Í nýju viðtali við breska dagblaðið The Guardian segir Rowan Williams erkibiskup af Kantaraborg: „Ég hef séð kirkjuna - og hún virkar!“
Hvað ætli kallinn eigi nú við með þessari yrðingu? Hvað er kirkjan og hvernig vitum við að hún virkar?
Ég er nýkomin úr ferð um slóðir Marteins Lúthers og Katrínar frá Bóra. Margt upplifist á þeim slóðum og sagan verður áþreifanleg. Ekki síst er mér hugsað til framlags siðbótarinnar til kirkjunnar og þeirrar skapandi guðfræði sem fæddi siðbótina af sér.
Í siðbótararfinum mætir okkur sprengikraftur kirkjunnar - kirkjunnar sem samfélags kristinna karla og kvenna sem nærast á orði Guðs og leyfa því að móta líf sitt til góðra verka í heiminum. Það er kirkja sem virkar.
Fjársjóðir kirkjunnar Eitt af því sem Lúther lagði til atlögu við hjá kirkjustofnun miðalda var hugmyndin um aflát og fyrirgefningu synda fyrir tiltekna hegðun. Kirkjustofnunin nærði hugmyndina um að fjársjóðir kirkjunnar fælist í góðum verkum og heilagleika Krists og dýrlinganna og að hún hefði umboð til að leysa þennan fjársjóð út í smáskömmtun gegn greiðslum og öðrum verkum.
Siðbótin sneri þessu við. Fjársjóður kirkjunnar er trúin sem er gefin fyrir náð Guðs. Þar kemur engin kirkjustofnun við sögu. Við lifum í náð - hún stendur okkur ekki aðeins til boða heldur hefur hún þegar verið veitt.
Á síðustu öld orðaði guðfræðingurinn Paul Tillich þetta þannig að kjarni fagnaðarerindisins snúist um það eitt að „taka það til sín að Guð hefur tekið þig gildan“, að Guð sé náðugur Guð sem hefur leitað og fundið manneskjuna áður en manneskjunni dettur í hug að leita Guðs.
Náðin er lykill að frelsi mannsins, frelsi undan ótta og angist, undan sektarkennd og syndavitund, undan því sem íþyngir okkur. Þetta er höfuðstef í guðfræði Marteins Lúthers og á jafnt við í dag sem á 16. öldinni.
Ég á mér draum um kirkju Ég á mér draum um kirkju sem virkar. Kirkju sem bregst ekki heldur bregst við þeirri köllun sinni að láta reyna á málstað Jesú í samfélaginu okkar. Að láta reyna á vonina, umhyggjuna og trúna.
Þegar kirkjan hefur vindinn í fangið reynir á innviði hennar. Það eru ekki húsin eða jarðeignirnar, ekki embættin eða launagreiðslurnar. Það er boðskapurinn sem hún flytur. Ef kirkjan lifir í samræmi við boðskapinn, á hann greiða leið að hjarta mannsins.
Þá er kirkjan á réttri leið.