Hugsið ykkur ef við gætum bara farið í fjallgöngu, tekið alla trúna okkar, og efann okkar, og fengið staðfestingu hjá Guði að Jesús sé ekki bara góður gæi, heldur líka sonur hans, og að við eigum að hlusta á hann. Hugsið ykkur hvað það væri þægilegt, að þurfa ekkert að efast lengur, þurfa aldrei að hugsa: Ætli þetta hafi nú gerst akkúrat svona? Ætli Jesús hafi ekki bara veirð venjulegur maður með óvenjulegar hugmyndir? Fá bara sönnun, í eitt skipti fyrir öll?
Og hugsið ykkur ef við gætum gert þetta líka við alla þessa leiðtoga í heiminum sem segja við okkur: Hlustið á mig! Ég er með sannleikann! Og þeir segja jafnvel: Ég er með umboð frá Guði! Guð vill að ég ráði og stjórni! Hugsið ykkur ef við gætum bara farið með þeim upp á fjall, og fengið það á hreint hjá Guði, þessi er í lagi, ekki þessi, ekki þessi, þessi, bara svolítið eins og á Tinder... Þá þyrftum við ekkert að velkjast í vafa, þá myndum við bara láta þann leiðtoga stjórna sem Guð væri búinn að ákveða fyrir okkkur...
Já, ef þetta væri svona einfalt... Vá hvað þetta hlýtur að hafa verið einfalt hjá Pétri, Jakobi og Jóhannesi. Þeir fengu að fara með Jesú upp á fjallið. Og þeir fengu að sjá hann ummyndast, og Guð talaði við þá. Og þá langaði mest að vera þarna áfram. Byggja tjaldbúið, setjast að... Það er nefnilega svo gott að dvelja í fullvissunni. Örygginu. Sannfæringunni. En hún entist ekki lengi. Sýnin hvarf og þeir voru einir með Jesú. Og þurftu að koma aftur niður.
Takið eftir því að Jesús bauð ekki öllum lærisveinunum með sér upp á fjallið. Það voru bara þeir þrír. Og takið líka eftir því að þeir fóru ekki upp á fjallið með Jesú fyrr en eftir að Pétur hafði komist að niðurstöðu um hann. ,,Hvern segið þið mig vera?” hafði Jesús spurt þá. Og Pétur hafði sagt: ,,Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs”. Sýnin á fjallinu var ekki til að sannfæra lærisveinana um neitt. Hún var eins konar staðfesting, en bara eftir að þeir höfðu sannfærst. Og svo var það þeirra hlutverk að sannfæra hina lærisveinana. Og við gætum haldið, að þessi sýn hafi nú aldeilis verið nóg til að gefa lærisveinunum þann innblástur og kjark sem þeir þurftu til að fylgja Jesú allt til enda. Ó, nei. Símon Pétur guggnaði þegar til átti að taka. Hann afneitaði Jesú þrisvar. Samt vissi hann. Vissi út frá eigin reynslu nákvæmlega hver Jesús var... Hann hafði fengið að sjá hann í allri sinni dýrð. Samt guggnaði hann þegar það var búið að handtaka Jesú, og fólk benti á að hann hefði líka verið með honum. Þá þorði hann ekki að standa með Jesú, því að hann var hræddur um sitt eigið líf...
Við eigum fæst svona afgerandi trúarreynslu. Flest þurfum við að glíma við efann okkar og vantrú alla æfi, og það eina sem við getum stuðst við eru frásagnir annarra, og okkar eigin innsæi og hyggjuvit. Og upplifun. Því að þó að við höfum kannski ekki fengið að sjá Jesú ummyndast á fjallstindi, þá höfum við samt mörg einhverja trúarreynslu sem hefur umbreytt okkur. Þar sem Guð hefur snert okkur og sannfært okkur um að Guð er raunverulegt afl í lífi okkar. Ég á svoleiðis reynslu, og ég er viss um að mörg ykkar getið sagt það sama. Og það er þessi reynsla mín sem gerir það að verkum að ég stend hér í dag og vil segja ykkur frá Guði og deila trúnni minni með öðru fólki.
Og ég vildi óska að þetta væri líka svona einfalt með að velja okkur veraldlega leiðtoga. Þessa sem hrópa stöðugt! Veljið mig! Veljið mig! Ég er bestur í að stjórna! Og við veljum, stundum vel og stundum illa, því að við getum aldrei verið viss. Við fáum aldrei grænt ljós frá Guði, um hverjir munu reynast vel eða illa. Þar, alveg eins og með trúna okkar, verðum við að treysta á okkar eigið innsæi, og hyggjuvit. Og við verðum að treysta á Jesú. Því að Jesús hefur heilmikið að segja um hvernig leiðtoga við eigum að velja okkur. Hann á að vera fyrirmynd fyrir þá leiðtoga sem við veljum okkur. Eða kannski er einfaldara að segja að þá sjáum við svart á hvítu hvernig leiðtoga við viljum ekki. Og einmitt vegna þess að það er ekki hægt að taka Tinder á þá sem við þurfum að kjósa á milli, einmitt vegna þess að Guð birtist ekki á fjalli og segir: ,,þessi leiðtogi er útvalinn af mér, hlustið á hann!” þá megum við aldrei, ég endurtek, aldrei! setja traust okkar á einn sterkan, veraldlegan leiðtoga. Þess vegna er lýðræðið einmitt svo mikilvægt, að enginn einn leiðtogi verði svo sterkur að hann taki allt yfir og geri sjálfan sig að einræðisherra.
Hvern velur þú sem leiðtoga? Leyfir þú Jesú að hafa áhrif á líf þitt? Ég get ekki lofað þér upplifun á borð við þá sem Pétur, Jakob og Jóhannes fengu að kynnast, en ég get fullvissað þig um að ef þú leyfir Jesú að vera hluti af lífi þínu, þá mun Guð snerta við þér á einhvern hátt. Dýrð sé Guði, amen.