Börnin á leikskólanum buðu aðstandendum til friðarstundar sem þau höfðu undirbúið af alúð og áhuga og barnslegri einlægni. Þau höfðu útbúið falleg ljósker og sungu yndislegan söng um ljósið. Svo sungu þau nokkrar jólavísur og fóru með brot úr jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum. Hið frábæra starfsfólk leikskólans hafði sannarlega lagt sig fram um að gera allt úr garði sem best mætti verða fyrir börnin og boðsgesti þeirra. Þetta var afar skemmtilegt, falleg og gott og sannarlega heilnæmt fyrir sálina. En eftir á leitaði á mig að þarna var ekkert minnst á Betlehem, Maríu eða Jesú. Ætli stefni í það að eini staðurinn utan heimilanna sem leyft verði að rifja upp sögu jólaguðspjallsins og nefna höfuðpersónur hennar á nafn sé í kirkjunum? Ef svo er þá gerir það meiri kröfur til heimilanna, og til kirkjunnar og kristinna trúarsafnaða en nokkru sinni að sinna því og gæta þess. Það er ekki aðeins trúarleg skylda heldur þjóðleg og menningarleg og mikið í húfi fyrir framtíð menningar, trúar og siðar í landi hér. Jólaguðspjallið er saga sem ekki má gleymast.
Mikilvægustu gildin til farsældar landi og þjóð mótast og nærast í uppeldi í trú og vonar og kærleika. Þeim er ekki síst miðlað með sögum og táknum og hátíðum þar sem við finnum að við erum hluti samhengis sem ber okkur uppi, þrátt fyrir allt. Þess vegna er jólaguðspjallið ómissandi, og að það sé rifjað upp í orðum, söng og leik. Sem betur fer gerist það víða, líka í skólum, að ekki sé talað um í hinum mikla söngvasjóði sem tónlistarfólkið okkar eys af um aðventu og jól okkur öllum til gleði og uppbyggingar. Jólaguðspjallið má ekki gleymast. Þar birtist kjarni kristinnar trúar og siðar, guðsmynd og mannskilningur. Hvort tveggja geymir til dæmis ómetanlegt mótefni gegn ásókn sjálfselsku, græðgi og hroka. Í barninu í Betlehem er Guð að vitja okkar og minna okkur á að sérhvert mannsbarn er elskað af Guði, í hverju barni sjáum við hans mynd, sérhvert barn er tákn vonar og framtíðar, og kallar á viðbrögð umhyggju og kærleika.
Jólaguðspjallið er saga sem ekki má gleymast, þá sögu þurfum við að rifja upp og kenna börnunum okkar. Svo að þau og við öll getum lært að reiða okkur á það sem hún miðlar, lært að treysta því og trúa, að elska lífið og náungann og gleðjast yfir voninni sem frá jötunni varpar mildum og hlýjum bjarma sínum yfir heiminn.
Gleðileg jól! Karl Sigurbjörnsson