Ísland hefur verið fremur lokað land gagnvart útlendingum. Í huga koma skilaboð íslenskra stjórnvalda á hernámsárunum um að ekki yrðu svartir í herliði Bandaríkjanna á Íslandi. Eimir enn af slíkum fordómum í garð útlendinga í gildismati okkar? Viðbrögð íslenskra stjórnvalda í gegnum tíðina við móttöku hælisleitenda og annarra útlendinga utan Evrópubandalagsins, sem vilja setjast hér að, bera með sér, að einhver ógn stafi af útlendingum. Hér er ekki við ráðherra að sakast, heldur inngróið viðhorf í hefðina.Hvernig skyldi íbúum í Asíu, Afríku og Suður Ameríku ganga að undirbúa heimsókn til Íslands? Oftast er það þrautinni þyngri að sækja um og bíða eftir vegbréfsáritun, og virkar eins og dulin skilboð: Hættu að hugsa um ferð til Íslands. Mörg ríki þessara svæða standa Íslandi langtum framar í að bjóða okkur velkomin, þrátt fyrir að við höfum alltaf verið seinbúin til gagnkvæmra samninga um niðurfellingu vegabréfsáritanna í samanburði við hin Norðurlöndin.
Nú eru fáar þjóðir í veröldinni eins háðar útlendingum og Ísland um afkomu sína. Svo mikið af gæðum okkar eru innflutt. Neysluvörur og hráefni, menntun og tækni. Sama gildir um dýrmætan útflutninginn sem stendur og fellur með því að útlendingar vilji kaupa. Án náinna tengsla við útlönd væri búseta á Íslandi ómöguleg miðað við þær kröfur sem við gerum um lífskjör og velferð. Ekki viljum við loka á þessi samskipti við útlendinga?
Við viljum njóta góðs af útlendingum í viðskiptum og á ferðalögum okkar erlendis, en helst ekki hafa þá í kringum okkur í eigin landi, og alls ekki fátækt eða veikt fólk, nema efnaða ferðamenn og ódýrt vinnuafl, sem við getum grætt á og örugglega treyst að láti sér ekki til hugar koma að setjast að í landinu til frambúðar.
Er þetta gildismatið, þegar málið er skoðað í kjölinn?
Ísland var einangrað land um aldir vegna legu sinnar og fátæktar. En nú hefur tæknin í fjarskiptum og flutningum fært landið inn í hringbraut veraldar. Þá hafa útlendingar, sem hér hafa sest að, auðgað mannlíf okkar og menningu. Fjölmargir Íslendingar hafa líka góða reynslu af því með búsetu sinni erlendis.
Viðast eru í gildi skilyrði um útgáfu leyfa vegna búsetu erlendra ríkisborgara. En það er mikill munur á hvort sé almennt mögulegt fyrir útlendinga utan Evrópubandalagsins að setjast að á Íslandi eða illmögulegt með neikvæðu regluverki og flóknum hindrunum í umsóknarferlinu og óralöngum biðtíma í kerfinu eftir niðurstöðu. Líkist einna helst að um meinta sakamenn sé að ræða sem þurfi að sanna sakleysi sitt.
Þarf útlensk fjölskylda, sem komin er inn í landið, að opinbera erfiðar aðstæður sínar og rjúfa friðhelgi einkalífsins í fjölmiðlum til að tryggja að engin ógn stafi af sér? Þá rísum við upp og viljum elska og krefjast þess, að fjölskyldan megi dvelja í landinu á meðal okkar.
Væri nú ekki ráð að horfa í eigin barm og endurskoða gildismatið á viðhorfum okkar almennt til útlendinga og móta reglur í samræmi við það?
Ef Ísland ætlar áfram að njóta góðs af samfélagi þjóðanna, þá verðum við að venjast því að útlendingar eru fólk eins og við.