Einn og trúlítill.

Einn og trúlítill.

Kannski erum við óttaslegin og okkur finnst við vera ein á báti þegar bætir í vind og veran á föstu landi fjarlæg svo að ekki verður komið auga á það sem kyrrir? Kyrrð hjartans aðeins augnablik frá vissunni um að vel verði fyrir séð því við erum ekki ein.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
30. janúar 2011
Flokkar

Matt.14.22-33

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen I

Sagan hefur sagt okkur og kennt að oftar en ekki höfum við sem einstaklingar og sem þjóð haft vindinn í fangið og þurft að leita vars hvort heldur á landi og eða er lífsviðurværið var sótt í greipar Ægis sem gat verið morgunfúll og dætur hans Alda og Bára ekki látið sitt eftir liggja að smella kossi á kinnar sæfarenda og á stundum verið frekar til fjörsins, skilið eftir sig sorg í landi hjá þeim sem biðu milli vonar og ótta um sína sem höfðu oftar en ekki ofviðrið í fangið eða gleði þeirra sem fengu sína heim. Þessa staðreynd blæs saga þjóðar fast í vitund okkar sem í dag lifum svo kröftulega að víðsfjarri er í huga, hvað þá að geta gert sér í hugalund þá baráttu sem átti sér stað um dag hvern þar sem lífið var í trausti lagt í hendur Drottins að hann myndi vel fyrir sjá hvort heldur til sjávar eða sveita. Aldrei var svo að ýtt var úr vör í eigin mætti heldur mætti þess sem gaf og þess sem tók. Það var gefið og það var tekið og alltaf skildi farið með sjóferðarbæn áður en Ægisdætur kysstu boðung og kinn. Ólgandi sjór, ólgandi vindur, ólgandi hjarta tókust á um hver hefði betur, mátti vart sjá og skynja hver óttaðist hvern og hvernig sagan yrði og var skrifuð á grýtta eða sendna strönd sjávarsíðunnar eða á ófrjóu landi heiðarbýlis þar sem verkin þoldu ekki bið heldur unnið í sveita síns andlits í dagsláttu drottins með bænarorð á vör að móðir jörð gæfi af sér líf þeim sem yrkjuðu og þáðu - ekki í eigin mætti heldur mætti þess sem öllu réði. II Guðspjall þessa sunnudags talaði til samtíðar forfeðra og mæðra okkar eins og það gerir í samtíma okkar í dag á ólíkan hátt þótt vindar og stormar séu þeir sömu þá og í dag. Það er ekki hægt að tala um að megin þorri fólks í dag sem fer til vinnu eða hvílist á þessum degi sé að tefla í neina tvísýnu eins og raunin var hér fyrrum þegar systurnar sem áður voru nefndar og önnur til Bylgja höfðu allt að segja hver afkoman yrði við sjávarsíðuna og þess sem til landsins gagn og nauðsynjar heyrði til í grösugum sveitum og heiðum. Í dag er miklu frekar hægt að tala um storm innra með hverjum og einum. Eitthvað sem ekki er að finna á veðurkortum fræðinga dagana fyrir heldur skellur á þegar síst skyldi sem getur leitt af sér ótta og öryggisleysis hjá þeim sem í lendir.

Auðvitað er það svo og mun verða að veður getur gerst válynt þeim sem fer um og á sér ekki augnabliks skjól þarf ekki veðrið til heldur og náttúruhamfarir viðlíka þeim sem við fengum að kynnast fyrir tæpu ári síðan er Eyjafjalljökull gaus. Ef við lítum okkur nær í tíma á flóðin í Ástralíu og aurskriðurnar í Brasilíu núna um daginn svo eitthvað sé týnt til síðustu vikurnar. Þá minnir það á vanmátt okkar. Við sem einstaklingar og þjóð höfum fengið okkar skerf af hamfaraflóðum í föstu eða lausu formi vatns og öðru því sem seint teldist til náttúrunna hamfara, sem lagði að huga ótta og óvissu um framgang alls. Víst er að margur hefur á þeim stundum ákallað Drottinn með orðum eins og Pétur í guðspjallinu, „Drottinn, bjarga þú mér.“ III Allrajafna í dag er skjól að hafa í bókstaflegri merkingu þess orðs fyrir veðri og vindum hvort heldur ferðast er um á sjó eða á landi. Fley hafsins eru búin þannig að þau eiga að þola yllgdan sjó og híbýli skjól hverjum fyrir blæstri Kára svo að úr verður ámótlegt ýlfur eitt fyrir utan tvöfalt glerið heima í stofu og snarkandi kyrrðin fyrir innan hlær og hugur víðsfjarri ótta um að farast í þeirri merkingu sem við setjum við að farast í veðraham.

Kyrrðin fyrir utan er ekki sú kyrrð sem forfeður og mæður okkar settust niður með því stormur nútímans lægir sig ekki fyrir okkur heldur hefur komið sér fyrir innra með hverju og einu okkar þar sem ekkert fær hamið hann þar sem fátt er um skjól því við höfum ekki haft fyrir því að leita vars nema í eigin mætti. Lygna lífsins í dag eru sveipuð angist, ótta, freistingum, ákvörðunum um að eitt sé öðru fremra til að komast að því að það var svikalogn. Með öðrum orðum, það er ekkert öruggt í heimi þessum, sem aftur þýðir ekki það eitt að við eigum að halda að okkur höndum til að ekkert verði okkur að áfalli með vindin á móti eins og sagði frá í guðspjallinu heldur erum við minnt á að við erum aldrei ein. Hvort heldur í meðbyr og eða í mótvindi. Í meðbyr finnum við til eigin máttar, útbólgin af hroka ein og óstudd stöndum við í stafni lífsins sem er blekking því erum ekki ein og við erum ekki óstudd. Í mótvindi og yfirlæti þess sem telur yfir sig hafið að hlusta á röddina sem hrópar upp í vindinn „Kom þú“ kunnum við að finna til kyrrðar og öryggis hið ytra eina stutta stund og áræðum að svara ekki kallinu.

Sem aftur leiðir til þess að manneskjan á í stormasömu sambandi við sjálfið sitt sem ekki verður mælt með mælikvarðanum „metrum á sekúndu“ því allt segir að spor og fingraför efans er það sem mæti nútímamanninum og það sé vel því átök hversdagsins og náttúrunnar hefur færst frá því sem var augljóst ytra í það sem er huglægt innra með hverjum og einum. Í þeim átökum er margur sem finnur sig einmana - já og ráðvilltur. Velkist um á opinni bátkænu hugans ekki í stakk búin að taka á móti beljandi síbylju orða nútímans um að maðurinn er einn. Einn og trúlítill. Allt tal um annað tilheyrir gærdeginum sem kemur ekki aftur nema afturgengin, sem ekki er mark á takandi og hjartað innra með hrópar, óttaslegið – því hefur þú yfirgefið mig í stormi. Fyrir hans orð lögðum við af stað. Fyrir hans orð erum við hér þótt gefi á bátinn. IV Jesús eins og sagði frá í guðspjallinu sendir lærisveina sína á bátkænu út á vatnið í kyrrð sem umbreyttist í ofviðri og við vitum framhaldið. Það sama á sér stað í dag, við hvert og eitt okkar erum send, en eini munurinn er sá að við vitum ekki framhaldið. Kannski erum við óttaslegin og okkur finnst við vera ein á báti þegar bætir í vind og veran á föstu landi fjarlæg svo að ekki verður komið auga á það sem kyrrir? Kyrrð hjartans aðeins augnablik frá vissunni um að vel verði fyrir séð því við erum ekki ein. Kannski erum við ekki ósvipuð Pétri sem átti það til að framkvæma verkin umhugsunarlaust sem honum var trúðað fyrir án þess að velta fyrir sér afleiðingunum. Var oftar en ekki skrefinu á undan sjálfum sér. Sem aftur kom honum í slæma stöðu í vandræði. Þetta hljómar kunnulega í eyru. Þegar allar leiðir virtust lokaðar og hann með vindinn í fangið við það að gefast upp sökkva, viðurkenndi hann vanmátt sinn, útrétt hönd „þvi efaðist þú.“ V Það er mannlegt að efast. Við eigum að efast. Hvar værum við í dag ef við efuðumst ekki. Það þarf ekki að hafa mörg orð um að ákveðnum augnablikum lífs okkar sem einstaklinga og sem þjóðar er nauðsynlegt að efast. Efinn gefur okkur tækifæri til, eina stund að íhuga á hvaða leið við erum. Það hefði verið betra um árið þegar þjóðin var að sökkva eftir að efanum um eigið ágæti var kastað fyrir róða.

Eigin máttur og framtíðarsýn vék fyrir vissunni sem stæðist eitt og óstutt öll veðrabrigði mannlífsins utan frá séð, en innra barðist efinn um í stormi bjartsýninnar og við vissum það. Við kusum að vera ein á báti. Sá eða sú sem kýs að vera ein á báti horfir á tilveruna vonlausum augum. Ýta úr vör í eigin mætti, ekki litið um öxl til þeirra sem stóðu hjá og létu sig varða líf og mátt alls. Hlustuðum ekki þar til að eigin máttur dvínaði í gjörningarveðri, því áratog eins má sín lítils, en alls þegar við viðurkennum okkar eigin vanmátt. Hleypum um borð og eigum að þann sem við í angist að farast að sökkva getum rifið í trú og finna að efinn og óttinn dvínar og um síðir fyllast vissu um að vel verði fyrir séð.

Ekki í eigin mætti heldur mætti þess sem tekur og gefur. Það hefur blásið um og það mun gefa á boðung og kinn lífs okkar. Það vissu forfeður okkar og mæður sem ýttu úr vör frá grýttri og eða sendinni strönd lífs síns þar sem lítið skjól var að hafa nema hugan einn að almáttur Guð vakti yfir velferð þeirra. Hvers vegna ættum við ekki að gera það líka umvafin skjóli alls?

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen

Takið postullegri blessun:

Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen