Er það ekki með þig eins og mig að stundum þurfum við að loka augunum til þess að sjá? Stundum, þegar við virkilega þurfum á sjón okkar að halda til þess að greina og skilja, þá lokum við augunum svo að þau trufli ekki. Já, sumt þarf að sjá svo vel að ekki nægir að horfa á það. Það er eitt að horfa og annað að sjá. Á aðfangadagskvöldi erum við komin saman til þess að sjá og samt er ekki á neitt að horfa. Við skyggnumst inn í fjárhúsið í Betlehem, skynjum ilm af heyi og taði, staðnæmumst hljóð frammi fyrir nýfæddu lífi og angan reifabarnsins fyllir sál okkar þakklæti. Allt er löngu liðið hjá og ekki á neitt að horfa og þó er engin veruleiki máttugri en barnið sem hvílir í jötunni. Í nærveru þess vakna líka minningar um svo margt sem liðið er. Það er svo margt að sjá þegar við hættum að horfa. Horfnir ástvinir vitja okkar og atburðir sem eitt sinn stóðu ljóslifandi fyrir augum birtast á ný og við skynjum að það sem áður var er ekki farið þótt það sé liðið. Fólkið í lífi okkar er þarna, saga okkar öll, lífsreynslan sem hefur mótað okkur og leitt okkur að þeim stað og þeirri stundu sem við lifum í kvöld. Því lokum við augunum og leyfum okkar innri veröld að opnast og máttug nærvera barnsins í jötunni segir okkur að öllu sé óhætt, að engu þurfi að gleyma því lífið sé gott í ófullkomleika sínum. Mig langar að segja ykkur frá vinkonu okkar hjóna, hún heitir Sigurbjörg Ágústsdóttir og reynslusaga hennar er prentuð í bókinni Makalaust líf sem nýlega var gefin út. Sigurbjörg er kona sem veit að engu þarf að gleyma og að lífið má vera gott eins og það er. Hún missti fyrri mann sinn, Svein Sigurðsson, árið 2004 og stóð þá eftir með sex ára dreng, Ágúst að nafni. Þau Sveinn og Sigurbjörg höfðu haft gaman af undirbúningi jólanna og t.d. alltaf lagt mikla alúð í að búa til jólakort og senda fjölskyldu og vinum. Eftir að Ágúst fæddist var janan tekin mynd af drengnum og hún send á jólakorti. Er fyrstu jólin nálguðust eftir að Sveinn dó fór Sigurbjörg að velta fyrir sér hvort hún ætti nokkuð að senda jólakort. Hana langaði til þess en fannst erfitt að senda jólakort án Sveins. Dag nokkurn skömmu fyrir jól fór Sigurbjörg á ljósmyndasýningu á Þjóðminjasafni Íslands. Þar vakti ein mynd sérstaklega áhuga hennar. Á myndinni var stórfjölskylda í sínu fínasta pússi. Sá sem fremstur sat hélt á ljósmynd og allir hinir horfðu á myndina. Sigurbjörg áttaði sig á því, án þess að greina myndinda sem fjölskyldan horfði á, að þarna var einhver sem hafði fallið frá. Og þá fæddist hugmynd að fallegu jólakorti. Sigurbjörg fékk ljósmyndara heim til sín og saman skópu þær fallega mynd sem heiðraði minningu Sveins. Á myndinni situr Sigurbjörg með drenginn Ágúst í fanginu, hann horfir fram fyrir sig, hún horfir brosandi á hann og hendur þeirra fléttast saman. Á bak við þau á litlu borði er mynd af Sveini og hjá henni logar hvítt kerti með krossi. Þetta kort sendi hún vinum og vandamönnum með eftirfarandi kveðju: „Árið hjá okkur var erfitt, en eitt er víst að lífið heldur áfram. Minningarnar um pabba munu styrkja okkur og gleðja um ókomna tíð. Litli kúturinn minn tekst á við lífið og framtíðina af hugrekki og jákvæðni. Okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári. Ykkar Sigurbjörg og Ágúst.” (Makalaust líf, Sögur útgáfa, 2012) Hefur þú skoðað klassísk málverk af Betlehemsatburðinum? Það er tvennt sem einkennir þau hvert og eitt, hvort sem við sjáum hið fræga verk Rembrants af fjárhirðunum við jötuna eða hvað annað þá eiga þau það öll sameiginlegt að birtu leggur frá barninu þar sem það hvílir og sjónir allra viðstaddra snúa að barninu sjálfu. Allt er gott og allt er satt og rétt inn í fjárhúsinu enda þótt ekkert sé eins og það á að vera. Líf ungu hjónanna er úr skorðum, kaldur og dimmur veruleikinn utan veggja er nýfæddu barninu fjandsamlegur og hvaða barn ætti að fæðast í þessu húsi? Samt er það hér og nærvera þess miðlar birtu og friði. Lífið er gott og það er fætt til að sigra. Lífið er gott og það þarf engu að gleyma. Þegar Sigurbjörg sá hina gömlu ljósmynd á Þjóðminjasafninu öðlaðist hún kjark til að sjá og muna. Í sjónhending skildi hún hvað fólkið á myndinni var að gera. Það var að heiðra minningu þess sem látinn var. Líkt og hirðarnir frá Betlehemsvöllum og Jósef og María, einblíndi það á ástvin sinn á myndinni vegna þess að þau voru sterk og staðráðin í því að halda áfram að lifa. Þegar ljósmyndarinn heimsótti Sigurbjörgu og Ágúst litla og þær sköpuðu saman nýja fjölskyldumynd stendur lifandi ljós við myndina af Sveini heitnum að baki mæðginunum, hún horfir á drenginn og þau haldast í hendur en drengurinn horfir fram. Þetta er helgimynd sem flytur okkur sterkan boðskap. Í fyrsta lagi fáum við að vita að mæðginin fara með minninguna um Svein inn í framtíðina og ætla að láta hana lifa. Ljósið sem stendur á stjakanum táknar það. Sigurbjörg horfir á drenginn sinn sem hún ætlar að standa með og fylgja eftir en barnið horfir beint í augu áhorfandans og miðlar von og hugrekki. Lífið er gott og það er fætt til að sigra. Lífið er gott og það þarf engu að gleyma. Helgimyndir miðla mikilvægri þekkingu. Engin þekking er brýnni í lífsbaráttunni en þekkingin á hinu heilaga. Á þessu kvöldi, kvöldinu þegar við hvílum augun og byrjum að sjá og leyfum okkar innri veröld að opnast og nærvera barnsins í jötunni segir okkur að öllu sé óhætt og engu þurfi að gleyma því lífið er gott í ófullkomleika sínum, - hvað sér þú á þessu kvöldi? Hvaða helgimyndir birtast úr þínu lífi?
Engu þarf að gleyma
Flokkar