„Hvað á ég að gera?“ spurði fangavörður forðum daga sem stóð frammi fyrir alveg nýjum lífsaðstæðum. „Hvað á ég að gera til að verða hólpinn?“ (Post 16.25-31). Mörg okkar spyrja svipaðrar spurningar þegar lífið tekur nýja stefnu og Guð er einhver óræð stærð sem við þekkjum ef til vill aðeins af afspurn (Job 42.1-5). Hvað á ég að gera? Við leitum svara í guðspjalli dagsins (Matt 14.22-33).
Guð er alltaf við Í bókinni „Í dag – hugleiðingar 366 Íslendinga um lífið, tilveruna og trúna“ sem Skálholtsútgáfan sendi frá sér árið 2005 segir Ólafur Egilsson um mikilvægi þess að eiga kyrrðarstund með Guði (hugleiðing fyrir 31. janúar):
Guð er alls staðar og alltaf til viðtals. Alltaf, ekki einungis á miðvikudögum fyrir hádegi eins og lengi tíðkaðist um aðgang almennings að ráðherrum og þótti gott. Það þarf hvorki að bíða né panta viðtalstíma né fara úr stað. Ekkert þarf nema að gera sér aðgengið ljóst – og hika svo ekki við að ræða það sem okkur liggur á hjarta við hann sem öllu ræður.
Og svo vitnar Ólafur í fræg orð Páls postula um bænina í Filippíbréfinu (4.6):
Verið ekki hugsjúk um neitt, heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.
Hvað á ég að gera? Lykilsvari við þeirri spurningu er: Við eigum að biðja - því þaðan sprettur trúin. Og í dag er bænadagur að vetri við upphaf vetrarvertíðar. Þjóð sem á svo mikið undir sjósókn sem raun ber vitni þarf að bera gæfu til að fela Guði þau mál sem önnur. Hér áður fyrr voru beðnar sérstakar sjóferðabænir áður en lagt var á haf út og vonandi tíðkast sá góði siður enn einhversstaðar. Þegar skip eru sjósett í fyrsta skipti er gjarnan kallaður til prestur og skipið skírt, sem kallað er, vígt til öruggrar farar um höfin blá. Fyrir okkur landkrabbana er þetta nokkuð sem sjaldan tengist okkar veruleika en þegar ég fór með Herjólfi til Vestmannaeyja síðastliðið sumar þótti mér gott til þess að hugsa að hann hafði við upphaf siglinga sinna verið færður undir vernd Guðs með bæn og blessun og þakkargjörð. Það eigum við að gera.
Sífellt samtal við Guð Guðspjall dagsins tekur mið af bæði bátsferðum og bæn. Við heyrum um að Jesús hafi gengið til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þess er getið víðar í guðspjöllunum og sýnir mikilvægi þess að taka sig út fyrir Guð, eiga sér frátekna stund með skapara sínum og lífsuppsprettu hvern dag. Í fyrrnefndum pistli sínum ræðir Ólafur Egilsson um þá blessun sem Guð vill veita, varanlega blessun, sem „getur birst öðruvísi og komið á öðrum tíma en við biðjum um. En blessun reynist það engu að síður og tekur þá alltaf fram því sem við kusum okkur sjálf“, segir Ólafur og minnir á mikilvægi þess að finna „rétt jafnvægi milli efnislegra og andlegra verðmæta – og laga lífshætti okkar að því“. Síðan segir Ólafur:
Kyrrðarstund með Guði hvern dag er lykill að þessu jafnvægi. Við getum talað við hann um allt sem við viljum. Meira máli skiptir þó að við hlustum. Bæði þegar við finnum til brýnastar þarfar að nýta okkur að hann er ævinlega til viðtals – og líka þegar allt leikur í lyndi. Þannig er það bæði með trú og vináttu, hvorttveggja verður að rækta án afláts. Þá verða dagarnir bjartastir.
Jesús átti sitt sífellda samtal við Guð. Hann sem sjálfur var sonur Guðs, ást Guðs holdi klædd, var ekki undanþeginn því að þurfa að fylla á tankinn, þiggja andlega endurnæringu. Vissulega gekk hann fram í anda Guðs í öllu sem hann gerði, var og sagði, en hitt var líka nauðsynlegt að taka frá sérstakan tíma fyrir Guð. Ef það var honum lífsnauðsyn, hvað þá með okkur? Við förum mikils á mis ef við látum okkur nægja kvöldbænina í útvarpinu eða einfalda signingu að morgni. Það er hvorttveggja gott og sannarlega blessað en hversu miklu mun auðugri gætum við verið af andlegum blessunum ef við gæfum Guði meira rými í daglegu lífi okkar. Gerum það. Gengið á vatni – eða ekki Og þarna höfum við Jesú á fjallinu og lærisveinana í bátnum, „undir áföllum því að vindur var á móti“. Þegar Jesús hafði mettað sál sína með nærveru Guðs kom hann til þeirra, gangandi á vatninu. Við þá sýn brá lærisveinunum, sem von var, og héldu að þar færi vofa á vatninu. Orð Jesú hefðu átt að duga til að veita þeim öryggið aftur: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir“. En Pétur hinn hvatvísi lét sér það ekki nægja heldur vildi óræka sönnun þess að þarna færi Drottinn. Við hvatningu Jesú lagði hann af stað og gekk vel til að byrja með.
En svo fór Pétur að sökkva, óttinn tók yfir, traustið þvarr og hann áttaði sig á því að hann væri ekki Guð að hann gæti gengið á vatni. Stundum ætlum við okkur um of, teljum okkur geta það sem Guð einn getur, gengið yfir úfinn sjó áfalla eins og ekkert sé. Þá er hætt við að öldurnar gleypi okkur. En Pétur brást alveg hárrétt við og kallaði: „Drottinn, bjarga þú mér!“. Drottinn, bjarga þú mér.
Hversu oft hefur ekki þetta hróp sálar í háska stigið upp til himna, hróp hennar og hans sem fundu sig komin í þrot, ef til vill vegna eigin ofdirfsku? Og jafn oft hefur hið sama gerst og frá greinir í guðspjalli dagsins: „Jesús rétti þegar út höndina...“ „Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt að hann geti ekki hjálpað og eyra hans ekki svo dauft að hann heyri ekki“, segir Jesaja spámaður (59.1). Hvað á ég að gera? Hrópaðu til Guðs og hann mun rétta út hönd sína til hjálpar.
Hvað á ég að gera? Drottinn bíður með útrétta hönd, það vantar ekki. En stundum er eins og eitthvað varni því að við grípum í þá hjálparhönd sem að okkur er rétt. Þetta eitthvað nefnir spámaðurinn sekt og synd, nánar tiltekið misgjörðir, lygi, róg og óheilindi (Jes 59.2-4). Ekkert af þessu var Pétri fyrirstaða. Hann horfðist í augu við efa sinn sem var orsök þess að trú hans þvarr. En Jesús dæmdi hann ekki. Efi er ekki synd. Efi eru vaxtarverkir, þroskamerki, glíma manneskjunnar við Guð sem við ekki skiljum nema á svo takmarkaðan hátt. Guðspjall dagsins er hvatning til þeirra sem finna sig trúlitla eða efagjarna. Hvað á ég þá að gera? Það er allt í lagi, segir Drottinn, ég heyri hróp þitt um björgun og veit að þar talar trúin sem er á við mustarðskorn sem þrátt fyrir smæð sína getur unnið stórvirki (Matt 17.20). Hvað á ég að gera? Leyfðu trú þinni að vaxa með því að sækjast eftir samfélagi við Guð.
Bænin er slíkt samfélag, kall til Guðs um nærveru hans og styrk, „bæði þegar við finnum til brýnastrar þarfar... og líka þegar allt leikur í lyndi“, eins og segir í hugleiðingunum sem vitnað var í hér í upphafi. Við þörfnumst þess að metta sál okkar kærleika Guðs, fylla okkur vongleði frelsarans og þiggja trúna, sem heilagur andi gefur.
Þetta þurfum við að gera með reglubundnum hætti, að morgni, t.d. með hinni einföldu bæn signingarinnar, við máltíðir, þegar við setjumst upp í bílinn okkar eða búumst til sjóferðar, þegar kyrrð kvöldsins nálgast og svefninn er á næsta leyti. Við þurfum líka að eiga okkar föstu mótsstaði við Guð og trúsystkini okkar í kirkjunni, í sunnudagsmessunni, á bænastundum, prjónakvöldum og við tónlistariðkun, svo dæmi séu nefnd.
En ekki síður þörfnumst við þess að taka okkur út til lengri dvalar í nærveru Guðs eins og Jesús gerði, dagpart eða næturlangt í helgri einveru heima, uppi í fjalli eða á kyrrðarstað. Og allt um kring og innan um, hvert andartak lífsins, erum við umvafin helgum anda Guðs og þurfum ekki annað en að draga andann í þakklæti til þess að fá að launum þann frið sem æðri er öllum skilningi (Fil 4.7).
„Hvað á ég að gera?“ spurði fangavörðurinn forðum og við með honum. „Hvað á ég að gera til að verða hólpinn?“ Svarið hefur ekkert breyst: „Trú þú á Drottin Jesú og þú munt verða hólpinn og heimili þitt“ (Post 16.25-31). Það gerist fyrir bæn. Í bæninni breytist Guð úr óræðri stærð í endurleysandi persónulegan kraft, í nafni föður, sonar og heilags anda. Ég fyrir mitt leyti vel að taka undir með Job og gera trúarjátningu hans að minni: „Ég þekkti þig af afspurn en nú hefur auga mitt litið þig“ (Job 42.5).