiskverkakonunni á Ólafsfirði jafn mikið og bankastjóranum suður í Reykjavík. Eflaust yrði bankastjórinn ekki par hrifinn af því. Og það gerist líka í sögunni að allt í einu er einn þeirra sem hafði unnið allan daginn kominn til húsbóndans að kvarta, ævareiður, en húsbóndinn svarar honum: „Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. … Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?“.

Þetta eru öfgarnar í dæmisögunni og aðalatriði, sem Jesús vill kenna okkur. Hann er að segja okkur það að gæsku Guðs nýtur maður óháð eigin framlagi. Hann er ekki að tala um vinnumarkaðinn heldur himnaríki en það væri ekki verra að jarðlífið væri nær Guðs ríki. En öfgarnar í dæmisögunni gera hana að bráðskemmtilegri klípusögu. Hún virðist vera út í hött út frá launakerfi okkar þar sem allt byggist á samanburði launamanna og flokkun og auðvitað átti það sama við þegar sagan var fyrst sögð. Örlæti húsbóndans kemur þeim sem höfðu unnið eina stund svo skemmtilega á óvart að sá sem kvartaði yfir að hafa borið hita og þunga dagsins verður óneitanlega dálítið broslegur í öfund sinni og græðgi. Hvaða ofsjónum sá hann um launin sem hann átti skilið? Áttu þau að vera tíföld daglaun eða meira? Með þessu er Jesús að segja okkur að í trúarlegu tilliti á náð Guðs og gæska að nægja okkur. Oft er það svo í dæmisögum sínum að Jesús hjálpar okkur að brosa dálítið að sjálfum okkur og samfélagi okkar, taka líf okkur ekki of háalvarlega. Það er himinn ofar þessari jörð!

3.

Svona eru margar dæmisögur Jesú, hversdagssögur með tilvísun til Guðs og himnaríkis, sem vekur okkur til umhugsunar og lætur okkur sjá lífið í nýju ljósi, guðlegu ljósi. Þessi dæmisaga vekur hjá mér spurninguna um það hvort eitthvað geti verið ókeypis? Getur maður öðlast eitthvað án þess að hafa fyrir því sjálfur? Í mannlegu samfélagi er það afar fátt sem fæst fyrir ekkert. Jafnvel vinir versla með vináttu sína: “Ég gerði þetta fyrir þig en hvað gerir þú fyrir mig!”, heyrir maður stundum.

Það er stór furðulegt að við skulum ekki vera meira í samræmi við uppruna okkar. Við eigum allt undir Guði skapara okkar. Við eigum uppruna okkar í honum. Og hjá Guði er allt af náð. Örlæti Guðs er með slíkum ólíkindum að við náum ekki að skilja það nema að litlu leyti þó að við náum háum aldri. Okkur er gefið miklu meira en við náum að nýta okkur á langri ævi, gáfur, listfengi, o.s.frv. kunningja og ástvini o.s.frv. sem við náum aðeins lítillega að rækta. Eða við gætum gert miklu meira og betur. En það er bara þannig. Guð hættir samt ekki að vera örlátur við okkur þrátt fyrir það. Ef við gætum aðeins nálgast Guð og líkst honum meira í örlæti og gjafmildi. Það er svo gott að gefa af sér, þá á ég ekki neitt frekar við fjármuni, heldur að gefa af sjálfum sér. Tíminn er ein dýrmætasta gáfa Guðs sem okkur hefur hlotnast. Það er fagurt og gott að gefa öðrum af tíma sínum. Mér finnst það óborganlegar stundir þegar ég er með fjölskyldu minni. Og auðvitað er það svo að þá auðgast maður af nærveru þeirra, kynnist þeim og verður meira þeirra og þau mín. Ég tala nú ekki um þegar barnið horfir í augu manns og segja: “pabbi!, knús”. Þetta er ein mynd af hinni guðlegu náð.

Við erum eitthvað vanstillt. Það vantar á það að við séum stillt inn á bylgjulengd með Guði. Við knýjum allt áfram, álítum að peningar drífi veröldina áfram. Við snúumst um okkur sjálf eins og tannhjól í vélinni ágirnd. Og ágirndinni fylgir öfundin eins og skuggi. En Guð stillir okkur af með orðum Jesú. Í Guðs ríki er drifkrafturinn ekki verðlaun og eigin atorka heldur náð. Og náðin er gefin í upphafi og staðfest með komu Jesú. Náð Guðs er gefins og hana færð þú ókeypis.

Við verðum ekki dæmd og metin eftir því hvað við vorum með há laun á jörðinni eða sátum í merkilegri stöðu í augum manna í efsta dómi heldur hvernig við vorum við náunga okkar.

Aðra dæmisögu sagði Jesú um ríkan mann og fátæklinginn Lasarus sem sat við dyr ríka mannsins og betlaði. Jesús sagði að báðir dóu þeir en fengu öfugt hlutskipti fyrir handan en hérna megin. Ríki maðurinn leið vítiskvalir en fátæki maður var í faðmi Abrahams. Og þá vildi ríki maðurinn endilega að Abraham leyfði sér að skjótast og vara bræður sína við bráðri hættu sem vofði yfir þeim vegna þess að þeir voru ekkert betri en hann sjálfur, en það gafst engin kostur á því. „Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið“, segir orðatiltækið. Þessi dæmisaga er beint að þeim sem eru ósanngjarnir og sjálfhverfir í viðskiptum við meðbræður sína og systur í ríkidæmi sínu.

Við erum hvött til umhugsunar um líf okkar á föstunni og að gera iðrun og bæta líf okkar. Snúum okkur til Guðs og lifum meira í samræmi við örlæti hans og gæsku, afguðum peningavaldið og gerum mannlegt samfélag mannúðlegra.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.