Um karl-miðlægni kirkju og trúarbragða Ég hef lesið með miklum áhuga fréttir af heimsráðstefnu trúarleiðtoga, sem æðsti yfirmaður rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, Alexy patriarki Moskvu og alls Rússlands, bauð til í Moskvu 3.-5. júlí sl. Frá Íslandi sóttu ráðstefnuna Karl Sigurbjörnsson, biskup þjóðkirkjunnar og Bjarni Randver Sigurvinsson, sérfræðingur í málefnum þvertrúarlegra samskipta. Til ráðstefnunnar voru boðnir leiðtogar helstu kristinna kirkna heims, Islam, Gyðinga, Búddista, auk fulltrúa Hindúa, Síka og Shintó. Megin umræðuefni ráðstefnunnar voru samræða ólíkra siðmenninga, leitin að nýjum leiðum til friðar og réttlætis í samskiptum þjóða heims og hvernig sigrast má á hryðjuverkum og hleypidómum.
Í frétt á kirkjan.is 11. júlí er meðal annars fjallað um lokaályktun ráðstefnunnar og kemur margt umhugsunarvert þar fram. Áhugavert er að sjá fulltrúa ólíkra trúarhefða og menningarheima sameinast um að draga fram mikilvægi trúarbragðanna sem vettvang þess sem hlúir að hugsun, menningu, siðgæði og samfélagi mannanna. Ályktunin heldur jafnframt fram þeirri lykilstöðu sem trúarbrögðin hafa til að skapa forsendur til sátta, friðar og samtals milli menningarheima.
Ráðstefnan í Moskvu var sérstaklega mikilvæg vegna þess að þar voru saman komnir til samtals óvenju margir háttsettir leiðtogar trúarbragða og deilda innan þeirra. Enda báru titlar þeirra sem viðstaddir voru þess merki: Sjeikar, ajatollar og yfirmúftar, patríarkar og höfuðbiskupar, kardínálar, biskupar, erkibiskupar og yfirbiskupar, æðstuprestar og munkar. Dömur mínar og herrar: þetta eru leiðtogar kirkna okkar og trúfélaga. Hvað eiga þessir einstaklingar sameiginlegt? Þeir eru allir karlar.
Um leið og ráðstefna af þessu tagi vekur með mér bjartsýni og gleði yfir samhug og einlægni trúarleiðtoga til að beita sér í þágu þess sem er til góðs fyrir alla, óháð trúarbrögðum og menningarbakgrunni, minnir hún líka óþyrmilega á þá staðreynd að málefni trúarbragðanna, kristinnar kirkju sem annarra, eru alfarið í höndum karlmanna. Það er óneitanlega einsleitur – og þar af leiðandi snauður – hópur sem ræðu og miðlar málefnum trúar og trúarbragða í heiminum í dag. Þarna hefur lítil sem engin breyting orðið frá örófi alda. Og það sem verra er, engin vísbending er um að breytinga sé að vænta úr þessari átt.
Sé mannval á heimsráðstefnu trúarleiðtoga marktækur mælikvarði á stöðu kvenna innan kirkna og trúfélaga, eru samkomur af þessu tagi í besta falli dapurleg áminning um skort á næmni trúarleiðtoga fyrir mikilvægi framlags kvenna í samfélagi trúaðra en í versta falli staðfesting á kerfisbundinni útilokun trúarbragðanna gagnvart áhrifum og ákvörðunum kvenna.
Tilfinning mín er að hvoru tveggja geti verið tilfellið. Innan þeirrar hefðar sem ég þekki best, kristinnar kirkju, hafa guðfræðingar í vaxandi mæli bent á áhrif feðraveldisins og hinnar karlmiðlægu hugsunar á kenningar og heimsmynd kristinnar trúar. Frá dögum ritningarinnar til vorra daga hafa raddir og andlit kvenna verið máð út og haldið til hliðar til að skapa pláss fyrir framlag og hugsun bræðra þeirra. Líklegt þykir mér að eitthvað svipað sé uppi á teningnum í öðrum trúarhefðum. Þessi inngróna hefð mótar og styður hugmyndir þeirra sem enn ráða á málefnum kirkju og trúarbragða. Enn sjá þeir ekki þörfina og bjargræðið sem felst í því að taka konurnar með að því borði samfélags og samtals þar sem málum trúarinnar er ráðið.
Það er nefnilega bjargföst trú mín að góð og rétt markmið sem tjáð eru í ályktun heimsráðstefnu trúarleiðtoga um að byggja betri framtíð fyrir fjölskylda mannkyns, náist aðeins þegar konur fá að sjást og heyrast – líka í hópi trúarleiðtoga.