Sinnaskipti

Sinnaskipti

Við erum farin að gera okkur grein fyrir því að þenslan og góðærið höfðu ekki góð áhrif á börnin okkar, þvert á móti, spenna, pirringur, samskiptaleysi og tímaleysi voru meira uppi á teningnum þá en nú. Þrátt fyrir allt virðist kreppan vera að leiða eitthvað gott af sér.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í síðdegisútvarpinu sl. fimmtudag var viðtal við Margréti Lilju Guðmundsdóttur, sem kynnti könnun sem gerð var á líðan barna og unglinga nú í kreppunni. Könnunin var unnin á vegum Menntamálaráðuneytisins, Háskólans í Reykjavík, og Rannsóknar og greiningar, og er ein af reglubundnum könnunum, þar sem m.a. er spurt um reykingar, neyslu á fíkniefnum, líðan í skóla og á heimili o.s.frv. Í þessari könnun, sem gerð var sl. haust, rétt eftir að kreppan skall á, kemur það fram að börnum og unglingum á Íslandi líður ef eitthvað er betur en árið 2006, alla vega ekki verr. Það er minni neysla í gangi, börnum líður betur inn á heimilum sínum, þau rífast minna við foreldra, o.s.frv. Einnig virðast foreldrar gefa sér meiri tíma með börnum sínum.

Eftir að kreppan skall á hefur mikið verið talað um að við þurfum að passa upp á börnin okkar og unglingana. Margir hafa gert átak í þeim efnum, í sumar var t.d. mikið um að boðið væri upp á lækkuð verð á ýmis konar afþreyingu fyrir börn og alls kyns styrkir voru veittir til verkefna sem tengdust börnum og unglingum. Við erum þess meðvituð að líðan barnanna okkar og unglinganna skiptir öllu máli og aðstæður þeirra og ytra umhverfi eru gífurlega mikilvægir þættir. Þess vegna finnst mér að við eigum að við klappa okkur aðeins á bakið í kjölfarið af svona góðum fréttum, við erum á réttri leið. Við erum farin að gera okkur grein fyrir því að þenslan og góðærið höfðu ekki góð áhrif á börnin okkar, þvert á móti, spenna, pirringur, samskiptaleysi og tímaleysi voru meira uppi á teningnum þá en nú. Þrátt fyrir allt virðist kreppan vera að leiða eitthvað gott af sér. Það kom líka fram í þessari könnun að fleiri börn upplifðu atvinnuleysi foreldra, og það virtist vera minna til skiptanna af efnislegum gæðum, en það skiptir greinilega ekki öllu máli þegar kemur að líðan barna og unglinga. Það sem skiptir máli er að vera með börnunum okkar, hvetja þau áfram til góðra verka, styðja við þau í því sem þau taka sér fyrir hendur og sjá þeim fyrir heilbrigðum áhugamálum. Og afraksturs þessa alls fáum við að njóta hér í dag, hjá þessum efnilega hópi söngvara Graduale futuri sem gleðja okkur með dásamlegum söng sínum. Þær eru svo sannarlega sönnun þess að við eigum góð og mannvænleg börn sem blómstra ef að þeim er hlúð.

Það eru þó blikur á lofti. Könnun þessi var gerð rétt eftir að kreppan skall á. Við siglum nú inn í enn dýpri lægð en síðasta vetur, enn fleiri munu missa störf sín og öll þjónusta hins opinbera er að skerðast. Nú ríður á að við höldum okkar kúrsi, höldum vel utan um hvert annað, gætum þess að enginn detti niður um hina sístækkandi möskva í öryggisnetinu okkar. Við getum ekki lengur reitt okkur eingöngu á velferðarkerfið, við þurfum að leggja meira af mörkum sjálf. Þetta sjáum við á þeim aukna fjölda sem leitar til ýmissa samtaka og hjálparstofnana vegna peninga- og matarleysis. Þarna megum við ekki bregðast og ég minni á að tekið er við framlögum til Hjálparstarfs kirkjunnar frammi í forkirkju að lokinni guðsþjónustu.

* * *

Í guðpsjalli dagsins er talað um sinnaskipti. Jesús segir dæmisögu úr daglega lífinu. Dæmisögu sem við þekkjum öll. Hversu oft höfum við ekki sjálf sagt já, en síðan ekki staðið við okkar? Hversu oft höfum við ekki verið svikin af einhverjum sem lofaði öllu fögru en stóð síðan ekki við sitt? Óheiðarleiki í samskiptum er algengur, kannski svo algengur að okkur finnst hann stundum eðlilegur. En þetta er í hæsta máta óeðlilegt. Í fjallræðunni segir Jesús: Þegar þér talið, sé já yðar já, og nei sé nei. Það að lofa öllu fögru en svíkja það svo er merki um óheilbrigð samskipti. Það sýnir ótta við að vera heiðarlegur, að segja hlutina eins og þeir eru. Annar sonurinn var óheiðarlegur, hræddur við að segja meiningu sína við föðurinn. Hinn sonurinn var heiðarlegur. Hann sagði nei, hann vildi ekki gera það sem faðirinn bað hann um. Kannski hefur hann sagt nei vegna þess að þessi verk voru ekki í hans verkahring. Kannski hefur hann spurt föðurinn; Hvað fæ ég fyrir? Fæ ég eitthvað borgað. Og ekki viljað gera neitt vegna þess að engin laun voru í boði. En hann tók sinnaskiptum. Hann skipti um skoðun og gerði það sem hann var beðinn um. Kannski hefur hann gert sér grein fyrir því að einu launin sem voru í boði, voru gleðin yfir því að gera vilja föður síns. Kannski hefur hann séð þarna tækifæri til að gleðja föðurinn.

Það er nauðsynlegt að geta skipt um skoðun. Að geta horfst í augu við raunveruleikann. Þetta höfum við Íslendingar upplifað síðasta ár. Lífið sem við lifðum var að mörgu leyti blekking, loftbóla sem sprakk. En við höfum tækifæri til að láta þetta verða okkur að dýrmætri lexíu. Við höfum tækifæri til að fara að lifa lífinu á jákvæðari, heilbrigðari og heiðarlegri hátt. Tækifæri til að eyða meiri tíma með börnunum okkar og sinna góðum og uppbyggilegum hlutum.

Mér finnst ég ekki geta staðið hér í dag, án þess að minnast aðeins á það mál sem brennur á þjóðinni þessa dagana, en það er mál fráfarandi sóknarprests á Selfossi. Þetta mál hefur fengið mikla athygli í fjölmiðlum og hvar sem ég kem er ég spurð um álit mitt á þessu máli. Það eru vissulega skiptar skoðanir í þessu máli, en um eitt held ég að allir hafi verið sammála sem ég hef rætt við, presturinn braut gegn trausti þeirra fermingarstúlkna sem kærðu hann. Þótt hann hafi ekki gerst brotlegur við lög, þá braut hann gegn siðareglum stéttar sinnar og hegðaði sér á allan máta ófaglega. Og að dómi biskups er það nóg til þess að hann verður að flytjast til í starfi. Þjónar kirkjunnar eru í sálgæsluhlutverki, ekki einungis inni í sálgæsluviðtöum, heldur alltaf. Og hlutverk okkar sem sálgæta er að vera áheyrandi í stað Krists. Við eigum ekki að sækja styrk til sóknarbarna okkar, sérstaklega ef þau eru ekki jafningjar í aldri og stöðu, og aldrei með faðmlögum og snertingu. Það þýðir ekki að við megum aldrei faðma og snerta. Faðmlag og snerting getur veitt styrk og huggun. En prestar eiga að vera það vel að sér í þessum efnum að geta gert sér grein fyrir því hvar mörkin liggja. Ef ekki, eiga þeir ekki erindi í þessa þjónustu. Þetta er krafa nútímans. Krafa nútímans er sú að raddir þeirra fái að heyrast sem brotið er á, krafa nútímans er að enginn fái að skálka í því skjóli að gert sé lítið úr atvikum, reynt að þagga niður eða drepa á dreif. Enginn á að fá að sitja öruggur í embætti sem misnotar traust og tiltrú minni máttar, hversu vel sem lög og reglur vernda slíka aðila. Réttur þeirra sem brotið er á verður að vera meiri en svo.

Í þessu máli sjáum við breytingu á áherslum. Kirkjan hefur tekið sinnaskiptum, frá því að ráða ekki við svona erfið mál, til þess að biskup bað fórnarlömb kynbundins ofbeldis fyrirgefningar við setningu síðustu prestastefnu. Síðustu athafnir biskups, að flytja sr. Gunnar til í embætti, sýna að íslenska þjóðkirkjan ætlar að standa undir þeim kröfum nútímans að vera öruggt skjól fyrir alla sem til hennar leita. Þessi skilaboð eru skýr af kirkjunnar hálfu, og þau verða að vera það, til þess að bæði foreldrar og börn geti verið viss um öryggi sitt í kirkjulegu starfi.

Já yðar sé já, og nei yðar sé nei. Jesús segir ekki að við eigum alltaf að gera allt sem við erum beðin um. Hann segir ekki að kærleikur okkar eigi að vera svo skilyrðislaus að við þurfum að fyrirgefa yfirgang og áreitni. Hann segir ekki að við þurfum að láta allt yfir okkur ganga. En hann segir okkur að vera heiðarleg. Meina það sem við segjum. Hvort sem við segjum já eða nei.

Megi Guð gefa okkur kraft til þess að gera vilja hans.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda, amen.