Guðspjall dagsins inniheldur kunnuglegt stef úr frásögnum Nýja testamentisins. Farísearnir eru að býsnast á Jesú og með vandlætingu finna þeir honum og lærisveinum hans allt til foráttu. Fyrir tilstuðlan guðspjallanna eru farísear flestum kunnir og eru í vestrænum heimi táknmynd fyrir hræsnara. Ef hugtakinu er flett upp í íslenskri orðabók koma upp þrjár skilgreiningar og ein þeirra hljómar ,,hræsnari sem leggur mest upp úr ytri hegðun og telur sjálfan sig öðrum betri.”
Við vitum í raun lítið um þennan trúarhóp gyðinga en elstu heimildir um þá eru Nýja testamentið og samtímaheimild Jósefusar sagnritara. Frásagnir Nýja testamentisins eru litaðar af spennu, en það er margt sem bendir til þess að farísear hafi verið sá hópur gyðingdóms sem svipaði mest til áherslna Jesú-fylgjenda og það voru sterk tengsl á milli þeirra. Líkt og fylgjendur Jesú voru farísear fæstir af yfirstétt gyðinga, þeir studdu ekki stigveldi musterisins og þeir lögðu áherslu á að sýna trú sína í verki, með kærleiksþjónustu við þá sem höllum fæti stóðu í samfélaginu. Páll postuli, sem ritar þriðjung Nýja testamentisins var að eigin sögn farísei áður en hann gerðist kristinn og það bendir margt til að Jóhannes skírari hafi sömuleiðis komið úr þeirra röðum.
Vandlæting faríseanna vekur hugrenningatengsl við skáldsögu Jóns Thoroddsen Piltur og stúlka, en hún er jafnan talin fyrsta íslenska nútíma skáldsagan. Aukapersónan Gróa á Leiti er líklega þekktust í sögunni en hún er þekkt fyrir það að býsnast á sveitungum sínum og koma af stað eiginlegum Gróusögum. Þegar ég rifjaði upp kynni mín við Pilt og stúlku í vikunni sem leið, kom það mér á óvart hversu mannlega mynd höfundur dregur upp af Gróu. Hún er hvorki skrímsli né skúrkur, heldur venjuleg þriggja barna móðir, sem er að heyja harða lífsbaráttu, og henni hefnist ekki fyrir rógburð sinn, heldur er sýnd mikil gæska af aðalpersónum sögunnar, elskendum sem ná saman þrátt fyrir að vera sundrað.
Gróa er kynnt í eftirfarandi lýsingu:
Gróa bjó á þeim bæ, sem heitir á Leiti; Hallur hét bóndi hennar, og var hans sjaldan getið að nokkru, því Gróa þótti vera þar bæði bóndinn og húsfreyjan. Lítt voru þau hjón við álnir, en Gróa var fengsöm og húsgöngul; hún var og vitur kona og svo fróð um alla hluti, að hún vissi fyrir víst, hvað skammtað var hvert mál á flestum bæjum í öllu því byggðarlagi; aldrei trúði hún meir en einum í senn fyrir trúnaðarmálum; og svo var hún orðvör, að aldrei greindi hún sögumann; var það jafnan orðtæki hennar, er hún sagði frá einhverju: Ólyginn sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því, blessuð! Ávallt vissi hún að haga svo orðum sínum, við hvern sem hún talaði, að hverjum fyrir sig virtist sem Gróa ætti engan betri vin hér á jörðu en sig og að hún væri engum trú nema sér einum.
Ástæða þess að Gróa á Leiti hefur þann sess í hugum Íslendinga sem raun ber vitni, er örugglega sú að flest getum við tengt við og haft samúð með Gróu. Þó ég hafi á engan hátt efni á því, hef ég á stundum unun af því að býsnast og þá býsnast ég frekar á þeim sem standa mér næst. Fjölskyldumeðlimir mínir og starfsfólk kirkjunnar eru vinsælli viðfangsefni en aðrar fjölskyldur eða starfsstéttir. Voruð þið til dæmis búin að heyra af afleysingarprestinum í Laugarneskirkju, ólyginn sagði mér en hafðu mig samt ekki fyrir því, blessuð. Mér skilst að hann sé búinn að fara í áfengismeðferð. Ekki nóg með það, þá er hann fráskilinn og býr nú í synd með sambýliskonu sinni.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar og okkur ber að fara varlega þegar við tölum um fólk og aðstæður þeirra. Reynsla mín er hinsvegar sú að þeir þættir í fari mínu og þeir erfiðleikar sem að ég hef þurft að mæta í lífinu og gefa öðrum tilefni til að býsnast, eru jafnframt öflugustu verkfærin til að verða öðrum að gagni. Með því að koma til dyranna eins og við erum klædd og ræða opinskátt um þau verkefni sem lífið hefur fært okkur, myndum við traust á milli okkar og þeirra sem nú standa frammi fyrir svipuðum erfiðleikum. Það velur enginn að ganga í gegnum erfiðleika, en við þurfum ekki að mæta þeim ein og þeir geta með Guðs hjálp orðið öðrum til ómældrar blessunar. Sú reynsla að hafa mætt og sigrast á erfiðleikum í lífinu, getur kennt okkur umburðalyndi og auðmýkt og orðið vitnisburður um mátt Guðs og kærleika hans.
Ásakanir faríseanna eru þrjár og þær eru settar fram í guðspjallinu sem tækifæri fyrir Jesú að útskýra eðli kirkju sinnar fyrir okkur. Fyrsta ásökunin er að Jesús umgangist ekki rétta fólkið, sé ekki í réttu kreðsunni. „Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.“ Svar Jesú er mikilvæg áminning um eðli kirkjunnar, sem stendur öllum opin. Hann svarar þeim ,,Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ Ef dyrnar standa lokuðum þeim sem ekki standast mælikvarða tíðarandans, bregst kirkjan köllun sinni. Það er svo auðvellt að falla í þá gryfju að taka sérlega vel á móti þeim sem eru þekktir eða eiga mikið undir sér og mæta þeim sem anga af áfengi eða koma undarlega fyrir sökum fötlunar eða sjúkdóma með fjarrænni kurteisi. Í öðru lagi saka farísearnir Jesú um að fara léttúðlega með trúarlegar hefðir, „Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea en þínir lærisveinar fasta ekki?“. Það hefur með öðrum orðum verið of gaman í hópi lærisveina Jesú. Jesús gerir ekki lítið úr þeirri trúariðkun að fasta en það er ekki vilji Guðs að við séum svo trúuð að við getum ekki glaðst og notið lífsins. Kirkjan talar af alvöru um þau verkefni sem við erum að glíma við sem manneskjur en ef við missum sjónar á gleðinni, þá hættum við að laða til okkar fólk. „Hvort geta brúðkaupsgestir fastað meðan brúðguminn er hjá þeim?”, svarar Jesú. Síðasta ásökunin er að Jesús sé að brjóta reglur með því að tína kornöx á ferðum sínum á hvíldardegi. „Lít á, hví gera þeir það sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?“ Reglur eru af hinu góða og nauðsynlegar allstaðar þar sem fólk kemur saman til að öllum líði vel. Það á jafnt við um kirkjuna, skóla, vinnustaði, umferðina og samfélagið allt. En um leið og að reglum er framfylgt á kostnað fólks, ber okkur að fordæmi Jesú að sýna borgaralega og trúarlega óhlýðni. Ef valið stendur á milli þess að hneyksla farísea og mæta svengd hópsins eða vera til friðs og siðs og svelta, ætti valið að vera auðvellt. Jesús fordæmir ekki hvíldardaginn, það er nauðsynlegt að eiga frí og taka frá tíma til samfélags við Guð en „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.“ Í lýsingum guðspjallanna er Jesús ítrekað að hneyksla samborgara sína með framgöngu sinni, vegna þess að hann neitar að fylgja reglum og kennisetningum samfélagsins þegar þær draga fólk í dilka eða taka ekki tillit til þarfa þeirra. Margir býsnuðust á honum og sérstaklega þeir sem fóru með völd í samfélaginu, völd sem byggja alltaf á því að reglum sé framfylgt hugsunarlaust.
Gróa tók sjálf ekki þátt í kjaftaganginum í sveitinni að eigin mati:
Ekki þarf ég að spyrja að því; það liggur eitthvað illa á þér, því ekki ertu vön að vera svona fálát með öllum jafnaði; en mig skal nú ekki furða það, þó það kynni að liggja illa á þér út úr hansvítis slaðrinu, sem gengur staflaust hérna í sveitinni; því þú munt varla hafa getað komist hjá að heyra það sjálf. Hvað er það, Gróa mín? Nú, þú hefur þá ekki heyrt það, elskan mín, hvað það talar um þig? Nei, ekki hef ég heyrt það; hvað er það? Og minnstu ekki á það, ég get varla talað um það, ekki nema …
Farísearnir stóðu fylgjendum Jesú nærri, annars hefðu þeir ekki býsnast á þeim og álit þeirra ekki skipt vini Jesú máli, en þeir standa, líkt og Gróa, okkur sem eigum það til að býsnast, nærri á sama hátt. Það er mikilvægt að við tölum um og við hvert annað, til að hjálpa okkur að setja okkur í spor hvers annars og taka tillit. En með því að býsnast hvert á öðru sköpum við óöruggt umhverfi þar sem fólk þarf að passa sig á að gefa ekki á sér höggstað.
Markmið okkar er ekki að þykjast vera fullkomin, taka hlutina of alvarlega eða sýna siðsemi, heldur er markmið hins trúaða að verða heill. Verum óhrædd við að vera breysk og lifa undir náð Guðs, óhrædd við að sýna gleði yfir lífinu og þeim forréttindum að þekkja Guð, og tökum manneskjur fram yfir regluverk.