Íslamsfóbía, Gyðingaótti og Kristnihræðsla

Íslamsfóbía, Gyðingaótti og Kristnihræðsla

Ég vil vara við þeirri tilhneigingu að útrýma trú og trúarbrögðum úr almannarýmum. Ég óttast að þessi útrýming og útilokun ali af sér tortryggni og ótta og að lokum þorum við ekki að sýna hver við raunverulega erum.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
18. janúar 2015
Flokkar

Alma og Jesús Mig langar að segja ykkur frá henni Ölmu. Alma er 13 ára, jafngömul ykkur sem eigið að fermast í vor. Hún er einmitt líka að fara að fermast. Í Stykkishólmi.

Í sumar varð hún fyrir þeirri reynslu að hún hitti Jesú. Hún var stödd á Spáni í sumarfríi með fjölskyldunni sinni. Þau voru stödd í litlum bæ þegar villist frá fólkinu sínu. Hún er eitthvað annars hugar og allt í einu tekur hún eftir því að hún er ein. Hún fer að leita að foreldrum sínum og bræðrum út um allt en finnur þau hvergi. Loks þegar hún er orðin rammvillt sest hún niður á bekk á einu torginu. Eftir stutta stund sest Jesús hjá henni. Hann tekur i höndina á henni og leiðir hana í gegnum þorpið og fer með hana niður á strönd þar sem fjölskyldan hennar finnur hana. En á meðan þau ganga saman hönd í hönd, segir hann henni svo margt. Hann talar allan tíman og segir henni allt um sig, um Guð og um hvað það er að vera kristin.

Alma verður djúpt snortin af þessum fundi og hjálp Jesú og þegar fjölskyldan hennar finnur hana, segir hún þeim að hún hafi hitt Jesú. Eins og þið getið rétt ímyndað ykkur þá trúðu þau henni alls ekki og töldu hana vera með aðeins of ríkt ímyndunaraf og biðu þess eiginlega bara að þessi vitleysa gengi yfir.

En þetta gengur ekki yfir og hún heldur áfram að tala um Jesú og segja frá því sem hann sagði henni. Hún heldur því áfram þegar þau koma heim til Íslands og nú heldur allur bærinn að hún sé orðin stór skrítin. Hún fer líka að hegða sér mjög undarlega, eins og rétta hina kinnina þegar einhver er leiðinlegur við hana, hjálpa þeim sem hún kennir í brjóst um og eiga bágt. Líka þeim sem allir vita að er óviðbjargandi.

Foreldrar hennar hafa svo miklar áhyggjur af þessu að þau drífa hana til sálfræðings. Hlutverk sálfræðings á kannski fyrst og fremst að vera að koma vitinu fyrir stúlkuna þannig að hún hætti þessari vitleysu.

Alma er ekki til í alvörunni, heldur er hún persóna í bókinni “Englaryk” eftir Guðrún Evu Mínervudóttur. En mér þótti þetta bráðsnjöll saga um fjölskyldu og samfélag sem höndlar það illa að ein úr þeirra hópi verði svo opinská með trú sína og opnberun. Það kemur nefnilega í ljós að auðvitað finnst flestum að hún sé kannski að hegða sér alveg rétt en þau vilja bara ekki vita af þessari trú hennar. Meira að segja presturinn reynir að fá hana til að efast, þegar hún er hjá honum í fermingarfræðslu. Honum finnst hún láta eins og hún þekki Jesú best og hún fer í taugarnar á honum. Kannski vegna þess að hún opinberar hans eigin efa.

Síðar kemur í ljós að áhyggjur foreldranna stafa kannski fyrst og fremst af því að þau vilja ekki að hún geri sig að fífli og komi illa út félagslega. Þau eru hrædd um hana og pabbi hennar hefur kannski svolitlar áhyggjur af því að Jesús hafi tekið við af honum sem aðal fyrirmyndin.

Að skammast sín fyrir trúna Áðan var lesin ein lítil setning úr Rómverjabréfinu sem tengist sögunni um hana Ölmu. Hún er svona: “Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið”. Að fyrirverða sig er það sama og að skammast sín. Það er þá einnig hægt að orða þetta svona, ég skammist mín ekki fyrir trú mína.

Skammast þú þín fyrir trú þína?

Skammast ég mín fyrir trú mína? Er trúin þín og mín kannski svolítið leyndarmál sem engum kemur við nema okkur og Guði? Einkamál mitt og Guðs?

Alma á að halda trú sinni leyndri. Trú hennar á líka að vera eins og allra annarra. Foreldrarnir vilja stjórna trúnni hennar því þeim þykir væntum hana. Þau vilja ekki að hún geri sig að fífli en kannski hræðir þau líka sá möguleiki að hún sé að segja satt.

Þið sem hafið ákveðið að fermast, skammist ykkar varla fyrir að vera kristin. Mörg ykkar eru kannski ekkert svo mikið að spá í trúna nema þegar þið eruð í fermingarfræðslutímunum og í messum. Eða kannski veltið þið þessu einmitt mjög mikið fyrir ykkur og finnið jafnvel fyrir sterkri trúarvissu. Kannski eiga einhver ykkar erfitt með að finna fyrir Guði en finnst það vera góð hefð að fermast. Við erum hér að ýmsum ástæðum og reynsla okkar er misjöfn. Og það er allt í lagi því við þurfum ekki öll að hugsa eins.

það sem ég er svolítð hrædd um núna er að þróunin í samfélaginu okkar sé í þá átt að fá okkur til að skammast okkar fyrir trúna eða í það minnsta að gera hana að leyndarmáli sem engum kemur við. Að hún verði einkamál sem við höldum fyrir okkur og tölum sem minnst um.

Ef við tökum allt sem minnir á trú út úr skólum og almannarýmum endar með því að við verðum öll eins. Við steypumst í sama mótið og engin(n) má vera öðruvísi. Og að lokum förum við að óttast allt sem er öðruvísi, hinsegin.

Íslamsfóbía, Gyðingaótti eða Kristinhræðsla Mín skoðun er sú að tengsl skóla og kirkju eigi ekki að vera mikil. Kirkjan á að vera til þjónustu reiðubúin þegar skólinn vill koma í vettvangsferð með börnin t.d. á Kristnum hátíðum.

Prestar eiga að tengjast skólunum sem hluti af nærsamfélaginu þegar kemur að barnastarfi, þegar áföll verða og þegar skólinn þarf á því að halda. Það eiga einnig önnur trúfélög að gera í þeim mæli sem þjónustu þeirra er óskað. Ekki er síður mikilvægt að skólarnir kynni önnur trúarbrögð fyrir nemendum t.d. með því að fara til þeirra í vettvangsferðir. Það verður t.d. flott að fara í vettvangsferð í hof Ásatrúarféalsins þegar það verður tilbúið, í rétttrúnaðarkirkjuna þegar hún rís og í mosku þegar hún verður tilbúin, hvar sem hún nú verður. Einnig gæti skóinn leitað þjónustu frá öðrum trúfélögum þegar þess er óskað.

Ég vil vara við þeirri tilhneigingu að útrýma trú og trúarbrögðum úr almannarýmum. Ég óttast að þessi útrýming og útilokun ali af sér tortryggni og ótta og að lokum þorum við ekki að sýna hver við raunverulega erum.

Íslamsfóbía, Gyðingaótti eða Kristinhræðsla er ekki það sem við þurfum í samfélaginu okkar. Þegar trúarbrögðum er sópað út úr almannarýminu verður aðeins pláss fyrir eina lífsskoðun sem er trúleysi. Trúleysi er nefnilega líka lífsskoðun alveg eins og Kristin trú, Gyðingdómur og Búddismi er lífsskoðun.

Ég tel að við eigum einmitt að við eigum að vera opin með trú okkar og gefa trúarbrögðum rými í samfélaginu, án þess þó að blanda þeim við pólitík.

Er það ekki trúfrelsi að þurfa ekki að fela trú sína eða skammast sín fyrir hana? Eða er það trúfrelsi að gera trúarbrögð ósýnileg og jafnvel skammarleg?

Við erum ekki komin á þann stað að við þurfum að fela trú okkar en spennan er þó mikil á Íslandi þegar kemur að trúarbrögðum, skólum og opinberu rými. Skiptar skoðanir eru á því hvaða trúarbrögð eða lífsskoðun eigi að fá mest pláss og hávær hópur vill losna við ítök Þjóðkirkjunnar í samfélaginu.

Ef við tökum allt trúarlegt burt og búum til heim án trúarlegra gilda, hvað verður þá eftir? Jú, það verða þá bara önnur gildi sem byggja á öðrum lífsskoðunum. Öll höfum við nefnilega gildi og lífsskoðanir hvaða trúarbrögð eða lífsskoðanir við aðhyllumst.

Ég er ekki viss um að til sé hlutlaus millivegur.

Þegar við förum að óttast trú hvers annars og hættum að fá fræðslu um trú eykst tortryggni í takt við fáfræði.

Það er þægilegast að lifa saman þegar við höfum öll sömu skoðanirnar og erum sammála um flest. Þá verða engin átök og allt gengur fínt. Eða hvað?

Getur kannski verið að samfélagið okkar verði fyrrst snautt og fátækt þegar við gefum fólki ekki rými fyrir þá lífsskoðun og trú sem það hefur?

Ég er nokkuð viss um að ég vilji ekki lifa í samfélagi þar sem þú og ég þurfum að fyrirverða okkur fyrir trú okkar eða lífsskoðun, hver sem hún er. Mig dreymir um samfélag þar sem ólík trúarbrögð og lifsskoðanir geta lifað saman án þess að þurfa stöðugt að vera að sanna tilverurétt sinn með því að gera lítið úr hvert öðru.

Ég ætla ekki að eyðileggja fyrir ykkur söguna um Ölmu með því að segja ykkur hvernig þetta fór allt saman. En hún átti góða fjölskyldu sem, þrátt fyrir að hafa panikað um stund og sent hana til sálfræðings, átti nógu mikinn kærleika til að leyfa henni að vera hún sjálf og trúa því sem hún vissi að var rétt.

Þú skalt ekki skammast þín fyrir trú þín. Og ef þú hittir Jesú, taktu þá í höndina á honum og gakktu með honum. Það verður allt í lagi. Amen.