Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn! Svona hljómaði kveðja fólks áður fyrr og í anda þeirrar kveðju langar mig að tala við ykkur um von, þetta litla þriggja stafa orð, sem hefur svo djúpa merkingu. Hvað er von? Hvaða merkingu hefur orðið von í þínu lífi? Hverjur breytir það fyrir þig að eiga von?
Von er nátent öðru litlu þriggja stafa orði sem líka hefur djúpa merkingu og það er orðið trú. Án trúar er vonin máttlaus. Skoðum saman hvernig trú og von tengjast. Von er að trúa því að allt verði gott. Von er að sjá ljós í myrkri því sem lífið getur stundum verið. Von er að sjá út úr erfiðleikunum og von er að gefast ekki upp. Von er að halda áfram þótt í móti blási. Þegar ég horfi hér yfir kirkjuna í dag sé ég fólk sem hefur verið í þannig aðstæðum í lífinu að án vonar og trúar hefði það ekki getað haldið áfram. En trúin gaf von og þið gáfust ekki upp.
Á þessum páskadegi skulum við um stund setja okkur í spor kvennanna sem fóru út að gröf Jesú hinn fyrsta páskadag. Við þekkjum þessar konur ekki þó þær séu nefndar með nafni í guðspjallinu. Við vitum ekkert um líf þeirra eða fjölskylduhagi. Við vitum ekkert um það hvort þær voru að glíma við einhverja erfiðleika eða sjúkdóma og við vitum ekkert um efnahag fjölskyldunnar. Við vitum ekki á hvaða aldri þær voru. Voru þær ungar og í blóma lífsins og áttu von í hjarta um bjarta framtíð? Eða voru þær gamlar með mikla lífsreynslu og ef til vill bitrar vegna andstreymis lífsins?
Hvað sem öllum þessum vangaveltum líður um konurnar ætla ég mér ekki að svara þessum spurningum um líf þeirra, en við getum velt því fyrir okkur hvort þær hafi átt von. Getur verið að þeim hafi dottið í hug þegar þær fóru út að gröf Jesú að þær myndu koma að gröfinni tómri. Getur verið að þær hafi grunað að þær myndu fá að upplifa stærstu fréttir allra tíma? Skyldu þær hafa ímyndað sér að til væri upprisa frá dauðum? Og í framhaldi af því hljótum við að spyrja okkur sjálf: Er hægt að vona það að eignast eilíft líf? Er hægt að trúa því að lífið haldi áfram eftir að hjartað okkur hættir að slá og augun okkar lokast í síðasta sinni?
Svarið er áfdráttarlaust: Já. Við getum ekki vitað að upprisa Jesú hafi átt sér stað, en við getum vonað það og við getum trúað því. Það gefur lífinu gildi. Ég hef kynnst trúlausu fólki á lífsleiðinni. Ég hef kynnst fólki sem á ekki von. Það er dapurlegt líf og snautt af þeim víddum sem trúin gefur okkur. En ég hef líka kynnst fólki sem á von og trú og það er dýrmætt sérstaklega við dánarbeð að upplifa hversu mikið það gefur hinum deyjandi að eiga von og trú á að Jesús taki í hönd þeirra á dauðstundinni og taki við þeim í faðm sinn. Eins og Jesús sat við rúmstokk stúlkunnar sem hann reisti upp frá dauðum, dóttur Jaírusar, tók í hönd hennar og sagði: Stúlka litla ég segi þér rístu upp. Þannig trúi ég að Jesús taki í hönd mína á dauðastundinni og segi: Stúlka litla rístu upp.
Að eiga von er að trúa því að allt verði gott. Sú trú er í raun og veru ekki flókin. Jafnvel þó fréttin um upprisu Jesú sé ótrúleg, þá er hún í raun og veru einföld. Hún er jafn einföld og að trúa því að blómin springi út, að trúa því að trén laufgist og fuglarnir komi aftur og silungurinn komi aftur í árnar. Hún er jafn einföld og að trúa því að sólin hækki aftur á lofti.
Eftir páskana höldum við gleðidaga í kirkjunni. Gleðidagarnir eru fram að hvítasunnu. Þá minnumst við allra þeirra fallegu frásagna sem guðspjöllin geyma um það þegar Jesús birtist upprisinn. Á gleðidögunum skulum við muna eftir því hvað gleðin skiptir miklu máli í lífinu. Gleðjast og gleðja aðra.
Upprisa Jesú merkir umfram allt tvennt fyrir okkur í dag á þessum páskum. Annars vegar að Jesús er upprisinn með okkur og leiðir okkur um dal lífs okkar hvort sem hann er dimmur eða bjartur og hann gefur okkur styrk og kraft og gleði með nærveru sinni. Hins vegar merkir upprisa Jesú að hann leiðir okkur inn í nærveru Guðs þegar lífi okkar lýkur. Þar fáum við að lifa í gleði og fögnuði upprisunnar.
Upprisuboðskapurinn gefur okkur von. Vonin mótar daglegt líf okkar og lýsir upp svartnætti hugans. Vonin gefur gleði í gleðidagana og trúin á upprisuna er trú vonarinnar. Guð gefi okkur öllum gleðilega páskahátíð.