Síðastliðinn laugardag setti okkur öll hljóð er fregnir bárust af hörmulegu dauðaslysi á Flórída þar sem tveir íslenskir menn létust við fallhlífastökk.
Við finnum til með ástvinum þeirra og félögum og skynjum um leið það sameiginlega tjón sem við öll líðum sem samfélag þegar tveir menn, annar bráðungur og hinn á besta aldri látast svo sviplega.
Óhjákvæmilega verða umræður í eldhúskrókum um eðli jaðarsports af þessu tagi og hvort eðlilegt sé að fólk taki áhættu eins og þessa og þá hve mikla og svo sveiflumst við til baka og veltum fyrir okkur líðan allra sem þessum hörmulega atburði tengjast, ræðum svo meira um eðli fallhlífastökks og komumst þá e.t.v. að því að þetta sport er ekki hættumeira en hestamennska og að hér er um afa óvenjulegan atburð að ræða sem ekki gefur tilefni til alhæfinga. Eftir situr skaðinn og samlíðunin og menn fletta og gúggla og spyrjast fyrir um ættir og einn þekkir annan og annar þekkir einn og við finnum á eigin skinni og eigin viðbrögðum að við komum hvert öðru við. Það voru ekki bara einhverjir menn það voru Andri Már Þórðarson og Örvar Arnarson sem létust.
Svo er það hitt sem er svo erfitt að tala um. Það er þetta með skelfinguna. Við erum öll að hugsa um skelfinguna. Hvert einasta mannsbarn í landinu hefur óhjákvæmilega sett sig í sporin í huganum. Við gerum það öll. Skelfingin læðist að. Gagntekur. Hún býr í sál okkar allra og atburður af því tagi sem þarna varð vekur hana upp.
Það er föstudagurinn langi. Dagur skelfingarinnar. „Nú er sál mín skelfd” mælti Jesús við síðustu kvöldmáltíðina. „Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu.” (Jóh. 12.28) Sagan af þjáningum Jesú og viðbrögðum vina hans fjallar um þetta sem svo erfitt er að ræða; um skelfinguna, hryllinginn. Við fylgjumst með Jesú þar sem hann er gripinn óvinahöndum, fjötraður og meiddur. Saga sem fram að þessu hefur verið hröð og gagnorð fær á sig nákvæmt yfirbragð er kemur að því hvernig Jesús er hæddur, barinn, hræktur og húðstrýktur. Hvernig hann er afklæddur og færður uppá til háðungar. Við sjáum hann falla örmagna undir krossinum, förum ósjálfrátt í gegnum það með sjálfum okkur hvernig það sé að lifa þá meðferð sem Jesús fékk þegar naglarnir gengu í gegnum fætur og hendur. Er maður hættur að heyra og sjá þegar þar er komið að krossinn er reistur upp? Getur maður andað við þessar aðstæður? Og svo heyrum við samskipti Jesú við ræningjana sem hengdir voru upp með honum og áttum okkur á því að það er hægt að tala saman og hugsa við svona fáránlegar aðstæður. Lúkas lýsir því svo: „Annar þeirra illvirkja sem krossfestir voru hæddi hann og sagði: „Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!“ En hinn ávítaði hann og sagði: „Hræðist þú ekki einu sinni Guð og ert þó undir sama dómi? Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gerðir okkar en þessi hefur ekkert illt aðhafst.“ 42Þá sagði hann: „Jesús, minnst þú mín þegar þú kemur í ríki þitt!“ Og Jesús sagði við hann: „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“
Þarna eru þrír ólíkir menn allir með meðvitund við skelfilegar aðstæður. Samtalið sem lýst er eykur vitund okkar um þjáningu þeirra. Bjargaðu sjálfum þér og okkur! segir annar. Jesús minnstu mín þegar þú kemur, mælir hinn.
Ítrekað lýsa guðspjöllin þeim möguleika Jesú að bjargar sér út úr aðstæðunum. Þegar Jesús skipar Pétri að slíðra sverð sitt eftir að hann hefur höggvið til þjóns æðstaprestsins í Getsemanegarðinu þá segir hann í Matteusarguðspjalli: „Hyggur þú að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?” (Matt. 26.53) Og ljóst er af samtali Jesú og Pílatusar að það er Jesús sem gerir valdsmanninum erfitt fyrir að bjarga honum því að hann ver sig ekki, ber ekki af sér sakir þótt honum sé ítrekað bent á að gera það. Við heyrðum líka flutta lýsinguna úr Lúkasarguðspjalli hér áðan hvernig „fólkið stóð og horfði á og höfðingjarni gerðu gys að honum og sögðu: Öðrum bjargði hann, bjargi hann nú sjálfum sér ef hann er Kristur Guðs, inn útvaldi.” (Lúk 23.31)
Úrslitaatriði varðandi allan krossatburðinn er sú staðreynd að Jesús er frjáls. Hann gengur frjáls til móts við dauða sinn. Í Jóhannesarguðspjalli fjallar Jesús um það hvernig hann muni gefa líf sitt: „Enginn tekur það frá mér,” segir hann „ég legg það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þetta hefur faðir minn boðið mér.“ (Jóh. 10.18)
Samt er hann svo skelfingu lostinn að þegar hann biðst fyrir í Getsemanegarðinum verður sviti hans eins og blóðdropar sem falla á jörðina og í ítrustu angist á krossinum hrópar hann: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig!?
Tökum eftir því að í allri þessari þjáningu eða öllu heldur þrátt fyrir alla þjáninguna og skelfinguna fær Jesús það ekki af sér að bjarga sér.
„Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ (Jóh. 12.26-28)
Við rannsókn á slysinu hræðilega í Flórída kemur í ljós að Örvar fórnaði lífi sínu við að reyna að bjarga Andra Má. Hverju breytir það? Hverju breytir sú staðreynd að Örvar Arnarson var í fullkominni aðstöðu til þess að bjarga sjálfum sér en hann bara var ekki með hugann við það eða fékk sig ekki til þess. Hverju breytir sú staðreynd að í skelfingunni miðri var Andri Már aldrei einn heldur í návist reyndasta fallhlífastökkvara landsins?
Sagan föstudagsins langa er um þetta. Hún er um það sem er svo erfitt að ræða.
Návist Örvars á dánarstundu Andra Más mun reynast ástvinum þeirra beggja huggun um ókomna tíð. Líf þeirra kemur ekki til baka, skaðinn af dauða þeirra er jafn ferlegur og angistin óbærileg. Samt er huggun að vita að Örvar dó frjáls og að Andri Már naut skilyrðislausrar umhyggu færasta fagmanns í neyð sinni.
Þegar Jesús útskýrir dauða sinn og greinir frá líðan sinni í Jóhannesarguðspjalli segir hann fyrst þetta: Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra. Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ (Jóh. 12.26-28)
- Hvar sem ég er þar mun og þjónn minn vera.
Við staðnæmumst í virðingu frammi fyrir örlögum Andra Más Þórðarsonar og Örvars Arnarsonar og íhugum þá sönnu mennsku sem lýsir af þessum sorgaratburði. Við biðjum þess að við megum sjálf eiga hlutdeild í því frelsi sem Örvari var gefið á raunastundu og biðjum fyrir ástvinum þeirra beggja.
Amen.