“Frelsi er ekki að vera laus við skuldbindingar, frelsi er hæfileikinn til að velja það sem er okkur fyrir bestu og skuldbindast því ( Paulo Coelho).”
Mikið vildi ég óska að ég hefði samið þessa setningu því betri skilgreiningu á frelsi hef ég varla heyrt nema þá sem lesa má í bók bókanna um að sannleikurinn geri okkur frjáls. En þessi upphafssetningu hér á metsöluhöfundurinn Paulo Coelho og hún er mikill sannleikur.
Í okkar tíðaranda er frelsi gjarnan ranglega skilgreint, það þykir til dæmis vera ákveðin frelsissvipting að ganga í hjónaband.
Steggja og gæsapartý bera þeim hugmyndum oft vitni, þegar tilvonandi brúður eða brúðgumi eru meðhöndluð eins og það sé einmitt enginn morgundagur og við lok slíkra viðburða vona jafnvel sumir að það sé raunin, að það sé enginn morgundagur, en það er annað mál.
Nei, fyrir það fyrsta er frelsi og hjónaband ekki andstæður nema fólk velji að líta svo á og takið eftir að ég segi, velji, vegna þess að hjónaband er ekki uppskrift að ákveðnum rétti heldur val um að njóta lífsins í samfélagi við sinn besta vin og sálufélaga.
Auðvitað felst ákveðin áhætta í því að ganga í hjónaband alveg eins og það er viss áhætta að setjast upp í flugvél, hins vegar er bara frelsið alls ekki fólgið í því að taka aldrei neinar áhættur í lífinu, heldur einmitt að taka þær og standa svo og falla með þeim.
Hefurðu hugsað út í hvað það er ótrúlegt að við skulum yfirleitt voga okkur að setjast upp í farartæki þar sem ferðin hefst á því að farið er yfir aðferðir til að lifa af slys sem er mjög ósennilegt að maður muni lifa af, hefurðu pælt í því hvað þetta er absúrd. Þú sest sjálfviljugur upp í járnrör þar sem myndarlegt fólk í júníformi býður þér góðan dag með bros á vör en minnir um leið á öndunargrímur, björgunarvesti og báta. Er þetta ekki ótrúlegt?
Staðreyndin er sú að við verðum að taka áhættu á svo mörgum sviðum til þess að lifa. Frelsi er að lifa á meðan maður dregur andann. Það er nefnilega hægt að draga andann án þess að lifa. Ég persónulega mun aldrei geta skilið hvernig flugvélar haldast á lofti en samt sest ég upp í slík tæki (reyndar með yfirþyrmandi ótta) vegna þess að mig langar svo mikið að sjá önnur lönd og ég væri ekki frjáls manneskja ef ég tæki ekki þá áhættu að fljúga til að upplifa stórkostlega hluti.
Og þannig er það líka með ástina og hjónabandið og barneignir. Þú veist hvernig þér líður þegar þú heldur á nýfæddu barni, þér líður eins og allri heimsins ábyrgð hafi verið slengt á herðar þínar, skíthrædd og varnalaus horfir þú á þessa umkomulausu mannveru og hugsar hvernig þú eigir að klóra þig út úr þessu. Hins vegar hefur sannleikur lífsins aldrei verið þér jafn ljós og á þeirri stundu og þú upplifir frelsi því þú hefur komist að kjarna lífsins 16 marka mannveru.
Það að tvær ókunnugar manneskjur ákveði einn góðan veðurdag að deila sínum kjörum og lifa saman sem ein manneskja er í raun jafn furðulegt og að sitja í flugvél og horfa niður á skýin. Tvennt veit ég þó um flugvélina og hjónabandið og það er að hvort tveggja þarfnast eldsneytis til að ganga, eldsneyti hjónabandsins kallast ást og er búið til úr fjölda mólikúla sem gegna ólíkum hlutverkum.
Ást er ekki bara orð eða athöfn heldur eitthvað sem gerir það að verkum að maður upplifir sig frjálsan í skuldbindingum sínum, þess vegna er t.d. mjög gott að fá að velja maka sinn sjálfur en það tíðkast ekki í öllum samfélögum heimsins eins og við vitum. Það að þurfa að giftast einhverjum sem maður elskar ekki er fullkomin frelsissvipting en að fá að giftast þeim sem maður elskar er mesta frelsisbinding sem maður getur notið.
Þess vegna er setningin hans Paulo Coelho svo rétt “Frelsi er ekki að vera laus við skuldbindingar, frelsi er hæfileikinn til að velja það sem er okkur fyrir bestu og skuldbindast því.“
Já, frelsi er það að fá að velja og síðan hæfileikinn til að velja það sem okkur er fyrir bestu og skuldbindast því. Fegurð hjónabandsins er einmitt fólgin í því að deila lífinu með öðrum og eiga einhvern að sem tekur eftir því að þú ert seinn eða sein fyrir og jafnvel pirrar sig á því af því að hann hlakkar til að sjá þig eða gera skemmtilega hluti með þér, s.s. finnst þú ómissandi hluti af upplifun sinni .
Fegurð hjónabandsins er m.a. fólgin í því að einhver pirri sig á hrotunum í þér eða segi þér að þú gnístir tönnum í svefni eða bendi þér á kæki sem enginn annar hefur haft orð á. Fegurð hjónabandsins er þegar öllu er á botnin hvolft ekki fólgin í flóknari hlutum en þessum, áskorunin er hins vegar fólgin í því að koma auga á þá og rækta hvern einasta dag.
Birtist fyrst í Kvennablaðinu.