Hvað er mikilvægast?

Hvað er mikilvægast?

Svo lengi sem við höldum áfram að spyrja hvað sé mikilvægt – og hvað sé mikilvægast – þá er von. Við eigum von.

Kópavogskirkju

Guðspjall: Matt. 5.13-16
Jesús sagði: „Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“

Hvað er mikilvægt? Hvað skiptir mestu máli? Hvernig getum við verið viss um það hvað mikilvægast er?
Í fyrra var þess minnst að fimm hundruð ár voru liðin frá upphafi siðbótarinnar. Marteinn Lúther hratt af stað hreyfingu sem hafði djúprætt áhrif á kristnina. Siðbótin náði traustum tökum, ekki síst hér á Norðurlöndum. Það fer ekki milli mála að hún hefur haft grundvallaráhrif á næstum því öll svið lífsins í söfnuðum okkar og samfélögum. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig norræn þjóðfélög litu út án áhrifa siðbótarinnar.

Meginspurning siðbótarinnar var einmitt sú sem ég setti fram í upphafi máls míns: Hvað er mikilvægt, hvað skiptir mestu máli? Hvað er mikilvægast í okkar kristnu trú? Hvað varðar mestu í mannlegum samskiptum? Hvað skiptir mestu máli í samfélögum okkar og hvað varðar hlutverk okkar sem þjóðfélagsþegnar?

Þetta eru ekki bara spurningar gærdagsins, viðfangsefni þeirrar löngu liðnu daga þegar Lúther varpaði þeim fram. Þessar spurningar skipta meginmáli máli enn í dag, árið 2018. Vegna þess að það sem mikilvægast er tengist lífi okkar og framtíð.
Það er okkur eðlilegt að gleyma því, eða horfa framhjá því sem mikilvægast er. Tökum til dæmis Lúther og málefnin sem hann setti á oddinn í siðbótinni. Fimmtán hundruð árum fyrir daga hans þá fól Drottinn okkar, Jesús Kristur, fylgismönnum sínum hlutverk á hendur, hann sendi þá út í heiminn: Farið og boðið gleðifréttirnar um þann Guð sem varð maður í Jesú frá Nasaret. Farið og boðið fyrirgefningu syndanna og náð Guðs í Jesú Kristi. Farið og sannfærið allar þjóðir um að Guð elskar alla og það sem er mikilvægst alls, það sem nauðsynlegast er er að elska Guð og náungann. Farið og lifið í friði og sátt við Guð og annað fólk og alla sköpunina.

Þetta hlutverk hvarf aldrei algerlega úr huga kristins fólks þá munaði litlu að það hyrfi undir margvíslegum hefðum og venjum, mannlegum tiltækjum sem næstum því skyggði á mikilvægi trúarinnar á Jesú Krist. Siðbótin hvatti kirkju Vesturlanda til að uppgötva að nýju náð Guðs, án allra skilyrða.

Í dag er hafa rómversk kaþólska kirkjan og kirkjur siðbótarinnar náð sameiginlegum skilningi á trúnni á Krist og réttlætingu af trú. Það er sannarlega athyglisvert. Eftir margra aldra ósætti höfum við náð saman um skilning á því hvað mikilvægast er.
Í guðspjallinu sem hér var lesið heyrum við Jesú ræða við lærisveina sína. Svona setur Drottinn fram það sem mikilvægast er.
„Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum..”

Að vera kristin manneskja er nokkuð sem ætti að vera hægt að sjá og finna og bragð er að. Vitnisburður kristninnar er nokkuð sem kemur fram í breytni og verki. Það verður ekki nema við lifum í nánu samfélagi við Drottin, vegna þess að það er hann sem gefur saltinu sinn sérstaka keim og er ljósið sem okkur er falið að bera birtu af í umhverfi okkar með lífi okkar. Það er mikilvægt að Drottinn sé sýnilegur í okkur, að í okkur sé hægt að skynja, sjá og smakka Krist.
Um þessa helgi hafa höfuðbiskupar lútersku þjóðkirknanna á Norðurlöndum fundað hér á Íslandi. Við höfum tekið þátt í Norðurheimsskautsráðstefnunni, Arctic Circle, þar sem loftslagsbreytingarnar eru í brennidepli. Við höfum rætt sérstaklega það sem Biblían segir um hlutverk okkar sem ráðsmenn yfir náttúrunni og hvernig það snertir okkur nú í dag. Við höfum líka rætt hvað lútersku kirkjurnar geta gert til að hafa áhrif á þjóðfélög okkar til að ummynda þau og lífsstíl okkar sem nauðsynlegt er til að koma á friði við jörðina og milda áhrif loftslagsbreytinganna, sérstakega hvað varðar hlýnun á norðurslóðum.

Spurning Jesú og siðbótarinnar er miðlæg andspænis loftslagsbreytingunum: Hvað er mikilvægt? Hvað skiptir mestu máli? Siðbótin festi djúpar rætur hér á Norðurlöndum. Við tilheyrum þjóðum sem hafa náð mikilli velmegun. Okkur hefur tekist að leysa feikimörg alvarleg samfélagsmein og þjóðir okkar eru meðal þeirra auðugustu í heiminum með háþróuð velferðarkerfi. En hvað er mikilvægt? Hvað skiptir mestu máli? Höfum við í viðleitni okkar að auka á velmegum gleymt því sem er mikilvægast? Höfum við gleymt velferð náttúrunnar? Höfum við gleymt orðum Jesú, því sem hann setti okkur fyrir, það hlutverk að hafa áhrif, vera salt jarðar og lýsa öðrum sem ljós?
Það þarf ekki að útlista mikilvægi velferðar jarðarinnar okkar. Það er orðið svo augljóst að allt líf, þar á meðal mannlegt líf, er algerlega háð möguleikum jarðar á að næra okkur. Jörðin er sköpun Guðs. Að vera salt jarðar merkir að bera ábyrgð. Að vera ljós heimsins merkir að horfast í augu við raunveruleikann og vandkvæði öll í sannleika, óttalaus. Og hvort tveggja verkefnið merkir að bera endurskin af nærveru og valdi Drottins okkar Jesú Krists.

Hvað er mikilvægt? Hvað skiptir mestu máli? Þessar spurningar siðbótarinnar eru alltaf brennandi. Við þurfum slíkar spurningar þegar við hugleiðum samfélag okkar við Guð, við hvert annað, við allt sem skapað er. Svo lengi sem við höldum áfram að spyrja hvað sé mikilvægt – og hvað sé mikilvægast – þá er von. Við eigum von.

Íslensk þýðing, hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup