Hvernig rannsakar maður kraftaverk?

Hvernig rannsakar maður kraftaverk?

Ég man hljóða daga í skólanum þar sem 70 nemendur stunduðu nám en genamengið var minna. Ég man þetta allt, sérstaklega þar sem ég sest niður og sé svona sögur lifna við á tjaldinu, og ef þær eru vel gerðar, þá gera þær að mínu mati gagn, þær eru farvegur tilfinningalegrar útrásar og þannig á fyrst og fremst að nálgast þær. Vandinn er að segja þær af kærleika og virðingu.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
24. september 2012
Flokkar

„Og hvernig rannsakar maður svo kraftaverk?“ Spyr móðir Gulla lækninn, sem vill ólmur fá hann suður í rannsóknir til að komast að niðurstöðu um hið ótrúlega. Ég er að vísa í Djúpið, kvikmynd Baltasar Kormáks sem byggir á þeim sorgaratburði sem varð við Vestmannaeyjar á útmánuðum árið 1984 er báturinn Hellisey VE 503 tók niður með þeim afleiðingum að allir skipsmenn létust utan fyrrnefndur Guðlaugur Friðþórsson sem synti rúma fimm kílómetra í ísköldu Atlantshafi og gekk síðan berfættur yfir hraunbreiður Heimaeyjar uns hann komst til byggða, þrekaður á líkama og sál. Sjálf man ég þennan atburð þrátt fyrir að vera aðeins 6 ára að aldri. Ég man viðtalið sem Ómar Ragnarsson tók við Guðlaug á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum, ég man þegar farið var yfir þá leið sem hann hafði synt og svo gengið til byggða, man frosið vatnið í baðkarinu sem hann náði að brjóta til að væta saltar kverkarnar og ég man líka að ég hugsaði „hvað ef enginn hefði verið heima í húsinu sem hann kom fyrst að.“ Ég veit ekki hvort margir jafnaldrar mínir muna svo skýrt þennan atburð og kannski hugsar einhver sem les þennan pistil, „ nú hlýtur hún að vera að rugla saman frásögnum annarra við eigin upplifun.“ En það er ekki raunin og það vissi ég best þar sem ég sat ein innan um aðra bíógesti í gær og brynnti músum áður en báturinn hafði einu sinni lagt úr höfn. Ég veit líka að það er merki um að myndin er góð, ekki af því að ég sé einhver kvikmyndasérfræðingur, heldur vegna þess að hún hreyfði við því sem er fólgið í kviku hjartans og tengist upplifunum og minningum sem maður hefur bara þurft að meðtaka og lifa með. Hún hefði ekki náð þeim hughrifum ef hún væri fjarri okkar veruleika. Ég hef aldrei misst ástvin á sjó en ég er hins vegar alin upp í sveit við sjávarþorp þar sem faðir minn þjónaði sem prestur í aldarfjórðung. Ég man slys á sjó og landi með tilheyrandi mannskaða, ég man þungan sem lagðist yfir samfélagið, þungan sem færði fólk nær hvert öðru en var samt svo sár. Ég man pabba fölan og fáran að reyna að vera öðrum styrkur á meðan harmurinn stóð honum svo nærri í fámenninu. Ég man kirkjuna, kistuna og fólkið í kórnum sem sneri að ástvinum og reyndi að syngja því líf. Í flestum tilvikum var hinn látni skyldur öðrum hvorum manni í kórnum. Ég man hljóða daga í skólanum þar sem 70 nemendur stunduðu nám en genamengið var minna. Ég man þetta allt, sérstaklega þar sem ég sest niður og sé svona sögur lifna við á tjaldinu, og ef þær eru vel gerðar, þá gera þær að mínu mati gagn, þær eru farvegur tilfinningalegrar útrásar og þannig á fyrst og fremst að nálgast þær. Vandinn er að segja þær af kærleika og virðingu. Mér finnst sagan af þrekvirki Guðlaugs Friðþórssonar þannig sögð í þessari mynd. Djúpið vísar til svo margs er tengist slíkum harmi og því ljósi sem lýsir í gegnum þann harm og er fólgið í hinni ótrúlegu mannbjörg. Það eru margar ástæður fyrir því að það er gott að segja svona sögur, þær minna okkur á hvað lífið er djúpt í þeim ólíku aðstæðum sem við lifum. Aðal persóna sögunnar er lifandi prédikun, í raun ekki vegna þeirrar þrekraunar sem hann vinnur og þakkar aldrei sjálfum sér, heldur vegna þeirrar auðmýktar sinnar að leita ekki skýringa. „ Ég hef komist að niðurstöðu og hún er að mig langar heim,“ segir hann við furðu lostinn vísindamann sem telur sig hafa fundið eitt af undrum veraldar. „ Ég er bara heppinn maður“ segir hann við litlu drengina sem horfa á hann eins og handan veru og þannig gefur hann aftur og aftur frá sér dýrðina og beinir um leið sjónum okkar allra að aðal atriði málsins, sem er lífið og máttur þess. Amen.