Trúboð er eitt þeirra hugtaka sem fengið hefur á sig fremur neikvæðan hljóm. Mörgum þykir mesta ósvinna að stunda trúboð, ekki síst ef börn eiga í hlut. Háværar raddir segja að kirkjan eigi helst ekki að vera til í skólum landsins. Að þeirra mati er kirkjan ekkert annað en ein allsherjar trúboðsmaskína.
Margt getur falist í því að boða trú. Trúboð er að segja frá trú sinni, hverju ég trú, hvað ég telji mikilvægt og hvaða viðhorf ég hafi til lífsins og tilverunnar. Er nokkuð að því að stunda þannig trúboð? Gerum við það ekki öll daginn út og inn, meðvitað og jafnvel oftar ómeðvitað, með orðum okkar, framferði og verkum?
Á sama hátt er alltaf verið að innprenta okkur, fullorðnum sem börnum, hvað sé mikilvægt í þessari veröld, til dæmis í auglýsingunum öllum í fjölmiðlunum, leyndum sem ljósum.
Margir líta þannig á markmið trúboðans hljóti að vera að sannfæra viðmælendur sína um að hans trú sé sú eina rétta og miklu betri en þeirra. Trúboðið er samkvæmt því ákveðin tegund af umburðar- og virðingarleysi. Kirkjan á ekki að stunda þannig trúboð en ég er ekki frá því að þeir sem mest amast við kirkju og kristindómi í þessu landi gangi harðast allra fram í því að þeirra skoðanir séu þær einu réttu og brúklegu. Veraldarhyggjan er umburðarlaus í þessum efnum. Trúboðar hennar sýna einatt dæmalausan hroka í málflutningi sínum og margir þeirra neita því blákalt að sýna eigi öðrum skoðunum virðingu en eigin jásystkina.
Trú kristins manns er ekki hans eigin verk. Trú hans er ekkert sem hann getur stært sig af eða notað til að gera lítið úr öðrum. Við getum ekki hrósað okkur af trú okkar. Þvert á móti á hógværðin og auðmýktin að einkenna trúaða manneskju ásamt virðingu fyrir öðru fólki.
Þar með er ég ekki að segja að trúaður maður þurfi alltaf að vera sammála síðasta ræðumanni. Alls ekki. Enda þótt hann eigi að umgangast annað fólk af nærgætni þarf hann ekki að fara í felur með skoðanir sínar. Hann á að segja það sem honum finnst.
Ef til vill hefur það aldrei verið meira freistandi en nú á dögum að ganga sína ævileið með veggjum, gæta þess að gára aldrei mannfélagsflötinn, skilja eftir sig sem fæst ummerki og spor. "Sá sem stingur hausnum út um glugga má búast við því að fá á kjaftinn," sagði bæjarstjóri úti á landi einu sinni. Okkur finnst því öruggast að hafa hægt um okkur innan harðlokaðra glugganna.
Kristnin er ekki innhverf trúarbrögð. Hún leitar út. Kristinn maður finnur trú sinni farveg í veröldinni og notar hana á sama hátt og aðrar gjafir sínar, hæfileika og gáfur. Hann grefur þau auðæfi ekki í jörðu.
Að elska Guð og náungann, það er hið sanna trúboð.
Umræða um þennan pistil fer fram á bloggi Svavars Alfreðs.