En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, en svo er ritað í lögmáli Drottins: „Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,“ og til að bera fram fórn, eins og segir í lögmáli Drottins, „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“. Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði: Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara eins og þú hefur heitið mér því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael. Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann. Lúk 2.22-33
Í guðspjalli dagsins mætast ellin og æskan, ungbarnið og öldungurinn. Hér er manneskjan gagnvart Guði sínum – frá vöggu til grafar. Ákveðna samsvörun við ungbarnaskírnina má sjá í því þegar foreldrarnir færa sveininn í helgidóminn, þó umskurnin sé oftar sú helgiathöfn Gyðinga sem nefnd er í sömu andrá og barnaskírn kristinna manna. Og orð öldungsins hljóma við útfarir í kirkjum landins: Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara...
Hanna og Samúel
Upphaf lífs og endir. Sagan af Hönnu og syni hennar Samúel (1Sam 1. kafli) er merkileg í þessu samhengi. Hanna hafði þráð árum saman að eignast börn, en það varð ekki fyrr en eftir heita bæn fyrir augliti Drottins að viðstöddum prestinum Elí í helgidóminum í Síló. Hún hét Drottni því að ef hann minntist hennar og gæfi henni son myndi hún „gefa hann Drottni alla ævi hans“ (1Sam 1.11).
Hönnu varð að ósk sinni, hún fæddi son og nefndi hann Samúel „af því að ég hef beðið Drottin um hann“ (1Sam 1.20). Og þegar hún hafði vanið sveininn af brjósti, að öllum líkindum þegar hann var um þriggja ára að þeirra tíma sið, fór móðirin með drenginn sinn í hús Drottins í Síló og bað Elí prest fyrir hann. Árlega fór Hanna svo með Elkana manni sínum til helgihalds í musterinu og færði Samúel þá litla yfirhöfn sem hún hafði sjálf gert. Þau hjónin eignuðust síðar þrjá syni og tvær dætur. „En sveinninn Samúel óx upp hjá Drottni“ (1Sam 2.21).
Þannig var fæðing Samúels hvort tveggja í senn, upphaf og lok, upphaf lífs í þjónustu við Guð en afmörkuð stund með móður og fjölskyldu. Ekki er að finna hér í upphafsköflum fyrstu Samúelsbókar eftirsjá hjá Hönnu yfir að hafa látið drenginn frá sér, enda varð sonur hennar mikilvægur spámaður Drottins. Hanna fylgdi hjarta sínu, því sem hún vissi að var rétt að gera, og færði þar með þjóð sinni nýtt upphaf. Hjá henni má sjá eiginleika sem síðar urðu sæmdareinkunnir kristinnar manneskju: Réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð (1Tím 6.11).
Hver morgunn færir nýja náð
Við erum í dag stödd á milli hátíða. Jólahátíðin boðar nýtt upphaf fyrir mannkyn, inngöngu Guðs í sköpun sína, endurnýjun alls sem er. Og framundan er nýtt ár, árið 2009 með öllu því sem það hefur að geyma. Við kveðjum árið 2008, að sumu leyti með trega, en kannski líka með létti. „Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma“ (Préd 3.1). Upphaf og endir.
Í Harmljóðunum lesum við (3.22-23):
Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín.
Hver morgunn færir nýja náð. Sveinninn Jesús sem borinn var í helgidóminn af foreldrum sínum er náð Guðs holdi klædd, trúfesti Guðs í heiminn borin. Hann sem er hér í dag færir okkur nýtt upphaf og nýja von. Hann endurnýjar trú okkar og kærleika og gefur okkur kraftinn til að þjóna, jafnvel þegar okkur finnst við komin á endastöð aðstæðna, aldurs eða lasleika.
Að ganga með gleði inn í verk Guðs
Hanna gaf það sem henni var dýrmætast, barnið sem hún loksins eignaðist. Það var Guð sem gaf henni kjarkinn til þess og launaði henni margfalt, bæði með barnaláni og eins með því að hún fékk að verða vitni að þjónustu Samúels við Guð og menn. Það voru henni engin endalok þó drengurinn hennar væri ekki undir sama þaki og hún. Hún vissi að allt hefur sinn tilgang og gekk glöð inn í verk Guðs.
Hvað höfum við að færa Drottni? Öldungurinn Símeon átti það eitt til sem dýrmætast var, blessun Guðs inn í líf Maríu og Jósefs. Orð hans í helgidóminum urðu þeim hjónum staðfesting á hlutverki sveinsins litla, Jesú. Anna spákona Fanúelsdóttir, sem þau hittu í sömu heimsókn, treysti enn þá vissu sem kviknað hafði í brjósti Maríu við boðun engilsins tæpu ári áður, að sonur hennar yrði „mikill og kallaður sonur hins hæsta” (Lúk 1.32). En frá því segir að Anna kom að þar sem Símeon var að tala við Maríu og Jósef og lofaði Guð. „Og hún talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem” (Lúk 2.38).
Öldungarnir og ungbarnið, æskan og ellin. Símeon og Anna báru fram blessun Guðs allt til enda síns jarðneska lífs. Samúel og Jesús voru helgaðir Guði allt frá upphafi lífsins í móðurkviði og Jesús enn fyrr, eins og segir í Jóhannesarguðspjalli (1.1-2):
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði.
Við finnum okkur líklega smá í samanburðinum við hina trúræknu öldunga og hina útvöldu smásveina, einkum hann sem er ljós mannanna, fullur náðar og sannleika (Jóh 1.4, 14). En öll höfum við eitthvað að færa Drottni. Hver dagur er okkur nýtt tækifæri, ný byrjun lífsins með Guði, nýtt náðarupphaf.
Biðjum Guð að helga líf okkar, jafnvel þótt við eigum þess ekki kost að þjóna Guði í helgidóminum dag og nótt, eins og Anna Fanúelsdóttir og Samúel Hönnuson gerðu. Sveininn Jesús fór með foreldrum sínum aftur til borgar sinnar Nasaret og átti þar sinn uppvöxt. Við förum aftur héðan úr Hallgrímskirkju að messu lokinni, hvert á okkar stað í borginni okkar Reykjavík – eða úti í hinni víðu veröld. Þar er okkur ætlað að þjóna, hvert inn í sínar aðstæður og samferðafólksins, í bæn og með blessun Guðs í hjarta.
Köllun til þjónustu
Páll postuli segir í fyrra bréfi sínu til Tímóteusar í kafla um fégirndina sem sé rót alls ills (1Tím 6.11):
En þú, Guðs maður, forðast þú þetta en stunda réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.
Já, Guð kallar okkur til að stunda réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. Í dag kom hann Friðrik Róbert hingað í helgidóminn ásamt foreldrum sínum og ástvinum til að játast góðu játningunni. Við erum öll vottar að því. Játningin sú er staðfesting á því nýja upphafi sem skírnin hans fól í sér, upphafi lífs í náð Guðs, fyrir trú til trúar (Róm 1.17). Fermingin er engin endastöð heldur miklu fremur styrking á þeirri vegferð kristins manns sem hann er þegar á í æskublóma lífsins.
Mætti hann og við öll hlýða kalli Guðs hvern dag, kalli Guðs til þjónustu og lífs í réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. Þannig tökum við sveininn Jesú í fangið eins og öldungurinn Símeon gerði og getum staðið örugg frammi fyrir Guði þegar ævi okkar lýkur.