Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“
Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.
Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Jóh 4:46-53
Guðspjallið fjallar um trú. Hvernig trú, hvaða trú? Trú á Jesú Krist, trú á mann sem sögur fóru af.
Trú er í víðasta skilningi sú hugmynd að til sé kraftur sem hafi áhrif á líf mannsins og heimsins. Að til sé sá máttur sem viðhaldi heimsrásinni og geti gripið inn í líf og örlög fólks. Trú er vissulega ýmissar gerðar; inntak hennar ljóst eða óljóst, ákveðið eða sveipað dul.
Hvarvetna er trúað. Meðal ólíkra þjóða, gjörólíkra aðstæðna, fólks og þjóðflokka í heiminum. Mannfólkið þráir vernd og skjól þegar í harðbakkann slær.
Þessu líkt er guðspjallið í dag. Það segir frá áfanga á ferð Jesú með fylgjendum sínum. Hann er kominn aftur til Kana. Þaðan á hann góðar minningar. Þar hafði hann verið í brúðkaupsveislu og breytt vatni í vín. Það var þá, þegar allt lék í lyndi, þá var gleði og gaman. Það höfðu spunnist sögur af þessari veislu, mikið drukkið. Sú veisla var búin. Nú var kreppa, kreppa í lífi manns sem kom til hans í angist sinni. Í kaflanum segir að hann hafi verið hátt settur embættismaður í héraðinu, eins og það skipti einhverju máli. Það undirstrikar bara að áföllin geta dunið á hverjum sem vera skal. Enginn er öruggur í ótraustum heimi. Konungsmaðurinn er fyrst og fremst kominn sem faðir, sem vill gera allt til þess að hjálpa drengnum sínum. Hann vissi að Kristur hafði gert tákn og undur. Hann bað um fjarlækningu - og átti vonina í brjósti sínu. Kristur gæti hjálpað. Hver þekkir þetta ekki? Þegar við lendum í aðstæðum sem við ráðum ekki við. Ekki síður þegar nákomnir eiga í hlut. Tilfinningin, sem fylgir því, að horfa upp á sjúkdóma taka heilsuna og lífið frá ástvini, vini. Hvað erum við ekki tilbúin að gera til hjálpar - og hversu vanmáttug finnum við okkur oft!
Liðin vika hefur verið ótrúleg í lífi okkar persónulega og allra saman. Við höfum tekið ótrúlegar dýfur, lifað tíma sem við héldum að ekki myndu koma fyrir okkur.
Efnislegt umhverfi okkar hefur kollvarpast. Nú voru það ekki lengur svolitlar breytingar á kenniorðum efnahagslífsins, úrvalsvísitölunni, Nasdaq, Ftse og Dow Jones. Sumir hafa verið að missa allt sitt. Jafnvel líka vinnuna - nokkur þúsund manns eru í þann veginn að verða atvinnulaus. Ungt fólk, menntað, hæfileikaríkt fólk er þessa dagana að missa vinnuna. Fjölskyldutekjurnar falla, afborganirnar hækka. Framundan eru margar fleiri slíkar fréttir. Hvernig mun okkur ganga að reka þjóðfélagið, halda öllu gangandi með minnkandi tekjustofnum? Spurningarnar eru ótalmargar. Það sem mér finnst mikilvægast núna er það að láta ekki kvíða, depurð, vonleysi ná tökum á sér. Lægðin, hrunið, verður ennþá háskalegri ef við látum það ná hugsun okkar allri.
Þeir sem eru reiðir og sárir ættu að gæta þess að deila því með fleirum.
Þeir sem kvíða eða finnst tilvera sín hafa kollvarpast, ættu ekki að vera einir til lengdar. Nú ættum við að leyfa okkur meiri einlægni, umhyggju, samskipti, mannleg, manneskjuleg samskipti, en nokkru sinni fyrr. Nú skiptir samstaðan máli, tengslanetið í fjölskyldum og vinahópum.
Missirinn, sem margir lifa og upplifa er vissulega náskyldur sorginni. Og sorgarviðbrögð eru víða sýnileg og finnanleg í samfélagi okkar.
Sorg gerir mann sjálfhverfan. Þannig verkar oft sársaukinn á okkur. Og meinið getur grafið um sig og svipt fólk voninni, gleðinni, lífinu. Þú ættir að huga að fólkinu í kringum þig, nú sem aldrei fyrr.
Í guðspjallinu er dauðinn skammt undan. Hann er í þann veginn að taka litla drenginn frá föður og móður. Hann skilur fólk að, dauðinn. Við vitum aldrei hverjir kunna að vera í lífshættu.
Nú finnst mér mikið við liggja, að við styrkjum trú okkar, grundvallartraust okkar til Drottins, skerpum sjón okkar á það hverju við trúum og hvernig við getum sótt okkur styrk í trúna.
Vér þráum allir stuðning, stormahlé og stuðning þegar mest á liggur. En vera má að þraut hins þögla sé oft þyngri en margur hyggur.
Þannig líður mörgum þessa dagana. Eru einir með erfiðar hugsanir sínar. Þar sem allt lék í lyndi fyrir fáeinum vikum hafa nú orðið mikil veðrabrigði.
Sumir hlaða upp múra í kringum sig og hafa ekki tilfinningalegt samneyti við annað fólk. Tortryggja allt og alla, hætta að kunna að gefa af sér og geta heldur ekkert þegið af öðrum. Þannig ástand er að búa um sig í Evrópu og vestanhafs.
Huglæg kreppa. Hún byrjar ekki þar - en hún dýpkar og versnar þegar henni slær inn. Það var eitt sinn þegar Halldór Laxness þurfti að hitta útgefandann sinn hjá Gyldendal í Danmörku. Lús og óþrifnaður á Íslandi hafði verið efni ritsmíðar hjá skáldinu. En sá danski direktör gerði þessa athugasemd: "Meðan lúsinni slær ekki inn er hún tiltölulega hættulítil." Sama gildir um kreppuna.
Heimskreppan mikla fyrir nær 80 árum heitir á engilsaxnesku "The Great Depression." Depurðin mikla, depression sem er þunglyndi. Og þetta er það sem við þurfum að hafa hugfast nú um stundir. Efnahagslægðin getur orðið að alvarlegri geðlægð. Gagnvart því ættum við öll að vera á verði. Við ættum einfaldlega að passa vel hvert annað. Hugsa um það sem aldrei fyrr að við erum hvert öðru viðkomandi - og hvert öðru svo óendanlega dýrmæt.
Við sjáum það nú hversu andinn og efnið er nátengt allt. Efnisleg gæði og tilfinningaleg, andleg fara á margan hátt saman. Og það minnkar hvorugan hlutann. Ytri hagur skiptir okkur öll miklu máli. Fjármunir gera það líka, þeir eru ávísun á velferð og afkomuöryggi.
En við getum notað tækifærin sem nú bjóðast til nýrrar forgangsröðunar í lífinu.
Sonur þinn lifir! Sjáðu hvað þú átt margt, hugsaðu um það hvað þú átt margt og mikið. "Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki." Kraftaverkin eru alls staðar að gerast í kringum okkur. Lífið lifir, og þú átt ótal margt að lifa fyrir.
Sem þjóð erum við ekki fædd í gær. Ekkert þarf að telja upp af hörmungum fyrri alda. Sem þjóð vorum við oft á mörkum þess að lifa af.
Kristur sagði ekkert jafn oft og þetta: Óttist ekki, verið ekki áhyggjufull.
Guð segir þér: Þú ert dýrmætt eintak af manneskju – og bara til eitt eintak af þér. Þú átt ekki þinn líka – og Guð elskar þig.
Láttu ekkert draga þig niður. Ekki heldur óréttlætið og rangindin í heiminum.
Kristur fæddist í þennan heim til að sýna okkur afstöðu Guðs til mannanna og samfélags þeirra. Engin rangindi, svik, óréttlæti, lét hann kippa sér af þeirri leið. Hann kemur til að veita okkur skilning á tilgangi lífsins og vettvang til að lifa þann tilgang. Tilgangurinn er lífið sjálft, að lifa því, taka þátt í því ásamt samferðafólkinu, samtíðinni. Að eiga samleið með Jesú Kristi leiðir til fyllra lífs í friði og kærleika. Lífsskoðun reist á persónu og kenningu Jesú Krists er björt. Framtíðin með honum er björt. Amen