Kennileitin

Kennileitin

Kennileitin og viðmiðin voru öll innra með honum. Innra með sér sá hann þetta fyrir sér og vissi nákvæmlega hvert við vorum að fara.

Sakaría 12:10

Efesusbréfið 5:1-19

Lk. 11:14-28

 

Biðjum:

Góði Guð er ég bið,

viltu gefa rósemd og frið.

Tak burt óró sem kringum mig er,

allan efa og kvíða frá mér.

Láttu kærleik þinn vinna sitt verk,

svo að vonin og trúin sé sterk.

Gerðu börn þín að biðjandi hjörð,

og að blessun alls mannkyns á jörð. Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Þau eru merkileg hugtökin og stefin sem nefnd eru í ritningarlestrum dagsins.

 

Samúð og tilbeiðsla

 

Sakaría spámaður talar um að Guð muni fylla þjóð sína anda samúðar og tilbeiðslu. Samhengið er stríðsástand í nágrenninu, þar sem nágrannaþjóðirnar, sem spámaðurinn þekkir berast á banaspjótum.

 

Fyrir hverju finnur maður þá, þegar það eru aðstæður okkar? Jú, samúð og samhugur, þar sem við viljum biðja fyrir friði, biðja fyrir öðrum.

 

Þetta gamla rit, lýsir vel þeim tilfinningum sem bærast í brjósti okkar um þessar mundir, þegar við hugsum til ástandsins í Úkraínu. Samhugur og bæn.

 

Eftirbreytendur

 

Nokkrum öldum eftir Sakaría, ritaði Páll postuli bréf til hins kristna safnaðar í borginni Efesus. Nokkur vers voru lesin hér úr því bréfi. Páll er með skrifum sínum að hvetja söfnuð sinn til dáða. Þar hvetur Páll söfnuðinn til að lifa lífi sínu í kærleika, gera sér grein fyrir að allir sem meðtaka kærleika Guðs, eru sem elskuð börn Guðs. Hann varar alla einstaklinga í söfnuðinum við því að svíkja maka sinn eða blekkja náungann. Hann ber þar upp myndlíkingar um ljós og myrkur og hvetur fólk til að vera börn ljóssins, því ávextir ljóssins voru þá og eru enn, góðvild, réttlæti og sannleikur.

 

Af þessum textum sér maður að mannkyn þarf á öllum tímum á þessari hvatningu að halda. Við köllum þessi rit, helg rit, því þau hafa verið valin af kynslóðunum til að vera lesin með reglubundnum hætti og rifjuð upp á vettvangi kirkjunnar. Að helga eitthvað, til dæmis rit eða hús, þýðir að taka það frá til einhverra nota, til tilbeiðslu og andlegrar ræktunar.

 

Hvers vegna hafa þau verið valin, og hvers vegna köllum við þau helg rit? Jú vegna þess að þau eiga erindi, vegna þess að þau tala ávallt inn í aðstæður mannlífsins á nótum friðar og uppbyggingar, friðar og upprisu.

 

Góð ráð og heilræði kynslóðanna geta verið manni mikilvæg. Það að læra af reynslu annarra getur skipt okkur öll máli, draga lærdóm af því sem aðrir hafa reynt, án þess að þurfa endilega sjálf að reka okkur á sömu hindranir og veggi. Einn af grundvallarlærdómunum sem er gæfulegir fyrir okkur er að setja okkur í annarra spor og draga lærdóm af reynslu annarra, og jafnvel reynslu kynslóðanna.

 

Heilræði frá því fyrir 100 árum

 

Um daginn fékk ég að gjöf frá mætum, eldri manni ljósrit af heilræðum, sem rituð voru af Bergþóru Ísaksdóttur 27. febrúar 1922. Rithönd hennar er afskaplega falleg, en orðin hljóða svo:

 

Hinn frægi skáldsagnahöfundur Frakka, Alexander Dumas eldri, ráðlagði eitt sinn ungum manni, sem leitaði til hans, þar sem hjer fer á eftir: Fáðu þjer göngusprett á hverjum degi og sofðu 7 tíma í hverjum sólarhring ef þú getur komið því við. Gakk til hvílu strax, þegar þú ert syfjaður og farðu á fætur undir eins og þú vaknar og byrjaðu vinnu þína. Borðaðu og drekktu aldrei meira en líkaminn þarfnast. Talaðu aðeins þegar það er nauðsynlegt og segðu það eitt, sem þú meinar. Skrifaðu ekki annað en það sem þú getur með góðri samvisku sett nafn þitt undir. Gerðu aðeins það sem þú þarft ekki að þegja yfir. Vertu fljótur að fyrirgefa öllum mönnum og fyrirlíttu þá ekki og því síður máttu hata þá. Hlæðu að þeim í hljóði og aumkaðu þá. Hugsaðu um dauða þinn hvern morgun þegar þú opnar augun, og hvert kvöld þegar þú lokar þeim. Mundu ætíð að aðrir treysta á þig, en þú mátt ekki vera upp á aðra kominn, ef þjer er það mögulegt. Sje þjer ætlað að líða mikið, þá gakk beint á móti örðugleikunum með öllum þeim kröftum sem þjer eru gefnir og verða þeir þjer þá til huggunar og náðdóms. Vertu svo nægjusamur, gagnlegur og frjáls, sem þjer er unnt. Komi fyrir að þú efist um tilveru Guðs, þá skalt þú varast að neita henni fyrr en það er sannað að hann sje ekki til.

 

Öll getum við lagt okkur fram í því að gefa hvert öðru ráð, draga lærdóm af reynslu hvers annars, reynast hvert öðru vel, biðja fyrir hvert öðru.

 

Þeir textar úr Biblíunni, hinni helgu bók sem við heyrðum hér áðan, benda til Jesú.

 

Spámaðurinn og postulinn benda til Jesú

 

Jesús hefur verið sagður holdgerfingur alls hins góða í heiminum.

 

Hann læknar, eins og segir frá í guðspjalli dagsins er hann læknar „mállausan“ mann.

 

Að hafa mál, geta tjáð sig, tjáningarfrelsið, hefur verið sagt eitt af grundvallarmannréttindunum sem frjálsum einstaklingum er gefið og samfélaginu ber að verja. Að hafa rétt á því að tjá sig, segja meiningu sína, hafa skoðun og leyfa henni að heyrast, er það sem einkennir lýðræðislegt, réttlátt samfélag. Svo framarlega sem það skaðar ekki aðra, þá megum við segja það sem hugurinn geymir.

 

Jesús læknar, gefur manninum í frásögu dagsins, mál. Málleysinginn tók að mæla, eins og segir á svolítið fornri íslensku í textanum. Í stað þess að þakka og gleðjast yfir því að málleysingi fái málið, efast þeir sem í kring eru um að forsendur Jesú til þessarar lækningar hafi verið réttar. 

 

Er það ekki oft þannig í mannlífinu almennt að velgengni annarra eða umbreyting til góðs, fer eitthvað vitlaust ofan í okkur? Viðkomandi hlýtur að hafa svindlað eitthvað, eða hvað?

 

Jesús læknar og rekur út illan anda, eins og segir frá í þessari lækningarfrásögu.

 

Góður andi – slæmur andi, illur?

 

Að tala um illa anda í nútímanum er okkur kannski framandi. Og þó, ýmsir hafa reynslu af hinu góða og einnig einhverju sem illt er. Kannski eigum við öll, eða einhver hér í hópnum slíka reynslu, reynslu af illum anda.

 

Ég man eftir lýsingu á því er börn sátu við sjúkrabeð, deyjandi föður síns. Hann hafði ekki verið þeim góður í uppeldinu. Hann hafði beitt ofbeldi, aðallega gagnvart móður þeirra. Auðvitað var ekki allt slæmt, hann átti eins og allir sínar góðu hliðar, reyndist líka vel, elskaði greinilega sitt fólk, en brestirnir voru stórir. Börnin, sem voru þarna orðin fullorðin, sátu yfir háöldruðum föður sínum á sjúkrabeðinum, á dánarbeðinum. Hann dró síðasta andardráttinn og þau lýstu fyrir mér hvernig það var eins og eitthvað illt hefði yfirgefið hann, um leið og andinn yfirgaf líkamann. Þau tengdu þetta saman. Illskuna í uppeldinu og hvernig lífið kvaddi.

 

Reynsla sem erfitt er að festa hönd á. En mjög sterk reynsla af lífi og dauða. Sönn reynsla.

 

Friður, vinátta og ljós

 

Kirkjan er vettvangur fyrir það góða. Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, er ég mitt á meðal, segir Jesús í einu guðspjallanna. Hvar sem fólk kemur saman til að rækta ljósið, lífið, friðinn, vináttuna, kærleikann, er Jesús mitt á meðal.

 

Hvar sem við leggjum náunga okkar lið, hvar sem við biðjum um frið, erum við að safna saman með Jesú, öllu því sem gott er, fagurt og rétt.


Viska, þekking og blessun

 

Líkt og með hin 100 ára gömlu heilræði, þá hefur manneskjan þörf fyrir viðmið, líkt og skip út á rúmsjó hefur þörf fyrir stefnu, eitthvað fast til að sigla eftir til að komast hina réttu leið og í höfn. Það virðist vera svo að við öll, manneskjurnar, þurfum stöðugt á því að halda að við séum minnt á hið rétta, sanna og góða, að við fáum viðmið og stefnu til að lifa lífi okkar eftir.

 

Breiðafjörður, þar eru nokkur sker!

 

Eitt sinn vorum við hjónin á ferð með afa hennar og allri fjölskyldunni á trillu á Breiðarfirði. Sonur okkar elsti var þá ungur, kannski fjögurra ára. Sá gamli var aðeins farinn að missa sjón. Svo þegar við vorum komin út úr höfninni í Stykkishólmi og á leið út í eyjar, kallaði sá gamli á tengdason sinn og spurði: „Er þetta bátur eða sker, sem nálgast okkur hér á bak?“ Jú það var bátur. Það fór nú aðeins um mig þarna, með alla fjölskylduna um borð, verðandi eiginkonu, litla soninn okkar, sem nú er orðinn fullorðinn maður, og alla hina, og skipstjórinn við stjórnvölinn virtist ekki sjá handa sinna skil. Stuttu síðar bað hann tengdason sinn aftur og sagði: „Láttu mig vita þegar fjallið ber í bæinn, þá beygjum við á stjórn.“

 

Þrátt fyrir að sjónin væri farin að daprast, þekkti hann fjörðinn, með öllum sínum skerjum og eyjum, eins og handarbakið á sér. Kennileitin og viðmiðin voru öll innra með honum. Innra með sér sá hann þetta fyrir sér og vissi nákvæmlega hvert við vorum að fara. Hann skilaði okkur öllum út í eyjar og heim aftur, eftir ógleymanlega ferð um hans eigin æskuslóðir og uppeldisstöðvar út í eyjunum á Breiðarfirði.

 

Kennileitin eru hið innra

 

Eins er það með allt hið góða sem býr innra með okkur hverju og einu að Guð hefur þegar sáð hinum góðu kennileitum í hjörtu okkar og líf. Okkar er síðan að laða þau fram með iðkun, bæn og góðu líferni, samfélagi okkar, nánunga okkar og okkur sjálfum til gæfu. Liður í því er að biðja Guð að glæða allt hið góða sem hann hefur þegar sáð í okkar líf og sál.

 

Öll getum við síðan lagt okkur fram í því að veita hver öðru ráð og heilræði, vera hvert öðru til blessunar í lífinu. Því í raun og veru eru verkefni okkar hér í heimi einföld, en þau eru fólgin í því er við mætum hvert öðru í gleði og alvöru og tökum þátt í lífinu hvert með öðru. Þar miðlum við öll bæði visku og blessun, því einnig við eigum að vera hvert öðru og samferðarfólki okkar til gæfu. En einmitt þar er það Guðs kærleikur sem mætir okkur, þegar við vöknum á hverjum morgni og við blasa nýir möguleikar og ný tækifæri til að verða öðrum til gagns, þótt það sé jafnvel ýmislegt í okkar eigin lífi sem er erfitt og sárt.  

Tendrum með lífi okkar ljós í lífi annarra.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen. 


Guðsþjónusta í Grensáskirkju

3. sd. í föstu, 20. mars 2022 kl. 11