Guðspjall: Matt 9.1-8 Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“ En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“ Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.
Þegar ég lít í spegilinn á baðherberginu á morgnana, þá er misjafnt hvað ég sé. Stundum blasir við mér úthvíldur og vel snyrtur einstaklingur, tilbúinn að halda út í daginn með trú á lífið. Stundum er það allt önnur mynd, og mér birtist okkur úfinn og þreytulegur einstaklingur, sem langar ekki par út fyrir hússins dyr. Að minnsta kosti ekki næsta klukkutímann. Og, nei, það þýðir ekki fyrir mig að kenna speglinum um. Spegill sýnir bara það sem sett er fyrir framan hann. Stundum er sagt að Biblían sé eins og spegill, þar sem við sjáum okkur sjálf í hinum ýmsu persónum og breytilegum aðstæðum. Þar getum við birst í jafn ólíkum myndum og í baðherberginu. En það er samt ekki útlitið, sem spegill Biblíunnar sýnir. Nei, það er miklu fremur spegill sem sýnir okkar innri mann, eins konar sálarspegill. Sagan í guðspjallinu hentar vel til að við skoðum betur okkar innri mann, og veltum því fyrir okkur hver og hann er í raun og veru. Hvar stend ég? Hver er ég? Sálarspegill guðspjallsins getur verið jafn mismunandi og spegillinn á baðinu. Stundum virkar hann uppörvandi og hvetjandi, en stundum dæmir hann okkur líka hart og sýnir mér napran veruleika. Saga dagsins er með marga spegla. Sumir speglarnir hér sýna mér einn af þessum minna-góðu-dögum. Aðrir endurspegla kannski sjálfstraust og öryggi. Enn aðrir endurspegla eftirvæntingu og von. Lítum fyrst í síðastnefnda spegilinn. Horfum til lama mannsins. Finnum við einhvern samhljóm í sálinni með lama manninum? Líf hans var ekki auðvelt. Hann átti ekki margra kosta völ í lífinu, hann var í fjötrum lömunar og glímdi við fordóma í sinn garð. Fordóma þekkjum við enn þann dag í dag, af ótalmörgum gerðum. En síðast en ekki síst glímdi lami maðurinn við sektarkennd, þar sem sjúkdómar voru raktir til syndar, ýmist eigin eða forfeðranna. Sektarkenndin, vansæmdin, sem af þessu hlaust, og hann bar utan á sér, var verst af öllu. Margir þekkja það, að það er erfiðast að vera öðruvísi en allir aðrir. En þegar maður finnur annan verður það auðveldara. Þegar ég er kominn í aðstæður sem ég ekki ræð við, þá verður það auðveldara að opinbera fákunnáttu sína þegar ég finn að aðrir eru á sama báti. Það er erfitt að vera fátækur, en það verður uðveldara að vera fátækur innan um annað fátækt fólk. En maður vill ekki alltaf vera útundan. Og lami maðurinn var að einu leyti ríkur og hafði það gott. Hann átti góða vini. Það er mikið ríkidæmi. Nýlega las ég haft eftir sálfræðingi að það væri afrek ef maður gæti komið sér upp fimm góðum vinum á lífsleiðina. Og hvað eru vinir? Það eru sálufélagar, sem skilja okkur betur en aðrir. Það er líka mikilvægt að við getum sýnt þeim meiri trúnað en öðrum. Síðast en ekki síst verðum við að muna að koma þeim til hjálpar þegar eitthvað liggur við. Vinir lama mannsins sýndu vináttu sína í því að láta sér annt um hann. Þegar Jesús kemur í bæinn þeirra ná þeir í lama manninn og koma honum á hans fund, því þeir höfðu heyrt að hann læknaði sjúka. Hvað sjáum við þegar við horfum í spegillinn sem vinirnir bregða upp. Hvernig lítur vinaspegillinn okkar út? Höfum við munað eftir að sýna vináttu í verki? Höfum við gefist of fljótt upp fyrir erfiðleikum? Horfum við í spegil ásökunar um að gera ekki nóg? Og, það sem er mikilvægasta spurningin, hvað ætlum við að gera í því? Munum að spegillinn á að sýna okkur vongleðina yfir því að enn er möguleiki, dagurinn er rétt að byrja. En kannski sýnir spegillinn þér í dag þá sem mótmæltu Jesú og hvað eftir annað reyndu að veiða hann með vandlega orðuðum spurningum, ekki vegna þess að þeir vildu vita sannleikann, heldur reyna að veiða hann í gildru, koma honum í vandræði, svo þeir gætu hneykslast á honum við alla. Eins og þeir voru fljótir að hneykslast umhyggju Jesú fyrir hinum lamaða, og þeim orðum sem fylgdu: Þér er fyrirgefið. Fræðimönnunum var létu sér fátt um finnast með ama manninn, það er að segja, þeir höfðu ekkert á móti lækningunni, en þeir höfðu ýmislegt að athuga við að syndir hans væru fyrirgefnar og þurrkaðar út á staðnum. Það litu þeir grafalvarlegum augum, því þar var gengið inn á verksvið hins heilaga og hæsta Guðs, og það jafngilti Guðlasti, sem var alvarlegra en þótt einhver væri haldinn lömun. Nú segir þú kannski, að ekki hafir þú neitt á móti því að menn fái syndir sínar fyrirgefnar. En vertu ekki svo viss. Við erum kannski líkari fræðimönnunum en kann að virðast við fyrstu sýn. Við höfum oft okkar ákveðnu skoðanir á því hvað sé rétt og rangt, og viljum stundum að fólk fái sína réttlátu refsingu og málagjöld. Hvað með útrásarvíkingana? Hvað með þá sem einu nafni eru nefndir hrunverjar? Köllum við ekki eftir dómum og afplánun? Hversu tilbúin er ég til að fyrirgefa þegar eftir því er leitað? Og hversu auðvelt reynist mér að biðjast fyrirgefningar, þegar ég veit að ég hef gert rangt? Stundum finnst mér fólk sýna trúnni og kirkjunni óvirðingu, og hef engan áhuga á samræðum við það fólk, nema ef og þá aðeins ef þær byrja með afsökunarbeiðni. Formsatriðum þarf að fullnægja. En ekki alltaf. Stundum er innihaldið mikilvægara og ryður formsatriðum frá.
Jesús bregst við gagnrýni og ásökunum með því eina sem virkar: sannleikanum. Hann sýnir hvað er satt: að Guð hefur gefið honum vald því að hann er sonur Guðs. Vald til að gefa lömuðum kraft á ný til að rísa á fætur, vald til að fyrirgefa syndir og reisa sjálfsvirðinguna við. Með öðrum orðum: Það er ekki allt fengið með því að lækna lamaðan mann, það er líka nauðsynlegt að aflétta byrðum af sálinni. Það má líka segja að ekki sé allt fengið með því að hafa skrokkinn í lagi, það þarf líka að huga að sálinni. Hafi sjálfsmyndin í speglinum verið í lagi, þá er í guðspjalli dagsins brugðið upp sálarspegli fyrir okkur, sem okkur er hollt að líta í. Það er lífsspegill okkar eigin sálar, sem getur sýnt okkur djúpt í vitund okkar og innra líf: Hvar stend ég, hvers er mér vant, hver er sannleikurinn um minn innri mann? Það er ekki sagt hvað fræðimönnunum fannst. En það er sagt að fólkið sem á horfði hafi lofað Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Hugum vel að því að orðalaginu. Því miður voru fræðimennirnir ekki í meðal áhorfenda, þeir voru þátttakendur í því sem gerðist. Það er ekki góðs viti, en kemur heldur ekki á óvart, að þeir láta ekki sannfærast, jafnvel þótt þeir sjái tákn og undur, og þannig er það enn í dag með þá sem hafa lokað hjarta sínu. Hvað með okkur? Er hjarta okkar lokað þegar trúin kemur kraftaverki til leiðar? Höfum við munað að þakka fyrir að skaparinn hefur séð í gegnum fingur við okkur og blessað okkur með margvíslegum gjöfum? Höfum við munað að þegar við tölum við vin verðum við stundum að loka munninum, hlusta með báðum eyrum og opna hjartað upp á gátt. Lærisveinar Jesú áttu stundum erfitt með að skilja hvað hann væri að tala um og gera, og ekki síður erfitt með að lifa í samræmi við það sem hann sagði og gerði. En eftir lengra leið skyldu þeir það betur. Og þannig er það líka með mig. Eftir því sem við heyrum oftar og meira um Jesú, þá öðlumst við betri innsýn í það sem sagt er, og byrjum að skilja það að Jesús sýndi að kærleikurinn er sterkasta aflið, hann sigrar allt að lokum, og gefur líf. Ég vona að sálarspegill Biblíunnar hjálp mér til að sýna auðmýkt og iðrast þess sem ég höfum vanrækt eða brotið. Ég vona að við öll getum lofað Krist með þeim sem lofa hann í sögu dagsins, og fylgt honum, lært að endurskoða allt sem við höfum lært, í ljósi kærleikans og lífsins. Yfir innganginum í þessari kirkju er rituð orðin: Vegurinn sannleikurinn og lífið. Jesús er það allt, núna. Við fáum ekki alltaf svarið sem við viljum, en við fáum alltaf það sem við þurfum. Það er fleira mikilvægt en að hafa rétt fyrir sér, og það er að vera elskaður og lifa í kærleika hans og náð, af náð og fyrir náð Krists.