Okv 4.23-27, Op 3.10-13 og Mrk 9.14-29
prédikun... Allt megnar sá sem trúir
Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni
Jesú Kristi.
Ég
sagði í upphafi, að þema ritningartexta þessa sunnudags er: ,,trúarbaráttan” en
það má segja að alla daga eigi menn í baráttu við trúna… Jesús sagði: Ef þið hafið trú eins og
mustarðskorn getið þið sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og það mun flytja
sig. Ekkert verður ykkur um megn. (Matt. 17.20)
Jesús
var kannski ekki að tala um eiginleg fjöll… í Biblíunni er ,,fjall” táknmynd
fyrir erfiðleika… táknmynd fyrir eitthvað sem okkur finnst ill- eða
ó-yfirstíganlegt… og allir glíma einhverntíma við erfiðleika. Við höfum misháan
sársauka- og áfalla- þröskuld, samskonar áfall eða erfiðleikar hafa mismunandi
áhrif á fólk… en þegar erfiðleikar steðja að… þá er gott að eiga Guð að…
En
eins og bænin sem ég las áðan… sagði… þá erum við gjörn á að ætla bara að
treysta á eigin mátt… og svo er það heldur ekki þannig að Guð stígi niður úr
himninum og bjargi öllu… en ef við biðjum um handleiðslu, er eins og það
greiðist einhvern veginn úr flækjunum… og vandamálin leysast… Guð getur
nefnilega notað annað fólk til að hjálpa okkur og hann getur notað okkur
til að hjálpa öðrum. Við köllum þetta í daglegu tali: náungakærleik.
Fyrri ritningarlesturinn sem er úr Orðskviðunum sagði: Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins. Biblían talar alltaf um hjartað sem líffæri skynseminnar. Í nútím-anum staðsetjum við skynsemina í heilanum en samúðina, kærleikann og ástina í hjartanu… Við þurfum að vera skynsöm… ekki taka því sem sjálfsögðum hlut að vera fædd inn í kristið samfélag, og sem kristið fólk þurfum við að hafa samúð með öðrum og hafa kærleikann að leiðarljósi… þessi texti er áminning: Varðveittu hjarta þitt… framar öllu öðru… Hjartað er mikilvægast… og þegar við notum sögnina að ,,varðveita” erum við að leggja áherslu á verðmæti… við ,,pössum” ákveðna hluti… en við varðveitum gersemar… og, textinn segir að við eigum að varðveita hjörtu okkar því þar séu uppsprettur lífsins… og ATH… að ekkert rennur til uppsprettu! Textinn sagði að frá hjartanu, ekki til hjartans… heldur frá hjartanu, renna þessar uppsprettur… lífsins… þ.e. eilífs lífs…
Við vitum að hjartað lætur blóðið streyma um æðakerfið innan líkamans… en textinn sagði að uppsprettur
lífsins renni út frá okkur… við,
höfum áhrif á lífið í kringum okkur…
Hafið þið heyrt um kenningu, sem er þekkt sem fiðrildis-áhrifin…
Það er
kínverskt orðatiltæki um að „það megi skynja vægan vængjaslátt fiðrildis hinum
megin á jörðinni.“…. Og hugsunin á bak við þessa kenningu er… að jafnvel smæstu
hlutir hafi áhrif út í umhverfið og með tímanum megi finna áhrifin á fjölmörgum
sviðum út um allan heim… Bæði það sem við gerum og það sem við gerum ekki… hefur áhrif…
viðbrögð okkar hafa margfeldi áhrif og eru fyrir-mynd fyrir einhvern eða
lærdómur… Ef við varðveitum hjörtu okkar – kennum við öðrum að
Í dag er annar sunnudagur í föstu… og textar föstunnar vekja til umhugsunar… Er trúin orðin aukaatriði hjá okkur? Er hún orðin eitthvað sem er bara til takst, ef okkur líður illa eða ef eitthvað bjátar á? Veitir trúin okkur gleði, fullvissu, öryggi ? Tölum við við Guð? Veitir bænin okkur hugarró? Hvers væntum við af trúnni? Ætlum við að búa í Ríki Guðs?
Svarið er kannski, nei, nei, ekki viss, já og já… og þess vegna erum við hérna… það er enginn undanskilinn trúarbaráttu… við heyrðum í guðspjallinu að trú lærisveinanna nægði ekki til að reka illa andann út… og þeir, lærisveinarnir, voru með Jesú alla daga… þess vegna er ekkert skrítið að við séum í baráttu… Þessi trúar-barátta er kannski ekki um það… hvort við trúum því að Guð sé til… heldur því… hvort við rænum hann heiðrinum af öllu sem Biblían segir að hann hafi gert… eins og td sköpun alls… og að hann sé almáttugur. Við sjáum ekki alltaf fegurð náttúrunnar sem sköpun Guðs… Við treystum honum ekki til að leysa öll vandamál… Við þökkum honum ekki alltaf fyrir farsælar lausnir… því tilhneigingin er að reyna á allan hátt… að útskýra kraftaverk eða frábæra lausn á erfiðleikum… sem einhverja veraldlega tilviljun… frekar en að gefa Guði heiðurinn.
Ó, þú vantrúa kynslóð… sagði Jesús í guðspjallinu, og faðir drengsins sem var haldinn illum anda, sagði strax… ég trúi… hjálpa þú vantrú minni… Í neyð, þegar við þörfnumst hjálpar… erum við berskjölduð, auðmjúk og tilbúin að trúa… þá eru hjörtu okkar gal-opin fyrir Guði… EN við þurfum að muna að halda hjartanu áfram opnu – eftir að hjálpin er fengin… Halda fast í trúna svo enginn taki kórónu lífsins frá okkur, eins og textinn sagði.
Í síðari ritningarlestrinum segir: Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði… mun ég varðveita þig á þeirri reynslu-stund sem á að koma yfir alla heimsbyggðina… til að reyna þau sem á jörðinni búa. Hér fjallar textinn aftur um varðveislu… og passar hann ekki vel inn í heimsástandið?… Nú er heimsbyggðin búin að fá reynslu-stund í veiru-faraldri… Jesús sagði, ég mun varðveita þig á þeirri reynslustund…
Sum lönd hafa farið mjög illa út úr þessum faraldri… en persónulega finnst mér,
að við… á Íslandi, höfum verið varðveitt… Guðs blessun hefur vakað yfir okkur…
Munið þið þegar Geir H Haarde sagði á sínum tíma: Guð blessi Ísland… og þessi
setning er orðin með þekktustu orðum íslensks stjórnmálamanns… en vegna þess að íslenska þjóðin
er ekki vön því, að stjórnmálamenn nefni Guð… þá, hefur fólk almennt, ekki
tekið þessum orðum sem einlægri bæn… en Ísland þarf svo sannarlega á
blessun Guðs að halda.
Textinn sagði: Haltu fast því sem þú hefur, til þess að enginn taki kórónu þína… þegar við höfum fangað trúna í hjartanu og trúum að Guð sé með okkur þá þurfum við að varðveita þessa trú, halda fast í hana… því það er nóg af áreiti í umhverfinu sem vill rífa hana niður hjá okkur…
Allt megnar sá sem trúir, sagði
Jesús við föður drengsins í guðspjallinu og munum að Jesús sagði að hann væri ,,lækur lifandi vatns”…
hann er sem sagt uppspretta… Hann er uppspretta eilífs lífs fyrir þann sem
trúir… og renni uppsprettur lífsins frá hjörtum okkar… eins og
textinn segir, þá hljóta þessar uppsprettur að vera trúin á Jesú…
Áminningin í dag, er að við ættum framar öllu öðru að varðveita uppsprettur lífsins… varðveita trúna á Jesú í hjörtum okkar… því Biblían segir, að á efsta degi – horfi Guð á hjartað… og þá viljum við að hann sjái þar uppsprettur lífsins.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem
var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen