Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga. Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum. Jesús svaraði honum: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju. Nikódemus segir við hann: Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst? Jesús svaraði: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda. Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi. Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur. Þá spurði Nikódemus: Hvernig má þetta verða? Jesús svaraði honum: Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta? Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum. Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku? Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn. Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn, svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum. Jh. 3:1-15I „Ég hef stundum beðið fólk að segja við mig: Ég elska konuna mína og það er ekkert mál.“ Þannig mæltist Bubba Mortens á afmælistónleikum sínum í vikunni og hann hélt áfram. „Og ég hef beðið það um að segja: Ég elska börnin mín, ég elska mömmu mína, ég elska pabba minn, ég elska vini mína og það er ekkert mál. En þegar ég bið það að segja: Ég elska Guð... (andartaksþögn) þá fær það harðlífi.“ Fyrir prestinn sem stóð í svitabaðinu í Höllinni var þetta umhugsunarvert. Mig langar að velta við steinum út frá þessu og sjá hvar við lendum. Við erum á svipuðum slóðum i guðspjalli dagsins, því Nikódemus sem vitjaði Krists um nótt og lesið var um áðan, virtist að einhverju leiti eiga skylt við líkingu Bubba. Skoðum hann nánar. Nikódemus var af flokki Farísea, ráðsherra á meðal gyðinga. En ráðsherra sat í æðsta dómstóli gyðinga. Farísear voru trúarlegur flokkur í Ísrael sem lagði mikla áherslu á að farið væri eftir lögmálinu í Mósebókum. Þeir höfðu einnig munnleg fyrirmæli sem skráð voru í Talmúd. Þeirra stefna var að þjóðin færi eftir lögmálinu og erfikenningu þeirra svo að möguleiki væri á að nýtt andlegt Ísraelsríki risi. Farísear nutu virðingar á meðal gyðinga. Þarna var maður með völd. Hann var ekki aðeins í virðulegum flokki Farísea, hann var líka í æðsta ráði þjóðarinnar sem dæmdi í innri málum þeirra. Nikódemus var áhugasamur um Jesú, það sjáum við af því að hann leitaði hann uppi til að eiga við hann samræður. En tökum eftir því að hann kom að nóttu til á fund Jesú. Hvað dettur okkur í hug? Hann skammaðist sín fyrir að sjást á tali við Jesú. Minnir það eitthvað á nútímann?
II Afhverju ætli hann hafi skammast sín fyrir að tala við Jesú? Stóð Jesús fyrir hallærisleg gildi? Hann sagðist vera hér á jörð til að birta okkur Guð. Hvað sagði hann okkur um Guð? Hann benti á það með orðum og athöfnum, já og öllu lífi sínu, að Guð elskar þig og mig. Guð brennur af ást til sköpunar sinnar, hann þráir að umvefja okkur elsku sinni. Að sumu leiti getum við séð það, lítum bara á náttúruna hvernig eitt blóm í fullkominni fegurð sinni og vanmætti gleður okkur. Við getum séð það í nægtaborðinu sem við sitjum við. Við getum séð elsku Guðs í kornabarninu sem er skapað af svo mikilli næmni og hugviti að okkur setur hljóð. En við tökum bara sjaldnast eftir þessu, við erum upptekin við annað. Ég held að ástæðan fyrir viðbrögðum Nikódemusar hafi verið glíman við eigið stolt og kannski áhrifastöðu í samfélaginu. Jesús olli nefnilega ólgu í samfélaginu. Hann fór ótroðnar slóðir, gagnrýndi ríkjandi kerfi þegar það vann gegn tilgangi sínum. Hann var í slagtogi með bersyndugum eins og það var kallað, m.ö.o. hann umgekkst utangarðsfólk og smælingja. Hann fór ekki eftir goggunarröð virðingarstigans. Hann var hættulegur í augum Farísea því hann ruggaði bát þeirra of mikið. Það var áhætta fyrir Nikódemus að heimsækja Jesú. Hann gæti fengið stimpil á sig, hann gæti einangrast í hópi Farísea, hvar yrði hann þá staddur í mannfélags og virðingarstiganum. Myndi hann missa spón úr aski sínum við það? Sjálfsagt hefur þetta allt leitað á Nikódemus. Við skulum virða hann fyrir það að þrátt fyrir ótta sinn um auðmýkingu eða stimplun fór hann á fund Jesú. Hann lét innri þörf til að leita sannleikans ráða meiru en ytri þrýsting. Við skulum vona að Guð gefi stjórnmálamönnum okkar náð til að hugsa meira um mikilvæg gildi inn í mannlífið en titla og tog. Nikódemus leyfði hjartanu að ráða, því síðar í framvindu sögu hans gefur ritningin okkur þann vitnisburð að Nikódemus hafi staðið með meistara sínum þegar á þurfti að halda. Þegar deilur voru risnar um Jesú á meðal Farísea og lýðsins óskaði Nikódemus eftir faglegri afgreiðslu og spurði: „Mundi lögmál vort dæma mann, nema hann sé yfirheyrður áður og að því komist, hvað hann hefur aðhafst?“ Jóh.7.51 En hann fékk aðeins skömm í hattinn og var ásakaður um að vera ekki á réttri hillu í þessum efnum. Eftir krossfestinguna segir Jóhannesarguðspjall okkur frá því að Nikódemus hafi komið að krossinum er Jesús var látinn, ásamt Jósef frá Arímaþeu og þeir hafi búið hann til greftrunar. Þarna var Nikódemus kominn með ilmsmyrsl til að veita Jesú nábjargirnar á gyðinglega vísu, þrátt fyrir að Farísear og æðstu prestarnir hafi deginum fyrr æst múginn til að biðja um krossfestingu Jesú. Nikódemus hafði greinilega öðlast innri fyllvissu í samtalinu nóttina góðu.
III Hvað var það mikilvæga í samtali Jesú og Nikódemusar? Jesús benti honum á að þrátt fyrir mikla visku hans hefði hann litla innsýn í andleg málefni. Meistarinn vatt sér beint að kjarnanum og sagði, að honum bæri að fæðast að nýju af vatni og anda (Jóh.3.3,5), öðruvísi kæmist hann ekki inn í himnaríki. Nikódemus var praktískur í hugsun, bara mannlegur eins og við og spurði: „Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“ Jóh.3.4 Ætli okkur væri ekki sumum líkt farið. Það er nú ekki endilega einfalt að skilja Jesú. Það skilur hann reyndar enginn nema að heilagur andi ljúki upp fyrir viðkomandi merkingunni. Að fæðast að nýju fyrir vatn og anda, hvað er það? Það er að vera snortinn af Guði á þann hátt að lífssýnin tekur mið af því sem Guðs er. Orðin af vatni og anda hafa verið túlkuð þannig að þau vísi til skírnarinnar. Þar erum við lauguð í vatninu helga sem hreinsar og blessar. Þar fyrirgefur Guð og gefur okkur heilagan anda í skírnargjöf. Jesús sagið að við þyrftum að vera fædd af Guðs anda, sú fæðing snýst ekki um að komast aftur inn í kvið móður sinnar. Sú fæðing snýst um að okkur er andinn gefinn af Guði í skírninni. Hann býr innra með okkur öllum, við bara tökum svo lítið eftir því af því að við erum upptekin við annað. Við erum upptekin af okkur sjálfum, snúumst eins og skopparakringla í kringum eigin vilja. Andi Guðs er eins og blíður blær, andvarinn sem leikur mjúkt um kinn. Andinn veitir blessun, leiðsögn, endurnæringu. Heilagur andi bendir á Krist því hann eys úr lindum Jesú. Andinn gefur okkur trúna og uppörvar. Andinn blæs þar sem hann vill. Við vitum ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer eins og Jesús sagi við Nikódemus. Við höfum ekki vald yfir honum, en við getum boðið andanum meira rými innra með okkur. Við getum beðið andann um að snerta okkur, upplýsa, hugga og hvetja okkur allt í anda Krists. Það er gott að leyfa anda Guðs að vinna sitt verk í okkur, að ummynda okkur æ í átt til þess að vera Kristi lík.
En við þurfum að leyfa það. Við þurfum að vera tilbúin að segja: Guð ég elska þig. Þá getur vel verið að við mætum eigin stolti, ótta við álit annarra, áhættuhræðslunni. Hvað gerist ef ég gefst Guði? Tekur hann eitthvað frá mér sem ég vil ekki að fari, gefur hann mér eitthvað? Þvingar hann mig inn í líf sem ég vil ekki? Ef ég vil elska Guð, þýðir það að hann fær að ráða í lífi mínu? Þetta eru allt stórar og erfiðar spurnnigar sem varða okkur miklu. Nikódemus þurfti að gera það upp við sig hvernig hann mæti Jesú. Var hann einskis eða mikils virði í augum Nikódemusar? Þrátt fyrir að hann kveinkaði sér undan því að tala við Krist fyrir opnum tjöldum, þá ræddi hann við hann um nótt. Áhrif samtalsins voru þau að Nikódemus stóð síðar þétt með Jesú og án þess að fela það. Þá var hann tilbúinn að leyfa guði að ráða. Andinn sem Jesús sagði honum frá var greinilega boðinn velkominn í líf Nikódemusar og vann sitt verk þar.
IV Þá er komið að mér og þér. Hvers metum við Krist? Tökum við mark á honum? Erum við hrædd um að fá óvæginn dóm hjá Jesú? Erum við hrædd við álit annarra? Erum við tilbúin að gefast Guði? Getum við sagt: Guð ég elska þig?
Í vitnisburði G.t. um Krist segir svo: „ Hann var fyrirlitinn, ... og vér mátum hann einskis. En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan, en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.“ Jes.53.3-5
Þegar Jesús var búinn að sýna Nikódemusi þörf hans, benti hann á leiðina og sagði: „ Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Jóh.3.16 Ef við þorum að játa Jesú sem Drottin okkar, lausanara og lífgjafa, þá eigum við andann, þá eigum við lífið eilífa með Guði. Þá verkar heilög þrenning á allt okkar líf til blessunar. Því það er endalaus elska Guðs sem mætir okkur og elskan leitar alltaf þess em gott er. Að lokum gef ég þér mynd úr ljóði sænska biskupsins Caroline Krook: Hefur þú hugsað um það að augun sem horfa á þig í elsku eru alltaf fögur? Og auglitið sem lýsir þér er alltaf skínandi.
Þannig eru augu Guðs gagnvart þér. Getur þú sagt Guð ég elska þig?
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.