En það bar til um þessar mundir að frelsari heimsins skyldi fæðast. Móðir hans hafði bókað keisaraskurð 24.desember kl. 18:00. Landspítalinn hafði verið skreyttur grenigreinum og kertaljósum hátt og lágt. Búið var að skreyta fæðingarstofuna í bláu þar sem það er karlmannlegur litur og hæfir frelsara heimsins betur en aðrir bjartari litir.
Þegar að því kom að móðirin skyldi verða léttari voru færustu ljósmæðurnar, læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir á staðnum. Fæðingin gekk vel og ekki að sjá annað en að drengurinn væri heilbrigður. En á sama tíma voru nokkrir sjúkraliðar við störf á kvennadeildinni en þeir skildu strax að eitthvað óvenjulegt hafði gerst á fæðingadeildinni þegar þeir heyrðu tónana frá „Heims um ból“ úr kapellunni og rödd úr hátalarakerfinu sem sagði þeim að vera ekki hrædd heldur gleðjast því nú væri frelsarinn fæddur á deild b.
Þeir flýttu sér af stað og voru fljótir að finna fæðingadeildina og réttu stofuna í rjóðrinu því það var jafnframt mest skreytta herbergið.
Þegar sjúkraliðarnir komu þangað fund þeir Maríu, frekar hressa þrátt fyrir uppskurð og deyfingar, Jósef glaðan og stoltan og litla barnið sofandi og vel merkt í bláa karlmannlega gallanum sínum.
Sjúkraliðarnir greindu þá frá upplifunum sínum og reynslu og undraðist unga parið hana nokkuð en María, móðirin, geymdi þetta i hjarta sér.
Þegar sjúkraliðarnir fóru héldu þeir beint í kapellu spítalans þar sem þeir féllu á kné og lofuðu Guð.
Hvað er heilagt? Kannast þú við að eitthvað sé þér heilagt? Staður, manneskja, atburður, bygging eða eitthvað annað?
Við tölum iðulega um það sem er heilagt í kirkjunni en hvað þýðir það í raun og veru að eitthvað sé heilagt? Við tölum um heilaga þrenningu, skaparann, soninn og andann.Við tölum um heilaga nótt, heilög jól, heilaga kirkju já og við tölum jafnvel um að við, mannfólkið séum heilög sköpun Guðs.
Við iðkum það oftar en ekki að helga hluti, staði og fólk svo það/þeir geti sinnt ákveðnum verkefnum eða hlutverkum. Við blessum t. a. m. kirkjur áður en þær eru teknar í notkun sem bænahús. Við vígjum presta og djákna þegar þau hafa fengið það hlutverk að þjóna Guði og fólki.
Það að eitthvað sé heilagt þýðir að það sé frátekið. Heilög kirkja er frátekin til einhvers hlutverks og manneskjan samkvæmt kristinni trú er frátekin til þess að tilheyra almættinu sem er upphaf allrar sköpunnar. Orkan á bak við allt. Þegar manneskja eða hlutur er helgaður breytir það ekki eðli hans heldur er það hlutverkið sem breytist.
Stundum notum við hugtakið “heilagt” til þess að tjá neikvæðar tilfinningar og grun um hroka og upphafningu náungans. T.d. þegar við segjum um einhvern eða eitthvað: “Voðalega er hann eitthvað heilagur” eða “er þetta eitthvað heilagt eða?”. Þar með gefum við í skyn að það sem er heilagt hljóti að vera ósnertanlegt.
En er það svo? Er það sem er heilagt, ósnertanlegt? Er það sem er ósnertanlegt, heilagt?
Þegar allt kemur til alls er það okkar, mannfólksins, að ákveða hvað er heilagt og hvaða merkingu heilagleiki hefur fyrir okkur. Hlutir geta verið heilagir í ákveðnum samfélögum en ekki í öðrum. Þannig eru nautgripir heilagir í Hindúasið en ekki í Kristnum.
Það sem mér er heilagt er kannski ekki heilagt fyrir þér og öfugt.
Heilög eða hversdagsleg? Nú eru heilög jól gengin í garð og við hlýddum áðan á heilagt guðspjall sem fjallaði um atburði sem eru mörgum okkar heilagir. Þessa yndislega fallegu jólasögu sem þröngvar sér inn í tilfinningalíf okkar, hvort sem við trúum því að Jesús hafi verið Kristur, frelsari og birtingarmynd Guðs í heiminum eða ekki. Við höfum heyrt þessa sögu svo oft og einmitt þegar helgi kvöldsins er gengin í garð. Við tengjum hana flest við kyrrð, frið og heilagleika.
En hvað er svona heilagt við þessa sögu?
Ég held að það sé margt sem er heilagt við hana. Það er efni hennar og merking sem gerir hana heilaga fyrir kristið fólk. Það er samhengið sem hún er sögð í. Það er bókin sem hana er að finna í. Kannski felst helgin ekki síst í því að við getum flest eða öll fundið tengingu við eitthvað í sögunni, hvar í heimi sem við erum stödd. Gripahús. Skítug jatan. Hlýtt og ilmandi heyið. Fæðing barns. Fátækt. Ofsóknir. Stjörnubjartur himinn. Sorg og áhyggjur mitt í gleðinni. Eða gleðin mitt í sorg og áhyggjum. Ég held að við könnumst flest við eitthvað úr þessari sögu í okkar lífi og eigum því ekki í erfiðleikum við að tengja okkur við hana.
Kannski felst helgi sögunnar einmitt í hversdagsleikanum. Í því að þótt hún fjalli um atburði sem eru heilagir fyrir allan hinn kristna heim, að Guð hafi gerst manneskja til þess að komast nær okkur og til að færa okkur nær sér, er ramminn utan um hana eins hversdagslegur og hann mögulega getur orðið.
Hvað er svo sem heilagt við gripahús, hey og jötu. Hvað er er heilagt við ómerkilega fjárhirða eða uppskrúfaða vitringa? Og hvað getur verið heilagt við það að fá ekki herbergi á gistihúsi þegar mikið liggur við?
Svarið er ekkert og allt. Því að þegar þessir hlutir eru settir í ramma kristninnar og jólahátíðarinnar, já eða þegar jólahátiðin og kristnin er römmuð inn í þessa sögu, þá gerist eitthvað. Þá verður eitthvað heilagt til.
Ég trúi því að heilagir atburðir geti gerst á hversdagslegum stöðum og að hversdagslegir atburðir geti gerst á heilögum stöðum. Þannig verður þessi hversdagslegi matsalur, hér í Borgarholtsskóla, heilagur í kvöld þegar við höfum skreytt hann saman, þegar við lesum heilagt guðspjall og höldum hér heilög jól römmuð inn í yndislegan söng Vox populi og Ragnheiðar Gröndal sem hefur samið undurfagurt jólalag sérstaklega fyrir aftansönginn hér í kvöld. Þannig verður þessi matsalur og þetta skólahús, heilagt hvern sunnudag þegar við höldum hér guðsþjónustur. Á máli guðfræðinnar kallast þetta að helgast fyrir notkun.
Já heilagleikinn er fullur af andstæðum. Það er Biblían og jólaguðspjallið líka enda fjallar það um lífið sjálft sem aldrei er einsleitt og hvað þá rökrétt.
Þessi heilaga fæðingarsaga sem við þekkjum öll gerðist ekki á Landspítalanum, upplýstum með jólaljósum, að viðstöddum færustu ljósmæðrum og skurðlæknum. Og sjúkraliðar voru ekki þeir fyrstu til að fá boð um fæðingu Krists. Hún átti sér ekki heldur stað í konungshöll eða í hlýju og notalegu herbergi gistihúss.
Hún hefði getað gerst á þann hátt en hún gerði það ekki. Hún er einfaldari og hversdagslegri. Hún býður okkur öllum að koma inn og finna okkur pláss í sögunni. Hún slær enga varnagla heldur er hún saga um áhættusama fæðingu við erfiðar aðstæður en við höfum gert hana fallega því að hún endaði vel. Fyrir okkur.
Guð gefi þér heilaga jólahátíð. Amen.