Í haust kom ákall frá Lútherska heimssambandinu, það var þörf á ungum fulltrúa frá Evrópu í sendinefnd sambandsins á COP23, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þar sem ég féll undir þann hatt að vera ungur (undir 30 ára) og hafa unnið að umhverfismálum innan og utan kirkjunnar bauðst mér að vera fulltrúi þjóðkirkjunnar.
Lútherska heimssambandið hefur það sem stefnu að senda hóp skipaðan fultrúum yngri kynslóðarinnar á þessa ráðstefnu til að efla framtíðar leiðtoga aðildarkirkna sinna og stuðla að því að umhverfismálin komist á dagskrá í Lútherskum kirkjum um allan heim. Hér er ég með ungum Lútherönum frá Indlandi, Indónesíu, Filippseyjum, Ástralíu, Finnlandi og Þýskaland og það hefur verið fræðandi og skemmtilegt að fá að heyra hvað kirkjurnar þeirra eru að gera í umhverfismálum.
Það sem kom mér á óvart er hvað trúarhópar hafa sterka nærveru hér á COP23. Hér er fjöldi trúarlegra hjálparsamtaka með kynningar á starfi sínu og þvertrúarlegt samstarf er áberandi. Fyrir viku hjóluðu fulltrúar allra trúarlegu hópanna hér á COP23 saman um götur Bonn, vel merkt, hávær og litrík og færðu aðalritara Sameinuðu þjóðanna sameiginlega yfirlýsingu um loftslagsmál. Með í för voru biskupar frá Biskupakirkjunni í Bandaríkjunum og norsku kirkjunni. Ég upplifi að nærveru trúarhópanna sé óskað og framlag þeirra til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum mikils metið.
Það er margt sem ég mun taka með mér heim frá ráðstefnunni, hugmyndir að verkefnum og samstarfi, en líka sterkt tilfinning fyrir því að hlutur þjóðkirkjunnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum gæti verið stærri. Kirkjan hefur gert ýmislegt gott og er til dæmis að vinna að nýrri umhverfisstefnu sem bindur söfnuði til að hætta notkun einnota plastmála og versla fairtrade vörur þegar hægt er. En betur má ef duga skal. Á Filippseyjum og í Indónesíu þar sem afleiðingar loftslagsbreytinga lita hversdaginn hefur Lútherska kirkjan sterka köllun til að hjálpa samfélaginu, hún vinnur með bændum að því að mæta breyttum aðstæðum og stundar skógrækt af miklum krafti. Í Finnlandi hefur kirkjan unnið náið með innlendum náttúruverndarsamtökum að því að hjálpa fólki og söfnuðum að minnka kolefnisfótspor sitt og í Ástralíu er ný búið að samþykkja umhverfisáætlun fyrir safnaðarstarfið sem er trúarlega grundvölluð og stefnir að aðgerðum.
Það hefur verið mikill innblástur að fá að vinna með stórum hópi kristinna einstaklinga sem brenna fyrir umhverfisstarfi og ég er þjóðkirkjunni mjög þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. Ég sé að kirkjan þarf ekki að vera hrædd við að vera sterk siðferðisleg rödd í samfélaginu og hún þarf ekki heldur að óttast það að taka til verka til að styðja við bræður okkar og systur sem þjást vegna loftslagsbreytinga. Við erum kölluð til að fylgja Kristi og standa vörð um sköpunarverkið sem við erum hluti af.
Það var markmið Lútherska heimssambandisns að efla ungt fólk og hvetja það til aðgerða í sinni heimakirkju, þeim tókst það.