Hann gekk á með hryðjum í nótt og ég sem hélt að vorið væri komið í fyrradag.
Og það er ekki laust við að hryssingur sé líka í guðspjalli dagsins. Jesús talar þar enga tæpitungu. Hann er harður í horn að taka og orð hans eru sterk. Hver er þessi Jesús sem talar í guðspjalli dagsins? Hann virðist vera allt annar en sá Jesús sem við eigum líklega flest í hugskoti okkar, hinn blíðlyndi Jesús, kærleiksríki, kurteisi; Jesús sunnudagaskólamyndanna, fágaður og fagur, brosandi og bjarteygur, með vel greidda lokka og axlasítt hár. Hér talar reiður maður, stórorður og stíflyndur og maður spyr: Er þetta rétt eftir honum haft? Var Jesús svona mannlegur? Getur verið að hann hafi verið líkari mér og þér heldur en glansmyndinni sem barnatrúin hefur málað af honum í hugskoti sínu? Var hann hrjúfari og köntóttari en við höfum gert okkur í hugarlund? Hver var Jesús?
Eðli Jesú
Í frumkristni tókust menn á um eðli Jesú. Var hann bara maður, merkur maður, mennskur og mælskur , spámaður síns tíma og meistari sem menn kusu að fylgja í aldanna rás sökum visku hans og innsæis? Eða var hann guðlegs eðlis? Fylgjendur hans komust að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið í senn maður og Guð, fullkominn maður og fullkominn Guð. En getur fullkominn maður leyft sér að vera reiður og stórorður? Já, fyrst hann var maður þá var hann mennskur en hann var aldrei vondur, aldrei illur í hugsun eða gjörðum. Reiði hans var alltaf heilög reiði sem beint var gegn lygi og falsi. Hún er fölsk sú hugsun að kristnir menn, konur og karlar, megi ekki reiðast og hafa skoðanir. Við vorum aldrei kölluð til þess að vera skoðanalaus. Hann dr. Svanur Kristjánsson, prófessor, flutti frábært erindi s.l. miðvikudag í Opnu húsi hér í Neskirkju um þróun lýðræðishugmynda á Íslandi og þátt kirkju og kristni í þeim. Athyglisvert erindi sem fleiri þurfa að heyra í náinni framtíð. Hann sagði frá því í byrjun að samkvæmt Inferno Dantes væri sérstakur staður í víti, já, reyndar neðst í víti, sem ætlaður væri skoðanalausu fólki! Nei, kristnir menn eiga ekki að vera skoðanalausir en þeir eiga að vera friðsamir að svo miklu leyti sem það er unnt og á þeirra valdi, eins og segir í hinni helgu bók. (Róm 12.18)
Átök
Í guðspjallinu birtast átök milli Jesú og Gyðinganna sem þekktu lögmálið og töldu sig rata hinn rétta veg í lífinu. Jesús segir þá eiga djöfulinn að föður. Getur einhver verið barn djöfulsins en ekki barn Guðs? Já, svo virðist vera ef marka má orð Jesú en auðvitað ekki á þann hátt að djöfullinn hafi skapað einstaklinginn því hinn illi getur ekkert skapað. En hann getur haft áhrif á sköpun Guðs. Og víst hefur honum tekist að afskræma margt í veröldinni. Honum hefur tekist að bjaga vilja mannsins og saurga eðli hans á svo áhrifaríkan hátt að hann getur ekki hreinsað sig af illskunni. Hinn illi leikur á þetta hljóðfæri mannsins, þessa púkaflautu, sem kallað er hold og er andstæða andans. Hold og andi takast á. Andinn er reiðubúinn en holdið er veikt. Hið himneska og veraldlega takast stöðugt á. Guð og djöfull, skaparinn annars vegar og óvinur hans hins vegar, óvinur allrar sköpunar Guðs.
Millivegur?
Fólk á það til að gefa sér þær forsendur að til sé einhverskonar fríhöfn á milli Guðs og hins illa, svæði þar sem það telur sig geta lifað frjálsu lífi og ákveðið hvað það vill gera. Þetta er blekking, segir Jesús. Heimurinn er sem hús, sem sterkur maður hefur yfirtekið. Þar inni situr hann alvopnaður og þess albúinn að berjast. Og það er ekki nema annar sterkari og máttugri komi að hann leggi niður vopn sín (Lúk 11.21nn). Guð einn getur rekið hinn illa út. Í guðspjalli dagsins er ekkert skafið af hlutunum. Jesús talar hreint út. Fólk á allt undir því að vera réttu megin í lífinu. Og ekkert er slegið af í tali um djöfulinn. Hann er manndápari og segir aldrei satt, sannleikur er ekki til í hans huga, bara lygi. Lygi er ekki bara einhver misskilningur þegar menn reikna vitlaust út úr þeim upplýsingum sem þeir hafa heldur afneitun á sannleika Guðs. Og lengst nær djöfullinn í samskiptum sinum við manninn þegar hann fær hann til að trúa að hann geti verið sinn eigin Guð og þurfi ekki að standa neinum reikningsskil nema sjálfum sér. Og nú spyr ég: Hversu stór er sá hópur manna í samtíðinni sem neitar að bera ábyrgð á lífinu, samferðafólkinu, náttúrunni og heiminum? Er hægt að vaða endalaust áfram á sömu braut og sanka að sér meiri óþarfa, meira drasli? Og í leiðinni, að menga meira, skemma meira? Hvar endar þetta æði allt saman? Endar það ekki í vegleysu? Hver stjórnar þessu öllu saman? Ekki er það Guð, skapari himins og jarðar. Ætli það sé ekki maðurinn sjálfur undir merki græðginnar, ásælninnar, gírugheitanna, síngirninnar, sjálfselskunnar, maðurinn undir merki andskotans.
Takmarkalausar framfarir?
Aldamótakynslóðin- og þá á ég við þar seinustu aldamót – sem lifað hafði við fátækt og fáa valkosti drakk í sig trú á tækni og framfarir - og láir þeim engin. En þessi kynslóð hefur að sumra áliti verið ótrúlega bláeyg og gunnhyggin í umgengni við auðlindir lands og sjávar. Og næsta kynslóð á eftir fylgdi í kjölfarið. Og við sem nú lifum stöndum frammi fyrir örlögum sem fyrri tíðar menn og samtímamenn okkar hafa skapað þjóðinni og þurfum nú virkilega að hugsa okkar gang í öllum málum, öllum málum þjóðar okkar, í atvinnulífi og menningu og síðast en ekki síst í trúmálum. Á baksíðu Lesbókar Morgunblaðsins í gær, 10. mars, er mjög athyglisverð grein eftir Jón Kalmansson, heimspeking, þar sem hann ræðir náttúruvernd út frá sköpunarguðfræði og siðferðilegri ábyrgð mannsins. Ég hvet ykkur til að lesa hana og gaumgæfa. Þar svarar hann Jakobi Björnssyni, fv. orkumálastjóra og dyggum virkjanasinna. Lesið þessa grein á baksíðu Lesbókar.
Andóf gegn Þjóðkirkjunni
Nú er það mjög í tísku að skammast út í Þjóðkirkjuna og finna henni allt til foráttu. Sumir vilja nú losa sig við alla trú og setja sig upp á móti allri boðun trúar á meðan aðrir þola ekki þá yfirburði sem Þjóðkirkjan hefur hvað stærð varðar og menningarlegt hlutverk í sögu og samtíð. Sumir boða meðvitað eða ómeðvitað einhverskonar frjálshyggju í þeim efnum sem auðvitað endar með því ef fer fram sem horfir að þjóðin skiptist upp í ótal brot sértrúarhópa þar sem hver reynir að búa til einhverja sérstöðu til að afmarka sig frá hinum. Og hvað tekur þá við? Tekur þá ekki skyndibitamenningin líka yfir á markaðstorgi trúarinnar og tilboðin af ruslfæði sem samanstanda af illa ígrunduðum kenningum sjálfskipaðra kennimanna sem fyrirlíta guðfræði sem vísindagrein? Við höfum dæmin fyrir augun okkar vestan hafs um kirkjurnar sem nú kynda elda ófriðar. Og ég spyr varðandi þau sem vilja Þjóðkirkjuna út í hafsauga: Er það að hluta til fólk sem ekki vill hafa bindingu af neinu tagi yfir sér, þolir ekki að hér sé öflug kirkja sem vakir yfir andlegri velferð þjóðarinnar og minnir hana á að hún þarf að standa Guði reikningsskil á lífi sínu og ákvörðunum? Við eigum okkur ekki sjálf.
Ég á mig ekki hér í veröldinni, Drottinn, ég eign þín er af miskunn þinni. (Sb 429.3)
Svo kvað sr. Hallgrímur.
Hvaðan kemur valdið?
Og svo er það hitt. Ríkið og þjóðin þarfnast sterkrar kirkju. Þetta sagði hann Svanur m.a. í erindi sínu. Kirkjan er ekki þurfalingur með betlistaf við ríkisdyrnar. Ríkið þarfnast kirkjunnar og ríkið þarf að hlusta á rödd hennar og láta sér segjast þegar kirkjan talar og gagnrýnir í anda lögmáls Guðs og fagnaðarerindis Jesú Krists. Stjórnmálamenn sem loka eyrum fyrir þeirri rödd hafa misskilið hlutverk sitt algjörlega.
Kóngstign þín, Jesú, andleg er, allir hafa sín völd af þér höfðingjar hér um heim, þú lénar, gefur, lánar þeim löndin, ríki, metorð og seim. (Pss 19.11)
Samhengið er stórt. Lífið er gjöf Guðs og þjóðfélagið allt er Guðs, hver einstaklingur, hár og lágur, ríkur og fátækur, þekktur og óþekktur, valdsmenn og öryrkjar, fyrirmenn og fjölskyldur.
Fólk sáttmálans
Við erum fólk Guðs sem í dag fær að heyra um sáttmála Guðs og manns. Boðorðin sem lesin voru í lexíunni hafa sinn formála sem setja þau í stórt samhengi og gerir þau þess verð að þeim sé fylgt. Takið eftir innganginum að Boðroðunum tíu: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ Sá sem talar er sá sem bjargaði, sá sem er sterkastur og er þess albúinn að gæta húss þíns, sálar og lífs. Hann er ekki einhver ópersónulegur alheimskraftur, heldur persónulegur Guð, sem tjáir sig og gefur til kynna með hvaða hætti manninum er ætlað að lifa. Lestu til að mynda 1. sálm Davíðs. Þar er uppskrift að góðu lífi. Hér er sáttmáli á ferð og sáttmáli er eins og ástarjátning, trúlofun, hjónabandsheit. Og við erum hluti af þessum sáttmála, við sem höfum sagt, já, við Guð í heilagri skírn, í fermingu og í hvert sinn sem við biðjum til Guðs, tökum undir Postullega trúartjátningu eða göngum að veisluborði Drottins þar sem hann gefur okkur líf sitt, elsku og eilífðina sjálfa. Þú ert aðili að sáttmála, sáttmála milli þín og hins hæsta Guðs. Sáttmáli, samningur um elsku og trúnað, um trúfesti sem heitir hesed á hebresku, en orðið merkir að halda trúnað við sáttmálann. Guð heitir því að standa við sáttmálann sem hann hefur gert. Hann skilur ekki við okkur, yfirgefur okkur aldrei, því hann er trúr, honum má treysta. Samnefnari texta dagsins, lexíunnar, pistilsins og guðspjallsins er að mínu mati orðið sáttmáli. Í lexíunni, Boðorðunum tíu, er það bjargvætturinn sjálfur, sem boðar mönnum þær reglur, sem leiða til hamingju. Í pistlinum segir: „Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Við hvað er trúnaðurinn bundinn? Við lögmál Guðs og fagnaðarerindi, Boðorðin tíu og boðskap Jesú sem segir í guðspjalli dagsins: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja.“ Þetta eru gleðitíðindi og það er vegna þessa fyrirheits að Jesús byrstir sig við samtíð sína og minnir hana á lífið. Þau sannindi voru ekki ný af nálinni á dögum Jesú. Í gengum aldirnar var Guð að kalla á þjóð sína eins og segir í 5. Mósebók 30.19: „Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa“.
Já, til hamingju með að hafa valið lífið!
Til hamingju með að vera hér, þar sem játningin hljómar og sáttmálanum er viðhaldið.
Til hamingju með hesed Guðs – trúfesti hans við okkur!
Í honum er lífið!