Kirkjan í samtíð og framtíð.

Kirkjan í samtíð og framtíð.

Ég elska kirkjuna eins og börnin mín. Þegar þeim gengur vel líður mér vel. Þegar illa gengur hjá þeim þá líður mér illa. Þetta gæti kallast meðvirkni. En síðast liðna mánuði hef ég þjáðst með kirkjunni minni. Í 30 ár starfaði ég sem prestur og hef ævinlega þegið með þökkum þá þjónustu sem prófastar, vígslubiskupar og biskup Íslands hafa veitt mér hvað varðar stuðning og kærleika.

Ég elska kirkjuna eins og börnin mín.  Þegar þeim gengur vel líður mér vel.  Þegar illa gengur hjá þeim þá líður mér illa.

Þetta gæti kallast meðvirkni.  En síðast liðna mánuði hef ég þjáðst með kirkjunni minni. Í 30 ár starfaði ég sem prestur og hef ævinlega þegið með þökkum þá þjónustu sem prófastar, vígslubiskupar og biskup Íslands hafa veitt mér hvað varðar stuðning og kærleika.

Ég er alin upp í kirkjunni.  Á þeirri vegferð eru mörg hlý andlit og mörg nöfn sem ég gæti nefnt, en þau hlúðu öll að trúaruppeldi mínu sem varð til þess með tímanum að ég fann köllun til að þjóna kirkjunni af lífi og sál.

Ég hefði óskað þess að titill erindis míns hefði mátt vera kirkjan í fortíð, samtíð og framtíð, en það var ekki boðið upp á það svo ég verð að halda mig við efnið. Í þessu erindi þá nota ég orðið kirkja í merkingunni stofnanir kirkjunnar, erindi kirkjunnar, kirkjan á landsvísu og kirkjan í héraði og stundum jafnvel yfir kirkjuhúsin sjálf.

Kirkjan! Hver er staða hennar í dag?  Ef ég á að vera alveg einlæg og hreinskilin, þá myndi ég segja að kirkjan þjáist mjög af miklum fæðingarhríðum.  Við flestar konurnar hér inni höfum upplifað slíkar þjáningar og þið karlarnir hafið upplifað þær með konum ykkar við barnsburð.

Barnið er ekki enn fætt og hríðarnar eru harðar og við þjáumst.

Breytingar eru gífurlega erfiðar.  Óvissa er erfið.

Samfélagið okkar hefur breyst mikið á undanförnum árum og kirkjan hefur orðið fyrir aðkasti. Æ fleira fólk hefur sagt sig úr Þjóðkirkjunni og það gerir þjóna hennar óörugga og sjálfsmyndin verður veikari. Framtíðarsýnin fer að dofna og skynsemin dvínar. Fréttaflutningur hefur aðallega verið af neikvæðum toga og allt það góða starf sem unnið er í söfnuðunum hefur legið í þagnargildi. Þetta hefur allt gríðarleg áhrif á sálarlíf þjónanna og skapar því miður sundurlyndi í stað samstöðu.

Sundurlyndi innan kirkjunnar hefur líka valdið gríðarlegum þjáningum.  Sundurlyndi þjónanna og skortur á samstöðu hefur veikt kirkjuna mest að mínu mati, en það stafar af þeirri óvissu sem ríkt hefur undanfarin misseri.

Aukið vald Kirkjuþings hefur einnig verið til að skaprauna þjónum kirkjunnar og óvissa um stöðuna.  Minnkandi fjármagn setur okkur skorður og óvissa hefur verið um framtíð embættanna, sem nú heita störf.  Samt hefur nokkuð jákvætt komið út úr því eins og sameining prestakalla, sem hefur jafnað þjónustubyrðina og aukið samstarf sem er að mínu viti afar jákvætt.

 Á vísitasíum mínum um Hólastifti blasir við allt önnur og jákvæðari mynd, en hér hefur verið lýst.  Ég er að ljúka annarri vísitasíu umferð um stiftið nú á þessum vordögum. Vísitasíur eru að mínu viti það mikilvægasta sem ég hef gert s.l. 10 ár.  

En til hvers eru vísitasíur? 

Þrír aðilar vísitera söfnuði.  Prófastar vísitera söfnuði í sínum umdæmum og bera ábyrgð á að munir kirknanna séu á sínum stað. Þau fara yfir munaskrár og endurnýja þær.   Biskup Íslands vísiterar alla söfnuði landsins og fylgist með að allt sé í lagi og reynir að finna leiðir til að lagfæra þar sem þörf krefur.  Biskup Íslands heimsækir líka skóla, öldrunarstofnanir, sjúkrahús og ýmsar aðrar stofnanir og þá er hátíð í samfélaginu. 

Vígslubiskupar eiga fundi með sóknarnefndum þar sem farið er yfir ástand kirkjuhúsanna.  Ég gef ráð varðandi viðhald og fjármögnun.  Þá fer ég yfir starfið, hvernig það gengur, hvað gengur vel og hvað mætti bæta.  Ég skoða reikninga og gef ráð varðandi styrkumsóknir.

Í vísitasíum á ég starfsgæðasamtöl við prestana þar sem farið er yfir það sem gengur vel og

það sem ver gengur.  Við tölum um líðan prestanna í starfi  og einkalífi og möguleika á endurmenntun, handleiðslu og öðrum andlegum stuðningi í oft krefjandi starfi. 

Þetta eykur líkur á að prestarnir leiti  til mín með alls kyns málefni sem varðar prestsstarfið.  Aukin kynni við sóknarnefndirnar bæta öll tengsl við yfirstjórn kirkjunnar.  Oft er styttra fyrir landsbyggðarfólkið að leita til Hóla en í Katrínartúnið.  Vísitasíurnar hafa gefið mér mjög mikla yfirsýn yfir starfið í kirkjunni við mjög ólíkar aðstæður.  Alls staðar er kirkjum haldið mjög vel við með örfáum undantekningum, og alls staðar er starfið til sóma.  Barna- og æskulýðsstarf mætti vera öflugra víða þó á ýmsum stöðum sé vel unnið sérstaklega þar sem eru starfandi launaðir æskulýðsfulltrúar.  Í mörgum kirkjum er lifandi starf alla daga.  Krílasálmar, foreldramorgnar, sunnudagakóli, sex til níu ára starf, TTT-starf, fermingarstarf, æskulýðsstarf, sorgarhópar, alfanámskeið, 12 spora starf, karlakaffi, kvenfélög, starf fyrir eldri borgara, kórastarf, sem víða er hryggjarstykkið í söfnuðinum, og svona mætti lengi telja.  Auk þess eru enn sumarbúðir á Eiðum fyrir börn og unglinga.  Allt þetta starf er mjög öflugt, en alls ekki nógu vel kynnt. 

Ég brenn algjörlega fyrir því að starf kirkjunnar sé kynnt miklu betur en það hefur verið hingað til þó mikil bragarbót hafi verið gerð á kirkjan.is eftir að sr. Hreinn tók við henni.

Nú er tímabær umræða um hvaða kirkjum frá 19. öldinni þarf að halda við og hverjum ekki.  Eftir að torfkirkjurnar fóru að leggjast af voru byggðar um miðja 19. öld mjög margar nýjar timburkirkjur. Þá voru fjarlægðir milli þeirra m.a. miðaðar við að hægt væri að koma ríðandi til messu eftir morgunmjaltir og vera komin heim fyrir kvöldmjaltir.  Engan grunaði þá að örfáum áratugum síðar væri komið í almannaeigu tæki sem nefnist bifreið.

Nú förum við um allt akandi, en víða eru aðeins 10-15 km. milli kirkna eins og hér í Hjaltadal. Þetta segir þó ekki alla söguna.  Miklar tilfinningar eru bundnar hverju og einu kirkjuhúsi þar sem fólk hefur verið skírt, fermt, það hefur gengið í hjónaband og ástvinir hafa verið kvaddir.

Þess vegna hefur þessum kirkjum verið haldið við.  En söfnuðurnir eru svo fámennir að sóknargjöldin ráða engan veginn við reglulegt helgihald með tilheyrandi upphitunar- og organistakostnaði, hvað þá að sjá um viðhald.  Í öllum þessum litlu söfnuðum er allt unnið í sjálfboðavinnu og kirkjan þarf að vera hrein og upphituð þegar athafnir eru framundan. 

Mitt álit er að kirkjan í samstarfi við Minjavernd þarf að marka sér stefnu um hvaða kirkjur hafa það mikið menningarlegt gildi að það beri að halda þeim við.  Auk þess þarf að gera stjórnvöldum það algerlega ljóst að sóknargjöldin sem hafa ár frá ári verið lækkuð miðað við verðgildi krónunnar hafa ekkert bolmagn til að halda við menningarverðmætum.  Því hef ég hvatt sóknarnefndir til að halda kirkjunum við eingöngu með því fjármagni sem kemur frá Minjavernd. Starfið þarf að ganga fyrir öllu hjá okkur í kirkjunni núna þegar fjármagnið hefur minnkað svo sem raun ber vitni.

Marka þarf stefnu í samvinnu við Minjavernd um hvaða kirkjuhús hafa svo mikið menningarlegt gildi að það beri að halda þeim við.  Við verðum að horfast í augu við það að við getum ekki haldið þeim öllum við.  Sumar kirkjur eru einstakar.  Aðrar eru hver annari líkar þó þær hafi áður nefnt tilfinningalegt gildi. Þetta verður erfitt starf, en það mun takast.

Og þá kem ég aftur að þjónustunni í dag.  Prestarnir eru grunnstoð starfs kirkjunnar þó víða njóti þeir og þær aðstoðar djákna, æskulýðsfulltrúa, starfsliðs og sjálfboðaliða.  Kirkjan er með þéttriðið net hámenntaðra sérfræðinga sem eru prestarnir um allt land inn í innstu dölum og ystu nesjum.  En allt þetta frábæra fólk mætti að vera miklu sýnilegra.  Það er

mjög mikilvægt að mínu mati að prestarnir búi í því samfélagi sem þau þjóna og taki þátt í því samfélagi af lífi og sál.  Það á að vera hluti af köllun okkar. Og víðast hvar er það svo. Þetta starf hef ég leitast við að styðja og styrkja þau tíu ár sem ég hef þjónað sem vígslubiskup.  Það er þessi þjónusta sem er mikilvægust og við eigum að verja stærstum hluta af tekjum kirkjunnar í.

Vinnuálagið er þó mjög mismikið þrátt fyrir aukið samstarf og jöfnun þjónustubyrði.

Sumir prestar eru svokallaðir athafnaprestar sem sinna fáu öðru í safnaðarstarfi en athöfnum eins og skírnum, hjónavígslum og jarðarförum.  Aðrir eru ekki á þeim lista, en hafa samt sem áður starfsfólk í safnaðarstarfinu og heyrt hef ég eftir presti í einum stærsta söfnuði höfuðborðgarsvæðisins að það sé ekki nóg að gera!

Hvað á hann við með því?  Hvernig getur það verið?

Það sem veldur þessu er það hvimleiða kerfi sem við höfum deilt um í áratugi og eru hinar svokölluðu aukaverkagreiðslur.  Þær hafa verið og eru skaðvaldur í kirkjunni okkar.  Á fyrstu prestastafnunni minni árið 1983 var mikið deilt um aukaverkagreiðslur, landsbyggðarprestar voru á móti þeim, en höfuðborgarprestar stóðu vörð um þær.  Enn í dag er þetta deiluefni og þeim deilum verður að linna.  Einhvern veginn hafa prestar á Norðurlöndum lifað það af að fá ekki aukaverkagreiðslur og þá hljótum við að geta fundið lausn á þessu endalausa þrætuepli. Annað sem hefur valdið sundurlyndi er hve laun prestanna eru misjöfn.  Það gerðist þegar horfið var frá jafnlaunastefnunni.

Fyrir nokkrum árum var próföstum landsins fækkað í sparnaðarskini.  Það voru að mínu mati mistök þó sums staðar hafi það gengið vel.  Að fækka yfir línuna án raka í sparnaðarskyni kann ekki góðri lukku að stýra.  Vel gekk hjá okkur í Skagafirði og Húnavatnssýslu, enda ekki miklar fjarlægðir eða yfir mjög háa fjallvegi að fara, en að hafa eina samstarfsheild frá Siglufirði til Þórshafnar hefur aldrei gengið upp.  Læra má af slíkum mistökum.  Uppi hafa verið hugmyndir um að gera prófastsstarfið að fullu starfi.  Þetta eru hugmyndir sem koma frá Noregi, en þar eru prestar ráðnir til prófastsdæmisins og verkaskipting allt önnur en tíðkast hefur hér á landi.  Ég á erfitt með að sjá að sú hugmyndafræði gangi upp hjá okkur þar sem byggðir eru dreifðari og við fámennari hér en í Noregi. Þó skal ekkert útiloka í þeim efnum.   

Nú er að störfum nefnd, sem Kirkjuþing skipaði sem er að framkvæma þarfagreiningu um hina vígðu þjónustu í kirkjunni.  Þetta hefur verið hlutverk og vinna biskupafundar um árabil enda er það í starfsreglum að skiplagsmál séu á ábyrgð biskupafundar.  Að mínu mati er það furðulegt að Kirkjuþing skuli taka sér það vald að taka þetta hlutverk af biskupafundi, sem hefur langbesta yfirsýn yfir þörfina fyrir hina vígðu þjónustu um land allt.  Ég barðist fyrir því á Kirkjuþingi að ef þetta yrði samþykkt yrði að bæta því í tillöguna að nefndin hefði samráð við biskupfund í vinnu sinni, enda hafa biskupar landsins mesta yfirsýn yfir þörfina fyrir hina vígðu þjónustu um allt land vegna þess að við höfum vísiterað og þekkjum þetta langbest af öllum.  Þessi samvinna við biskupafund hefur ekki farið fram þrátt fyrir að við höfum verið boðuð á einn fund í upphafi vinnunnar og nú annan til að kynna okkur niðurstöður glænýrrar könnunar sem nefndin stóð að meðal presta, djákna, biskupa, sóknarnefnda og starfsfólks sókna. 

Sú niðurstaða var út frá mínum sjónarhóli mjög ánægjuleg þar sem meirihluti þátttakenda taldi sig þekkja hvert verksvið vígslubiskupa er, meiri hlutinn vill hafa vígslubiskupa áfram og meirihlutinn vill að þeir sitji á Hólum og í Skálholti. Auk þess kom fram skýr stuðningur við stefnu biskupafundar um sameiningu prestakalla.

Þá kom einnig fram að það er sóknarnefndarfólk sem vill helst halda í embætti vígslubiskupanna og það leitar frekar til þeirra er prófastanna vegna þess að prófastarnir eru oft svo nátengdir prestunum.  Öll umræða um þarfagreininguna hefur snúist um þörf kirkjunnar fyrir vígslubiskupa.  Ástæða þess má vera sú að ég mun láta af embætti í haust.  Önnur ástæða er tillaga dr. Hjalta Hugasonar á síðasta Kirkjuþingi um að gera vígslubiskupsembættin að víkjandi verkefni hjá prestum.  Sú tillaga var afar vanhugsuð, enda dregin til baka.  Þar sem ég hef verið prestur bæði í borg og sveit og síðan gegnt þessu embætti í tíu ár, þá held ég því fram að það er með öllu óframkvæmanlegt að hafa biskupsþjónustu sem víkjandi verkefni.  Þau rök hafa komið fram að vígslubiskupar séu menningarbundin ráðstöfun síns tíma og sé því úrelt.  Þessi rök standast á engan hátt skoðun.  Þó við þekkjum öll þá sögu sem liggur að baki þess að vígslubiskupsembættin voru stofnuð, þá vitum við líka öll að embættið hefur þróast á þann hátt í áranna rás að þetta er fullgilt fullt embætti með mikla ábyrgð og mikilvægt, sérstaklega fyrir grunnþjónustuna sem er mikilvægasta starf kirkjunnar.  Mikill áróður hefur hins vegar verið í gangi um að embætti vígslubiskupa séu óþörf.  Þar hafa fá rök komið fram önnur en sparnaðarrök.  Á samfélagsmiðlum hefur enginn þorað að taka upp hanskann fyrir þá þjónustu sem ég hef innt af hendi síðast liðin tíu ár af lífi og sál. Þó skilst mér að skiptar skoðanir hafi birst á prestastefnu í lok síðasta mánaðar, sem ég gat því miður ekki tekið þátt í vegna andláts móður minnar. Auk þess hef ég fengið að heyra þau gleðitíðindi að á prestastefnu sem haldin var hér á norðurlandi í lok síðasta mánaðar hafi ríkt mikil gleði og samstaða, en það er einmitt það sem við þurfum á að halda núna. Í prestastétt er stór hópur ungs fólks sem er fullt af eldmóði og köllun til að vinna af heilindum og gleði.  Með þeim ríkir vinátta sem er mikilvægust af öllu í þjónustunni í kirkjunni.

En aftur að vígslubiskupsþjónustunni:

Sögulegt gildi biskupsstólanna er líka mikilvægt.  Við erum með þrjár dómkirkjur hér á landi, en dómkirkjur er kirkjur sem þjónað er af biskupum.  Biskupslaus dómkirkja er engin dómkirkja.  Það mikla menningarstarf sem á biskupsstólunum er unnið, er líka mjög mikilvægt, tónleikar og fræðslustarf. 

Hér á Hólum hefur starfað um árabil stofnun sem nefnist Guðbrandsstofnun.  Stofnunin er samstarfsverkefni vígslubiskupsembættisins á Hólum fyrir hönd Þjóðkirkjunnar, Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands.

Markmið stofnunarinnar er að treysta þekkingu á sviði ýmissa fræðigreina, einkum guðfræði, sögu, bókmennta, fornleifafræði, siðfræði, prentlistar og sögu, kirkjulistar, tónlistar og myndlistar og að auki á sviði þeirra greina raunvísinda sem stundaðar eru bæði við Háskóla Íslands og Hólaskóla.

 Guðbrandsstofnun er kennd við Guðbrand Þorláksson, einn helsta biskup sem setið hefur hér heima á Hólum. Hlutverk hans í íslenskri menningarsögu var mikið, bæði sem kennimanns, forvígismanns á sviði prentlistar og útgáfustarfsemi auk þess sem hann lagði stund á myndlist og hafði þekkingu á náttúrufræði.

S.l. tíu ár hefur starf stofnunarinnar verið þríþætt,  en árið 2012 þegar ég kom til starfa kom einnig nýr rektor til starfa, dr. Erla Björk Örnólfsdóttir sem er fulltrúi Hólaskóla og nýr fulltrúi kom frá Háskóla Íslands, en dr. Einar Sigurbjörnsson gekk þá úr stjórn og dr. Hjalti Hugason

kom í hans stað.  Við mörkuðum okkur strax stefnu um þríþætt starf.  Í fyrsta lagi eru það Sumartónleikar í Hóladómkirkju sem haldnir eru hvern sunnudag í júní, júlí og ágúst,  Fræðafundir heima á Hólum, sem haldnir eru tvisvar í mánuði yfir vetrartímann og ein ráðstefna á ári í samstarfi við virtar stofnanir í þjóðfélaginu.  Auk þess er haldið upp á dag Guðmundar góða ár hvert.

Þetta starf er hryggjarstykkið í þeirri menningarstarfsemi sem fram fer hér heima á Hólum.  Ef vígslubiskupsembættið yrði gert að víkjandi verkefni prests sem býr fjarri staðnum, þá sé ég fyrir mér að öll þessi menningarstarfsemi leggist af.

Eitt af mikilvægum hlutverkum vígslubiskupsembættanna er að styrkja biskupsþjónustuna.  Að einangra biskupsembættið meira en nú hefur verið gert af Kirkjuþingi er algjört glapræði.  Þar grefur þjónusta kirkjunnar sína eigin gröf.  Kirkjuþing hefur nú þegar lagt Kirkjuráð niður og þar með kemur Biskup Íslands engan veginn að stjórnun kirkjunnar nema hvað varðar stöðuveitihngar, en það hafði Kirkjuþing einnig á prjónunum að taka af biskupsembættinu.

Að leggja niður vígslubiskupsembættin myndi því þýða algera einangrun fyrir biskup og takmarka þá stoðþjónustu sem við vígslubiskuparnir höfum verið að veita söfnuðum okkar og grunnþjónustunni, prestsþjónustunni, undanfarin ár.

Áður en ég kem að framtíðarsýninni langar mig að koma að allt öðru:

Staða kirkjunnar í jafnréttismálum er að mörgu leyti góð hvað varðar kynjahlutföll prestsþjónustunnar.  Viðhorf til kvenna í hvaða stöðu sem þær eru er þó að mörgu leyti óviðunnandi.  Oft segjum við hver við aðra:  Hvenær hefði svona verið sagt við karlmann?

Þetta segir mjög margt.  Jafnrétti snýst ekki um það hversu kynjahlutfallið er í vígðri þjónustu heldur um það hve misjafnlega er litið á fólk eftir kyni og hvernig framkoman er.  Ég er sannfærð um að allar konur hvar í stétt sem þær eru geti vitnað um þetta.

Þörf er á hugarfarsbreytingu hvað þetta varðar og það getur tekið langan tíma, en það þarf að vinna í því.  Það gerist ekki af sjálfu sér.

Þetta var örlítið yfirlit yfir sýn mína á kirkjuna í samtíð.

En hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir kirkjuna?

Ekki er ég spákona, en ég á mér framtíðarsýn.  Sú framtíðarsýn byggist á meðfæddri bjartsýni minni og trú minni á upprisinn frelsara okkar Jesú Krist.

Ég á mér þá framtíðarsýn að kirkjan verði ríkur þáttur í lífi þorra fólks.  Mín trú er sú að eftir langt tímabil sekúlarisseringar og trúleysis eða öllu heldur feluleik með trúna eins og það hefur birst mér verði til þess að fólk leiti í enn frekari mæli til kirkjunnar.  En kirkjan verður þá að vera tilbúin að mæta þessari þörf og leggja til hliðar sundurlyndi og eiginhagsmunagæslu.

Fólki á að finnast gott að koma til kirkju og fara þaðan endurnærð í lífi og sál.

Kirkjan verður að líta fyrst og fremst á sig sem vettvang gleði og trúverðugleika.  Predikanir okkar verða að lýsa og miðla trú okkar þegar við tölum. Og við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm.  Þess vegna er kærleiksþjónustan svo mikilvæg hvernig sem hún birtist.  Þjónusta kirkjunnar við flóttafólk og hælisleitendur hefur líka verið til fyrirmyndar, en það þarf að stórefla og vera miklu sýnilegra. 

Framtíðin ber í skauti sér nýja sálmabók og nýja handbók.  Þetta tvennt þarf að vera aðgengilegt og aðlaðandi fyrir komandi kynslóðir.

Helgihald á ljósvakamiðlunum þarf líka að höfða til fólks á öllum aldri.  Nú er farið að taka upp útvarpsguðsþjónustur  fyrirfram og ekkert er því til fyrirstöðu að taka upp sjónvarpsguðsþjónustur.  Á öllum Norðurlöndunum er sjónvarpað guðsþjónustum alla helga daga ársins.  Gera þarf samning við ríkissjónvarpið um þetta mál.  Auk þess þarf kirkjan að nýta alla hugsanlega miðla til að koma boðskap sínum á framfæri.  Sjónvarpsefni nær best til fólks á öllum aldri.  Nú eru margar íslenskar sjónvarpsstöðvar sem fagna því að fá vandað efni til sýningar og kirkjan þarf að nýta sér það, ekki eingöngu með barnaefni heldur einnig með efni fyrir alla aldurshópa.  En allt þetta kostar peninga og við verðum að forgangsraða eftir því hvað ber mestan árangur þannig að trúin og gleði hennar geti fært lífi fólks dýpra innihaldi og tilgangi.

Hér koma örfá orð um framtíðarsýn mína á Kirkjuþing.  Nú hefur verið kosið til nýs Kirkjuþings, sem mun sitja næstu fjögur árin.  Eins og fram hefur komið í máli mínu hefur Kirkjuþing öðlast mikil völd í kirkjunni.  Þar sitja 17 leikmenn og 12 vígðir þjónar. Þó langflestir úr röðum leikmanna kirkjuþings komi úr sóknarnefndum, þá verður að segja það eins og er að mörg þeirra hafa litla þekkingu á uppbyggingu kirkjunnar, sem er ekki eins og venjulegt félag.  Þjóðkirkjan er trúarhreyfing, sem hefur þjónustu um allt land, til sjávar og sveita og þjónar öllum hvort sem þau eru meðlimir í Þjóðkirkjunni eða ekki.

Þar sem skipulag kirkjunnar nær til milli 60 og 70% þjóðarinnar með innan við tvö hundruð vígða þjóna, þá hafa allar skipulagsbreytingar mjög mikil áhrif um allt land.  Eins og áður hefur komið fram hafa gríðarlegar miklar breytingar verið gerðar á skipulagi kirkjunnar á undanförnum misserum sem hafa skapað óöryggi og óvissu.  Þær hafa margar hverjar verið gerðar á aukakirkjuþingum sem boðað hefur verið til með stuttum fyrirvara og tillögur lagðar fram með afbrigðum, sem þýðir að þær hafa hvergi fengið kynningu, hvorki út um land né meðal kirkjuþingsfólks sjálfs.

Þetta hefur orðið til þess að lýðræðið í kirkjunni hefur ekki verið virt og skipulagsbreytingarnar valdið glundroða.

Því sýnist mér á þessum tímamótum í lífi mínu og lífi kirkjunnar það vera mikilvægasta verkefni Kirkjuþings að koma sér upp stjórnarskrá sem ver grunnþjónustu hennar og heildarskipulag, sem ekki er þá hægt að breyta á aukakirkjuþingum og með afbrigðum.

Við skipulagsbreytingarnar  var eins og áður segir kirkjuráð fellt niður og tekið upp í staðinn þriggja manna framkvæmdanefnd, sem Biskup Íslands situr ekki í.  Þetta eykur ekki á það lýðræði sem við öll viljum sjá í kirkjunni.  Framkvæmdanefndin var við samþykkt hennar kynnt sem eftirlitsnefnd, en í mínum huga hefur hún þróast í miklu valdameira afl en kynnt var í upphafi.  Þetta þarf nýtt Kirkjuþing að hafa í huga.

Varðandi jafnréttið í framtíðinni þá sé ég fyrir mér að vinna þarf markvisst að því að ekki sé talað öðruvísi við konur en karla. Boðið er upp á ráðgjöf og námskeið í þessum efnum, sem mörg fyrirtæki hafa notfært sér.  Kirkjan þarf hér að ganga þar fram með góðu fordæmi og mikilli fræðslu.  Fyrst og fremst þarf að vekja umræðu og meðvitund um þetta. Auk þess þarf kirkjuþing að virða eigin samþykkt um að koma sér upp kerfi sem tryggir jafnan hlut kvenna og karla á Kirkjuþingi.

Mjög margt ungt fólk hefur komið á undanförnum árum til liðs við kirkjuna.  Á þessum vordögum útskrifuðust 15 ungmenni úr Leiðtogaskóla kirkjunnar.  Þessi staðreynd og öflug Landsmót æskulýðsfélaganna lofa mjög góðu.  Kirkjuþing þarf hér líka að vera samkvæmt sjálfu sér og koma upp kerfi sem tryggir að minnsta kosti 20% kirkjuþingsfólks sé undir 35 ára aldri.

Nú er ég að ljúka störfum en ef ég væri að hefja störf í kirkjunni í dag, þá væri ég full tilhlökkunar að takast á við verkefni nýfæddrar kirkju.  Prestar þurfa að hlú vel að einkalífi sínu sem aldrei var brýnt fyrir okkur fyrir 40 árum.  Prestar þurfa líka að muna að rækta sitt eigið trúarlíf því án þess er erfitt að miðla trú.

Ég er bjartsýnismanneskja og því horfi ég björtum augum til framtíðar.  Ég sé kirkjuna fyrir mér fæðast upp á nýtt eftir mjög erfiðar fæðingarhríðir og eftir nokkur ár vilja allir vera með okkur.  Það er trú mín og traust á Guði sem yfir öllu vakir.  Kirkja Jesú Krists hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika á liðnum 20 öldum. Hólastaður hefur gengið í gegnum hæðir og lægðir á liðnum 9 öldum.  En vegna upprisunnar rís staðurinn alltaf upp aftur og kirkjan lifir áfram um ókomnar aldir.  Það er boðskapur Jesú um kærleikann og ljósið sem lifir og mun halda áfram að lýsa jafnvel þó skipulaginu sé breytt og lýðræðið sé fótum troðið.

En leiðarljós inn í framtíðina finnst mér vera hvatning Páls postula í Filippíbréfinu um gleðina: Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.  Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.
Að endingu, systkin,[ allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.