Meðan lífs æð er í mér heit eg skal þig, Drottinn, prýsa, af hjartans grunni í hverjum reit, heiður þíns nafns auglýsa. Feginn vil ég í heimi hér hlýða og fylgja í öllu þér. Lát mig þína liðsemd vísa.
Heilagur Patrekur, postuli og verndardýrlingur Írlands og Íra, hefði eflaust af hjarta tekið undir lofgjörð og játningu sem þessa úr 24. Passíusálmi sr. Hallgríms Péturssonar.
Vel fer á því að fjalla um heilagan Patrek í Hallgrímskirkju á dánar -og dýrðardegi hans 17. mars. Með vitnisburði sínum og fórnfúsa lífi lofaði hann Guð í Jesú nafni og hafði sem boðberi kristinnar trúar gjörtæk áhrif á trúarlíf og þjóðmenningu Íra líkt og sr. Hallgrímur hér á landi.
Patreksdegi er fagnað sem þjóðhátíðardegi í írska lýðveldinu og sem frídegi á Norður-Írlandi og víða í veröldinni þar sem írsk ítök eru.
Patrekur mun vera fæddur í lok 4. aldar og hafa látist á seinni hluta 5. aldar (396-461) en dánardægur hans 17. mars kemur fram í allra elstu írsku bæna - og helgisiðatextum. Tvö merkisrit eru til eftir Patrek sjálfan á latínu, Confessio, Játning, Yfirlýsing, og Epistola ad miletes Coroticui, Bréf til hermanna Coroticusar. Í Confessio kemur fram að Patrekur hafi alist upp á búgarði foreldra sinna við þorpið Bannavem Taburniae sem verið hefur á rómversku yfirráðasvæði á vesturströnd Bretlands. Faðir hans Calpornius var djákni en afi hans Potitus prestur. Patrekur segir frá því að hann hafi 16 ára verið tekinn herfangi ásamt fjölda annarra til Írlands. Í neyð sinni og umkomuleysi sem þræll, er gætti sauða á heiðum, klæðalítill og svangur í regni, éljum og kulda, leitaði hann til Guðs í Jesú nafni og bað stöðugt til hans og fann nærveru anda hans í hjarta sér og sálu. Hann vitnar mikið um þá náð og blessun sem Guð veitti honum í landi fjötranna. Eftir sex ár heyrði hann rödd um nótt sem sagði við hann: ,,Vel hefur þú fastað. Fljótlega muntu verða á heimleið. Skipið er ferðbúið”, en skipið var 200 mílur fjarri. Patrekur kemst með naumindum um borð og heim aftur eftir drjúgan tíma og hrakningar. Foreldrar hans fagna honum innilega og vilja ekki að hann fari aftur frá þeim. Síðar gerist það þó, að hann fær köllun í draumi og vitranir um að fara aftur til Írlands. Patrekur kemur þangað sem biskup til að boða Írum, sem höfðu þrælkað hann, hjálpræði Guðs, árið 432 að því talið er og þá 46 ára að aldri.
Patrekur mætir oft andstreymi og raunum í trúboði sínu. Hann er útlendingur á framandi slóð, á ekki afturkvæmt heim og tekur á sig hið hvíta píslarvætti sjálfsskipaðrar útlegðar í frelsarans nafni sem peregrinus pro amore Christi, ferðalangur af ást á Kristi. Patrekur telur sig vera kominn á ystu mörk heimsbyggðar og vera þar að ljúka því verki að breiða fagnaðarerindið um heiminn svo að Guðsríkið geti loksins komið. Honum verður mikið ágengt. Hann skírir þúsundir manna, vígir fjölda presta og margir helga sig Guði í Jesú nafni, sem munkar og nunnur, fyrir vitnisburð hans.
Í ,,Yfirlýsingu” Patreks er fjöldi Biblíutilvitnana og hún geymir trúarjátningu sem um margt líkist Nikeujátningunni en er þó einstök.
Í bréfi sínu til hermanna Coroticusar ávítar Patrekur þá harkalega fyrir að hafa drepið og fjötrað til þrælasölu kristna menn sem hann var nýbúinn að skíra til frelsis og hjálpræðis í Kristi. Með því hafi þeir í villu sinni rofið öll tengsl við ljósið og lífið sanna. ,,Vei sé þeim sem raki til sín auði með morðum og ránum. Þeim væri nær að kaupa þrælum frelsi. Þeir fylli heimili sín með ránsfeng frá kristnu fólki sem þeir hafi myrt. Með því nærist þeir, börn þeirra og vinir á banvænu eitri. Þeir muni fyrirgera sálu sinni og hverfa í heljar myrkur nema þeir iðrist og geri stóra yfirbót.” Bréfið er dreifibréf og einnig ætlað þeim sem þjást vegna skelfinganna til þess að miðla þeim huggun og von í Kristi. Elstu ævisögur, vitae, um Patrek, sem eru frá 7. öld og eftir Tírechán og Muirchu moccu Machtheni, byggja að nokkru á þessum ritum. Þar er það þó dýrlingurinn og kraftaverkamaðurinn Patrekur sem einkum er kynntur til sögu. Hann bægir snákum frá Írlandi og vinnur fleiri furðuverk. Þar er líka sagt frá því að Patrekur hafi nýtt sér þriggja blaða smárann til að lýsa leyndardómi þrenningar Guðs, sem er einn í þremum greinum.
Bænin merka og þekkta, Brjótvörn Patreks, ,,Lorica Patricii” á latínu, mun vera frá 8. öld, brynja rómverskra hermanna nefndist lorica. Bænin felur í sér ákall til hins þríeina Guðs, máttar hans, orðs og visku, er samræmir sköpun sína á himni og jörðu, kerúba, engla og helga píslarvotta, einnig sólarskin og mánablik, og öfl lofts, sjávar og jarðar, svo að þau myndi verndarhjúp og hring ,,caim” sem skjöld og brynju (Ef. 6.14) kringum þann er biður, gegn öflum illskunnar er ráðast á líkama hans og sálu. Kristur sem tenging og samnefnari alls hins góða í sköpun Guðs er beðinn um að vera inni í honum og allt um kring.
Morgun hvern er gott að biðja þeirrar bænar.