Mark

Mark

Leiðin liggur aftur á völlinn, þar sem tilfinningarnar eru svo augljósar. Leikmenn ýmist tapa sér í hamingju eða beygja höfuðið í þjáningarfullri sorg og áhorfendur deila þessum tilfinningum með þeim.

Fótbolti er íþróttin fagra, segja aðdáendur og ég get alveg tekið undir þá lýsingu. Vissulega klóra margir sér í kollinum yfir því að fólk skuli nenna að horfa á langa leiki þar sem jafnvel má búast við því að ekkert mark verði skorað. En ég held að þeim fari fækkandi. Æ fleiri hafa uppgötvað töfrana sem búa að baki.

Kapp og fegurð

,,Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði” sagði séra Friðrik fyrir hundrað árum og hann vissi hvað hann söng. Hann var að tala um íþróttina fögru og hann munaði ekki um að stofna tvö félög sem enn starfa og reyndar eitt til viðbótar. Allt var það hluti af þeirri kristinu mannrækt sem var honum svo hugleikin og ekki vantaði hann fordæmið. Fjölmörg fótboltalið erlendis eiga rætur að rekja til kirkjulegs starfs. Víða á leikvöngum minnast slík félög uppruna síns og hafa innréttað kapellur þar sem áhangendur geta meðal annars gengið í það heilaga og kvatt vini og vandamenn í hinsta skiptið.

Sjálfur nýt ég þess að horfa á fótbolta og ekki bara á stórmótum. Ég verð snortinn er ég fylgist með knattleik barna þar sem þræðir vináttu, gleði og kappsemi fléttast saman. Já, börnin skilja alveg út á hvað fótboltinn gengur. Nú um daginn datt ég niður á fjögurra ára gamla myndbandsupptöku af syni mínum sem var þá nýfarinn að ganga. Hann stóð fyrir framan lítið tjald í stofunni með bolta og gerði ítrekaðar tilraunir til að hitta inn í opið á tjaldinu. Svo þegar það tókst fagnaði hann innilega. Hann var nýorðinn ársgamall! Fótbolti er fögur íþrótt og jafnvel bumbuboltinn á sína estetík. Þar sem keppendur eru komnir á þann aldur að lítil von er lengur á nokkrum framförum verður gleðin enn meiri yfir vel heppnaðri sendingu og skotum sem hitta á rammann!

Svo þegar úrvalslið, útvalinna keppenda keppa, eru leikar greindir eftir strategískum aðferðum. Átti að spila 442 eða 451 nú eða 352? Er þessi leikmaður ofmetinn og nýtur þessi sannmælis? Var dómarinn á villigötum og var rétt að skipta út sóknarmanni fyrir varnarmann í stöðunni 1-0? Stundum hljómar þetta eins og lýsing sögulegum orustum. Grasflötin verður eins og nútímaútgáfa af vígvöllum Napóleonsstríðanna þar sem litríkir herir mættust á tilsettum tíma og hershöfðingjar röðuðu upp fylkingum sem ýmist sóttu fram eða vörðust, eins og þjálfarar gera á okkar dögum.

Stundum er ekki laust við að maður blygðist sín á köflum, fyrir eldheitan áhugann þegar heimurinn stendur frammi fyrir svo miklu stærri vandamálum en því hvernig kappleikur fer, á fjarlægum slóðum. En ég er ekki einn. Augu milljóna og aftur milljóna beinast að grasinu og sérfræðingar eru á hverju strái.

Já nú verður borið í bakkafullan lækinn og umræða um fótbolta hljómar héðan úr Neskirkju. Einhverjir hafa vísast fengið sinn skerf af slíku tali og ímyndað sér að við útvarpsmessu yrði nú boðið upp á einhverja tilbreytingu. Því er ekki að heilsa.

Úrval

Fótbolti er fögur íþrótt og sem slíkur er hann samofinn hugtökum eins og úrvali og úrtaki. Við Íslendingar erum auðvitað komin í úrslitakeppni EM eins og allir vita. Leikmenn liðsins hafa æft frá barnsaldri, komist í gegnun nálarauga þjálfarateymis og náð alla leið í landsliðið. Þetta er úrvalið af öllum þeim aragrúa sem stundar fótbolta hérlendis, karlanna auðvitað. Íslenska kvennalandsliðið hefur staðið sig enn betur en strákarnir og unnið nánast vandræðalega stóra sigra á andstæðingum sínum.

Vinsældir fótboltans fara vaxandi. Mögulega helgast það af því að eðlilægt kapp mannsins fær sífellt færri svið til að blómstra. Að hverju stefnir fólk annars nú til dags? Fyrir hverju er barist? Hvað er það sem situr eftir þegar dagur er að kveldi kominn? Matur í kviðinn? Stundargaman? Hlátrasköll eða skammvinn hneykslun á einhverju sem einhver sagði eða gerði. Svo er það gleymt og næstu dægurmál taka við.

Auðvitað eiga margir sér háleit markmið, en fyrir fleirum verða þau æ óljósari. Í skáldsögunni Undirgefni ber franski rithöfundurinn Michel Houellebecq upp ágengar spurningar um það hver þau gildi eru sem skipta yfir höfuð einhverju máli í vestrænu samfélagi. Við fylgjumst með því í sögunni hvernig sá heimur sem fólk þekkir og gengur að sem vísum hverfur frammi fyrir augum þess, nánast átakalaust. Trúarlegt alræði tekur við og fyrirstaðan reynist sáralítil. Lesandinn situr eftir með spurninguna hvort skipta megi grundvallarþáttum í menningu okkar, út fyrir þægindi og áhyggjulaust ævikvöld? Sá er reyndar dómur sögunnar.

Þegar markmiðin verða óskýr verða mörkin á vellinum græna að einhverju miklu meiru en bara ramma á leikvelli. Þau mæta djúpri þörf til að sigra og skilja eftir sig spor. Og einhverjir úr sveitum keppenda breytast í hálfguði sem tignaðir eru af meiri ákafa en heilbrigt getur talist.

Mark

,,Látið ekki kappið bera fegurðina ofurliði” sagði séra Friðrik. Þar talaði einstaklingur sem leit á fótboltann sem leið að marki - ekki markmið í sjálfu sér. Hann var, eins og Platón hafði bent á, einn þáttur í að byggja upp fólk á ýmsum aldri, sérstaklega börn. Platón talaði reyndar ekki um fótbolta, sem var ekki til á hans tíma. En íþróttir voru honum hugleiknar og hann hélt því fram að ásamt tónlistarnámi gætu þær mótað sálir sem væru ríkar að hófsemd, hugrekki, skynsemi og réttlæti. Friðrik var á svipuðum nótum.

Guðspjallstexti þessa dags, hann kallast á við þessa þanka. Þar vantar sannarlega ekki gleðina og fögnuðinn. Þetta eru sögur af himnaríki, því marki sem háleitast hlýtur að teljast. Þetta sem Kristur talaði um í fjallræðunni að jafnvel hungraðir, hraktir og þjáðir geti fyllst sælu yfir því að handan alls þess sem deyr og hrörnar er einhver annar veruleiki. Textinn fjallar um gleði og þegar við spyrjum okkur að því hvert við stefnum er gagnlegt að við hugleiðum það hvað það er sem gleður okkur. Hvað gleður þig? getum við spurt og svarið segir svo mikið um þann sem svarar.

Leiðin liggur aftur á völlinn, þar sem tilfinningarnar eru svo augljósar. Leikmenn ýmist tapa sér í hamingju eða beygja höfuðið í þjáningarfullri sorg og áhorfendur deila þessum tilfinningum með þeim. Gleðin er guðspjallinu byggir á ekki á slíkum þáttum. Hún snýst um tilgang og hlutverk, já mark sem við eigum að sækja að og þau sem ekki hafa fundið sinn sess. Lýsingar Krists á himnaríki segja frá fólki sem er týnt, finnur ekki stað sinn og hlutverk. Þarna lýsir Kristur Guði og hann er bæði hirðir og kona. Og hvað gleður Guð? Jú, það þegar hvert og eitt okkar sem hefur tapað áttum, kemur að nýju í leitirnar.

Úrvalið í guðspjallinu er af öðrum toga en úrvalið á vellinum. Þetta er ekki afreksfólkið heldur þvert á móti, þau sem eru á villigötum. Sagan hefst með því að Jesús situr að snæðingi með þeim sem kallaðir voru bersyndugir og þetta var samfélag. Kannske hélt hann yfir þeim einhverja tölu en hann var ekki að skammast í þeim á nokkurn hátt. Nei, hann bara var með þeim. Og svo kemur þessi lýsing á hinum glaða Guði sem fagnar svo mjög yfir þeim sem kom í leitirnar.

Glaður Guð

Þetta er óður til mennskunnar, fegurðarinnar sem býr í því að leita að háleitum markmiðum, finna köllun og tilgang. Þegar týndi sauðurinn kemst í leitirnar, þegar drakman sem ekki fannst er allt í einu fundin, þá ætlar allt að ærast af gleði. Þetta er sagan um okkur, okkur sem erum ekki endilega í sviðsljósinu, erum ekki í sögubókum og höfum aldrei setið fyrir á málverki eða myndastyttu. Og Guð segir: himnaríki er það þegar þið hvert og eitt ykkar gerið ykkur grein fyrir því að þið eruð elskuð og upphafin og eigið í brjósti ykkar köllun um að vinna verk kærleikans á meðan dagur er í ykkar lífi.

Þetta er ekki saga um dóm yfir þeim sem villast af leið, hér er varla talað um fyrirgefningu heldur fund. Það sem týnt er kemur í leitirnar. Einmitt vegna þess að í hverju okkar býr þess neisti að vinna gott starf, að skilja eftir okkur eitthvað gott og dýrmætt. Stundum týnist þessi neisti og við villumst af leið. En þegar við göngum inn í samfélag við Krist þá fáum við það sem til þarf svo að við lifum lífinu til fullnustu.

Það er með fótboltann eins og annað í lífinu að fegurðin í honum birtist ekki nema við ákveðnar aðstæður. Stundum er fótboltinn ljótur. Það blasir við okkur þegar ofbeldisverk eru unnin í tengslum við leiki. Svo er það lúmskara þegar fyrirmyndir eru hafnar upp til skýjanna. Peningarnir eru óskaplegir og boltinn getur raunverulega verið vettvangur þar sem fólk týnir tilgangi sínum og köllun. Þá hefur kappið borið fegurðina ofurliði. Um leið opinberar hann fyrir okkur hætturnar sem leynast í lífinu sem draga okkur frá þeirri háleitu köllun sem okkur öllum er ætluð, að elska náungann og þjóna Guði í kærleika.