Sjálfsmynd kristins fólks mótast hvað mest af kölluninni til samskipta. Við erum kristin fyrir orðið sem okkur hefur verið boðað og við bregðumst við því með því að vitna um trú okkar á Jesú Krist í orðum og gjörðum.
Samskipti snúast í eðli sínu um að gefa af sjálfum sér. Þar er Kristur „sem svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd“ fyrirmynd okkar þegar við eigum samskipti við hvert annað (Fil 2.7). Í boðun Jesú var enginn undanskilinn. Hin fátæku, sjúku, útilokuðu, kúguðu og valdalausu áttu sérstaka athygli og umhyggju hans. Samskipti í anda Krists eru því kærleiksverk sem hafa frelsið sem Jesús færði öllum sem tóku á móti honum að leiðarljósi.
Samskipti og fjölmiðlar eru gríðarstór hluti af daglegu lífi okkar í dag, jafnt opinberu lífi okkar sem einkalífi. Svo stór og fyrirferðamikill er hann, að við erum oft ekki meðvituð um í hverju samskipti felast, hvaða lögmálum þau lúta og hvernig við stjórnum þeim en látum þau ekki stjórna okkur.
Eins er um hið viðkvæma tjáningarfrelsi sem er ein af grunnstoðum lýðræðisins. Tjáningarfrelsið bíður alltaf tjón þegar hallað er á lýðræðið. Ritskoðun á sér stað með ýmsum hætti. Ritskoðun er ekki bara ytri þrýstingur því óheilbrigt umhverfi elur af sér sterka innri ritskoðun sem hindrar fólk í að tjá sig djarft og óttalaust.
Í dag, 3. maí, er haldinn vegna frumkvæðis Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðadagur tjáningarfrlesis. Dagurinn er til að vekja athygli á meginreglum frjálsrar fjölmiðlunar og til að minnast þeirra sem hafa barist fyrir og látið lífið við að reyna að framfylgja þeim. Í ár er átakanna við miðjarðarhafið og Arabaríkjunum og lýðræðisvakningu þjóðanna þar sérstaklega minnst, ekki síst hlutverki félagsmiðlanna í hræringunum.
Félagsmiðlarnir opna fyrir nýja möguleika í samskiptum og gera almenningi kleift með áður óþekktum hætti að miðla upplýsingum, tengjast öðrum og gera rödd sína opinbera. Þeir afhjúpa einnig nýjar áskoranir og hindranir í því að samskipti séu heilbrigð og allra - því með nýrri tækni koma fram nýjar leiðir til að leggja stein í götu lýðræðis og tjáningarfrelsis.
Kirkjan tekur undir með Sameinuðu þjóðunum og styður þau sem vilja styðja tjáningarfrelsið í öllum sínum myndum. Boðskapur Jesú Krists um frelsið og ástina til handa manneskjunni er það sem knýr hjarta kirkjunnar og þar með líf hennar allrar. Köllun okkar sem kristnar manneskjur er að stunda samskipti djarflega og óttalaust, boða, vitna og segja frá “dýrð hans til vegsemdar” (Ef 1.12) og til að vera „samverkamenn að gleði ykkar“ (2. Kor 1.24).