Er Guð til? Við svörum þessari spurningu á margvíslegan hátt. Sá merki vísindamaður Stephen heitinn Hawking svaraði henni neitandi í bók sem kom út nýverið, að honum látnum. Alheimurinn gengur að hans sögn ekki eftir gangverki og hann hafnaði þeirri skýringu að fötlun hans væri einhver guðleg refsing. Sá sjúkdómur sem hann þurfti að glíma við mestalla ævina, ætti sér aðrar og jarðbundnari rætur.
Eru sjúkdómar refsing Guðs?
Þessi ályktun er allrar athygli verð og enginn frýjar þessum mikla hugsuði vits. Það lýsir því um leið vel hvað kristindómurinn er margslunginn, dýpri og breiðari en margur gerir sér grein fyrir, að afstaða Hawkins á þessu sviði, á sér óvænta samsvörun. Jesús Kristur, eins og hann birtist okkur í guðspjöllunum, var ekki síður gagnrýninn á ýmsar þær guðlegu skýringar sem samtímamenn fundu á mannlegri eymd og vandræðum. Í Jóhannesarguðspjalli segir frá því á einum stað, þegar blindfæddur maður varð á vegi Jesú. Lærisveinar hans bera undir hann svohljóðandi spurningu: „hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?“
Það ber ekki á öðru en að hér búi sama hugsun að baki og vakti fyrir vísindamanninum góðkunna sem taldi það vera sjálfsagðan hlut af heimsmynd hinna trúuðu að leita slíkra skýringa. Hið forna trúðu margir því að hlutskipti fólks, sjúkdómar og óáran hvers konar væri refsing fyrir þau verk sem það hafði unnið. Hvaða ályktun drögum við þá af því, þegar einstaklingur fæðist blindur? Ekki hafði nýburinn brotið af sér. Voru það verk foreldranna eða forfeðranna? Eða lá sökin hjá þeim sem öllu ræður? Já, í því tilviki stóð Kristur frammi fyrir þeirri sístæðu spurningu sem menn hafa spurt sig að í gegnum tíðina. Ef Guð er almáttugur og góður, hversvegna er þá samt sumt ófullkomið og illt?
Svar Jesú var á þessa leið: „Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið.“
Þarna beindi Jesús sjónarhorninu frá hinum almáttuga á himnum – að okkur sem lifum og störfum hér á jörðu – okkur mönnum. Hann benti á að handan allra heilabrota um eðli alheimsins, efnis og orku standi það að endingu upp á okkur að uppfylla tilgang okkar og köllun. Guðs ríkið er mitt á meðal yðar segir hann á einum stað og já, einmitt þar sem við lifum því lífi sem okkur er samboðið. Þess vegna verða hinar frumspekilegu spurningar sem eðlisfræðingurinn taldi sig hafa svarað, ekki upphaf og endir leitar okkar að Guði. Það er miklu fremur fordæmi og hvatning Jesú sjálfs sem horfir inn í hjörtu okkar og gefur okkur ríkulegt hlutverk í lífinu.
Takmörk mannsins
Guðspjall dagsins fjallar um takmörk mannsins, þekkingar hans og áhrifa. Það er ekki tilviljun að þarna er leiddur fram á sjónarsviðið, konungsmaður sem hefur öll völd í hendi sér. Hann réði örlögum og hlutskipti fjölda manns, áhrifasvið hans var stórt og hann var vanur því að geta breytt því sem hann vildi. Svolítið óvenjulegur fulltrúi þessara tíma – en þegar við lítum nær okkur finnum við vafalítið samsvörun með þessum áhrifamanni sem þar sté fram á sjónarsviðið.
Sjálf erum við jú valdamikið fólk. Hvert og eitt okkar hefur langtum meiri tækifæri á að njóta lífsgæða, öryggis, afþreyingar, menntunar og þroska en voldugustu og auðugustu persónur fornaldar og já allt fram til allra síðustu tíma. Spurningin sem mætir okkur um tilvist Guðs verður í huga sumra óviðeigandi. Hvaða hlutverki gegnir Guð í lífi okkar sem höfum öll lífsins gæði innan seilingar? Er það ekki okkar hlutverk að setjast í sæti hinna almáttugu? Þurfum við á nokkru slíku að halda sem drottnar yfir lífi okkar og dauða?
Hinn merki vísindamaður og hugsuður dró sínar ályktanir út frá þeirri heimsmynd sem hann sjálfur hefur lagt mikið af mörkum við að lýsa og skýra. Og um leið hafði hann ákveðna guðsmynd í huga. Það er sá guð sem öllu stýrir og skilur að endingu ekkert eftir fyrir okkur, breyska og dauðlegam enn. Það er guðinn sem á svör við öllum hlutum og fylgjendur hans þurfa ekki að kanna neitt eða rýna í efnisheiminn því niðurstöður hafa allar verið ákvarðaðar.
Það er þó ekki sú mynd sem Jesús birtir okkur af Guði eða Biblían, ef því er að skipta. Nei þar mætir okkur fremur sá Guð sem spyr og heldur áfram að spyrja. Í fyrstu bók Biblíunnar ákallar hann Adam – hinn fyrsta mann – og hrópar: Adam hvar ertu? Kristin trú er svarið við þeirri sístæðu spurningu og það birtist okkur með ólíkum hætti á hverjum tíma. Þar sem manninum hefur verið varpað í þennan heim – stendur frammi fyrir óravíddum hans og furðum, boginn og uppréttur á sama tíma, brotinn og heill. Adam hvar ertu? Já, hvar stöndum við sjálf í hinum stóra samhengi hlutanna? Er það ekki ævilangt verkefni að bregðast við þeirri spurningu?
Valdsmenn okkar daga
Við, samtímafólk Stephen Hawking og samstarfsfólks hans höfum sannarlega aðgang að ótrúlegu magn þekkingar sem við getum saknað að okkur og dregið svo ályktanir. Á síðustu árum hefur til að mynda komið í ljós hversu hárfínt jafnvægið er sem heldur öllum því saman sem við erum hluti af, það er að segja alheiminum. Þar má engu skeika svo ekki falli allt saman í einn þéttan massa eða hverfi út í tómið – atómin og raunar byggingarefni þeirra.
Þetta hefur verið hugsuðum sístæð ráðgáta og fremur en að draga þá ályktun að vart ráði tilviljun því að allt skuli vera til – fremur en ekki – þá fer hugurinn á enn meira flug og þeir sjá fyrir sér fleiri útgáfur af alheiminum. Sumir segja reyndar að þær séu endalausar og þá getur auðugt hugmyndaflug okkar heldur betur hafið sig á loft. Já, einhvers staðar í því óendanlega flæmi er prestur að predika í sunnudagsmessu og allt er eins og það er hér og nú! Því endaleysan skilur ekki eftir neitt rúm fyrir því sem við getum hafnað. Veruleikinn reynist vera enn meiri furða en menn gerðu sér grein fyrir hér fyrir fáeinum áratugum. Heimurinn er sífellt að varpa til okkar spurningum og fyrir hvert svar þá fjölgar þeim ráðgátum sem við þurfum að glíma við.
En það sem stendur okkur þó miklu nærri er þó líf okkar og tilvist – þangað sem kristin trú beinir öðru fremur erindi sínu. Já, sá alheimur sem við erum hvert og eitt með spurningar okkar og ráðgátur. Þegar konungsmaðurinn stóð frammi fyrir hinum mikla harmi sem veikindi sonar hans var, þá féllust honum hendur. Hann leitaði til Jesú, sem var svo ólíkur þeim skartklæddu, brynjuðu valdsmönnum sem fólk óttaðist og virti þá – og gerir enn.
Sjálf erum við í sporum þessa manns þar sem við stöndum frammi fyrir því sem við fáum ekki breytt. Og það birtist okkur í margvíslegri mynd. Neytandinn er hinn nýi konungsmaður, sá sem öllu ræður. Það er sá sem sankar að sér endalausu dóti, umhverfið mætir okkur í sífellu með nýjum freistingum – tækin hafa fengið nýtt númer, vörumerkin hafa nánast trúarlegan sess. Myndir þeirra og einkennistákn eru úti um allt og þau ráða miklu um líf fólks og ákvarðanir. Við látum það ekki stöðva okkur þótt þetta dót sé að gera út af við okkur og allan heiminn. Sektarkenndin læðist að okkur þegar við gefum þeirri staðreynd gaum. Þá verðum við eitthvað svo grátbrosleg – með alla þræði í hendi okkar en samt svo átakanlega vanmáttug. Hawkins, sá mikli hugsuður hefur nú lokið sínum ævidögum. Það hlutskipti bíður okkar allra og enginn veita hvaða draumar mæta okkur í þeim langa svefni. Í þeim efnum er það mikið hald að eiga í hjarta sínu vitund um veruleika sem knúinn er áfram af kærleika og háleitum hugsjónum. Það er sú mynd sem Jesús Kristur birtir okkur af Guði.