Ég er búin að skrá mig í maraþonhlaup í Berlín í september. Reynslan segir að það sé ekkert varið í að taka þátt í hlaupi nema undirbúningurinn sé í lagi. Það er mikilvægt að hafa þokkalegan grunn og byggja svo sérhæfða æfingaáætlun ofan á hann. Á léttri sumargöngu í Heiðmörk fór ég að hugsa um hvað hlaupaæfingar og aðstæður okkar í kirkjunni eiga sameiginlegt.
Okkar grunnur er sá besti sem völ er á. Við byggjum á frelsaranum Jesú Kristi, lífi hans, starfi, gleði, þjáningu, dauða og upprisu. Nú þurfum við að setja okkur langtíma markmið, við erum ekki í spretthlaupi, þetta er maraþon. Sprettæfingar eru engu að síður mikilvægar.
Við þurfum að þjálfa snerpu. Heimurinn sem við búum í er heimur hraða. Við þurfum að segja sannleikann, ef við treystum okkur ekki til þess þá viðurkennum við það frekar en að segja ósatt. Við þurfum líka að muna að við ætlum að bera byrðarnar saman, sum eru góð í sprettum og við eigum að lyfta þeim upp þegar snarpra viðbragða er þörf. Þegar við þörfnumst meiri yfirlegu er gott að vita af þeim sem hafa meira þol og úthald.
Við þurfum að byggja upp þrek, það er löng leiðin framundan. Brekkuhlaupin eru erfið en þau skila sér í auknu þreki, við skulum ekki forðast brekkurnar. Leggjum óhrædd af stað og munum að verðlaunin eru að fá að hlaupa niður í móti þegar brekkubrún er náð. Löngu æfingarnar gefa mikið, við finnum smám saman hvernig við getum haldið lengra áfram og í stað ónota finnum við vellíðan. Hvíldin er miklivægur þáttur, ofþjálfun er ávísun á álagsmeiðsli og betra er að vera skynsöm heldur en að vera úr leik.
Þjóðkirkjan er með vindinn í fangið. Sársauki okkar sem þykir svo vænt um kirkjuna er nánast áþreifanlegur. Það er mikilvægt að við berum hvert annars byrðar og uppfyllum þannig lögmál Krists, svo vísað sé í orð postulans. Í því hlaupi sem stendur yfir núna þurfum við bæði snerpu og þrek. Við eigum mikið verk fyrir höndum. Við verðum að leitast við að endurheimta trúnað og traust.
Í einlægri trú á kærleika Guðs og samfélag Heilags anda í kirkjunni okkar, veit ég að við náum í mark.