Virðing lífs og verndun - Tímabil sköpunarverksins- Fundur höfuðbiskupa af Norðurlöndum

Virðing lífs og verndun - Tímabil sköpunarverksins- Fundur höfuðbiskupa af Norðurlöndum

Tímabil sköpunarverksins- Fundur höfuðbiskupa af Norðurlöndum - pallborðsumræður þeirra á Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle Assembly, 2018, í Hörpu -Ályktun ráðstefnu Alkirkjuráðsins hér á landi, 2017, um réttlátan frið við jörðu
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
15. október 2018

Tímabil sköpunarverksins- Fundur höfuðbiskupa af Norðurlöndum - pallborðsumræður þeirra á Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle Assembly, 2018, í Hörpu -Ályktun ráðstefnu Alkirkjuráðsins hér á landi, 2017, um réttlátan frið við jörðu

Vér treystum því, sem hönd Guðs hefur skráð:
Í hverju fræi, er var í kærleik sáð,
býr fyrirheit um himnaríki á jörðu.
Hver heilög bæn á vísa Drottins náð.
Og hví skal þá ei ógn og hatri hafna,
ef hjálp og miskunn blasir öllum við
í trú, sem ein má þúsund þjóðum safna
til þjónustu við sannleik, ást og frið?
Tómas Guðmundsson

Þetta fagra sálmvers góðskáldsins Tómasar Guðmundssonar, gefur vel til kynna hve miklu varði að greina í trú veruleika Guðs í sköpunarverki hans og skynja samhengi jarðarlífs og komanda Guðs ríkis, hafna illsku, ógn og hatri og safna þjóðum heims í þjónustu við sannleika hans, ást og frið. Tíðindi af ógnvænlegum breytingum á loftslagi og veðrakerfum jarðar, sem ekki verður lengur mótmælt að stafi af hömlulausri brennslu og notkun jarðefnaeldsneytis, ættu að hvetja til samstöðu manna og þjóða um nauðsynleg viðbrögð. Þar hefur kristin kirkja miklu köllunarhlutverki að gegna og þá auðvitað líka íslenska Þjóðkirkjan. Hún sinnir því með því að vinna að framgangi kristinna gilda og viðmiða bæði innanlands en jafnframt líka í víðara samhengi, og einkum í gefandi samstarfi við kirkjur á norðurslóðum og Alkirkjuráðið.

Á síðastliðnu ári efndi þjóðkirkja Íslands í fyrsta sinni til svonefnds„Tímabils sköpunarverksins‘‘, Season of Creation, í kirkjunni að fyrirmynd kristinna kirkna og kirkjudeilda víða um heim. Þetta tímabil, sem hluti kirkjuársins, á uppruna sinn að rekja til rétttrúnaðarkirkjunnar og nær frá byrjun septembermánaðar fram til fyrstu daga októbermánaðar. Þá er, í boðskap kirknanna, Guði sérstaklega þakkað fyrir gjafir jarðar og uppskeru og gætt að hag og framgangi lífs og lífríkis.

Þjóðkirkjan hefur nú efnt í annað sinni til slíks tímabils sköpunarverksins og horfir til þess að gera það að föstum lið í boðun sinni og starfi. Sem táknmynd þess tók Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, upp haustuppskeru í grenndargörðunum Seljagarðs í Seljahverfi við fjölskyldustund þann 6. september sl. og undirritaði síðan áskorun um bann við notkun svartolíu í Norðurhöfum. Biskup hefur hvatt presta og söfnuði til að halda uppskerumessur og gefa góðan gaum að umhverfismálum, standa að viðburðum og verkum til umhverfisverndar, huga m.a. að endurheimt votlendis og skógrækt á kirkjujörðum. Kirkju- og safnaðarstarf um land allt hefur enda borið margvísleg merki„tímabilsins‘‘ og falið í sér gagnrýna ígrundun um umhverfismálin brýnu og hvatningu til siðbættra lífshátta. Umhverfisnefnd Þjóðkirkjunnar kynnti í byrjun„tímabilsins‘‘ vefinn; Græna kirkjan, og einnig bækling, sem hún gefur út undir heitinu„Græni söfnuðurinn okkar‘‘ og jafnframt sérstaka„Handbók um umhverfismál‘‘. Þar fá söfnuðir landsins verkfæri og bent er á leiðir til að vinna að umhverfisvernd í samræmi við nýja og framsækna umhverfisstefnu kirkjunnar sem samþykkt var á kirkjuþingi 2017.

Tímabil sköpunarverksins verður nú lengt líkt og í fyrra langt fram í októbermánuð. Því mun ljúka með því, að höfuðbiskupar evangelísku lútersku kirkna Norðurlanda koma saman í boði Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Ísland, til biskupafundar í húsakynnum Dómkirkjunnar í Reykjavík laugardagsmorguninn 20. okt. nk. − Antje Jackelén, erkibiskup Svíþjóðar, Tapio Luoma, erkibiskup Finna, Helga Haugland Byfuglien, höfuðbiskup Noregs og Jógvan Fríðriksson, Færeyjabiskup. – Peter Skov Jakobsen, höfuðbiskup dönsku Þjóðkirkjunnar á því miður ekki heimangengt. – Biskuparnir munu ráða ráðum sínum um viðbrögð við umhverfisháskanum og hvernig kristnar kirkjur og trúarsamfélög geti haft vekjandi áhrif til umhverfisverndar og hvatt til breytinga á framleiðslu- og lífsháttum til lífsbjargar.
Biskuparnir munu jafnframt sitja í pallborði á 6. Hringborði Norðurlóða, Arctic Circle Assembly, í ráðstefnu- og tónlistarmiðstöðinni, Hörpu, sunnudaginn 21. okt. nk. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og innanríkisráðherra mun stýra pallborðsumræðunum. Guðfræðistofnun, Guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands og Stofnun Sigurbjörns Einarssonar efna einnig til málstofu á Hringborðinu, síðdegis laugardaginn 20. okt. Þar verður fjallað um vonina á tímum afgerandi loftslagsbreytinga á Norðurslóðum.

Auk þess sem biskuparnir munu, sunnudaginn 21. okt., sitja í pallborði við Hringborð Norðurslóða, sækja þeir opinn fyrirlestur dr. Andrésar Arnalds í Hallgrímskirkju sem hefst kl. 09:30. Þeir munu síðan prédika í guðsþjónustum, sem hefjast kl. 11, í fjórum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu, Hallgrímskirkju, Kópavogskirkju, Vídalínskirkju í Garðabæ og Hafnarfjarðarkirkju. Guðsþjónustan í Hallgrímskirkju verður samkirkjuleg og mun biskup Íslands taka þátt í henni.

Dagskrá„tímabils sköpunarverksins‘‘ felur með þessum atriðum í sér rökrétt framhald á þeim merku umhverfisverndarviðburðum sem Þjóðkirkjan beitti sér fyrir á sama tíma árs í fyrra. Þá stóð hún ásamt Alkirkjuráðinu, World Council of Churches, að ráðstefnu um um„Réttlátan frið við jörðu‘‘ sem haldin var í Digraneskirkju og á Þingvöllum. Ráðstefna Alkirkjuráðsins tengdist sem aðfararatburður Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle Assembly ´17, sem haldið var í Hörpu og einnig víðar. Ráðstefnan var merkis kirkjusögulegur viðburður hér á landi. Af þessu tilefni kom höfuðsmaður rétttrúnaðarkirkjunnar, Bartólómeos I. patríarki og erkibiskup í Konstantínópel, Græni patríarkinn svonefndi, vegna eindreginnar afstöðu sinnar til umhverfisverndar, í opinbera heimsókn til landsins í boði Þjóðkirkjunnar, ríkisstjórnar og Hringborðsins ásamt fimm öðrum háttsettum forystumönnum kirkju sinnar. Patríarkinn flutti innihaldsríka lykilræðu, á Hringborðinu í þéttsetnu Silfurbergi Hörpu. Alkirkjuráðið stóð að tveimur málstofum á Hringborðinu, sem fóru fram í Safnahúsinu á Hverfisgötu. Fyrri málstofan fjallaði um trúarviðhorf frumbyggja sem gjöf til að umbreyta heimi. Síðara málþingið hafði að yfirskrift sinni:„Loftslagsréttlæti og þá siðferðilegu nauðsyn að bregðast við vandanum. Trúarleiðtogar í samræðu við vísinda- og ráðamenn.‘‘

Ráðstefna Alkirkjuráðsins hér á landi í fyrra um„Réttlátan frið við jörðu‘‘ náði glæstu hámarki sínu á Þingvöllum. Í helgistund á Lögbergi var ályktun ráðstefnunnar samþykkt eftir að ráðstefnufulltrúar höfðu skipst á að lesa upp kafla hennar. Frá Lögbergi var haldið í Þingvallakirkju til að undirrita ályktunina, Agnes, biskup, og Anders Wejryd, Evrópuforseti Alkirkjuráðsins og fyrrverandi erkibiskup Svía, fyrst og síðar aðrir þátttakendur. Ályktunin er innihaldsrík og gefur vel til kynna þau stefnumið sem mörkuð voru og horft var til á ráðstefnu Alkirkjuráðsins. Dagskráratriði og viðburðir – sem Þjóðkirkjan vinnur að og skipuleggur á„tímabili sköpunarverksins‘‘ á þessu minningarári um fullveldi íslenskrar þjóðar, 2018 – taka mið af ályktuninni. Farsæld þjóða og heims felst enda í því að huga og vinna að réttlæti og friði manna á meðal og við lífssköpun alla. Köllun kristinnar kirkju er sú að gera það í kjarki og kærleika skapandi og endurleysandi trúar í Frelsarans nafni.

Stefnt að réttlátum friði við jörðu: Ályktun ráðstefnu Alkirkjuráðsins um Frið við jörðu − haldin í Digraneskirkju Kópavogi og á Þingvöllum 11. – 13. október 2017

Jörðin og allt sem á henni er tilheyrir Guði (Slm 24.1). Þessi játning auðkennir abrahamísku trúarbrögðin sem og menningarhefðir frumbyggja víða um heim. Heilagur Frans frá Assisí tjáir þetta í lofgjörð sinni til Guðs með þakkarorðum sem hann beinir til „systur okkar, móður jarðar“; en nú „stynur hún“ (Róm 8.22) undan ofbeldinu sem hún er beitt, eins og við erum minnt á í umburðarbréfi Frans páfa, Laudato Si. Engu að síður, líkt og vísað er til í yfirlýsingu Alkirkjuráðsins um vegferð til réttláts friðar (Statement on the Way of Just Peace), væntum við kristnir menn, samkvæmt fyrirheiti Guðs, nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr (2Pét 3.13), fullvissir þess að hinn þríeini Guð fullkomni og uppfylli gervalla sköpunina við lok tímanna og líti á réttlæti og frið sem bæði von fyrir framtíðina og gjöf á líðandi stundu.

Eins og hans heilagleiki, samkirkjulegi patríarkinn Bartólómeus I. hefur ritað, á vistvandinn sér andlegar rætur. Arðrán og eyðilegging sköpunarinnar eru afmyndun og brenglun á eigindum kristninnar og engan veginn óhjákvæmileg afleiðing hinnar biblíulegu skipunar um að „fjölga og fylla“ (1Mós 1.22). Með því að saurga og eyðileggja umhverfið sem hverri kynslóð er treyst fyrir sem helgum arfi, er syndgað gegn Guði og náttúrunni. Sjálfbær þróun fær ekki þrifist án andlegra verðmæta og lífvænlegs umhverfis.

Þessi ráðstefna – sem Alkirkjuráðið stendur að, í boði íslensku Þjóðkirkjunnar, og haldin er í aðdraganda og tengslum við Hringborð Norðurslóða 2017 – hefur kannað viðbragðsáætlanir trúarsamfélaga til þess að vekja vitund um og stuðla að sjálfbærri framtíð. Líkt og Agnes M. Sigurðardóttir, biskup íslensku Þjóðkirkjunnar, hvatti til í opnunarávarpi sínu á ráðstefnunni, var „róttækt endurmat á gildi og kröfum kristinnar ráðsmennsku“ leiðarstefið í umræðum sem þar fóru fram.

Sem trúarleiðtogar og trúað fólk deilum við áhyggjum og sjónarmiðum með þeim stefnumótendum og hagsmunaaðilum sem koma saman til Hringborðs Norðurslóða (13.-15. október) og áformaðrar Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP 23) í Bonn í Þýskalandi (6.-17. nóvember), sem og með samfélagi kirkna um heim allan, þar sem kallað er í Krists nafni eftir nauðsynlegri stefnumörkun, aðgerðum og viðhorfsbreytingum til að vernda og varðveita umhverfi jarðarinnar, dýrmæta og lifandi sköpun Guðs, viðkvæm og fögur heimkynni mannkyns og alls lífs á jörðu
Framlag trúarsamfélaga: Umskipti til sjálfbærrar framtíðar.
Kirkjur og trúarsamfélög hafa engu síður en aðrir samfélagshópar valdið tjóni á lífríkinu. En mannkynssagan sýnir einnig hversu öflug trúarbrögð geta reynst við að glæða lífsviðhorf sem leiða til gjörtækra breytinga á samfélögum, stjórnmálum og menningu. Trúfélög geta verið máttugir aflvakar farsælla breytinga. Samkirkjuhreyfingin og trúarleiðtogar hafa gegnt lykilhlutverki við að halda fram kröfum um sjálfbæra þróun og „loftslagsréttlæti“ bæði á alþjóðavettvangi og í einstökum löndum. Horft er nú til þess að hagnýta umbreytandi kraft trúarinnar til þess að stuðla að þeim félagslegu, efnahagslegu, menningarlegu og atferlisbundnu umskiptum sem sem þörf er á til að bregðast við ógnum loftslagsbreytinga og gera sjálfbærni að raunsönnum veruleika.
Við hvetjum kirkjur til að nýta sér sitt eigið tungutak, ekta biblíumál og kirkjuhefðir til að auka umhverfisvitund, hvetja til aðgerða og auka sjálfbærni í kirkju og samfélagi. Við hvetjum kirkjur til virkrar þátttöku við að koma á og efla sjálfbæra lífshætti á öllum sviðum, á þjóðfélags vísu og eins í hverjum söfnuði. Og við fögnum því að kirkjur og og kirkjulegar stofnanir ákveði að beina fjárfestingum sínum frá óvistvænum og ósjálfbærum iðnaði.

Sé horft til þess hvað samtök okkar kristinna manna eru víðtæk innan þjóðlanda og á heimsvísu felast fjölmörg tækifæri í nettengslum okkar og samskiptum við samskiptaaðila innan annarra trúarbragða. Við ættum að nýta allar tiltækar leiðir, þar á meðal samskiptagetu okkar bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, til að virkja þessa kosti.
Við þurfum einnig að hagnýta og fylgja þeim farvegum og skuldbindingum sem samið hefur verið um á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og glæða vilja stjórnmálamanna til að virða og standa við þær skuldbindingar er gerðar hafa verið. Þar má nefna, Aðgerðaáætlunina 2030 (Agenda 2030), og Markmið um sjálfbæra þróun, og einnig Parísarsáttmálann um loftslagsbreytingar. Með því móti fá rödd og sjónarmið trúar og siðferðis haft sín áhrif á framþróunina. Enn meiru varðar að trúin sýni sig í því að andmæla rótgrónu siðleysi þeirra lífshátta og hagkerfa sem byggjast á yfirtöku og eigingjarnri misþyrmingu á náttúru og fólki, og skeytingarleysi gagnvart því ranglæti sem af hlýst og umhverfisspjöllum.

Við minnum jafnframt á þau órjúfanlegu tengsl sem liggja milli friðar við jörðu og friðar á jörðu og höfnum brjálæði síaukinnar eyðslu til hergagnaframleiðslu og viðvarandi tiltrú á kjarnavopnum. Við fögnum sáttmálanum um bann við kjarnavopnum og teljum hann vera mikilvægt framlag til að vernda umhverfi, mannlegt líf og samfélög.
Lærdómsrík lífsviðhorf frumbyggja Frumbyggjar þurfa að taki þátt í öllu samráðsferlinu vegna loftslagsbreytinganna. Frumbyggjar valda ekki vandanum en kunna fremur ráð við honum, sem framverðir móður jarðar og gervallrar sköpunar í allra þágu. Frumbyggjar búa að reynslu, visku og frásögnum sem geta gagnast vel til viðbragða við loftslagsbreytingum. Við höfnum þöglu samþykki við því að líf sumra manna tapist, heimili, lönd og lífshættir og þ.a.l. glatist veruhættir og sjálfsmyndir jafnframt því sem einhverjir aðrir hagnist á loftslagsbreytingunum. Ekki er hægt að fallast á að fólk flytjist nauðugt frá (norður)pólsvæðum og eyjaheimkynnum og týni sjálfsmynd sinni.

Loftslagsbreytingar valda tjóni og eyðileggingu sem ekki verða reiknuð í hagtölum (Non-economic loss and damage, NELD) en hafa mikil áhrif á líf frumbyggja og valda þeim áhyggjum. Í allri umræðu um ákvarðanir í loftslagsmálum ber að taka tillit til slíkra áhrifa á líf frumbyggja.

Við hvetjum til þess að viska frumbyggja sé virt enda búi þeir að fornri og djúpstæðri þekkingargeymd á umhverfi sínu sem er heimkynni forfeðra þeirra. Slík lífsviðhorf og viska miða að þeirri farsæld allrar lífssköpunar, sem bæði jörð og alheimur hafa ætlað komandi kynslóðum.

Við viljum ásamt öðrum hagsmunaaðilum útbreiða samþykki og virðingu fyrir og innleiðingu sáttmála og samkomulags og annarra uppbyggilegra þátta sem eindregið stuðli að því, að konur, ungmenni, frumbyggjar og allir þjóðflokkar geti átt sér framtíð. Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja (UN Declaration on the Rights of Indigenous Persons) og Ályktun Heimsþings um málefni frumbyggja frá árinu 2015 (2015 World Conference on Indigenous Peoples Outcome Document) eru mikilvæg umgjörð og leiðarvísir til aðgerða vegna áhrifa loftslagsbreytinga og hagsmuna frumbyggja.
Þörf er á haldbærum áætlunum um samstarfsaðgerðir. Við viljum leggja til auðlindir okkar, þar með talið hugsjónir og drauma, vonir, kærleika, trú og frásagnir, sem hafa gildi fyrir málstaðinn. Hryggðin sem grípur okkur [vegna ástandsins] er líka auðlind, en þó ekki það eina sem við getum látið í té á þessari háskatíð.
Viðbrögð við ógn hnattrænnar hlýnunar sem steðjar að íbúum eyja á Kyrrahafi og Atlantshafi.

Eyjasamfélög – hvort sem eru á heimskautasvæðum, í Kyrrahafi eða eins og fram hefur komið nýverið og hryggilega í Karíbahafinu – líða hvað mest fyrir áhrif þegar framkominna loftslagsbreytinga og eru hvað viðkvæmust fyrir auknum breytingum. Áætluð hækkun á hitastigi á heimskautasvæðum er tvöfalt hærri en hnattrænt meðaltal. Og ísinn sem bráðnar á Norðurheimskautinu hefur beinar afleiðingar fyrir smá og láglend eyríki eins og Kíríbatí í Kyrrahafi, en hækkandi sjávarborð vegur þegar að framtíð og tilvist þess. Uppflosnun fólks og hverfandi strandlengjur, landrýrnun og fækkun vatnsbóla eru þar þegar veruleg og vaxandi ógn.

Við köllum eftir brýnum hnattrænum viðbrögðum við þeim háska sem steðjar að smáum eyríkjum á þessum svæðum af hækkandi sjávarborði. Við hvetjum eyþjóðir í hættu til að taka saman höndum og styðja hver aðra, siðferðilega, menningarlega, fjárhagslega og með því að miðla hver annarri reynslu sinni [og þekkingu] til að bregðast við háska framtíðar.
Við förum fram á að alþjóðastofnanir og ríkisstjórnir miðli eyríkjum í háska öllum tiltækum upplýsingum og tækniþekkingu til að liðsinna íbúum þeirra við að bregðast við loftslagsbreytingunum, draga úr núverandi áhættu og aðlagast þeim válegu aðstæðum sem orðnar eru – þ.á.m. með opinberum fræðslu- og færnisaukandi verkefnum.
Jafnframt hvetjum við kirkjusamfélög til að beita sínu eigin málfari og helgisiðum til að blessa vötnin – ár, stöðuvötn og höf – sem andlegt tákn um hve áríðandi sé að vernda hið náttúrulega umhverfi og lífið allt sem því er háð.

Ákall
Í samantekt að loknum umræðum okkar og umfjöllun, umþenkingum og bænastundum, er við horfum til væntanlegra funda ráðamanna og hagsmunaaðila á Hringborði Norðurslóða, 2017, og ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Cop 23) sem og annars staðar, köllum við eftir:
• Áríðandi, samstilltum og skjótum aðgerðum ríkisstjórna, einkafyrirtækja, samfélaga og einstaklinga til að draga úr loftslagsbreytingum, minnka losun gróðurhúsalofttegunda og ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Og viðurkenna með því hve svigrúmið er takmarkað og minnkandi til að geta náð því að hitastig jarðar hækki ekki umfram 2°.
• Vitundarvakningu einstaklinga og samfélaga um ábyrgð sína og hlutdeild – þ.m. töldum Sameinuðu þjóðunum og ríkisstjórnum – í því að bregðast við þeim áskorunum sem felast í loftslagsbreytingunum.
• Virkri þátttöku trúfélaga og trúarleiðtoga í þessu verkefni, á alþjóðavettvangi, innanlands og á hverjum stað, sem lykil áhrifavalda og uppsprettulindir félagslegs auðs og máttar til að valda umskiptum frá ósjálfbærum viðhorfum og hátterni til heildrænnar sýnar er horfi til sjálfbærrar framtíðar.
• Að frumbyggjar taki þátt í öllu samráðsferlinu um loftslagsbreytingar í samræmi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja og Ályktun Heimsþings um frumbyggjasamfélög frá árin 2015.

Í Opinberunarbók Jóhannesar (22.2) er þeirri sýn brugðið á loft um að mannlegt líf blómgist og dafni, sem Ráðstefnan aðhyllist: „Beggja vegna móðunnar var lífsins tré sem ber tólf sinnum ávöxt. Í hverjum mánuði ber það ávöxt sinn. Blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“
Endurnýjum og helgum tengsl okkar við náttúruna til líknar þjóðum og heimi.
Samþykkt á Lögbergi, Þingvöllum 13. október 2017

Þýð. Haraldur Hreinsson og Gunnþór Þ. Ingason

Grein sem mun birtast örlítið breytt í tímaritinu Bjarma, 2. tbl. 2018