Uggur og ótti

Uggur og ótti

Og hvað með okkur? Munu komandi kynslóðir spyrja sig sömu spurninga og vakna í hugum okkar þegar við lesum af hinu ógnvekjandi verkefni Abrahams? Hvað gekk þeim til? Var hugsjónin um líf í allsnægtum svo sterk í hugum okkar að þar mátti fórna nánast öllu til? Spurning Kierkegaards var ekki ósvipuð. Hann spurði út í þá trú sem einkenndi samfélag það sem hann var hluti af. Í okkar tilviki byggir hún á velmegun og þægindum sem við viljum helst eignast án fyrirhafnar og þrauta. Við viljum helst ýta öllu slíku yfir á aðra.

„Hafa Norðurlandaþjóðirnar búið við rangt helvíti síðan þær tóku kristna trú? Niflheimur var kaldur og trist og það setur hroll að manni við tilhugsunina um að lenda þar. En kristna helvítið, suðrænt að uppruna er það hreinlega ekki of hlýtt til að hræða nokkurn mann hér nyrðra?“

 

Þannig kemst Þórarinn Eldjárn að orði í einni af bókum sínum en hann er gestur Skammdegisbirtu í kvöld.


Þagað um Hel

 

Já hér á klakanum hefur hrollurinn meiri fælingarmátt en steikjandi hitinn. Það skal þó tekið fram að lengi vel létu kristnir höfundar vera að lýsa vítinu. Við fáum lítið að lesa um það í Biblíunni og kirkjufeðurnir voru fámálir þegar kom að því að skilgreina hvað tæki við þegar ævin endaði. Ætli það hafi ekki verið Dante sem lýsti því fyrst í einhverjum smáatriðum í Gleðileiknum guðdómlega sem kom út um aldamótin 1300? En þar er reyndar allur hitinn í hreinsunareldinum sem átti að brenna burtu syndir látinna. Sjálft vítið var botnfrosið enda náði að hans sögn engin skíma og engin ylur að teygja sig þangað niður.

 

Við tölum aftur á móti um hel í hverri messu og vorum að sleppa orðinu hérna rétt í þessu. Í trúarjátningunni segjum við að Jesús hafi stigið „niður til heljar“ áður en hann reis upp á þriðja degi. Það er með þau orð eins og svo margt í þessu samhengi að þau vísa í ýmsar áttir. Biblían minnir stundum á internetið þar sem við finnum slóðir og hlekki sem geta sent okkur í aðra texta og jafnvel myndskeið ef við smellum þar á. Með sama hætti benda atburðir píslarsögunnar, þjáning og dauði Jesú á krossinum á aðrar sögur sem þjóðin þekkti.

 

Já, og Litla Biblían, orðin sem við lesum með fermingarbörunum kallast á við þessa hugsun: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“


Að fórna barni

 

Gaf einkason sinn? Er það ekki einmitt inntakið í frásögninni sem hér var lesin? Hún vekur sannarlega óhug en óhætt er að segja að hún hafi haft mikil áhrif. Sagan er að mínu mati listilega fram sett í sínum óhugnaði. Við lesum um ástríkan föður sem fær boð frá Guði um að deyða son sinn, fórna honum á blótstalli. Angist hans er algjör og óttinn er nístandi. Eitt er það að missa ástvin, hvað þá afkvæmi. Annað er að eiga að fremja sjálf ódæðisverkið.

 

Já, þeir ræða málin og Abraham, blekkir Ísak son sinn í samtali þeirra á leiðinni á fórnarstaðinn. Eða er hann mögulega að telja sjálfum sér trú um að allt muni blessast um síðir?

 

Við erum að tala um sjálfan ættföðurinn – þann sem þrjú af helstu trúarbrögðum mannkyns eru kennd við: gyðingdómur, kristni og islam. Og son hans, þann sem hann og Sara konan hans höfðu þráð að eignast en töldu allt um seinan því hún var löngu komin úr barneign. Svo fyrir kraftaverk varð Sara barnshafandi. Nafnið Ísak er af sama stofni og sögnin að hlægja og vísar til þess þegar sú gamla skellti upp úr þegar henni var tjáð að hún ætti von á sér!

 

Fyrir hinum fornu Ísraelsmönnum var eilíft líf hvorki á himnum né í hel. Þeir leyndist í sjálfu ættartrénu – afkomendahópnum sem Abraham hafði verið lofað að ætti eftir að verða jafn fjölmennur og stjörnurnar á himninum. Ísak var fyrsti vísirinn að þeim mikla skara en nú hafði myrkrið fallið á líf hans og tilveru. Faðirinn var á leið að deyða þennan einkason sinn.

 

Og við stöndum eftir í hyldýpinu. Blessunin þegar Abraham og Sara eignuðust Ísak er við það að breytast í nístandi harmleik. Þetta er ein af erfiðustu frásögnum í Biblíunni. Abraham heldur af stað með barnið og sannleikann geymir hann einn í huga sínum. Guð einn veit og hann sjálfur hvert erindi ferðarinnar er. Hvað er hér á ferðinni? svo hafa menn spurt í gegnum aldirnar.

 

Áhrifamikill texti


Lúther lofaði Abraham fyrir hlýðni sína og trúfesti enda leit hann svo á að skynsemin, gagnleg sem hún er, gæti ekki hjálpað okkur í hinum andlegu efnum. Hann hlyti af að hafa treyst því að allt færi vel um síðir, eins og raunin varð. Heimspekingurinn Immanúel Kant átti eftir að andmæla þessari túlkun og hélt því fram að ættfaðirinn hefði átt að þræta við almættið. Svo siðlaust boð hefði aldrei getað komið frá Guði.

 

Danski hugsuðurinn Sören Kierkegaard gerði þessa sögu að yrkisefni sínu í bók sinni Uggur og ótti. Þar staldrar hann við spurninguna hvernig hin trúarlega köllun getur vikið öllu siðferði til hliðar. Um leið er þjáningin hluti tilveru okkar og þegar við stöndum frammi fyrir djúpstæðum þrautum eins og söguhetjan í frásögninni þá reynir á trú okkar og sannfæringu.

 

Kierkegaard skrifaði þennan texta fyrir samfélag sem var að nafninu til kristið en viðleitni hans var skora á hólm sjálfsmynd þeirra og trúarafstöðu.


Fórnir okkar

 

Og hvað með okkur? Munu komandi kynslóðir spyrja sig sömu spurninga og vakna í hugum okkar þegar við lesum af hinu ógnvekjandi verkefni Abrahams? Hvað gekk þeim til? Var hugsjónin um líf í allsnægtum svo sterk í hugum okkar að þar mátti fórna nánast öllu til? Spurning Kierkegaards var ekki ósvipuð. Hann spurði út í þá trú sem einkenndi samfélag það sem hann var hluti af. Í okkar tilviki byggir hún á velmegun og þægindum sem við viljum helst eignast án fyrirhafnar og þrauta. Við viljum helst ýta öllu slíku yfir á aðra.


Saga af Abraham og Ísak hlýtur farsælan endi. Þær lyktir hafa fengið fræðimenn til að spyrja hvort frásögn þessi sé í raun lykilsaga sem markaði tímamót hvað varðaði fórnir. Svo óhugnarlegt sem það kann að vera, þá stundaði fólk barnfórnir í því umhverfi sem sagan er sögð. Tilgátan er sú að hún annað hvort lýsi endalokum slíkra hefða eða sé sem slík áminning í þeim efnum og fólk hafi upp frá því fórnað höfrum og sauðum í staðinn. Góðborgarar áttu svo eftir að færa síkar fórnir til að öðlast meiri velsæld í augum Guðs og spámenn andmæltu því fullum hálsi. Þá höfðu Ísraelsmenn reist sér musteri í borginni Jerúsalem - einmitt á þeim sama stað og atburðir þessir eiga að hafa gerst.

 

Já, fórnir þessar voru að sögn spámannanna viðurstyggð í augum Guðs, þótt þar væri aðeins fórnað húsdýrum. Annað og meira þyrfti að koma til. Biblían boðar ekki fyrirhafnarlaust líf. Þvert á móti. Þegar við förum með orðin í trúarjátningunni að Jesús hafi stigið niður til heljar býr þar að baki sú hugsun að að án fórnar sé engin upprisa. Þjáningin er hreinsunareldurinn sem mætir okkur öllum í lífinu. Það er einmitt hún sem lætur okkur staldra við eins og í sögunni sem hér er til umfjöllunar. Hún hnippir í okkur, ýtir við okkur. Fær okkur stundum til að hneykslast og hrista höfuðið. En þegar betur er að gáð þá kann að vera að hún lýsi öðru og okkur nærtækara en ævafornum harmleik sem aldrei varð.


Að ýta þrautum yfir á aðra

 

Hér er ekki verið að skauta yfir stóru málin. Hnífurinn sem Abraham leggur að sínum elskaða syni, er hann ekki sá váboði sem býr innra með okkur öllum? Dauðinn mótar líf okkar og tengsl og ekkert fær vikið þeirri staðreynd frá okkur. En við kunnum ýmis ráð til að ýta þeirri óþægilegu kennd frá okkur sem hér birtist ískaldri mynd.

 

Þegar við ýtum þrautunum yfir á aðra þá blasir við okkur misskiptingin, óréttlætið og sóunin sem er allt um kring. Við lifum á tíma í jarðsögunni sem er kenndur við mannöld, rétt eins og við tölum um ísöld og júraskeiðið. Ástæðan er sú að jarðlögin sem verða til núna hafa að geyma ókjör af plasti og öðrum afurðum okkar. Komandi kynslóðir munu vafalítið setja venjur okkar og lífshætti í trúarlegt samhengi. Þær munu dæma okkur með sama hætti og við fyllumst óhug við frásögninni af ættföðurnum sem leiddi son sinn á fórnarstallinn.

 

Hafa Norðurlandabúar búið við rangt helvíti? Er það mögulega ekki staður, sjóðheitur eða fimbulkaldur, heldur ástand? Þetta er hluti af þeirri skörpu mynd sem Biblían dregur upp af mannssálinni, tilvist okkar og kjörum. Við erum hvött til að líta í eigin barm. Yfir því öllu vakir sjálf upprisan sem setur svo raunir okkar og angist í annað samhengi. Fórnardauði Jesú talar inn í þessar aðstæður og í krafti hans getum við unnið okkar starf til blessunar óttalaust.