Barnamessa, á latínu nefnd innocentium, er samkvæmt gamalli hefð haldin þann 28. desember. Dagurinn er mikilvægur hluti jólahátíðarinnar og tengist beint jólaatburðinum í Betlehem. Dagurinn er minningardagur fyrir drengina í Betlehem sem Heródes konungur lét drepa til að koma í veg fyrir að nýr gyðingakonungur kæmist þar á legg. Þar óttaðist Heródes spádóm og þann möguleika að einhver myndi taka hásæti hans og kórónu. Vitringarnir sem hylltu jesúbarnið komu við hjá Heródesi á leiðinni til Betlehem. Þeir vissu um illan hug hans og fóru því aðra leið tilbaka. En það bjargaði ekki börnunum. Hermenn Heródesar voru sendir til Betlehem til að drepa í algjöru miskunnarleysi líkt og harðstjóra er háttur. Mannslíf, já meira að segja barnslíf voru og eru harðstjórum einskis virði.
Kristið fólk fór snemma að líta á börnin sem fyrstu píslarvottana er hefðu látið lífið fyrir Jesú Krist. Dagurinn er frá upphafi minningardagur sakleysingja sem misst hafa líf sitt. Síðar þróaðist dagurinn yfir í að vera gleðidagur barna. Þennan dag gátu börn heimsótt hvert annað og skemmt sér á kostnað hinna fullorðnu. Í dag eru iðulega haldin jólaböll fyrir börn á þessum degi og er það ekki tilviljun heldur byggir það á gamalli hefð um gleðistundir barna. Kalla má þennan dag með réttu dag sakleysisins. Þó undirtónninn sé dimmur vegna dauða drengjanna þá er líka gleðiraustin til staðar. Gleði yfir barninu sem fæddist á jólum og öllum börnum sem fagna lífinu með gleðisöng. Dagurinn minnir líka á þau börn sem ekki fá að lifa og deyja saklaus en er ætluð vist á himnum. Það er gleði yfir þeim. Gleði og von í endurfundi þeirra við foreldra og systkin sem þau aldrei sáu en munu sameinast þar á hinum efsta degi.
Ýmsar tölur hafa verið nefndar um fjölda þeirra barna sem drepin voru af mönnum Herósesar. Þúsundir og jafnvel tugþúsundir en ætla má að það sé rangt. Við vitum að á þessum tíma voru íbúar í Betlehem varla meira en eittþúsund talsins enda var staðurinn aðeins lítið þorp. Sú staðreynd bendir til þess að fjöldi drengja sem hafi verið drepnir hljóti að hafa verið takmarkaður, mögulega einhverjir tugir. En það breytir ekki því að illvirkið er algjört.
Í samtímaheimildum Gyðinga frá þessu tíma eru þessi barnamorð ekki nefnd. Ástæðan er líkast sú að Heródes konungur var blóðþyrstur harðstjóri sem myrti miklu fleiri en drengina í Betlehem. Barnamorðin féllu í skuggann af öðrum illvirkjum Heródesar. Meðal þeirra sem hann deyddi voru eiginkona hans og þrjú börn hennar. Öll drepin að boði hins illa konungs sem kalla má holdgerfing illskunnar á jörð. Það hefur verið sagt: „Það er auðveldara að vera svín Heródesar en sonur Heródesar“. Gyðingar borðuðu jú ekki svínakjöt svo að þeir drápu ekki svín. Synir Heródesar voru aftur á móti drepnir af föður sínum. Hann drap allt og alla sem mögulega hefðu getað ógnað völdum hans. Paranoia hans var algjör, líkt og greina má hjá öllum öðrum harðstjórum heimsins. Enginn er óhultur.
Barnamessu er ekki minnst vegna hinna hræðilegu atburða sem slíkra heldur er hennar minnst barnanna vegna. Dagurinn er minningardagur allra þeirra barna sem þjást og deyja saklaus. Mörg börn eru fórnarlömb stríðs og átaka. Vigvellir dagsins í dag eru oftar en ekki borgir og bæir þar sem fólk lifir og deyr því ekki getur það komist burt frá hryllingnum. Sprengjur sem falla á íbúðahverfin eira engu. Börn eru limlest og slösuð. Mörg börn missa foreldra og systkin eða missa eigið líf. Fólk er hrakið á flótta. Ráðalítið hrekst það um haf og lönd í leit að skjóli og öryggi einhversstaðar í heiminum. Dyr heimsins eru þó flestar lokaðar þessu flóttafólki.
Eitt sinn hitti ég litla stúlku sem var í fóstri á vegum barnaverndaryfirvalda. Hún hafði verið skilin eftir á alþjóðlegum flugvelli. Enginn vissi hver hún var og hvaðan hún kom. Tilgáta var uppi að henni hafi verið rænt einhverstaðar erlendis til að krefjast lausnargjalds og barnsræningjarnir hefðu þá líklega misst kjarkinn á flugvellinum og því yfirgefið barnið. Að stúlkan hafi verið skilin eftir var lögregluyfirvöldum ráðgáta. Þegar sannleikurinn kom í ljós var hann ótrúlegur. Hún var sýrlensk og hafði verið á ferð með ættingjum á flugvellinum og þau skilið hana viljandi eftir. Stúlkan talaði ekki og gat því ekki sagt sögu sína. Auðvelt er að gera sér í hugarlund hvað hún hafði séð eða heyrt þó svo saga hennar væri engum kunn. Fréttir af hryllingi átaka og stríðs hafa borist víða. Við vitum um grimmdarverk þar sem engum er hlíft, ekki börnum einu sinni. Líkast til hafði hún upplifað eitthvað svo hræðilegt að hún hafði ákveðið að mæla aldrei orð.
Foreldrar stúlkunnar voru innilokuð í flóttamannabúðum í Tyrklandi. En með því að senda barnið með ættingjum til þess eins að skilja það eftir á flugvelli var verið að bjarga því frá ömurlegum aðstæðum. Þarna lifði sú von að barnið kæmist í betra líf. Ættingjanna sem voru á ferð með barnið beið ekki annað en að dvelja í einhverjar vikur í landinu til að vera vísað til baka til Tyrklands. Foreldrarnir vildu frekar gefa barnið en að láta það deyja í flóttamannabúðunum eða verða um síðir rekin heim til Sýrlands aftur þar sem ekkert beið nema dauðinn. Samkvæmt regluverki landsins þar sem barnið fannst var óheimilt að senda það til baka í óvissuna. Stúlkan fékk góða fósturforeldra. Þessi saga er ekki einsdæmi. Í fréttum nýlega var sambærilegt mál. Fréttir af slíku fá þó litla athygli í fjölmiðlum. Mikið er fjallað um vestræn börn sem numin eru brott eins og var um bresku stúlkuna Madeleine McCann. Saga hennar er þó einstök. Það er nefnilega nánast einsdæmi að slíkt gerist. En athyglin en klárlega þar. Það sem gerist oft verður fyrir okkur hversdagsleiki sem við hugsum lítið um. Kjör flóttabarna eiga að koma okkur við!
Gömul saga úr Bíblíunni segir af tveimur konum sem deildu um nýfætt barn. Önnur hafði eignast andvana barn og vildi nú eiga barn hinnar. Úr vöndu var að ráða fyrir konunginn sem dæma átti í máli þeirra. Þetta var auðvitað löngu fyrir tíma DNA tækni og erfitt að finna hver var hinn raunverulega móðir. Hann bað um sverð og bjó sig undir að höggva barnið í tvennt svo báðar fengju sinn hluta. Sú er átt hafði andvana barnið lét sér vel líka. Hin sem var raunveruleg móðir bauðst til að gefa barnið svo það mætti lifa. Sú fékk þá barnið að skipun konungsins. Aðeins hin sanna móðir hefði gefið frá sér barn til að það mætti lifa. Sannur Salómonsdómur var kveðinn upp. Móðir vill allt til vinna svo barn fái líf, jafnvel gefa það burt ókunnugum.
Eins og drengirnir í Betlehem sem ekki fengu að lifa, svo er farið um mörg börn heimsins í dag. Sum fá jafnvel ekki einu sinni að lita ljós dagsbirtunnar, eru drepin áður en þau fæðast. Þau fá ekki að koma úr mykrinu í móðurkviði yfir í sitt eigið líf þar sem ljósið er. Lífið er heilagt að kristnum skilningi og hvert barn er heilagt. Skylda okkar er að huga að lífunu og vernda það með öllu móti.
Barnamessa á að minna okkur á lif og kjör allra barna. Hún minnir á þá siðferðisskyldu sem hvílir á hinum fullorðnu að öll börn búi við góð kjör. Að börnum sé ekki strítt, þau lögð í einelti, þau afrækt eða búi við ástleysi. Skyldan er rík að börn búi við frið, skjól og öryggi. Hér getum við ekki flokkað börn eftir upprunalandi eins og gert er með framleiðsluvörur á tollamörkuðum heimsins. Barn frá Sýrlandi er jafnverðmætt í alla staði og íslenskt barn. Annað gengur ekki upp.
Við Íslendingar ættum aldrei að vísa úr landi ófrískum mæðrum eða börnum fólks sem hér leitar hælis, vegna haturs og ranglætis í heimalandi þess. Barnið er heilagt og sem slíkt á það alltaf að vera velkomið.