Hvað segir stjórnarskráin um samband ríkis og kirkju? Mér var falið að íhuga stjórnarskrána í örfyrirlestri á morgunþingi þjóðmálanefndar. Ég fór því að lesa mér til og varð fyrir aha-reynslu. Það er merkilegt þegar maður uppgötvar að meira er í texta en maður hafði búist við, þegar texti opnast og veitir merkingarábót og breytir afstöðu manns.
Oft er spurt um merkingu 62. greinar stjórnarskráinnar og spurningin, sem að mér var beint, er: “Hvað þýðir samband ríkis og kirkju?” Þegar ég var búinn að lesa og skoða greinina læddist að mér grunur. Er kannski spurningin röng? Er hugsanlegt að 62. grein stjórnarskrárinnar fjalli ekki fyrst og fremst um samband ríkis og kirkju. Það eru aðilarnir sem okkur dettur fyrst og fremst í hug. En er það rétt túlkun? Eru þau einu hugsanlegu meginaðilarnir? Skoðum greinina: ,, Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.”
Greinina má hugsanlega lesa sem svo að ríkið sé ekki sambandsaðili kirkjunnar heldur fremur styrktar-, eða stuðnings-aðili. Evangelísk lútersk kirkja kemur við sögu og hún skal vera kirkja hverra? Ekki ríkisins, ekki dómsvaldsins, ekki framkvæmdavaldsins, ekki einhvers samfélagshluta eða stofnunar heldur kirkja hverra? Hún skal vera kirkja þjóðarinnar. Aðilar greinarinnar eru því ákveðin kirkja annars vegar og síðan þjóðin hins vegar. Ríkið kemur aðeins við sögu sem þjónustuaðili að sambandi kirkju og þjóðar. Hlutvek ríkisins er að styðja og vernda samband kirkju og þjóðar.
Djúp og snilld þessarar greinar er fólgin í öðru en hjúskap ríkis og kirkju. Þjóðin er heildin, kirkjunni er ætlað að gegna hlutverki gagnvart henni en ekki ríkisvaldinu. Og samband þjóðar og kirkju er sáttmálshlutverk sem hefur með farsæld þjóðarinnar að gera. Rof eða niðurfelling greinarinnar er því veigamikil breyting á skilgreiningu þjóðarinnar.
Ríki og kirkja gegna ólíkum þáttum og eru í tveimur ólíkum hlutverkum. Þjóðkirkju er ætlað að laga starf og skipulag að þörfum heildar samfélagsins. Þjónustan er við allt samfélagið og ekki spurt um trúfélagsaðild þegar leitað er eftir eða boðin þjónusta. Kirkjan er allra, ber að verja og efla fjölbreytni og margbreytileika.
Hvað þýðir samband ríkis og kirkju skv. 62 greininni? Það þýðir að kirkja og þjóð eigi sér sáttmála sem ríkið á að tryggja að gangi eftir. Ríkið ber ábyrgð á að kirkjan hafi aðstöðu og frið til að sinna skyldu sinni gagnvart þjóðinni. Og þjóðin á heimtingu á að kirkjan sinni köllun sinni, gildri merkingarsköpun og góðu starfi sem efli þjóðina til gilda og hamingju.
Að þessu sögðu er tal um aðskilnað ríkis og kirkju um allt annað en 62. greinina – því greinin fjallar um þjóð og kirkju en ekki ríki og kirkju. Við getum að mínu viti aðskilið ríki og kirkju algerlega og haldið algerlega í stjórnarskrárákvæðið. En ef við viljum aðskilnað þjóðar og kirkju þá erum við farin að tala um 62 greinina.
Ég sé því í 62 greininni þjóð og kirkju í sáttmálssambandi. Ég hef uppgötvað mun dýpri grein en mig óraði fyrir þegar ég byrjaði að skoða hana. Því segi ég stjórnarskráin kemur á óvart!