Það eru lífsgæði að þakka

Það eru lífsgæði að þakka

Þakklætið er svo innilega samofið í að njóta lífsins. Hrokinn glepur sýn á það sem dýrmætast er, græðgin blindar og sjálfselskan sundrar hamingjunni. Við eigum svo margt að þakka og njóta. Listin að lifa er að sníða sér stakk eftir vexti. Magnið eða stærðin ræður ekki gildi lífsgæðanna
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
15. júlí 2009
Flokkar

Í guðspjallinu segir frá því þegar Jesús mætir tíu líkþráum mönnum. Þeir hrópa til hans: “Jesús, meistari, miskunna þú oss”. Við fyrstu sýn virðist guðspjallið vera einföld og skýr frásögn af kraftaverki. Ein sagan af mörgum um Jesú þar sem hann hjálpar fólki í raun, læknar, líknar og hjálpar. En í þessari sögu felst mikill boðskapur, vitnisburður um átakamikið líf og ekki síður saga um viðhorf og umgengni við veikt fólk. En ekki síst er hér táknræn saga um þakklæti.

Já, Jesús er á ferð og á vegi hans verða 10 holdsveikir menn. Holdsveiki er sársaukafullur sjúkdómur sem leiðir til dauða með sárum þjáningum. Enn stríða margir á jörðinni við þennan sjúkdóm. Það var mikil blessun þegar tókst að útrýma holdsveiki á Íslandi sem lá þungt á íslenskri þjóð allt fram á síðustu öld. Sr. Mikið má þakka allar þær framfarir sem orðið hafa í landinu okkar síðustu áratugi í heilbrigðismálum sem hafa bætt lífsgæði umfram margt annað.

Á þeim tíma þegar Jesús gekk um á jörðinni, þá voru holdsveikir ekki einvörðungi sjúkir, heldur útskúfaðir úr samfélagi á meðal fólks sem óttaðist smithættuna og taldi enn frekar að sjúkdómurinn væri tákn um hið illa og sjúkir því á bandi djöfulsins. Holdsveikir höfðust við í útjaðri þorpsins á sorphaugunum eða sátu við veginn með útrétta betlandi hönd. En fæstir þorðu nálægt þeim að koma. Þetta viðhorf á öldum áður var samofið í ótta fólks við hvers konar sjúkdóma. Veiku fólki var vikið til hliðar úr daglegu lífi, ekki til að hvílast og þiggja aðhlynningu, hjálp og lækningu, heldur til að þola skömm, sekt og makleg málagjöld fyrir að láta freistast af vélabrögðum hins illa sem veikindin áttu að vitna um.

Þetta, að boða í verki nýtt gildismat um kærleika gagnvart veiku fólki, er ekki síður dýrmætt kraftaverk Jesú samkvæmt frásögninni. Það eru allir jafnir fyrir Guði og njóta virðingar. Og Guð tekur ekki síst þá að sér sem við bágindi eiga að stríða, hjálpar, líknar, læknar og frelsar. Guð útskúfar engum hvernig sem kjörum og aðstæðum er háttað. Þess vegna boðaði Jesús Kristur: “Far þú og gjör slíkt hið sama”. Fylgdu í fótsporin mín og réttu hjálparþurfi líknarhönd. Hlúið að veikum og magnþrota. Þetta þótti á tímum Jesú byltingakenndur kærleiksboðskapur. Í dag finnst okkur á Íslandi að það sé meira en sjálfsagt að þannig eigi að það að vera, líkast eins og eðlislæg skylda sem við erum fædd til að þjóna, að hjálpa sjúkum og þurfandi. En er það svo?

Hér er um siðrænt gildismat að ræða og á rætur að rekja til kristinnar trúar. Uppspretta kærleikans nærist af lifandi trú. Þar á kirkjan að vera gróðurreiturinn þar sem kærleikurinn blómstrar, skjöldur og skjól eins og Kristur í samfélagi með þeim sem höllum fæti standa. Við þekkjum svo mörg dæmi úr veraldarsögunni þar sem kærleiksgildin hafa umbreyst í andhverfur sínar og hatrið tekið öll völd. Og ekki þarf að líta langt yfir á jörðinni í dag til að sjá atburðina þar sem mannvonnskan ræður för. Fjölmiðlar birta okkur myndir af því á hverjum degi þar sem stríðið geisar, ofsóknir herja, saklaust fólk á flótta og milljónir manna lifa við hungur og skort. Það sitja við veginn á jörðinni milljónir einstaklinga sem hrópa sömu orðin og hinir tíu líkþráu: “Jesús, meistari, miskunna þú oss”.

Jesús sagði við hina veiku menn: “Farið og sýnið yður prestunum”. Og svo segir í næstu setningu: “Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu allir hreinir”. Þessi örfáu orð lýsa stórum þáttaskilum. Það var hlutverk hinna gyðinglegu presta að dæma um ástand og hæfni fólks í samfélaginu. Þeir gáfu út heilbrigðisvottorðin sem nær væri að nefna virðingarvottorðin. Jesús sagði þeim að fara til prestanna, sem var vitnisburður um að þeir yrðu heilir. Jesús læknar og án nokkurra skilyrða. Læknar af því að Guð elskar lífið og virðir hvernig einasta mann. Þess vegna sagði Jesús: “Komið til mín þér öll sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita þér hvíld.” Þetta ritningarvers þekkjum við vel og er okkur dýrmætt haldreipi á lífsins leið.

Og Jesús hélt ferðinni áfram. Þá kom aftur til hans einn af hinum tíu holdsveiku, féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. Hann var Samverji, útlendingur, á meðal lægstu stétta í samfélaginu á þeim tíma. Jesús spurði undrandi: “Urðu ekki allir tíu hreinir? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur”? Það er kaldhæðni og sár vonbrigði fólgin í þessum orðum. Hann spurði, en dæmdi ekki, en mennirnir dæma sjálfa sig með verkum sínum. Það gleymdu allir að þakka og gefa Guði dýrðina nema einn af tíu. Hefur það breyst á Íslandi? Holdsveiki var útrýmt. Kraftaverk hafa orðið í heilbrigðismálum með öllum sínum framförum sem engum fyrir 100 árum gat einu sinni gert sér í hugarlund að myndi verða. Er þakklæti ofarlega í huga íslenskrar þjóðar?

Mér verður ætíð minnistætt þegar tveimur mönnum hafði verið bjargað giftusamlega úr lífsháska af skeri eftir bát þeirra hafði á því steytt í foráttuveðri. Viku síðar komu þeir til mín í messu í Heydalakirkju, krupu við altarið, þáðu kvöldmáltíðarsakramenntið í altarisgöngunni, gáfu Guði dýrðina, þökkuðu af huga og hjarta lífgjöf úr háska sem þeir gátu ekki af eigin mætti ráðið við. Á skerinu báðu þeir heitt og innilega: “Jesús, miskunna þú oss”. Þegar þeir voru hífðir upp af skerinu í taug úr þyrlunni þá fundu þeir að þar var Guð að verki.

Það eru mikil lífsgæði fólgin í að þakka. Þakklætið er svo innilega samofið í að njóta lífsins. Hrokinn glepur sýn á það sem dýrmætast er, græðgin blindar og sjálfselskan sundrar hamingjunni. Við höfum svo margt að þakka og njóta. Listin að lifa er að sníða sér stakk eftir vexti. Magnið ræður ekki gildi lífsgæðanna. Það sýndi Jesús með lífi sínu og verkum, að hið smáa og einstæða, er ekki síður dýrmætt, en það sem virðist stærst og mikilfenglegast. Hann benti okkur meira segja á að horfa til fugla himinsins sem hvorki sá né spinna, en Guð fæðir þá og klæðir. Hversu fremur þykir honum þá ekki vænt um manninn sem hann hefur falið alla sköpun sína. Já, sumarið er gróskutími uppskeru og fegurðar. Mikið hefur íslensk þjóð þakkað þá náðargjöf í gegnum aldrinar sem kemur eins lífsandi yfir fólk og jörð. Þakkar þjóðin enn, eða þiggur eins og hvert annað sjálfsagt daglegt brauð?

Megum við standa í fótsporum hins eina manns sem aftur sneri við, gekk á Jesú fund, gaf Guði dýrðina og þakkaði, og heyra Jesús segja: Statt upp, far leiðar þinnar, trú þín hefur gjört þig heilagan. Í Jesú nafni Amen.

Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“

Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“ Lúk.17.11-19