Maður sem heitir Ove og glaðlega haustkonan

Maður sem heitir Ove og glaðlega haustkonan

Þessi glaðlega haustkona (sem ég sé fyrir mér í huganum valhoppandi með marglit haustlaufin fjúkandi allt í kring um sig) fékk mig til að íhuga orkuna sem við berum með okkur. Hvað göngulag okkar, svipbrigði já, fasið allt ber með sér.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
22. september 2013
Flokkar

102.JPG

Glaðlega haustkonan Um daginn kom hingað í kirkjuna kona sem bar með sér óvenju mikla gleði og orku. Ég sat ásamt fleirum, við eitt borðana hér í safnaðarsalnum þegar hún gekk inn í húsið. Mér finnst eins og ég hafi heyrt hver þetta var um leið og hún kom inn. Kannski var það vegna þess að hún opnaði meira að segja útidyrahurðina glaðlega. Kannski var það vegna þess að hún hálfpartinn valhoppaði inn kirkjuna. Kannski var það vegna þess að hún sönglaði þegar hún gekk hér inn. Það kom mér í það minnsta ekki á óvart að þetta var hún þegar hún kom blaðskellandi inn í safnaðarsalinn með krumpaða auglýsingu undir hendinni, sem hún bað okkur að hengja upp. Hún ætlaði að fara að safna fyrir mikilvægu málefni þar sem hún ætlaði að gefa af sér og með sér eins og hún er vön. Þegar ég spurði hana hvers vegna hún væri svona glaðleg (hún er það reyndar næstum því alltaf) svaraði hún: „Vegna þess að það er komið haust. Mér finnst haustið vera besti tíminn og er svo fegin að sumarið er búið“. Já öll eigum við okkar uppáhalds árstíma og það er augljóslega ekki gefið að uppáhalds árstíð allra sé sumarið enda sumarið kannski oft tími vonbrigða hér á Íslandi þar sem allra veðra er von og ekkert er gefið í þeim efnum.

Orkan okkar Þessi glaðlega haustkona (sem ég sé fyrir mér í huganum valhoppandi með marglit haustlaufin fjúkandi allt í kring um sig) fékk mig til að íhuga orkuna sem við berum með okkur. Hvað göngulag okkar, svipbrigði já, fasið allt ber með sér.

Það kom stundum fyrir hér áður fyrr að einhver nefndi það við mig hvað ég væri alvarleg eða þung á brún. Og mér er minnistætt hvað þetta kom alltaf á óvart því ég hafði ekki endilega verið að íhuga alvarleg mál eða fundið sérstaklega til þyngsla áður en spurt var. Í framhaldinu fór ég að verða meðvitaðri um þetta og prófa mig áfram í því hvernig svipir mínir og fas hefðu áhrif á fólkið í kringum mig. En það sem var enn áhugaverðara voru tilraunirnar á því hvernig svipur minn og fas hefðu áhrif á mína innri líðan.

Og ég uppgötvaði svolítið merkilegt. Ég gat ekki aðeins haft áhrif á það hvernig umhverfið mætti mér þ.e. þegar ég var glaðleg á svip fékk ég glaðlegra viðmót frá öðrum, heldur gat ég ekki síður stjórnað minni innri líðan með svipbrigðum mínum og fasi.

Ég komst nefnilega að því að ef ég reyndi að muna eftir því að lyfta augabrúnunum og draga munnvikin upp á við í stað þess að leyfa þeim hugsunarlaust að hanga niður, þá fór mér að líða betur. Þetta átti líka við þegar mér hafði verið þungt innanbrjóts.

Já, og þetta hafði ekki síður áhrif á framkomu annarra gagnvart mér. Þegar ég mætti fólki með andlitið í uppsveiflu þá fékk ég mun vinalegra viðmót frá öðrum en þegar allt lafði niður.

Stundum gekk ég meira að segja svo langt að brosa við fólkinu sem ég mætti, þótt ég þekkti það ekkert. Og þá kom jafnvel fyrir að ég fékk bros á mót. Í það minnsta frá þeim sem ekki urðu vandræðaleg og vorkenndu mér jafnvel fyrir að vera svona bjánalega glaðleg á almannafæri við fólk sem ég þekkti ekki neitt.

Haustkonan minnti mig á allt þetta.

Og því langar mig í dag, til þess að við veltum því fyrir okkur hvernig Jesús var í fasi og framkomu þegar hann hitti fólk. Ætli hann hafi verið fúll á móti? Kannski gengið að fólki með fýlusvip og skipað því að fylgja sér. Já, og jafnvel sagt því að losa sig við allar eigur sínar, gefa þær fátækum og fylgja sér á flækingnum. Með fýlusvip.

Ég veit náttúrulega ekkert um það hvernig Jesús var á svipinn þegar hann bauð tollheimtumanninum, Leví að koma frekar og fylgja sér en að sitja við borgarhliðið og græða á tá og fingri.

Ég efast þó um að hann hafi verið mjög fúll þegar hann bauð honum og öðrum að koma með. Ég efast um að Leví hafi langað að bjóða geðvondum og pirruðum Jesú, með óþægilega orku, í mat.

Ég efast líka um að Jesús hafi sagt lærisveinum sínum með fýlu- eða reiðitón í röddinni, að þeir þyrftu ekkert að vera að halda hvíldardag eins og aðrir trúaðir gyðingar. Að þeir mættu alveg vinna pínulítið á þessum degi svo þeir yrðu ekki svangir.

Mér finnst einhvern veginn að það hafi oftar en ekki verið létt yfir Jesú eins og haustkonunni minni.

Maður sem heitir Ove Undanfarið hef ég fylgt manni sem heitir Ove í samnefndri skáldsögu eftir Fredrik Backman. Þessi bók hefur verið ein sú vinsælasta í sumar og ég er rétt að ljúka við hana þessa dagana. Þessi bók er tragikómísk og fjallar um mann sem er þekktur fyrir flest annað en glaðlega framkomu og hressilegt fas. Ove er andstaða glaðlegu haustkonunnar. Hann er eins ferkantaður í hugsun og samskiptum og ein manneskja getur mögulega verið. Hann vill að hlutirnir séu í föstum skorðum. Hann drekkur svart venjulegt kaffi með mjólk og vill helst kjöt og kartöflur í kvöldmat. Hann er nákvæmur og vandvirkur, lagar það sem þarf að laga og notar til þess verkfærakassann sin sinn og hefur komið sér upp góðu safni verkfæra á langri ævi. Ove fer í eftirlitsferð um hverfið sitt á hverjum morgni og kannar hvort nokkurs staðar hafi verið brotist inn eða lagt ólöglega. Hann skrifar niður bílnúmerin í vasabókina sína og athugar hvort eigendurnir séu ekki örugglega íbúar í hverfinu. Ef honum mislíkar við fólk, sem er næstum því alltaf, þá leynir hann því ekki heldur lætur það heyra það. Á hverjum laugardegi fer hann með konunni sinni að sinna erindum, kaupa eitthvað fyrir garðinn eða skoða verkfæri. Að því loknu koma þau alltaf við á sama stað og kaupa sitt hvorn ísinn. Hún fær sér súkkulaðiís og hann ís með hnetum. Einu sinni á ári hækkar ísinn örlítið og þá kvartar Ove alltaf yfir því og er óvenju vondu skapi það sem eftir er dags. Konan hans Ove var vön að segja að þegar hún léti klippa sig þyrfti hún ekki að kvarta yfir því að maðurinn hennar tæki ekki eftir því, eins og margar konur. Því Ove sá alltaf nýju klippinguna um leið og varð fúll yfir því að hún liti ekki út eins og venjulega.

Já Ove er kannski ekki algengasta manngerðin sem við mætum en ég held þó að flest okkar hafi hitt í það minnsta einn. En Ove er góður maður þegar upp er staðið og ekki hægt annað en láta sér þykja vænt um karlinn þegar líða tekur á bókina og homminn og kötturinn eru fluttir inn og hann er farinn að berjast fyrir mannréttindum vinar síns sem hann hefur ekki talað við í 20 ár þótt hann sé löngu búinn að gleyma hvers vegna þeim sinnaðist. Glaðlega haustkonan, Ove og orkan Ove og glaðlega haustkonan eru andstæður. Þegar glaðlega haustkonan pirrar sig á einhverju gerir hún það næstum því með bros á vör en þegar Ove gleðst yfir einhverju breytir hann ekki um svip. Þau standa hvort fyrir sínar öfgar.

Glaðlega haustkonan gerir lífið örlítið skemmtilegra og fallegra á meðan Ove gerir lífið erfitt og þungbært. Bæði eiga þau sínar sögur og bæði hafa þau ástæður fyrir framkomu sinni og fasi.

Og einhvers staðar þarna á milli er Jesús þegar hann hittir tollheimtumanninn Leví í við borgarhliðið og býður honum að slást í för með sér. Þegar hann þiggur matarboðið heima hjá Leví og þegar hann segir vinum sínum að þeir þurfi ekki að fasta nema þegar ástæða sé til þess.

Jesús var kannski ekki alltaf þessi hressi og glaði en hann var heldur enginn Ove. Ég er þó sannfærð um að Jesús hafi reynt að mæta samferðafólki sínu með fallegri framkomu og fasi því annars hefðu víst fáir viljað tilheyra hópnum hans. Hann hefur áræðalega gert sér far um að gefa samferðafólki sínu jákvæða orku. Og það gerir hann enn. Ég er ekki að hvetja okkur til þess að setja upp grímur og láta sem allt sé alltaf í himna lagi, líka þegar okkur líður illa, erum pirruð og ómöguleg. Ef okkur líður þannig þá er það svoleiðis. En mig langar til að hvetja okkur öll til þess að íhuga þó hvernig fasið okkar er. Hvers konar orku við berum með okkur. Er sú orka jákvæð og gefandi eða er hún neikvæð og þurftafrek? Ég er nefnilega sannfærð um að við getum létt okkur lífið örlítið ef við íhugum þetta. Ég held að við getum aðeins grætt á því að gefa frá okkur góða orku og jákvæðni því og við munum uppskera margfalt. Uppskeran er nefnilega alltaf í einhverju hlutfalli við það sem sáð er. Uppskeran er ekki alltaf eins og við vildum eða eins og við teljum okkur hafa sáð en ef við sáum ekki þá er nokkuð víst að uppskeran verður engin. Hér fyrir framan okkur sjáum við uppskeru. Þessari uppskeru munum við nú deila með Landspítalanum eða kannski enn fremur með öllum þeim sem í framtíðinni munu þurfa á geislameðferð að halda vegna krabbameins. Því vil ég hvetja þig til þess að taka þátt í uppboðinu á eftir og þakka þér fyrir að hafa gefið af uppskeru þinni.

Við erum ekki öll aflögufær af veraldlegum hlutum eða veglegri haustuppskeru en við getum öll gefið frá okkur jákvæða og góða orku. Við getum öll gefið ást. Amen.