Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Ein af fallegustu setningum Biblíunnar, að mínu mati, er að finna í lexíu þessa dags, en þar segir, - að Guð hafi unun af því að vera miskunnsamur. Það er vart hægt að lýsa gæsku Guðs á fallegri hátt.
Guð hefur unun af því að vera miskunnsamur.
Er það ekki einmitt þetta sem Jesús er að boða í verki þegar hann mætir fólki og í orði þegar hann segir dæmisögurnar sínar og boðar fagnaðarerindið um Guðs ríkið?
Dæmisögurnar í guðspjalli dagsins í 15. kap. Lúkasarguðspjalls tjá þennan óendanlega kærleika Guðs. Þegar Jesús segir dæmisögurnar um týnda sauðinn, týndu drökmuna og dæmisöguna um týndu synina, sem er í sama kafla, þá er Jesús að svara athugasemdum faríseanna og fræðimannanna sem ömuðust við því að Jesús skyldi umgangast og taka að sér bersyndugt fólk, að hann skyldi leita uppi þá sem voru aumastir, týndir, glataðir.
Myndirnar sem Jesús bregður upp eru úr daglegu lífi, hirðirinn með hjörðina sína, konan með drökmuna, lífsviðurværi dagsins, og svo þessi stórbrotna dæmisaga um synina tvo.
Týndi sonurinn, sem fór að heiman, krafðist að fá fyrirfram greiddan arf, hann lét í það skína að faðirinn væri sem dauður fyrir honum, í rauninni fáheyrður yfirgangur og frekja, sem í rauninni þýddi að ekkert samband yrði framar milli þeirra feðga.
Við höfum eflaust öll heyrt hvað samskiftareglur fjölskyldna bæði hjá gyðingum og múslimum geta verið strangar og hvernig þær geta leitt til þess að sonum og dætrum er útskúfað úr fjölskyldum ef ekki er farið að settum reglum. Þetta hefur löngum verið svo í þessum menningarheimi og er enn.
En Jesús boðaði nýja stefnu, hann boðaði leið kærleikans, hann boðaði fagnaðarerindið um hinn miskunnsama Guð, sem hefur unun af því að vera miskunnsamur.
Það eru engin takmörk fyrir því hvað miskunn Guðs nær langt. Góði hirðirinn leitar uns hann finnur, faðirinn góði var þegar úti til að skima eftir týnda syninum, hann kenndi í brjósti um hann, hann elskaði hann eins og hann var. Hann gaf honum allt með sér á nýjan leik. Allt mitt er þitt, sagði hann bæði við þann sem hafði sóað eigunum og þann sem var heima og skyldi ekki alveg þennan umvefjandi kærleika pabba síns. Allt mitt er þitt.
Jesús kom inn í þennan heim til þess að segja okkur þetta. Allt mitt er þitt. Hann kom til þess að undirstrika með lífi sínu og starfi, að við séum í raun samarfar hans, að guðsríkið sé sameign okkar allra.
Ritskýrendur Biblíunnar hafa bent á að fyrirmyndin af sögunni um týnda soninn sé frásögn GT af Jakobi syni Ísaks Abrahamssonar. Sögurnar af Jakobi eru örugglega með þekktari sögum ritningarinnar, - hann prettaði föður sinn, hann fór að heiman, flúði bróður sinn, sem hann hafði svikið, komst í hann krappann, Guð stöðvaði hann á vegi glötunarinnar, hann náði svo áttum og snéri við heim til að sættast við sitt fólk.
Þetta er mikil átakasaga, og ekki síst er athyglisverð lýsingin á glímunni við Guð, sem mætti honum í mannsmynd, Jakob sleppti ekki fyrr en Guð hafði blessað hann.
Hrífandi saga, sem undirstrikar þetta saman, - að Guð hafi unun af því að vera miskunnsamur.
Tökum eftir að í þessum dæmisögum sem hér hafa verið nefndar, þá er frumkvæðið hjá góða hirðinum, hann fer og leitar uns hann finnur.
Stundum er talað fjálglega um að við ættum að leita Guðs, það er talað með lotningu um leitandi manneskjur, og vissulega er það dyggð út af fyrir sig og hægt að rökstyðja það á marga vegu. En dæmisögur Jesú í dag segja okkur berlega, að við séum fundin, Guð hefur fundið okkur, í gæsku sinni hefur hann komið auga á okkur, hvort sem við höfum villst af leið eður ei, - hann sér okkur í þeim aðstæðum sem við erum í hverju sinni.
Ætti þessi vitneskja ekki að fylla okkur gleði og þakklæti, ætti þetta fagnaðarerindi ekki að efla okkur í hinu góða verki, þannig að við hefðum líka unun af að vera miskunnsöm, hjálpsöm, tilbúin til að leggja okkur fram.
Í dæmisögunum sem ég las í dag þá segir í lok þeirra beggja, þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun. Það er fögnuður, gleði, hátíð á himnum yfir hverjum þeim sem finnst, sem snýr heim, sem þiggur náðina, miskunina úr hendi Guðs.
Messan er táknmynd fyrir þessa gleði guðsríkisins, hér er boðið til veislu, hér er ávallt dekkað veisluborð með gæðum sakramentisins, já hins himneska samfélags, sem hér er veruleiki fyrir trú og von, sannfæring kirkju Krists í 2000 ár.
Hápunktur þakkargjörðarinnar er þegar söfnuðurinn stendur og syngur: Heilagur, heilagur, heilagur ert þú Drottinn Guð allsherjar, himnarnir og jörðin eru full af dýrð sinni, hósíanna í upphæðum. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins. Þegar ég syng þennan söng, þá reyni ég ávallt að minnast þess, að ég er í þessum söng að taka undir söng kirkjunnar frá upphafi, ég er að taka undir þakkargjörð og lofgjörð kristninnar um víða veröld, sem einmitt í dag kemur saman af ólíkum tungum til að gleðjast og fagna yfir því að við erum fundin, - góði hirðirinn hefur fundið okkur, við erum umvafin föðurörmum hins hæsta, sem hefur í dag, í gær og um aldir, unun af því að vera miskunnsamur.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
Samskotin í dag renna til Hjálparstarfs kirkjunnar. Meðtakið postulega kveðju: Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen.