Á Litla sviði Borgarleikhússins var frumsýnt 6. mars s.l. leikrit eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur, Þrjár Maríur.
Þar eru leiddar saman á sviði ekki þrjár heldur í raun fjórar Maríur. María Stúart Skotadrottning, María Callas söngkonan fræga, María Magdalena guðspjallanna og María, leikkonan sem var nefnd eftir Maríu Magdalenu.En í leikverkinu er leikkonan að æfa hlutverk í leikriti Schillers um Maríu drottningu en um leið að undirbúa sig undir að leika Maríu Callas og þá eftir handriti ástmanns síns.
Leikritið er eintal og hlutverk sýningarinnar er í höndum Kristjönu Skúladóttur. Leikstjóri er Catriona Macphie. Messíana Tómasdóttir sér um búninga og sviðsmynd. Tónlist og leikhljóð er í höndum Kjartans Ólafssonar.
Þetta er áhrifamikil og um leið skemmtileg sýning sem leiðir mann inn í heim fjögurra kvenna. Þrjár þeirra eru frægar í veraldarsögunni og há allar sína glímu við ástina, ótta við svik, missi, framtíðina. María Callas fékk ekki miljarðamæringinn Onassis, María Skotadrottning var svipt frelsinu, barninu sínu og dvaldist í fangelsi sem Elísabet drottning og frænka hennar bjó henni. María Magdalena saknar mannsins sem hún elskar, mannsins sem hafði snert hana og læknað, rekið út sjö illa anda eins og sagt er um hana í Lúkasarguðpjalli.
Umgjörð sýningarinnar er falleg og tónlistin ljær sýningunni réttu hughrifin.
Það er spilað á strengi tilfinningamálanna og glímt t.d. við tilfinningar sem fylgja fóstureyðingu eða barnsmissi, angistina sem fylgir ást í meinum og fleira mætti nefna. Einnig heyrum við trúarlegar vangaveltur um mennsku Krists og upprisuna.
María Magdalena hefur frá fyrstu dögum verið ein af þessum umdeildu persónum Biblíunnar. Eins og kemur fram í leikskrá þá var gjarnar litið svo á að hún væri bersynduga konan sem smurði fætur Jesú og oft hefur verið velt upp þeirri spurningu hvernig sambandi hennar við Jesúm hafi verið háttað. Sagan af upprisunni í leikverkinu fylgir ekki hefð guðspjallanna nema ef vera skyldi frásögum hins gnóstíska Maríuguðspjalls en slitrur af því fundust við handritafundi um miðja 20. öld við Nag Hammadi í Egyptalandi.
Það er gaman að hlýða á hugrenningar höfundar leikverksins um Maríu Magdalenu. Leikkonan var nefnd eftir Maríu Magdalenu en fékk ekki allt nafnið að sögn móður hennar af því að María Magdalena reis árla til að fara út að gröf meistara síns en María leikkona kaus að kúra lengi. Sigurbjörg fjallar um hugmyndir sem byggðar eru á skoðanaskiptum aldanna og tengjast líka hinu gnóstíska guðspjalli þar sem María er sett í öndvegi sem leiðtogi, upprisuvotturinn sem átti sérstakan trúnað Krists og sem hinir lærisveinarnir hlýddu síðan á og trúðu. Þess skal getið að reynt var síðar í sögu kristninnar að endurtúlka frásögur guðspjalla Biblíunnar með því að segja að hún hafi ekki verið upprisuvottur heldur að hún hafi haldið að búið væri að stela líkama hans og ekki skynjað hinn eiginlega atburð upprisunnar. En samkvæmt frásögu Jóhannesarguðsspjall fór hún aftur að gröfinni og þá varð Jesú á vegi hennar. Hún vildi nálgast meistara sinn og vin með snertingu en hann bannaði henni að snerta sig því hann væri ekki stiginn upp til föðurins.
Einhvern veginn varð María Magdalena Biblíunnar önnur í kristinni hefð. Í stað þessa að vera fyrsti upprisuvotturinn og náinn vinur var hún samofin fleiri persónum guðspjallanna og samnefnari fyrir konur sem syndga og iðrast. Í rás aldanna voru m.a.s. heimili kirknanna fyrir afvegaleiddar stúlkur gjarnan nefnd eftir henni.
Í leikverkinu er síðan lýst hvernig hún hittir meistara sinn á laun að kvöldi upprisudagins, hinn upprisni verður mannlegur um sinn. En var þetta óskhyggja konunnar sem elskar og þráir snertingu hans sem læknaði hana og andlegt samneyti við elskuga sinn og vin ?
Eins og vel kemur fram í texta Sigurbjargar er um að ræða Maríu frá þorpinu Magdala við Galíleuvatn, postula postulanna, eins og Ágústínus kirkjufaðir nefndi hana en í framvindu leikverksins verður hún frekar að hinni bersyndugu konu sem smurði fætur Jesú. Hvergi er þess getið í guðspjöllunum að María Magdalena hafi neitt verið að bjástra við fætur Jesú, það voru aðrar Maríur. Leikverkið sjálft endar í sporum Maríu Magdalenu með orðum Maríu Stúart. Leikkonan María stendur á vegamótum í lífi sínu eins og nafna sín. Hún hefur tekið ákvörðun um framhaldið þar sem hún hefur sitt eigið hlutverk. ”Með Krist í hendi en hjarta fullt af heimslöngun og drambi.
Leikritið, túlkun og öll umgjörð leikritsins var afar vel heppnað og sýningin hin ánægjulegasta. Áhugaverð meðal annars fyrir þær sakir að fjallað er trúarleg efni á íhugulan hátt þar sem húmorinn er skammt undan. Sigurbjörg notar sjónarhorn þeirra sem vilja leggja áherslu á hinn mannlega Jesúm til að skoða frásögur guðspjallanna af upprisunni og þátt Maríu Magdalenu í upprisunni. En fyrst og fremst er gaman að sjá Maríu Magdalenu á sviði ásamt öðrum stórmerkum konum sögunnar og ekki úr vegi að geta að að út frá mati margra kirkjunnar manna og listamanna á miðöldum og síðar, þá hefðu klæði hennar mátt vera ögrandi og litsterk eins og klæði Maríu Stúart og Maríu Callas en ekki í þessum látlausa jarðarlit - en sjón er sögu ríkari.