Í dag 22. september er haustjafndægur, 100 dagar eru nú eftir af árinu. Guðspjallatexti dagsins í dag úr guðspjalli tvö, Markúsi. Og í öðrum kafla, 22. versi er talað um gamla og nýja belgi.
Sigurður Steindór Pálsson orti eitt sinn um jafndægrin. Hvernig nú á þessum kristaltæru þáttaskilum er sumarsins dýrð hægt að deyja við haustsins barm og hægt er að finna hvernig allt sem áður fagnaði vori drúpir nú höfði. Sólblíðan milda sofnar nú um óvissan tíma, síðdegin rökkvast, hélan frussast að morgni. Í sálunum rökkvast líka, sumum hverjum, stress læðist kannski um hugskot manna og dýra, þreyjum það samt flest og berum í hljóði. Og draumar vaka og vakna.
Og merkilegir hlutir áttu sér stað 12. september síðastliðin! Geimfarið Voyager er nú fyrsti manngerði hluturinn til þess að fara út fyrir sólkerfið okkar, á vit nýrra heima! Voyager var í fyrstu skotið út í geim til þess að kanna aðrar plánetur en hélt síðan alltaf lengra og lengra áfram og er nú komið 19 billjónir kílómetra frá jörðu. Þessi viðburður markar bæði vísindaleg og söguleg þáttaskil. En hvað þá með nýjar bætur og nýtt vín, hvernig tákna þau þáttaskil?
Nýtt vín er tákn fyrir nýtt líf, hver stofnun þarfnast endurnýjunar. Fjölskyldur þarfnast endurnýjunar og fólk þarfnast endurnýjunar. Lífið kemur í kaflaskilum. Fyrst kemur ós af spennu hins nýja; síðan tekur við stöðugt átak í glaðri þrautseigju; og loks birtist hættan á að stranda. Er hjólförin formast og dýpka um of. Dauði rútínunnar. Það gerist í nýjum vinnum, nýjum leikföngum, nýjum húsum og nýjum kirkjum.
Kirkjan þarfnast endurnýjunar. Auðveldasta leiðin til að fá tilfinningu fyrir endurnýjun er að fá nýja sýn. Ný sýn fæst oft við að takast á við nýjar áskornanir. Ný áskorun þýðir nýjir sigrar sem eykur væntingar og framtíðin opnast. Dreymendur dreyma. Möguleikarnir víkka sjóndeildarhringinn. Og þeir ásamt litlu gleðistundunum í öryggi hins þekkta gefa okkur veganesti fyrir ný ævintýri.
Hvort sem vilji er fyrir endurnýjun eða ei birtast okkur óhjákvæmilegar breytingar á lífsleiðinni, líkt og haustjafndægrin. En stundum felast breytingar í að vona og þrá. Þannig geta draumar, væntingar og vonir opnað fyrir okkur nýja heima.
Jesús sagði; enginn hellir nýju víni á gamla vínbelgi. Nýjir belgir hafa styrkinn til þess að standast gerjunarkraft nýs víns. Kristur segir okkur hvernig það er ekki hægt að blanda saman frelsi kristindómsins við stífleika lögmálshyggju Gamla sáttmálans, hvorki lögmálshyggjan né frelsi kristins hjálpræðis lifir það af. Trúin getur frelsar okkur til kærleika og góðra verka, til að vaxa í sjálfum okkur og samfélagi okkar. Kristur biður að við notum okkur ekki trúnna eins og bót á gamla flík. Bótin mun ekki vera jafn hlaupin og flíkin, síðan þegar bótin hleypur rífur hún gatið enn meira. Þannig stærra gap myndast í lífssýnina ef við komum fram við kristna trú eins og uppfyllingarefni.
Kristin trú er meira en uppfyllingarefni, hún er vegurinn til nýs lífs, til nýrra heima. Salvador Dali var einn af helstu listamönnum 20. aldarinnar og aðhylltist súrealisma. Dali málaði verk sem kallast Draumur Kristófer Kólumbusar. Það var stærsta verk hans og þar umbreytir hann kunnuglegri sögu ferðar Kólumbusar til nýja heimsins í epískan draum uppgötvunar og sjálfsþekkingar. Þar er könnuðurinn sýndur í flæðandi kufli með skip sitt í bakgrunninum, málaður á því augnabliki sem hann er við það að stíga fæti á nýja heiminn.
Dularfyllsti hluti málverksins alls er stjörnu ígulker í forgrunninum. Dalí uppljóstraði seinna meir að það átti að tákna tunglið og fyrsta skref Neils Armstrongs þar. Þannig í gegnum táknmyndir varpaði Dalí fram hliðstæðu milli mánagöngu Armstrongs og könnunar Kólumbusar. Í þessu málverki renna saman í eitt margir ólíkir nýjir heimar sem uppgötvuðust gegnum aldirnar; stjörnugeimurinn gegnum geimferðir Armstrongs, siglingar Kólumbusar og fleiri landnámsferðir má sjá í ótal fánum á myndinni. Kannski leynist fáni Leifs Eiríkssonar þarna einhversstaðar. En það sem Salvador lætur tengja þessi ferðalög saman, sem eitthvað stórbrotið og tignarlegt er að Guð er með í för og kristindómurinn er vegurinn. Að sjálfsögðu er lífið ekki alltaf stórbrotið né tignarlegt, hvorki för Kólumbusar né hversdagslífið í dag, en í draumkenndri sýn listaverksins virðist allt tengjast á dulrænan og tignarlegan hátt.
Málverkið birtir von og trú á þessa endurnýjun og þá fersku sýn sem gefst í því að –trúa- á hinn skapandi kærleiksmátt Guðs. Myndin birtir einlæga leit eftir nýju upphafi í Guðs nafni, fyrir okkur sjálf og samfélagið allt. Hvað mun Guð gera með líf okkar núna í haust? Hvernig getum við verið þáttakendur í breytingunum sem Guð ætlar okkur, í stað þess að hindra kannski óvart? Getum við verið eins og Voyager og Kristófer Kólumbus og farið út fyrir landakortið? Hvernig getur trúin orðið okkur ferðalag frekar en uppfyllingarefni?
Þrá og leit Kólumbusar er tákn fyrir von hans. Von um betra líf. Von þýðir að hlakka til einhvers með vissu. Í Rómverjabréfi stendur skrifað í 8. kafla: Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér? 25 En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði. Vonina má finna Jesús Kristi, hann færir okkur að nýju landi, ef við treystum honum, smættum hann ekki og leggjum á vit ókannaðra landamæra, út fyrir þægindasviðið, í átt að nýjum heimum.