Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“ En Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim sem týndur er þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var. Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við. Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“
Biðjum saman í Jesú nafni.
Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.
Náð sé með ykkur og friður, frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
Ásamt dæmisögunni um miskunnsama samverjann má segja að guðspjallið yndislega sem við heyrðum áðan, dæmisagan um týnda sauðinn, sé án efa kunnasta dæmisaga Jesú og líkast til einn af þekktustu textum Nýja testamentisins.
Í dæmisögunni er slegið á kunnuglega strengi sem hljóma víða í Biblíunni. Við þekkjum flest 23. Davíðssálm, sem hefst á þessum kunnuglegu orðum: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig liggja, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta“, o.s.frv. Guði er líkt við hirði sem gætir hjarðar sinnar, leiðir hana að haglendi og verndar hana frá hættum sem steðja að. Ef það er langt síðan þið lásuð sálminn, ef þið eruð farin að gleyma honum, þá hvet ég ykkur til að lesa hann þegar þið komið heim og leiða hugann að boðskap hans.
Í sálminum er verið að fjalla um eðli Guðs, hver Guð er og hvað hann vill manninum. Guð er sá sem vill leiða manninn til lífs í fullri gnægð, svo notuð eru orð Jesú sjálfs. Og þarna er líka sagt frá því hvaða afleiðingar það hefur á líf mannsins ef hann leggur traust sitt og von á Guð og leyfir honum að ganga inn í líf sitt; hvað gerist ef maðurinn gefur Guði eftir pláss í lífi sínu. Sá sem talar í gegnum orð sálmsins miðlar af eigin reynslu hvers konar líf, lífið með Guði er.
Sá fallegi strengur sem hljómar í 23. Davíðssálmi hljómar hins vegar blíðast og skærast í orðum Jesú frá Nasaret. Jesús sagði eitt sinn: „Ég er góði hirðirinn. Góði hirðinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.“ Þó að orðið „hirðir“ komi ekki fyrir í guðspjallstexta dagsins í dag þá er ljóst að þar er um að ræða myndina af hirðinum sem gætir hjarðar sinnar.
Til þess að skilja hvað Jesús er að tala um þá þurfum við fyrst af öllu að skilja hvað Jesús er ekki að tala um. Hann er ekki að tala um einhvern mann sem fer af stað í leit að einhverri eftirlegukind. Það er aðeins ramminn sem Jesús setur utan um boðskap sinn. Þetta er dæmisaga. Sú mynd sem hér er dregin upp, eins og í öðrum dæmisögum, er líking, og hún þjónar því marki að beina sjónum okkar í aðra átt enda stendur hún fyrir eitthvað annað. Jesús notar sér hér kunnuglegar aðstæður og reynslu sem fólk gat tengt sig við og þekkti af eigin raun. Þetta gerum við sjálf margoft í daglegu tali til þess að gera okkur skiljanleg. Við grípum til kunnuglegra mynda og sækjum í sameiginlega reynslu sem viðmælandi okkar getur tengt sig við. Þetta gerum við til þess að við skiljumst og komum til leiðar því sem við viljum segja. En þá, eins og í dæmisögunni um týnda sauðinn, vísar myndin út fyrir sjálfa sig og inn í annan veruleika. Og sá veruleiki er hér miklu dýpri og stærri en myndin sem vísar á hann.
Og þá komum við að meginspurningunni. Um hvað fjallar dæmisagan? Ég held að þið vitið það. Þessi dæmisaga stendur þér nær og ristir dýpra en þig kannski grunar. Það er vegna þess að hún fjallar um þig. Hún fjallar um okkur öll, um hvern mann. Þú ert týndi sauðurinn. Við erum hann. Jesús er að tala um þig og þitt líf. Með öðrum orðum: Guðspjall dagsins, líkt og öll orð og verk Jesú, kallast á við tilvist mannsins. Það endurspeglar þig og líf þitt.
Til að setja dæmisöguna í rétt samhengi þá held ég að það sé hjálplegt að færa sig aðeins framar í Biblíunni. Reyndar alveg til upphafsins. Munið þið eftir fyrstu köflunum í Biblíunni? Þar er sagt frá sköpun heimsins og mannsins, dvöl mannsins í aldingarðinum og því sem þar gerðist og afleiðingum þess. Paradísarsagan, sem segir frá falli mannsins, er önnur merkileg dæmisaga í Biblíunni. Munið hvað Guð gerði eftir brot mannsins? Hann leitaði að manninum en fann hann ekki enda faldi maðurinn sig fyrir Guði. Guð kallaði til hans og sagði: „Hvar ertu?“ Þessi orð eru „lítil Biblía“. Þið munið að Marteinn Lúther talaði um „litlu Biblíuna“ í Jóhannesguðspjalli: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn ...“ o.s.frv. Þessi tvö litlu orð: „Hver ertu“ bergmála í gegnum alla Biblíuna, frá upphafi til enda, og hljóma hæst í persónu Jesú frá Nasaret, góða hirðinum. Að vissu leyti má segja að þessi orði feli í sér boðskap Biblíunnar, hver Guð er og hvað kristin trú felur í sér: Guð er sá sem er að kalla á þig og leita að þér. Og kristin trú er viðbragð við Guði, honum sem er að leita þín, fagnaðarfundur með honum.
Það er samt eitt vandamál í þessu öllu, og það býsna stórt reyndar. Við erum ekki týnd. Er það nokkuð? Þú ert ekki týndur. Eða hvað? Maðurinn telur sig ekki vera týndan. Vitum við ekki VEL hvar við erum stödd? Höfum við ekki allt svo að segja á hreinu? Það er auðvitað stórt vandamál fyrir Guð ef svo er. Það er ekki til mikils að leita einhvers sem vill ekki láta finna sig, telur sig ekki þurfa að láta finna sig. Þetta er auðvitað saga mannsins og Guðs. Maðurinn telur sig ekki þurfa Guð og vill helst ekkert af honum vita. Það er hinn augljósi boðskapur paradísarsögunnar enda er þar verið að fjallað um tilvist mannsins, reynslu hans af sjálfum sér og lífinu.
Málið er einfaldlega það, eins og þið vitið og hafið eflaust reynt sjálf, að það hefur alltaf hljómað innra með manninum, hverjum manni, þessi rödd sem hvíslar að honum: „Auðvitað getur þú verið eins og Guð! Þú getur gert það sem þú vilt, þú getur allt og þarft ekkert nema sjálfan þig!“. Þessi rödd leitar allra leiða til að sannfæra manninn um að hann þurfi ekki á Guði að halda, að hann geti verið sjálfum sér nægur. Hún reynir jafnvel að sannfæra okkur um að Guð sé bara einhver tilbúningur. Höggormurinn í syndafallssögunni, sá margfrægi og umtalaði, stendur fyrir þessa tælandi rödd, innri rödd mannsins, sem hvetur hann til að veðja á sjálfan sig í stað þess að leggja traust sitt á Guð. Paradísarsagan tjáir þessa reynslu og afleiðingar hennar.
Afleiðingin er sú að maðurinn missir marks í og með lífi sínu Bókstafleg merking hugtaksins synd er að missa marks. Orðið er tekið úr grísku íþróttamáli. Líf mannsins verður annað en til stóð. Munið þið eftir fyrstu frásögninni sem fylgir á eftir paradísarsögunni? Þar er sagt frá tveimur bræðrum, Kain og Abel, og því sem gerðist þeirra á milli. Þið vitið hvað það var. Saga þeirra segir frá fyrsta mannsmorðinu og er það engin tilviljun að einmitt hún fylgir á eftir paradísarsögunni.
Paradísarsagan minnir okkur á að gjörðir mannsins hafa afleiðingar. Alvarlegasta afleiðingin er þó sú að maðurinn verður af því lífi sem honum var ætlað. Hann snýr baki við Guði og stendur berskjaldaður frammi fyrir lífi uppfullu af andstæðum og þverstæðu, þar sem tilgangur og merking rennur honum sífellt úr greipum.
Það er svo margt sem heldur fólki frá Guði, maðurinn bindur hjarta sitt við margt. Það er óþarfi að telja upp dæmin enda tæki það of langan tíma. En fyrst og fremst bindur hann það við sjálfan sig. Maðurinn heldur sífellt framhjá Guði með sjálfum sér, ef svo má að orði komast. Við teljum okkur ekki hafa þörf fyrir Guð því við höfum það svo gott og getum orðið allt, vitum líka orðið allt. Við teljum okkur geta lokið upp leyndardómum lífsins í eigin valdi og gert eigið hyggjuvit að eigin sáluhjálp. Og af þessum sökum gefum við Guði lítinn gaum. Það er sorglegt verð ég auðvitað að segja enda má sjá afleiðingarnar í hverjum einasta fréttatíma og öllum dagblöðum á hverjum degi. Paradísarmissir er orð sem tjáir vel stöðu manns og heims í dag. Jöklar bráðna, skógar eyðast, auðlindir klárast, loftið er mengað. Maðurinn þjáist, sveltur, beitir náunga sinn ofbeldi og ranglæti. Við höfum breytt aldingarðinum í eyðimörk. Og þar eigrum við um, berskjölduð, áttalaus, með ekkert til að vísa okkur leið, ekkert til að miða við - nema okkur sjálf auðvitað, sem dugar ansi skammt eins og sagan sýnir.
Má ekki sjá merki þessa í samfélagi manna? Gerast þær ekki æ ískyggilegri fréttirnar sem sanna þessa staðreynd: Afvegaleitt fólk í afvegaleiddum heimi; börn, ungmenni, gamalt fólk, sem lifa í heimi firringar, tómlætis, tilgangsleysis, fátæktar, hungurs, stríðs og ofbeldis. Þetta er dökk mynd. Ég veit það. En hún er sönn.
Ef allt fólk á eitthvað eitt sameiginlegt þá er það að minnsta kosti það að við leitum öll að því sem ljær lífi okkar merkingu og tilgang. Lífið vekur upp margar spurningar sem við þurfum að svara fyrir okkar leyti. Ég er er viss um að ef við tækjum allar þessar spurningar og skoðuðum þær nánar þá væru það fyrst og fremst fjórar grundvallarspurningar sem sífellt leita á okkur: Hvaðan komum við? Hver er tilgangur lífsins? Hvernig ber okkur að breyta? Hvers megum við vænta að þessu lífi loknu? Þau svör sem við gefum okkur við þessum spurningum fela í sér lífssýn okkar, heimsskoðun, túlkunarlykilinn sem við beitum á lífið til að koma því heim og saman og gera það merkingarbært og innihaldsríkt.
Í gegnum trúna leitast maðurinn við að svara áðurnefndum spurningum. Jesús sagði: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Með því er hann að segja að hann hefur svörin við spurningum lífsins, spurningum þínum – ef þú vilt þiggja þau.
Auðvitað er guðleysi líka leið sem fólk fer til þess að finna svörin. En hvers konar svör? Erum við aðeins afleiðing stórrar tilviljunar, þessi heimur, við, líf okkar, og þar með rúið öllum eiginlegum tilgangi? Lifum við bara til þess að deyja í deyjandi alheimi, án tilgangs og merkingar? Nei. Ef þið heyrðuð háan hvell hér fyrir utan þá munduð þið ekki trúa mér ef ég segði ykkur að hann hafi komið upp úr þurru , án allrar orsakar. Ekkert verður til af engu. Ekki þú, ekki ég, ekki þetta líf og alls ekki alheimurinn. Þetta hefur trúað fólk vitað öldum saman. Það er hins vegar fyrst núna á síðustu áratugum að vísindin hafa staðfest þau sannindi.
Í trúnni eru fólgin svörin sem við þörfnumst. Og fagnaðarerindið, sem trúin lýkur upp, er fólgið í því að Guð lætur manninn ekki einan og afskiptan. Alheimurinn, lífið, við sjálf, erum ekki tilgangslaus tilviljun. Guð er til. Guð er sannarlega til. Það er hugsun og vit á bak við heiminn, markmið og tilgangur, upphaf og stefna. Og Guð elskar manninn. Hann leitar sífellt leiða inn í líf mannsins í þeirri von að hann hleypi sér að. En hann brýst ekki inn í líf okkar eins og þjófur. Við verðum að hleypa honum inn. En hann er alltaf að leita okkar til þess að hafa áhrif á okkur og líf okkar.
„Hvar ertu?“ Þetta eru orðin sem Jesú beinir að þér í guðspjallstexta dagsins. „Hvar ertu?“ Þetta er spurning Guðs til þín í kvöld. Guð elskar manninn svo mikið að hann mundi frekar afsala sér guðdómi sínum en að glata manninum. Og það gerði hann á krossinum, þar afsalaði hann sér guðdómi sinum, varð mönnum líkur, til þess að maðurinn gæti öðlast að nýju sína guðlegu mynd; svo að hann gæti fetað leiðina tilbaka. Til þess kom Jesús, til þess að brúa bilið. Já, Guð er sannarlega að leita þín. Spurningin er aðeins sú hvort þú vitir af því, hvort þú viljir vita af því og hvernig þú bregst við því. Með því að svara kalli Guðs í trú og segja: „Ég er hér“, ljáum við við lífinu, tilvist okkar, sína réttu merkingu og sinn eiginlega tilgang, sem er og hefur ávallt verið samfélag við Guð og þekking á Guði. Honum sé dýrð, Guði föður, sonar og heilags anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.